Tilkynningar

Fræðsluferð fjárlaganefndar til Parísar

22.2.2023

Fjárlaganefnd Alþingis hefur sl. tvo daga verið í fræðsluferð í París, þar sem nefndin hefur hitt fulltrúa frá OECD, fjárlaganefnd franska þingsins og fulltrúa frá franska fjármálaráðinu.

Nefndin hitti fulltrúa frá OECD mánudaginn 20. febrúar og kynnti sér stöðu fjárlagagerðar innan OECD-ríkjanna. Eftirtalin mál voru rædd á fundinum:

  • Fulltrúarnir fóru yfir þau atriði sem eru til fyrirmyndar í fjárlagagerð hjá aðildarríkjunum. Einnig voru kynntar nýjungar í fjárlagagerð, farið yfir mat á langtímahorfum, hlutverk þjóðþinga í ferlinu og fjármálaráða.
  • Farið var yfir dagskrá á fundi OECD sem haldinn verður í apríl nk. í Reykjavík í boði Alþingis.
  • Kynnt var staða hagkerfa heimsins og Íslands.
  • Fjárlagagerðin var skoðuð í ljósi vaxandi útgjalda til heilbrigðismála á heimsvísu.
  • Farið var yfir samvinnuverkefni ríkisins og einkamarkaðar.

Þriðjudaginn 21. febrúar heimsótti nefndin frönsku fjárlaganefndina og tóku formaður nefndarinnar og aðalframsögumaður hennar á móti íslensku nefndinni. Þeir kynntu ferli franskrar fjárlagagerðar og var rætt um einkenni á fjárlagagerð hvors ríkis um sig. Að fundinum loknum hitti nefndin m.a. formann Íslandsvinahóps franska þingsins. Síðan var boðið upp á skoðunarferð um franska þingið.

Frá franska þinginu var haldið til fundar við fulltrúa frá franska fjármálaráðinu, HCFP, og rætt um hlutverk ráðsins í fjárlagaferlinu.

Fyrir hönd fjárlaganefndar tóku þátt í ferðinni Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður, Haraldur Benediktsson, Eyjólfur Ármannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Fjarlaganefnd-i-heimsokn-i-hofudstodvum-OECD-i-Paris

Fjárlaganefnd í heimsókn í höfuðstöðvum OECD í París.

 

Fjarlaganefnd-Althingis-i-heimsokn-hja-fjarlaganefnd-franska-thingsins-i-Paris

Fjárlaganefnd Alþingis í heimsókn hjá fjárlaganefnd franska þingsins í París.

Fjarlaganefnd-Althingis-vid-franska-thingid

Fjárlaganefnd Alþingis við franska þingið. Frá vinstri: Bryndís Haraldsdóttir, Haraldur Benediktsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Eyjólfur Ármannsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður og Helga Vala Helgadóttir.