Tilkynningar

Bætt þjónusta skrifstofunnar við notendur lagasafns

11.5.2022

Þegar ný lög hafa verið samþykkt á Alþingi (en yfirleitt eru ný lög breytingar á gildandi lögum) birtist tilkynning efst á síðu viðkomandi laga í lagasafni um að breyting á þeim hafi verið samþykkt. Jafnframt birtist hlekkur sem vísar í breytingalögin. Þetta getur reynst hjálplegt þar sem lagasafnið er aðeins uppfært þrisvar á ári, um áramót, að vori og að hausti, en við uppfærslu er texti breytingalaga felldur inn í gildandi lög. Síðast var lagasafnið uppfært 20. apríl í vor og var það útgáfa 152b. Þessa nýjung má t.d. sjá efst á síðu laga um listamannalaun og efst á síðu barnaverndarlaga, þar sem fram kemur tilkynning um að 29. apríl 2022 hafi verið samþykkt lög eftir útgáfu lagasafns og vísað til þeirra á þingskjölum 963 og 964.

Önnur mikilvæg breyting, sem komin er til framkvæmda, er að þegar lögð eru fram frumvörp til lagabreytinga á Alþingi er sett tilkynning efst á síðu viðkomandi laga í lagasafni um að á tilteknu þingskjali sé að finna tillögu að breytingu á lögunum. Þannig má t.d. sjá þegar umferðarlögum er flett upp í lagasafni að á þingskjölum 97 og 434 sé að finna frumvarp til breytinga á lögunum. Gagnlegt getur reynst notendum lagasafns að vita að viðkomandi lög kunni að taka breytingum á yfirstandandi löggjafarþingi.