Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 708 – 390. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Guðrún Helgadóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Sigríður Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,


Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta reglur um málsmeðferð við flutning ríkis­stofnana milli landshluta. Taki þær reglur m.a. á eftirfarandi þáttum:
     a.      aðstöðu stofnunar í nýju umhverfi,
     b.      kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem flytja með stofnuninni,
     c.      kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem ekki kjósa að flytja,
     d.      málsmeðferð gagnvart Alþingi áður en ákvörðun er tekin.
    Haft verði samráð við samtök opinberra starfsmanna og önnur stéttarsamtök, eftir því sem við á, um mótun reglnanna. Niðurstöður verði kynntar Alþingi eigi síðar en á haustþingi 1998 ásamt tillögum um lagabreytingar sem þörf er talin á.

Greinargerð.


    Flutningur opinberra stofnana frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar hefur oft verið til umræðu undanfarin ár og hafa stjórnskipaðar nefndir skilað tillögum um það efni. Minna má á viðamiklar tillögur nefndar frá árinu 1975 um þetta efni og önnur nefnd skilaði áliti árið 1993. Lítið hefur í reynd gerst í þessum efnum og flutningur ríkisstofnana ekki verið í neinu samræmi við umfang tillagna og mikla umræðu um málefnið. Stefnumörkun stjórn­valda um uppbyggingu og dreifingu opinberrar stjórnsýslu hefur lengst af verið afar óskýr og vöntun á svonefndu þriðja stjórnsýslustigi sem er til staðar annars staðar á Norðurlöndum hefur gert málstök erfiðari en ella.
    Miklu skiptir fyrir byggðaþróun að dreifa um landið þeim verkefnum sem til falla á vegum ríkisins. Því fylgja m.a. störf fyrir sérhæft fólk sem kemst þá í snertingu við mannlíf og við­fangsefni í byggðum víða um landið. Að mati flutningsmanna tillögunnar hefur of mikill kraftur farið í skeggræður um að flytja stórar og grónar ríkisstofnanir frá höfuðstaðnum út á land í stað þess að byggja með samræmdum hætti upp þjónustu við íbúana í hverju kjör­dæmi á helstu umsýslusviðum ríkisins.
    Mikilvægt er að þessi mál verði tekin öðrum og ákveðnari tökum en hingað til með það að markmiði að færa þjónustu ríkisins með samræmdum hætti nær fólkinu og styrkja svæðis­bundna umsýslu. Þannig má stuðla að betri stjórnsýslu, treysta stöðu landsbyggðar með fjölgun starfa og draga úr miðstýringu.
    Í umræðu um þessi mál hefur hingað til skort verulega á umfjöllun um starfsaðstöðu þeirr­ar stjórnsýslu eða stofnana sem flytja á í nýtt umhverfi og enn óljósari hefur stefnan verið að því er varðar kjör og réttindi hlutaðeigandi starfsmanna. Hefur þetta í senn leitt til ómark­vissra vinnubragða og til óvissu og óánægju hjá starfsmönnum sem átt hafa hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðs flutnings.

