Tilkynningar

Önnur málstofa framtíðarnefndar Alþingis um gervigreind og lýðræði 16. febrúar

14.2.2024

Alþjóðleg staða stefnumótunar um gervigreind er viðfangsefni annarrar málstofu í fundaröð um gervigreind og lýðræði sem framtíðarnefnd Alþingis stendur fyrir föstudaginn 16. febrúar.

Gestir málstofunnar verða tveir:

Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður og eigandi hjá LEX og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík þar sem hún kennir m.a. tölvu- og tæknirétt. Lára hefur víðtæka reynslu á sviði upplýsingatækniréttar og hefur aðstoðað ríki, sveitarfélög og fyrirtæki við ráðgjöf og innleiðingu öryggis- og verndarráðstafana á sviði upplýsingatækni, netöryggis og persónuverndar. Lára mun fjalla um regluverk Evrópusambandsins um gervigreind með áherslu á grundvallarréttindi einstaklinga, mannlega aðkomu og gagnsæi.

Jamie Berryhill, sérfræðingur og verkefnastjóri OECD í gervigreind, mun fjalla um stefnumótun alþjóðastofnana í málaflokknum. Jamie veitti stefnumótun í gervigreind forstöðu hjá forseta Bandaríkjanna og býr yfir mikilli þekkingu á alþjóðlegri stefnumótun.

Fundarstjóri er Halldóra Mogensen, formaður framtíðarnefndar, og í kjölfar erindanna munu nefndarmenn í framtíðarnefnd bera upp spurningar. Einnig getur fjölmiðlafólk á málstofunni spurt spurninga.

Málstofan fer fram föstudaginn 16. febrúar kl. 10:30–11:30 í Smiðju, Tjarnargötu 9, 1. hæð, og er opin fjölmiðlafólki.

Í málstofuröð framtíðarnefndar um gervigreind og lýðræði á nefndin samtöl við helstu sérfræðinga og ræðir framtíðaráskoranir og hugsanlegar sviðsmyndir en það að skoða mismunandi sviðsmyndir auðveldar ákvarðanatöku til framtíðar litið.

Málstofan verður í beinu streymi á Alþingisrásinni og vef Alþingis. Þátttakendur sem fylgjast með í streymi geta sent inn fyrirspurnir á netfangið framtid@althingi.is. Með þessu móti vill framtíðarnefndin opna starf þingsins og eiga samtal við þjóðina. Einnig verða upptökur af málstofunum aðgengilegar á vef Alþingis.

Hlutverk framtíðarnefndar Alþingis er að fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.