Samantekt um þingmál

Virðisaukaskattur o.fl.

372. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Markmið frumvarpsins eru fjölbreytileg, s.s. að draga úr óvissu og auka skýrleika í skattframkvæmd sem og að stuðla að framgangi markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að kveðið verði skýrar á um gildandi undanþágu virðisaukaskatts vegna sölu fjármálaþjónustu og milligöngu um hana. Í því sambandi er lagt til að „vátryggingastarfsemi“, sem er einnig undanþegin virðisaukaskatti, verði felld undir hugtakið „fjármálaþjónusta“. Þá er lagt til að átakið Allir vinna verði framlengt til og með 31. desember 2021. Lögð er til lækkun á heimilaðri hámarkslosun tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun bráðabirgðaákvæðis 24 í  lögum um virðisaukaskatt. Með því skapast hvati hjá innflutnings- og söluaðilum tengiltvinnbifreiða til innflutnings og sölu á umhverfisvænni tengiltvinnbifreiðum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 9 milljarða kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. T.d. verður sala streymisþjónustu að stökum tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum að fullu undanþegin virðisaukaskatti á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 30. júní 2021, enda sé um að ræða viðburð sem háður er fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana. Einnig var rekstraraðilum gert kleift að fresta allt að tveimur gjalddögum staðgreiðslu launa og tryggingagjalds á árinu 2021.


Síðast breytt 18.12.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.