    Tilfinnanlega skortir á að til séu skýrar reglur m.a. um samskipti við starfsmenn viðkom­andi stofnunar, bæði þá sem vilja halda starfi sínu áfram og hina sem ekki kjósa að flytjast með stofnuninni.
    Segja má að hér sé um að ræða málefni sem varðað geti vinnumarkaðinn í heild og þörf sé á að skoða í víðara samhengi sem viðfangsefni kjarasamninga eða í löggjöf. Til dæmis er full ástæða til að setja almennar reglur sem tryggi frekar rétt verkafólks til sjós og lands, við þær aðstæður að skip eða kvóti er seldur frá því fyrirtæki sem það starfar við. Flutnings­mönnum þykir rétt að skipta málinu í tvennt, annars vegar setja reglur gagnvart starfsemi rík­isins, eins og lagt er til hér, og hins vegar um aðra atvinnustarfsemi sem huga þarf betur að.
    Hérlendis eru ekki til neinar heildarreglur er taka á réttarstöðu starfsmanns ríkisstofnunar sem fyrirhugað er að flytja á milli landshluta. Hugsanlegt er, vegna ágreiningsmála sem koma upp við flutning stofnunar, að styðjast við reglur sem koma fram í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nú hafa verið sett ný starfsmannalög en í þeim er ekki, frekar en í gömlu lögunum, að finna reglur eða ákvæði um réttindi starfsmanna við flutning ríkisstofnunar.
    Rétt er að minna á að í áliti nefndar um flutning ríkisstofnana frá árinu 1993 kemur fram að leita eigi allra ráða til að stofnunum haldist á starfsmönnum sínum. Þá kemur og fram að starfsmenn, sem láta af störfum vegna flutnings stofnunar, ættu að hafa forgang að hliðstæð­um störfum í öðrum ríkisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti er lítið fjallað um þennan undirstöðuþátt, þ.e. starfsmennina, en mörgum öðrum atriðum eru gerð veruleg skil um leið og settar eru fram ýmsar tillögur um stofnanaflutning.
    Við mótun þeirra reglna sem tillagan gerir ráð fyrir er ástæða til að líta til annarra ríkja Norðurlanda þar sem mun stærri skref hafa verið stigin en hérlendis við dreifingu stjórnsýslu ríkisins. Hér á eftir verður greint frá aðalatriðum í reglum sem gilda í Noregi varðandi starfs­menn við stofnanaflutning og m.a. var beitt við flutning Norsk Polarinstitutt frá Ósló til Tromsö. Í tengslum við þá ákvörðun var gerður samningur milli starfsmanna og stofnunar og ráðuneytis þess er stofnunin heyrði undir. Náði samningurinn bæði til þeirra starfsmanna sem fluttu með stofnuninni og þeirra sem ekki fluttu. Í honum felst m.a. að stofnunin greiðir starfsmanni sem flytur ákveðinn kostnað vegna ferðalaga, flutnings og kaupa á nýju húsnæði, svo og kostnað við sölu á eldra íbúðarhúsnæði. Einnig á starfsmaður rétt á lánum frá hinu opinbera vegna kostnaðar sem hann hefur af því að skipta um húsnæði. Þá er reynt er að út­vega maka starfsmanns vinnu og börnum hans pláss á barnaheimili. Starfsmaður, sem ekki flytur með stofnun, á möguleika á að fara á tólf mánaða endurmenntunarnámskeið á fullum launum eftir að stofnunin er flutt eða í launalaust leyfi í eitt ár. Þá hefur slíkur starfsmaður forgang að sambærilegri stöðu hjá stofnunum sem heyra undir sama ráðuneyti og svo virðist sem starfsmenn, sem ákveða að flytjast ekki með stofnun, eigi kost á biðlaunum sem nema allt að 100% af fastakaupi þeirra. Einnig er ástæða til að benda á að mörg ár eiga að líða frá ákvörðun um flutning þar til hann er um garð genginn. Með því gefst hlutaðeigandi kostur á rúmum tíma til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Verður það ásamt efnahagslegum trygg­ingum og ýmiss konar fyrirgreiðslu við hlutaðeigandi að teljast grundvallaratriði.
    Mál þetta var flutt síðla á 120. löggjafarþingi af fyrsta flutningsmanni og kom þá ekki til umræðu. Það var síðan endurflutt á 121. þingi af þingflokki Alþýðubandalagsins og óháðra og er nú endurflutt nær óbreytt.
Fylgiskjal.


Umsagnir frá 121. löggjafarþingi.

Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands.
(3. febrúar 1997.)


