Samantekt um þingmál

Upplýsingalög

780. mál á 149. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að styrkja upplýsingarétt almennings.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað út þannig að handhöfum löggjafar- og dómsvalds verði almennt skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhafar framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra. Gert er ráð fyrir að skýrar verði kveðið á um skyldu ráðuneyta til birtingar upplýsinga úr málaskrám sínum að eigin frumkvæði. Jafnframt er lagt til að sérstakur ráðgjafi starfi fyrir hönd stjórnvalda með það markmið að auka veg upplýsingaréttar almennings. Þá er lagt til að æðstu handhafar ríkisvalds geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og að skerpt verði á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining. Einnig er gert ráð fyrir að lög um upplýsingarétt um umhverfismál falli brott en við upplýsingalög bætist sérstakur kafli um meðferð slíkra mála (ákvæði kaflans eru sett till innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB). Þá er lagt til að sett verði strangari tímamörk á afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða breytingar á upplýsingalögum, nr. 140/2012, en við gildistöku laganna falla úr gildi lög um upplýsingarétt um umhverfismál, nr. 23/2006, og jafnframt verða breytingar á 18 lögum.

Kostnaður og tekjur

Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu mun „nokkur kostnaður“ hljótast af samþykkt þess. Á móti kemur að forsætisráðherra getur með breytingum á reglugerð um frumkvæðisbirtingu upplýsinga, sbr. 4. mgr. 13. gr. upplýsingalaga, og ákvörðunum um fyrirkomulag starfs ráðgjafa um upplýsingarétt haft veruleg áhrif á endanlegar kostnaðarfjárhæðir og á hvaða tímabili hann fellur til. Er talið eðlilegt að ákvarðanir þar að lútandi verði teknar í tengslum við gerð fjárlaga haustið 2019.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. þeim að skýrar er kveðið á um að lögin taki til stjórnsýslu Alþingis (sbr. lög um þingsköp og reglur forsætisnefndar) en að þau taki ekki til umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar eða rannsóknarnefnda á vegum Alþingis.

Aðrar upplýsingar




Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE.

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Lov om offentlighed i forvaltningen  LOV nr 606 af 12/06/2013.

Finnland
Lag om offentlighet i myndigheternas verksamhet  21.5.1999/621.

Noregur
Lov om rett til innsyn i dokument i offentleg verksemd (offentleglova)  LOV-2006-05-19-16.

Svíþjóð
Offentlighets- och sekretesslag  ( 2009:400).


Síðast breytt 13.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.