Tilkynningar

Rannsóknarnefndir Alþingis taka til starfa

26.9.2011

Þriðjudaginn 27. september kl. 11 verður haldinn fundur fyrir fjölmiðla um starfsemi rannsóknarnefnda Alþingis. Fréttamannafundurinn er haldinn á Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, mun kynna starfsemi nefndanna ásamt formönnum þeirra. Formaður nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði er Sigurður Hallur Stefánsson, fv. héraðsdómari, og formaður nefndar um rannsókn á orsökum og falli sparisjóðanna er Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Á nýafstöðnu þingi samþykkti Alþingi tvær þingsályktanir, annars vegar um rannsókn á Íbúðalánasjóði og hins vegar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Jafnframt voru á þinginu samþykkt almenn lög um rannsóknarnefndir en með þeim er Alþingi fengið þýðingarmikið úrræði til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu.

Aðstaða fyrir starfsemi nefndanna verður á Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi. Sameiginlegur sími nefndanna er 563 0210.