Samantekt um þingmál

Almennar íbúðir

320. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að koma til framkvæmda tillögum 2, 4, 5, 6 og 7 í skýrslu átakshóps um húsnæðismál.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða verði hækkuð þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Einnig eru lagðar til ýmsar breytingar til að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa og gert er ráð fyrir að heimilt verði að gera samninga um úthlutun stofnframlaga til allt að þriggja ára í senn til þess að auka fyrirsjáanleika í verkefnum viðkomandi. Þá er lagt til að liðkað verði fyrir veitingu stofnframlaga vegna nýbyggingarframkvæmda og að sveitarfélögum verði gert fært að sækja um stofnstyrki til byggingarverkefna sem þegar eru hafin að nánari skilyrðum uppfylltum. Enn fremur eru lagðar til breytingar til að styðja við uppbyggingu leiguíbúða á svæðum þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis og þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016.
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld fyrir ríkissjóð verði umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjármálaáætlun 2020–2024.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. T.d. var lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, breytt þannig að tekju- og eignamörk vegna íbúða sem veitt var lán til fyrir 10. júní 2016, eða við gildistöku laga um almennar íbúðir, og eru ætlaðar tilgreindum hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, miðist við uppreiknaðar fjárhæðir tekju- og eignamarka gildandi laga um almennar íbúðir.

Aðrar upplýsingar


Lífskjarasamningurinn 2019-2022 (kynning).



Síðast breytt 13.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.