Samantekt um þingmál

Stjórn fiskveiða

418. mál á 151. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að tryggja betur byggðafestu og nýliðun í sjávarútvegi. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á lögunum hvað snertir byggðakvóta, strandveiðar, bætur, línu­íviln­­un o.fl. Lagt er til að ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða, sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða, verði dregin saman í einn kafla í lögunum og skapaður skýrari grundvöllur undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Þá er lagt til að kveðið verði á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna og að þau hlutföll byggist á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019–2020. Lagt er til að við úthlutun byggðakvóta verði lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltalsúthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna varðandi sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar. Einnig er lagt til að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla starfshóps um 5,3% aflaheimildir. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 21. febrúar 2020.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.