Tilkynningar

Rýnt í græna bókhaldið

7.9.2023

Niðurstöður græna bókhaldsins fyrir árið 2022 voru kynntar á starfmannafundi á skrifstofu Alþingis í dag og þær bornar saman við niðurstöður undanfarinna ára, en grænt bókhald hefur verið fært á Alþingi frá árinu 2017.

Árið 2014 var stofnuð umhverfisnefnd á skrifstofu Alþingis sem setti sér m.a. það markmið að auka hlutfall flokkaðs úrgangs og draga úr notkun á plasti og árið 2016 var Alþingi á meðal fyrstu stofnana til að taka þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Frá þeim tíma hafa verið tekin mörg græn skref og með samstilltu átaki þingmanna og starfsfólks hefur náðst mikill árangur í því að draga úr notkun á pappír, rafmagni og heitu vatni, heildarmagn úrgangs hefur minnkað til muna, aðstaða fyrir þá sem koma til vinnu á reiðhjóli er eins og best verður á kosið, fjölda rafhleðslustöðva hefur verið komið upp og þannig mætti lengi telja.

Í febrúar 2022 veitti Umhverfisstofnun Alþingi viðurkenningu fyrir að hafa tekið 5. og síðasta Græna skrefið. Fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun. Sem liður í því er græna bókhaldið rýnt árlega og niðurstöður þess kynntar bæði inn á við og út á við.

Á vefsíðunni Grænt bókhald – Græn skref (graenskref.is) er hægt að skoða niðurstöður hjá öllum stofnunum sem taka þátt.

Gardur3_HE