Tilkynningar

Breytt fyrirkomulag umsókna um styrki og úthlutanir þeirra á safnliðum á fjárlögum fyrir árið 2012- Frestur framlengdur til 12. desember 2011

16.9.2011

Gerðar hafa verið þær breytingar á úthlutunum styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi hættir úthlutunum á styrkjum til ýmissa verkefna til félaga, samtaka og einstaklinga eins og verið hefur. Alþingi mun áfram ákvarða umfang styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun þeirra mun flytjast til ráðuneyta, lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta eða annarra sem sjá um og bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Þessar breytingar gilda við úthlutun á safnliðum á fjárlögum fyrir árið 2012.

Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Því er mikilvægt að umsækjendur kynni sér vel hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á þeim málaflokki sem verkefni umsækjanda um styrk fellur undir.

Breyttur umsóknarfrestur - til 12. desember
Vakin er athygli á því að framlengdur umsóknarfrestur er nú til 12. desember og úthlutað er einu sinni á ári eða eigi síðar en 31. janúar ár hvert.


Verkefni eftir ráðuneytum

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Stuðningur við áhugahópa og faglegt starf
Veittir eru styrkir til að styðja við aðila utan ríkisstofnana sem starfa á verkefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og njóta ekki framlaga á fjárlögum.

Velferðarráðuneyti

Styrkir til félagasamtaka
Veittir eru styrkir til félagasamtaka sem starfa á verkefnasviði ráðuneytisins og njóta ekki framlaga á fjárlögum.

Verkefnastyrkir á sviði velferðarmála
Veittir eru styrkir til félagasamtaka til að hrinda í framkvæmd verkefnum og aðgerðum sem falla að verkefnasviði ráðuneytisins og njóta ekki framlaga á fjárlögum.

Umhverfisráðuneyti

Verkefnastyrkir á sviði umhverfismála
Veittir eru styrkir til faglegrar uppbyggingar á sviði umhverfismála með því að styrkja tiltekin verkefni. Einnig eru veittir styrkir sem stuðla að þátttöku í stefnumarkandi alþjóðlegum ráðstefnum og fundum um umhverfismál, einkum þeim sem ráðuneytið sjálft hefur aðkomu að. Ráðuneytið mun á árinu 2012 leggja áherslu á verkefni á sviði umhverfis- og náttúruverndar.

Styrkir til frjálsra félagasamtaka
Veittir eru rekstrarstyrkir til frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála og til að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfismál og til að efla almenna vitund um gildi umhverfis- og náttúruverndar.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

Styrkir á sviði listgreina
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa á sviði lista og eru ekki aðilar að menningarsamningum né hafa aðgang að sjóðum.

Styrkir á sviði menningararfs
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa að varðveislu menningarminja og eru ekki aðilar að menningarsamningum né hafa aðgang að sjóðum.

Styrkir á sviði íþrótta- og æskulýðsmála
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa við íþrótta- og æskulýðsmál, skólabúðir o.fl., og hafa ekki aðgang að sjóðum á þessu sviði.

Styrkir til uppbyggingar landsmótsstaða
Veitt eru framlög til að styðja við uppbyggingu á landsmótssvæðum í samstarfi við sveitarfélög og fleiri aðila.

Nánari upplýsingar um úthlutunarreglur og eyðublöð er að finna á vef viðkomandi ráðuneytis: hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti, hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, hjá umhverfisráðuneyti og hjá velferðarráðuneyti.