Tilkynningar

Málverk af Jóni Baldvinssyni, fyrrverandi forseta sameinaðs Alþingis, afhent Alþingi

24.3.2023

Portrettmálverk af Jóni Baldvinssyni, fv. forseta sameinaðs Alþingis, eftir Gunnlaug Blöndal var í dag fært Alþingi til varðveislu og eignar. Málverkið afhentu þeir Ásgeir Jóhannesson, fv. bæjarfulltrúi í Kópavogi, Óttar Yngvason lögmaður og Pétur Jónsson, fv. borgarfulltrúi í Reykjavík.

Jón Baldvinsson var alþingismaður 1920–1938 og gegndi stöðu forseta sameinaðs Alþingis á árunum 1933–1938. Um síðustu aldamót er Alþýðuflokkurinn hætti að starfa sem stjórnmálaflokkur var ofangreindum aðilum falið að annast um og ráðstafa eignasafni flokksins sem mestmegnis samanstóð af myndum og skjölum úr sögu flokksins. Er þessu verkefni nú að mestu lokið. M.a. hefur verið safnað öllum skjölum í fórum flokksins, svo og einkaskjölum þingmanna og annarra forystumanna flokksins. Þau skjöl eru nú varðveitt í Þjóðskjalasafninu, Landsbókasafninu og Borgarskjalasafni Reykjavíkur, skrásett, opinber og aðgengileg fyrir almenning. Er þetta að sögn þjóðskjalavarðar og forstöðumanns Landsbókasafnins stærsta og aðgengilegasta safn um sögu flokks sem starfað hefur á Alþingi.

Á meðal eignanna var málverkið af Jóni Baldvinssyni, sem Alþýðuflokkurinn hafði fengið listmálarann Gunnlaug Blöndal til að mála árið 1937, en þá gegndi Jón starfi forseta Alþingis. Í máli þremenninganna kom fram að niðurstaða þeirra hefði verið að mynd þessi væri hvergi betur komin til varðveislu en hjá Alþingi Íslendinga til að heiðra minningu Jóns heitins Baldvinssonar sem eins af fremstu alþingismönnum þjóðarinnar.

Malverk-af-Joni-Baldvinssyni-afhent-2023-03-24_1

Óttar Yngvason lögmaður, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Ásgeir Jóhannesson, fv. bæjarfulltrúi í Kópavogi, og Pétur Jónsson, fv. borgarfulltrúi í Reykjavík, við portrettið af Jóni Baldvinssyni, fv. forseta sameinaðs Alþingis.

Málverk af Jóni Baldvinssyni fyrrv forseta Alþingis afhent

Hluti forsætisnefndar og skrifstofustjóri Alþingis tóku á móti þeim félögum í Alþingishúsinu: Ragna Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Óttar Yngvason, Birgir Ármannsson, Ásgeir Jóhannesson, Pétur Jónsson, Oddný Harðardóttir og Jódís Skúladóttir.