Tilkynningar

Fyrsta málstofa framtíðarnefndar Alþingis um gervigreind og lýðræði 1. desember

28.11.2023

Þróun og framtíð gervigreindar er viðfangsefni fyrstu málstofunnar í fundaröð um gervigreind og lýðræði sem framtíðarnefnd Alþingis stendur fyrir. Fyrsta málstofan verður föstudaginn 1. desember og stendur fundaröðin fram eftir næsta ári.

Á fyrstu málstofunni verður fjallað um skilgreiningu á gervigreind, rýnt í stöðuna í dag og mögulegar sviðsmyndir gervigreindar til framtíðar. Gestir fyrstu málstofunnar verða tveir: Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, og Páll Rafnar Þorsteinsson, heimspekingur og verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Brynjólfur flytur erindið „Framfarir gervigreindar. Áhrif til lengri og skemmri tíma“ og erindi Páls ber yfirskriftina „Gervi-greind – alvöru álitamál. Um siðferðilegar áskoranir á öld gervigreindar“.

Fundarstjóri er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður framtíðarnefndar, og mun hún í upphafi fundar kynna starf framtíðarnefndar. Lilja Rannveig ber upp spurningar framtíðarnefndar og einnig getur fjölmiðlafólk á málstofunni spurt spurninga, auk þátttakenda í streymi, sem geta sent spurningar sínar á netfangið framtid@althingi.is.

Málstofan fer fram föstudaginn 1. desember kl. 10–11 í fundarherbergi 2 á nefnda- og greiningarsviði Alþingis í Austurstræti 8–10 og er opin fjölmiðlafólki.

Á málstofunum mun nefndin eiga samtöl við helstu sérfræðinga og ræða framtíðaráskoranir og hugsanlegar sviðsmyndir en það að skoða mismunandi sviðsmyndir auðveldar ákvarðanatöku til framtíðar litið.

Málstofurnar verða í beinu streymi á Alþingisrásinni og vef Alþingis. Þátttakendur málstofunnar sem fylgjast með í streymi geta sent inn fyrirspurnir á netfangið framtid@althingi.is. Með þessu móti vill framtíðarnefndin opna starf þingsins og eiga samtal við þjóðina. Einnig verða upptökur af málstofunum aðgengilegar á vef Alþingis.

Hlutverk framtíðarnefndar Alþingis er að fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.

Throun-og-framtid-malstofa-1