Tilkynningar

Alþingisdagurinn 17. maí

18.5.2019

Forseti Alþingis bauð þingmönnum og starfsmönnum skrifstofu Alþingis til fundar í Skála 17. maí til að fara yfir nokkur sameiginleg verkefni sem ofarlega eru á baugi. Ákveðið var að nota heitið „Alþingisdagurinn“ um þessa samkomu sem heppnaðist í alla staði vel. 

Fyrst á dagskrá fundarins var kynning Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, og Auður Elvu Jónsdóttur, rekstrar- og fjármálastjóra, á nýbyggingunni sem fyrirhugað er að rísi við Vonarstræti og hýsa mun starfsemi þingnefnda, skrifstofur þingmanna og þingflokka. Nýbyggingin er stærsta byggingarverkefni þingsins síðan Alþingishúsið reis 1881.

Forseti þingsins og Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu, fór yfir nýlegar breytingar á hagsmunaskráningu þingmanna og ítrekuðu að þingmenn bæru ábyrgð á að á vef þingsins væru skráðar nýjustu upplýsingar um hagsmuni þeirra. 

Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, afhenti þingforseta viðurkenningu á að Alþingi hefði nú stigið annað Græna skrefið í umhverfismálum og Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta, sem fer fyrir umhverfisnefnd skrifstofu Alþingis, sagði frá því sem áunnist hefur í umhverfismálum. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað og mikilvægar breytingar á innra starfi hafa nú þegar verið innleiddar. Umbúða- og plastnotkun hefur minnkað verulega. Þá hefur umhverfisvitund og þátttaka í verkefnum er tengjast umhverfismálum aukist mikið hjá Alþingi og hafa bæði starfsmenn og þingmenn verið hvattir til þátttöku. Meiri og skipulagðari flokkun á sér nú stað og mikil vitundarvakning hefur orðið meðal starfsfólks. Eitt mikilvægasta verkefni Alþingis er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna en nú þegar fara þingverðir um á rafhlaupahjólum, tæknikostur hefur verið bættur og fjarfundum fjölgað. Enn fremur eru komin fleiri hjólastæði, rafbílastæði eru við Alþingi og áfram verður unnið að því að draga úr ferðum eða nota ferðamáta sem losar minna af gróðurhúsalofttegundum.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði frá meginmarkmiðum í fyrirhugaðri könnun á starfsumhverfi og líðan meðal þingmanna og starfsmanna. Háskóli Íslands og RIKK munu annast könnunina sem nær til núverandi og fyrrverandi þingmanna og starfsmanna. Byggt er á fyrirmyndum frá Evrópuráðinu og Alþjóða þingmannasambandinu og enn fremur tók þingforseti dæmi úr könnun sænska þingsins á starfsumhverfi og líðan.

Að loknum kynningum var fundargestum boðið að hlýða á Eyþór Inga Gunnlaugsson syngja og flytja gamanmál.


Graen-skref-2

Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, afhenti Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, viðurkenningu á að Alþingi hefði nú stigið annað Græna skrefið í umhverfismálum.

Nybygging

Tölvuteikning af fyrirhugaðri nýbyggingu Alþingis við Vonarstræti sem hýsa mun starfsemi þingnefnda, skrifstofur þingmanna og þingflokka.