Samantekt um þingmál

Tekjuskattur

399. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum með sérstaka áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér tvenns konar frávik frá gildandi lögum sem taka til fjárfestinga í atvinnurekstrareignum í formi lausafjár. Annars vegar er um að ræða heimild til þess að fyrna slíkar eignir sem aflað er á árinu 2021 hraðar en gildandi lög segja til um (flýtifyrning). Sú aðgerð getur almennt leitt til lægri skattgreiðslna fyrstu árin eftir kaup en á móti kæmi hærri skattgreiðsla á síðari árum þegar búið væri að fyrna stofnverðið að niðurlagsverði (10%). Hins vegar er um að ræða heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af stofnverði (kaupverði) ákveðinna atvinnurekstrareigna sem aflað er á árunum 2021–2022 sem heimilt yrði að fyrna með jöfnum fjárhæðum á þremur árum í fyrsta skipti frá og með rekstrarárinu 2023 (gjaldárið 2024). Skilgreining þeirra eigna sem falla undir heimildina eru eignir sem teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun og falla undir einn af þeim fjórum flokkum sem taldir eru upp í frumvarpinu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
  • Skylt mál: Tekjuskattur, 23. mál (efnahags- og viðskiptanefnd) á 152. þingi (13.06.2022)

Kostnaður og tekjur

Áhrif á ríkissjóð eru nokkurri óvissu háð en þó er gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs verði 4 milljarðar kr. að núvirði. Þar af eru 400 milljónir kr. vegna frestunar á skattgreiðslum fyrirtækja vegna heimildar til flýtifyrninga, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður endurheimti á árunum 2024-2027, en 3,6 milljarðar kr. vegna lækkunar tekjustofna vegna ívilnana grænna fjárfestinga.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Ákvæði um heimild til að fyrna atvinnurekstrareignir í formi lausafjár var einnig látið taka til eigna sem aflað er á árinu 2022. Hlutfalli fyrningarálags var breytt með þeim hætti að það verður 25% vegna lögaðila sem sæta 20% tekjuskatti, 13,3% vegna lögaðila sem sæta 37,6% tekjuskatti og 13,18% vegna einstaklinga í atvinnurekstri. Þá mun heimild til fyrningarálags gilda til loka árs 2025.


Síðast breytt 21.04.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.