Tilkynningar

Ávarp forseta Alþingis við fyrstu skóflustungu að nýbyggingu á Alþingisreit

4.2.2020

Ávarp forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, þegar tekin var skóflustunga að nýbyggingu á Alþingisreit 4. febrúar 2020:

- Alþingismenn og starfsfólk Alþingis
- Fyrrverandi forsetar Alþingis
- Arkitektar, hönnuðir, verkfræðingar og aðrir frá Stúdíó Granda og Eflu.
- Fulltrúar Framkvæmdasýslu ríkisins og aðrir góðir gestir!

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar stuttu en mikilvægu athafnar sem markar formlegt upphaf framkvæmda hér á Alþingisreit við nýbyggingu Alþingis.

Hér fer nú af stað mesta framkvæmd á vegum Alþingis í 140 ár. Þ.e. frá því að Alþingishúsið sjálft reis á árunum 1880–1881. Sú framkvæmd var reyndar risavaxin á þáverandi mælikvarða landsins. Fjárlög voru þá samþykkt til tveggja ára í senn og í frumvarpi því sem varð að lögum 26. ágúst 1879 fyrir árin 1880 og 1881 hljóðuðu tekjur Íslands (eins og það var orðað) og gjöld upp á 777 þúsund, 825 krónur og 20 aura. Á hvoru ári um sig voru umsvifin sem sagt tæpar 390 þúsund krónur, en þinghúsið kostaði 120 þúsund. Þ.e. tæpan þriðjung árlegra umsvifa ríkisins eins og þau voru á þeim tíma. Rétt er auðvitað að geta þess að þá var verið að byggja fyrir hvort tveggja í senn Alþingi og söfn landsins, en stærðargráðan var engu að síður þessi.

En hér mun nú rísa á næstu fjórum árum um 6000 fermetra bygging sem mun sameina á einum stað, undir einu þaki, skrifstofur fyrir alla þingmenn, aðstöðu fyrir þingflokka, fundaherbergi nefnda og vinnuaðstöðu starfsmanna þeirra, auk funda og ráðstefnuaðstöðu og margt fleira. Byggingin verður tengd nær öllum öðrum byggingum Alþingis þannig að innan gengt verður til Skála og þinghússins sjálfs auk húsalengjunnar hér við Kirkjustræti.

Kostnaðaráætlun fyrir bygginguna sjálfa er upp á 4,4 milljarða króna að viðbættum verðbótum á byggingartíma. Af byggingunni mun leiða mikið hagræði og sparnaður til lengri tíma litið, því leiga á fjölmörgum stöðum hér í Kvosinni á mishentugu húsnæði er óhentugt og dýrt úrræði. Mest um vert er þó að hér verða skapaðar nútímalegar og fyrsta flokks vinnuaðstæður fyrir þingmenn og ekki síður starfsfólk Alþingis. Hér verða góðar aðstæður til að taka á móti gestum sem til Alþingis og þingnefnda koma og Alþingi verður mun betur í stakk búið til að halda ýmis konar fundi og minni ráðstefnur.

Tveir fyrstu verkþættirnir eru þegar umsamdir. Þ.e. steinkápan utan á bygginguna en litbrigði í íslensku bergi munu setja á hana sterkan svip og svo jarðvegsvinna hér í grunni byggingarinnar sem hefst á næstu dögum. Útboð fyrir bygginguna sjálfa verður svo auglýst í vor og uppsteypa hefst í haust.

Er þá ekki frekari orða þörf, hér er hvorki staður né stund fyrir málþóf. Ég vil biðja skrifstofustjóra Alþingis, Rögnu Árnadóttur, að taka nú á móti mér fyrstu skóflustungu, því hér byggjum við í orðsins fyllstu merkingu saman fyrir þingmenn og starfsmenn Alþingis. Að því verki loknu bið ég alla viðstadda að ganga með okkur til Skála og þiggja kaffiveitingar.