Tilkynningar

Fræðsluferð allsherjar- og menntamálanefndar til Noregs og Danmerkur

27.9.2022

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis heimsækir Ósló og Kaupmannahöfn dagana 27.-30. september 2022 til að kynna sér málefni útlendinga og fjölmiðla í Noregi og Danmörku. Nefndin heimsækir þing, ráðuneyti og stofnanir auk félagasamtaka.

Í Noregi kynnir nefndin sér starfsemi Stórþingsins og fundar með einni nefnd þingsins um málefni innflytjenda. Þá fer nefndin í heimsókn í menningar- og jafnréttisráðuneytið. Nefndin mun funda með fulltrúum frá Norsk organisasjon for asylsøkere (norsk samtök fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd) og Útlendingastofnun í Noregi um málefni flóttamanna. Einnig kynnir nefndin sér starfsemi Blaðamannafélags Noregs og Landssambands fjölmiðla.

Í Danmörku heimsækir nefndin danska þingið, ráðuneyti menningarmála og Norðurlandaráð. Þá mun nefndin funda með fulltrúum innflytjenda- og aðlögunarráðuneytis og Blaðamannasamtökum Danmerkur. Einnig kynnir nefndin sér starfsemi Rauða krossins í Sandholm sem er móttökumiðstöð flóttamanna.

Fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar taka þátt í ferðinni Bryndís Haraldsdóttir formaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Eyjólfur Ármannsson, Helga Vala Helgadóttir, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.