Tilkynningar

Minningarorð um Ólaf G. Einarsson, fyrrverandi forseta Alþingis

2.5.2023

Minningarorð forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar, um Ólaf G. Einarsson, fyrrverandi forseta Alþingis, á þingfundi þriðjudaginn 2. maí 2023

Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni hér í Reykjavík 27. apríl síðastliðinn á 91. aldursári.

Ólafur Garðar, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur á Siglufirði 7. júlí 1932, sonur hjónanna Einars Kristjánssonar forstjóra og Ólafar Ísaksdóttur húsmóður. Hann ólst upp á Siglufirði fram á unglingsár og leit ávallt á sig sem Siglfirðing.

Að loknu stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri nam Ólafur læknisfræði við Háskóla Íslands um hríð en sneri sér síðan að laganámi sem hann lauk árið 1960. Sama ár varð hann sveitarstjóri í hinu ört vaxandi sveitarfélagi Garðahreppi, sem nú heitir Garðabær. Ólafur gegndi starfi sveitarstjóra þar til ársins 1972, þá orðinn þingmaður, en sat áfram í sveitarstjórninni sem oddviti og síðar sem forseti bæjarstjórnar Garðabæjar fram til 1978. Hann bjó með fjölskyldu sinni í Garðabæ allt frá því hann varð þar sveitarstjóri, ungur maður, og svo lengi sem heilsa og kraftar leyfðu. Árið 2010 var Ólafur kjörinn heiðursborgari Garðabæjar í virðingar- og þakklætisskyni fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins og íbúa þess.

Ólafur G. Einarsson gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, fylgdi honum ávallt að málum og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum innan hans um árabil.

Þingferill Ólafs hófst eftir kosningarnar 1971 og stóð óslitið til 1999. Þá hafði hann setið á 32 löggjafarþingum sem aðalmaður og ávallt kjörinn í Reykjaneskjördæmi þar sem hann var forystumaður og leiddi framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1991 og 1995. Ólafur var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins samfellt í 12 ár, 1979–1991, sem um margt var stormasamur tími fyrir flokkinn.

Við stjórnarskiptin 1991 varð Ólafur menntamálaráðherra fram til 1995. Eftir kosningar það ár var hann kjörinn forseti Alþingis og því embætti gegndi hann þar til þingferli hans lauk vorið 1999. Um forsetastörf hans ríkti jafnan góð sátt.

Ólafur var meðal forvígismanna um breytingar á stjórnarskrá og þingsköpum sem gerðar voru árið 1991 þegar Alþingi varð ein málstofa. Í forsetatíð hans var margt enn ómótað í starfsháttum þingsins eftir þessa breytingu og sem forseti beitti Ólafur sér fyrir ýmsum umbótum í störfum þingsins og stofnana þess og hann lét sér ætíð annt um hag og stöðu Alþingis.

Starfsævi Ólafs G. Einarssonar var öll á vettvangi félagsmála og stjórnmála og urðu viðfangsefnin mörg og ærið ólík á löngum ferli. Reynsla hans af sveitarstjórnarmálum reyndist honum gott veganesti á Alþingi.

Ólafur G. Einarsson tók mikinn þátt í alþjóðastarfi þingsins, einkum í þingmannanefnd NATO og Norðurlandaráði og var formaður Íslandsdeilda þeirra.

Utan þings sat Ólafur í stjórnum ýmissa opinberra fyrirtækja og hann lét til sín taka í starfi frjálsra félagasamtaka.

Ólafur G. Einarsson var vel metinn í hópi þingmanna, glaðlyndur og spaugsamur, söngmaður góður og óvenjulegur vísnasjór. Um hann munaði hvar sem hann kom að málum.