Samantekt um þingmál

Öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða

416. mál á 149. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að stuðla að öryggi og viðnámsþrótti net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. 

Helstu breytingar og nýjungar

Með samþykkt frumvarpsins yrði tilskipun ESB nr. 2016/1148 varðandi ráðstafanir til að ná háu sameiginlegu öryggisstigi í net- og upplýsingakerfum í öllu Sambandinu innleidd í íslensk lög. Lagt er til að kveðið verði á um mörkun stefnu um net- og upplýsingaöryggi sem og um skipun og hlutverk netöryggisráðs. Lagt er til að hlutverk netöryggisráðs verði einkum að fylgja eftir framkvæmd stefnu stjórnvalda í net- og upplýsingaöryggismálum og að ráðið leggi mat á stöðu netöryggis á Íslandi á hverjum tíma og verði vettvangur upplýsingamiðlunar og samhæfingar. Lagt er til að mikilvægum innviðum sé gert skylt að skjalfesta með viðeigandi hætti stefnu og ferla um áhættustýringu vegna kerfa sinna. Að auki er lagt til að mikilvægir innviðir skuli hafa viðbragðsáætlun og áætlun um samfelldan og órofinn rekstur og þjónustu til að takmarka tjón ef alvarleg röskun verður á starfsemi þeirra. Gert er ráð fyrir að ólíkum eftirlitsstjórnvöldum verði falið eftirlit með framkvæmd laganna hver á sínu sviði. Skilgreindar eru lágmarkseftirlitsheimildir eftirlitsstjórnvalda gagnvart mikilvægum innviðum, s.s. um aðgang að gögnum og upplýsingum, skýrslugjöf, heimildir til úttekta, prófana og kröfugerðir um úrbætur. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að gegna ráðgefandi samhæfingarhlutverki gagnvart eftirlitsstjórnvöldum sem samhæfingarstjórnvald. Enn fremur er lagt til að kveðið sé á um tilkynningarskyldu mikilvægra innviða um alvarleg atvik í net- og upplýsingakerfi þeirra til netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar svo fljótt sem verða má og að netöryggissveitin tryggi að slíkar tilkynningar séu tafarlaust aðgengilegar hlutaðeigandi stjórnvöldum. Gert er ráð fyrir að mikilvægir innviðir geti leitað til netöryggissveitarinnar um aðstoð og leiðbeiningar um sérhæfðar forvarnir í tengslum við öryggi net- og upplýsingakerfa sinna. Að auki er lagt til að opinberum stofnunum verði gert kleift að gera samninga við Póst- og fjarskiptastofnun um þjónustu af þessu tagi gegn endurgjaldi. Hins vegar er lagt til að Stjórnarráð Íslands fái notið þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar á sviði netöryggismála án sérstaks endurgjalds. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003 og lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlaður kostnaður vegna innleiðingar tilskipunarinnar á árunum 2020–2024 samtals um 2.745 milljónir kr. Á árinu 2020 er áætlaður heildarkostnaður um 488 milljónir kr. en fer hækkandi milli ára og verður kominn í 649 milljónir kr. árið 2024. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum með sérgreindum hætti á málefnasviði 11 hjá samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneyti, í málaflokki fjarskipta, í gildandi fjármálaáætlun. Gert er ráð fyrir að málið verði tekið upp við vinnslu komandi fjármálaáætlunar 2020–2024 þar sem finna þurfi útgjöldunum stað innan heildarútgjaldarammans.

Afgreiðsla

Samþykkt með talsverðum breytingum og var t.a.m. þremur nýjum greinum bætt við þar sem kveðið er á um stjórnvaldssektir, rétt manna til að fella ekki á sig sök og kæru til lögreglu. Gildistöku laganna var frestað til 1. september 2020 en ákvæði 4. gr. öðlast þó þegar gildi. 

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1148 frá 6. júlí 2016 varðandi ráðstafanir til að ná háu sameiginlegu öryggisstigi í net- og upplýsingakerfum í öllu Sambandinu (NIS-tilskipunin) ( drög að íslenskri þýðingu).


Síðast breytt 01.10.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.