Tilkynningar

Rannsóknarnefnd skipuð

30.12.2008

Forsætisnefnd Alþingis gekk í dag frá skipan þriggja manna í nefnd til að rannsaka aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti fyrir jól. Nefndina skipa Páll Hreinsson hæstaréttardómari, sem er formaður, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir, kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 1. gr. laga nr. 142/2008 og skal stefnt að því að endanlegri skýrslu nefndarinnar verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. nóv. 2009.

Páll Hreinsson hefur verið dómari við Hæstarétt síðan 1. sept. 2007. Hann var áður prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og var sæmdur doktorsgráðu frá sama skóla árið 2005. Tryggvi Gunnarsson hefur gegnt embætti umboðsmanns Alþingis síðan 1. nóv. 1998, en var áður sjálfstætt starfandi lögmaður. Sigríður Benediktsdóttir hefur verið kennari við Yale-háskóla síðan 2007, en á árunum 2005-2007 starfaði hún hjá bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna í Washington. Hún lauk BS-prófi í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands 1995 og BS-prófi í hagfræði frá sama skóla 1998. Hún lauk tveimur meistaragráðum við Yale 2000 og 2001 og doktorsprófi frá sama skóla í hagfræði árið 2005.