Tilkynningar

Fræðsluferð atvinnuveganefndar til Færeyja og Noregs

6.3.2023

Atvinnuveganefnd Alþingis heimsækir Færeyjar dagana 6.–8. mars og Noreg 8.–10. mars til að kynna sér málefni fiskeldis/lagareldis og landbúnaðar, auk nýsköpunar.

Í Færeyjum kynnir nefndin sér starfsemi færeyska þingsins og fundar með Bjørt Samuelsen, forseta Lögþingsins, auk fulltrúa úr atvinnuveganefnd. Þá heimsækir nefndin stjórnarráðið og fundar með Högna Hoydal utanríkis- og atvinnuvegaráðherra. Einnig mun nefndin funda með Samtökum atvinnulífsins í Færeyjum og kynna sér starfsemi Føroya Tele, P/F Tunnil og P/F Bakkafrost.

Í Noregi heimsækir nefndin Stórþingið og fundar með fulltrúum í norsku atvinnuveganefndinni. Nefndin mun heimsækja landbúnaðar- og matvælaráðuneytið og funda þar með fulltrúum ráðuneytisins og Landbúnaðarstofnunar. Þá heimsækir nefndin viðskipta-, iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og fundar með fulltrúum þess og Kristina Sigurdsdottir Hansen sem er aðstoðarráðherra sjávarútvegsmála. Nefndin mun einnig kynna sér starfsemi Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar og Sjömat Norge og fá kynningu frá DNB bank um fjármögnun í fiskeldi / lagareldi. Jafnframt heimsækir nefndin sendiráð Íslands.

Fyrir hönd atvinnuveganefndar taka þátt í ferðinni Stefán Vagn Stefánsson formaður, Gísli Rafn Ólafsson, Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Hanna Katrín Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Oddný G. Harðardóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.