Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 73 . mál.


657. Nefndarálit



um frv. til l. um mannanöfn.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Drífu Pálsdóttur, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, Halldór Ármann Sigurðsson prófessor, Pál Sigurðsson prófessor, Erlend Jónsson dósent, Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Skúla Guðmundsson, skrifstofustjóra Hagstofu Íslands. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Íslenskri málnefnd, heimspekideild Háskóla Íslands, Hagstofu Íslands, Félagi nýrra Íslendinga, mannanafnanefnd, Cecil Haraldssyni, safnaðarpresti Fríkirkjunnar, Páli Sigurðssyni og Erlendi Jónssyni, Þorbjörgu Hilbertsdóttur, Inger Önnu Aikman og Andra Þór Gunnarssyni og Sigríði Halldórsdóttur.
    Frumvarpið gerir almennt ráð fyrir meira frelsi í nafngiftum en samkvæmt gildandi lögum, einkum með því að heimila aðlöguð erlend eiginnöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli, og með því að heimila millinöfn.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er það samið vegna mikillar gagnrýni á gildandi lög. Sú gagnrýni hefur einkum beinst að þröngum eiginnafnaheimildum laganna og því að þau heimila ekki millinöfn. Enn fremur hefur komið fram veruleg gagnrýni á það ákvæði laganna er skyldar þá er öðlast íslenskt ríkisfang með lögum og heita erlendu nafni til að taka sér íslenskt eiginnafn sem börn þeirra verða síðan að taka sem kenninafn. Nöfn manna eru einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og þessi þröngu skilyrði laganna hafa valdið miklum sárindum í mörgum fjölskyldum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þeir sem í hlut eiga geti haldið fullu nafni óbreyttu og að niðjum þeirra verði heimil notkun ættarnafns.
    Íslensk nafnahefð er stór þáttur í menningu Íslendinga. Þróunin á þessari öld hefur þó verið sú að sífellt fleiri taka upp ættarnöfn. Ljóst virðist að ættarnöfnum á eftir að fjölga hratt. Í frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp nýr flokkur nafna, svokölluð millinöfn. Með því er meðal annars stefnt að því að ættarnöfn verði fremur notuð sem millinöfn en kenninöfn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Breytingartillögur við 6. gr. tengjast breytingartillögum sem nefndin leggur til að gerðar verði við 8. gr. frumvarpsins. Breytingin hefur það í för með sér að heimilt er að nota eignarfall eiginnafns sem millinafn þegar um er að ræða eiginnafn annars foreldris. Dæmi: Pétur Guðrúnar Jónsson eða Guðrún Steinunnar Briem.
    Lagt er til að lokamálsgrein 7. gr. falli brott. Breytingin hefur það í för með sér að þeim sem bera ættarnöfn verður heimilt að bera millinöfn engu síður en öðrum.
    Lagðar eru til þrjár breytingar á 8. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að maður kenni sig til beggja foreldra eða beri ættarnafn sem hann á rétt á til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður. Dæmi: Pétur Guðrúnarson Jónsson, Guðrún Steinunnardóttir Briem eða Guðjón Jónsson Stephensen. Bent skal á að þarna er aðeins um heimildarákvæði að ræða. Einnig skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir samtengingunni „og“ eða bandstriki á milli nafna. Í öðru lagi er til samræmis lagt til að breyta lítillega orðalagi 2. málsl. Þriðju breytingartillögunni er ætlað að koma í veg fyrir að niðjar þeirra sem báru ættarnöfn samkvæmt Þjóðskrá og fallið hafa frá í gildistíð núgildandi laga um mannanöfn, nr. 37/1991, glati rétti til að taka upp ættarnafn sem þeir annars ættu rétt á.
    Breytingartillögu við 11. gr. er ætlað að tryggja að niðjar þeirra einstaklinga sem fengið hafa ríkisfang án þess að þurfa sjálfir að breyta nöfnum sínum njóti sama réttar og niðjar þeirra sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt og þurftu að breyta nöfnum sínum. Taka má ímyndað dæmi um sænskan mann að nafni Gunnar Nyström sem fékk íslenskt ríkisfang á síðasta ári og þurfti ekki að breyta nafni sínu þar sem Gunnar er íslenskt nafn. Börn hans, yngri en 16 ára, máttu hins vegar ekki bera ættarnafnið Nyström heldur urðu Gunnarsbörn. Með þessari breytingu verður þeim heimilt að taka upp ættarnafn forfeðra sinna eins og niðjum þeirra einstaklinga sem fengið hafa íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nafni sínu.
    Nefndin telur of langt gengið í frumvarpinu að fella niður rétt útlendinga til að taka upp kenninafn maka og leggur því til að sú breyting verði gerð á 12. gr. að þeim verði það áfram heimilt jafnhliða þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Lögð er til breyting á 13. gr. sem veldur því að allar millinafnabreytingar skv. 6. gr. falla undir dómsmálaráðuneytið. Breytingar á millinöfnum skv. 7. gr. heyra hins vegar undir Hagstofu Íslands.
    Breytingartillaga við 14. gr. snýr að kenninöfnum barna. Ef óskað er breytingar á kenninafni barns þannig að það fái ættarnafn sem það á rétt á eða verði kennt til móður í stað föður eða öfugt er meginreglan sú að slík breyting skuli tilkynnt Þjóðskrá, sbr. 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Sá háttur verður ávallt hafður á ef foreldrar eru sammála um nafnbreytingu. Sé hins vegar óskað eftir slíkri breytingu og það foreldri, sem barnið hefur verið kennt til, er andvígt breytingunni leggur nefndin til að ráðherra fjalli um málið og leyfi breytinguna því aðeins að sérstaklega standi á og telja verði að hún verði barninu til verulegs hagræðis.
    Frumvarpshöfundar lögðu til, að fram komnum athugasemdum Íslenskrar málnefndar, að hún ætti einn fulltrúa í mannanafnanefnd. Allsherjarnefnd telur tillöguna til bóta og leggur því til að 21. gr. verði breytt til samræmis við það. Heimspekideild HÍ, Íslensk málnefnd og lagadeild HÍ tilnefna því einn mann hver.
    Við 22. gr. Endregin ósk hefur komið frá Hagstofu Íslands um þessa breytingu og leggur nefndin því til að hún verði gerð.
    Við 25. gr. Lögð er til leiðrétting á greininni þannig að vísað verði í vísitölu neysluverðs í stað lánskjaravísitölu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, sbr. lög nr. 12/1995, og jafnframt þykir nú réttara, þar sem komið er fram á árið 1996, að miða við fyrsta mánuð þessa árs.
    Við ákvæði til bráðabirgða. Lagt er til að skýrt komi fram í ákvæðinu að Hagstofan skuli ávallt leitast við að semja um skráningu nafna. Nöfn skulu einungis skráð samkvæmt reglum sem Hagstofunni ber að setja sér við gildistöku laganna þegar svo stendur á að ekki næst samkomulag um skráningu nafna.

Alþingi, 6. febr. 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Hjálmar Jónsson.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Sighvatur Björgvinsson.



Ögmundur Jónasson,

Kristján Pálsson.

Jón Kristjánsson.


með fyrirvara.