Tilkynningar

Minningarorð um Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismann

12.9.2023

MINNINGARORÐ
forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar,
á þingsetningarfundi 12. september 2023 um
Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismann


Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður og útgerðarmaður, lést á Hrafnistu 6. júlí síðastliðinn, 96 ára að aldri, elstur fyrrverandi þingmanna.

Jón Ármann var fæddur á Húsavík 21. júní 1927. Foreldrar hans voru Héðinn Maríusson útvegsbóndi og Helga Jónsdóttir húsmóðir.

Jón Ármann lauk prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1955 og sótti einnig námskeið í spænsku við skólann. Hann dvaldist á Spáni um tíma þar sem hann lagði stund á spænska tungu og menningu. Að námi loknu sinnti Jón Ármann ýmsum störfum, fyrst norðan heiða á uppvaxtarslóðum sínum, en svo syðra. Hann sinnti margvíslegum störfum á langri starfsævi, sem oft voru tengd sjávarútvegi og frumkvöðlastarfi innan hans. Ásamt bræðrum sínum stofnaði hann útgerðarfélagið Hreifa hf. í heimabæ sínum, Húsavík, um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Þá starfrækti Jón Ármann útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði í nærri 30 ár. Hann var ræðismaður Mexíkó í átta ár.

Jón Ármann starfaði allan sinn stjórnmálaferil innan Alþýðuflokksins. Hann hófst þegar hann var kjörinn í bæjarstjórn Húsavíkur á sjötta áratug síðustu aldar. Jón Ármann sat á 12 löggjafarþingum á árabilinu 1967–1978 og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn. Þá tók hann sæti á þingi sem varaþingmaður haustið 1982.

Þótt stjórnmál og sjávarútvegsmál væru lengstum aðalviðfangsefni Jóns Ármanns var hann mikill áhugamaður um hreyfingu og útiveru almennings og það var í þeim anda hollustu og heilbrigðis sem hann gerðist baráttumaður gegn tóbaksreykingum, löngu áður en það komst almennt á dagskrá. Var Jón Ármann forvígismaður þess á Alþingi að tóbaksauglýsingar voru bannaðar í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.