Nýbygging á Alþingisreit

Forsætisnefnd skoðar nýbyggingu Alþingis

30.11.2022

Forsætisnefnd Alþingis fór í skoðunarferð um nýbygginguna á Tjarnargötu 9 sl. föstudag ásamt verkefnisstjóra FSRE og hönnuðum hússins. Framkvæmdir eru í fullum gangi úti jafnt sem inni en taka á húsið í notkun á nýju löggjafarþingi næsta haust.

Úti er unnið að landnámsgryfju fyrir framan húsið við Vonarstræti en hún sýnir hver landhæðin var við landnám. Þá er unnið að uppsetningu undirkerfis steinklæðningar og einangrun utan á veggi. Inni er verið að vinna á öllum hæðum. Þar er verið setja upp innveggi, sparsla og mála, draga í raflagnir, setja upp loftræsisamstæðu í kjallara og vinna við pípulagnir. Þá er unnið að því að leggja terrassogólf á nefndasali á 1. hæð. Í gólfi hvers og eins fundarsalar verður ein af þeim steintegundum sem munu prýða húsið að utan. Þannig verður líparít í gólfi ráðstefnusalar, gabbró í gólfi útsendingarsalar og Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, blágrýti og hraungrýti í gólfum nefndasalanna fjögurra Vonarstrætismegin. 

Á fimmtu hæðinni var verið að steypa þegar forsætisnefnd var þar á ferð en stutt er í að allri uppsteypu verði lokið. Forsætisnefnd ákvað sl. haust að bæta við verkið þremur fundarherbergjum á 5. hæð sem áður hafði verið ákveðið að fresta að gera þar til síðar. Við endurskoðun á þeirri ákvörðun var talið hagkvæmara að þau yrðu steypt upp núna.

Nefndarherbergi

Eitt af nefndarherbergjunum skoðað.

Nefndarherbergi2LineikAnnaogRagna