Samantekt um þingmál

Rannsókn og saksókn í skattalagabrotum

373. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að styrkja eftirlit og rannsóknir skattundanskota.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á efnisreglum, stofn­anauppbyggingu og samstarfi til að koma í veg fyrir að tvöföldum refsingum verði beitt í mála­flokki skattamála. Lagt er til að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins verði lagt niður og þess í stað verði til sérstök eining innan Skattsins en skattrannsóknarstjóri mun heyra beint undir ríkisskattstjóra. Þá er lagt til að útiloka að álagi verði beitt samhliða stjórnvaldssektum eða refsingum vegna skattalagabrota. Einnig felur frumvarpið í sér ýmsar tillögur um að skýra nánar fyrirkomulag rannsóknar í kjölfar skattalagabrota sem eiga að stuðla að því að gera kerfið gagnsærra og skilvirkara.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
Lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.
Lög um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um ársreikninga, nr. 3/2006.
Lög um bókhald, nr. 145/1994.
Lög um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.
Lög um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004.
Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
Lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011.
Lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.

Kostnaður og tekjur

Tímabundinn kostnaðarauki verður af sameiningu embættis skattrannsóknarstjóra við embætti Skattsins en til frambúðar ætti að nást fram aukið hagræði með sameiginlegri nýtingu stoðkerfa og hagkvæmari nýtingu mannafla.

Afgreiðsla

Samþykkt með allnokkrum tæknilegum breytingum auk þess sem bætt var við ákvæði í lög um virðisaukaskatt sem ætlað er að koma í veg fyrir að álagi verði beitt samhliða sektum eða annarri refsingu vegna skattalagabrota.

Aðrar upplýsingar


Tillögur nefndar um rannsókn og saksókn skattalagabrota (11. september 2019).

Vinnuhópur um tillögur nefndar um saksókn skattalagabrota. Dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, 24. janúar 2020.


Síðast breytt 26.04.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.