Samantekt um þingmál

Vísinda- og nýsköpunarráð

188. mál á 153. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Helstu breytingar og nýjungar

Með frumvarpinu er lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs endurskoðað. Veigamesta breytingin á núverandi fyrirkomulagi sem lögð er til er aðskilnaður ráðgefandi og stefnumótandi hlutverks ráðsins svo að annars vegar sé starfandi ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og hins vegar sjálfstætt og faglegt Vísinda- og nýsköpunarráð sem sé ráðgefandi. Þá er lagt til að innan þess ráðuneytis eða ráðuneyta sem fara með málefni vísinda og nýsköpunar starfi sérfræðingar á sviði greiningar, mats og úttekta sem styðji starfsemi beggja og styrki þannig grunn stefnumótunar. Gert er ráð fyrir að nafni ráðsins verði breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, lögum um Landsbókasafn Íslands, nr. 142/2011, og lögum um vandaða starfshætti í vísindum, nr. 70/2019.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að árleg útgjöld ríkissjóðs aukist um u.þ.b. 20 milljónir kr. og verði um 40 milljónir kr. á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeim breytingum að ráðherranefndin og Vísinda- og nýsköpunarráð skuli hafa með sér samráð.

Aðrar upplýsingar

Breytt lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs. Tillaga verkefnishóps. Forsætisráðuneytið, ágúst 2020.


Síðast breytt 27.03.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.