Tilkynningar

Fjarfundur þingforseta Norðurlanda og Eystrasaltsríkja

16.4.2020

Forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hafa um langt árabil átt árlegan fund sem haldinn er til skiptis í löndunum átta. Vegna kringumstæðna var að þessu sinni haldinn sérstakur fjarfundur þingforsetanna, að frumkvæði forseta finnska þingsins, en halda átti fundinn í Helsinki. Aðalumræðuefni fundarins var áhrif kórónuveirufaraldursins á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, einkum áhrif á þjóðþingin. 

Í flestum landanna átta eru stjórnskipuleg takmörk á fjarfundum í þingsal, svo þingin standa flest frammi fyrir áskorunum þegar kemur að umræðum og atkvæðagreiðslum í sal. Þá ræddu þingforsetarnir átta undirbúning fyrirhugaðrar heimsráðstefnu þingforseta, sem Alþjóðaþingmannasambandið heldur á fimm ára fresti, og áttu samtal um sameiginlegar áherslur í alþjóðastarfi þjóðþinganna.

Fjarfundur-thingforseta-Nordurlanda-og-Eystrasaltsrikja-16.04.2020
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á fjarfundi með öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.