Samantekt um þingmál

Kjararáð

413. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana fyrir þá sem féllu undir kjararáð.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar verði ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Jafnframt er lagt til að ráðherra, sem fer með starfsmannamál, geti ákveðið að hækka launin hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins svo að launahækkanir þessara aðila verði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma en ef hækkunin yrði aðeins einu sinni á ári. Gert er ráð fyrir að laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Að auki er gert ráð fyrir að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir. Enn fremur er lagt til að laun og starfskjör sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 16 lögum.
  • Skylt mál: Kjararáð, 630. mál (efnahags- og viðskiptanefnd) á 148. þingi (30.05.2018)

Kostnaður og tekjur

Kjararáð var lagt niður með lögum nr. 60/2018 og því verða útgjöld ríkissjóðs til þess nokkuð minni á árinu 2018 þótt einhver kostnaður hljótist af vinnu við að ganga frá niðurlagningu ráðsins. Með ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 60/2018 er gert ráð fyrir því að núverandi starfsmanni kjararáðs verði boðið starf hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Áætlað er að árlegur kostnaður ráðuneytisins vegna flutnings starfsmannsins nemi um 19 milljónum kr. á ári. Einnig má gera ráð fyrir að umsýslukostnaður vegna nýs launafyrirkomulags forstöðumanna hækki verði frumvarpið að lögum. Þrátt fyrir breytingarnar ættu útgjöld ríkissjóðs að standa í stað. 

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, t.a.m. þeim að fallið var frá því að veita ráðherra heimild til þess að hækka laun 1. janúar ár hvert, breytingum á launum þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna, fyrir utan laun dómara og þeirra er fara með ákæruvald, var seinkað til 1. janúar 2020 og lögin munu einnig gilda um laun lögreglustjóra líkt og annarra ákærenda.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla starfshóps um málefni kjararáðs. Forsætisráðuneytið, febrúar 2018.


Síðast breytt 19.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.