Tilkynningar

Tafir á veitingu ríkisborgararéttar með lögum

29.12.2021

Allsherjar- og menntamálanefnd skipar undirnefnd til að fara yfir umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Umsóknir, ásamt fylgigögnum, eru afhentar undirnefndinni að lokinni forvinnslu Útlendingastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hafa henni borist 178 umsóknir sem beint er til Alþingis en umrædd gögn hafa ekki borist Alþingi.

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur farið fram á að allar umsóknir, ásamt fylgigögnum, verði afhentar nefndinni eigi síðar en 1. febrúar 2022 og hyggst nefndin leggja fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar í kjölfarið. Undirnefndin hefur fengið staðfest að frestun á afgreiðslu frumvarpsins muni ekki verða til þess að staða umsækjenda breytist á meðan málsmeðferð nefndarinnar stendur yfir.