    Vinnuveitendasambandið telur að umræða undangenginna mánaða um flutning tiltekinna þjónustustofnana ríkisins frá Reykjavíkursvæðinu og út á land gefi fullt tilefni til mótunar reglna um mat á því hvort og þá hvernig standa beri að slíkum flutningi. Tillaga þingflokks Alþýðubandalagsins snýr að hluta þessa máls, en mikilvægustu ættirnir eru þó ótaldir. Það er að skikka beri stjórnvöld til að láta fara fram mat á þeim kostnaðarauka sem leiða mun af slíkum flutningi fyrir opinbera aðlia. Jafnframt og ekki síður að meta þann aukakostnað sem fellur á þá sem sækja þurfa þjónustu til stofnunar sem flutt er af þéttbýlissvæði í fámenn sveitarfélög utan Reykjavíkursvæðisins.
    Það eru ýmsar leiðir mögulegar til þess að halda niðri lífskjörum þjóðar. Ein er sú að beita afli ríkisvaldsins til þess að hamla gegn eðlilegri þróun til þéttingar byggðar. Í því get­ur falist að landsmenn þurfi að gjalda óhagræðis pólitískra ákvarðana af þessum toga, bæði í auknum opinberum útgjöldum ríkis og sveitarfélags, sem og í auknum kostnaði einstakling­anna af samskiptum við umræddar stofnanir. Hvort tveggja rýrir kjör.
    Með vísan til framanritaðs teldi VSÍ gagnlegt ef settar yrðu formlegar reglur um það hvernig meta beri efnahagsleg áhrif pólitískra ákvarðana um að flytja þjónustustofnanir hins opinbera frá þeirra meginmarkaði þar sem landsmenn allir eiga greiðastan aðgang að.

Virðingarfyllst,
Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(22. janúar 1997.)

    Óskað hefur verið eftir umsögn miðstjórnar ASÍ um ofangreint mál. Miðstjórn ASÍ telur mjög mikilvæt að undirbúningur að flutningi stofnana ríkisins verði eins vandaður og mögu­legt sé, m.a. með hliðsjón af réttarstöðu starfsmanna viðkomandi stofnana. Því mælir mið­stjórn ASÍ með samþykkt þessarar tillögu.

Með kveðju,
Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur ASÍ.


Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga.
(27. desember 1996.)

    Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga tekur undir það sem kemur fram í tillögunni um nauðsyn þess fyrir byggðaþróun að dreifa verkefnum á vegum ríkisins um landið allt.
    Fjórðungssambandið bendir á nauðsyn þess að reglur um flutning séu þannig úr garði gerðar að framkvæmd á slíkum flutningi taki ekki of langan tíma.


Virðingarfyllst,
Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri.

Umsögn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.
(31. janúar 1997.)


    Á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 29. janúar 1997 var m.a. fjallað um bréf allsherjarnefndar Alþingis dags. 11. des. 1996, hvar óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um flutning ríkisstofnana, 17. mál.
    Samþykkt var að mæla með framgangi málsins.
    Um leið og ofangreindri ákvörðun er komið á framfæri er beðist velvirðingar á því að erindinu skuli ekki hafa verið svarað innan tilskilins frests.

F.h. SSA,
Bj. Hafþór Guðmundsson.


Umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands.
(24. janúar 1997.)

    Stjórn Lögmannafélags Íslands fól laganefnd félagsins að fara yfir og semja umsögn um tillögu til þingsályktunar um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana.
    Í þingsályktunartillögunni er m.a. lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að móta reglur um málsmeðferð við flutning ríkisstofnana milli landshluta. Í greinargerð er nánar rek­inn tilgangurinn með tillöguflutningnum og þau sjónarmið sem að baki búa.
    Laganefnd LMFÍ tekur undir þau grunnsjónarmið sem þingsályktunartillagan byggist á. Líklegt er að það sé til hagsbóta fyrir stjórnvöld, hlutaðeigandi starfsmenn hverju sinni og löggjafarvaldið sjálft ef til eru ákveðnar meginreglur um hvernig standa skuli að ákvörðun um og flutning opinberra stofnana milli landshluta. Slíkar reglur séu, ef vel tekst til um samn­ingu þeirra, til þess fallnar að eyða eða minnka óvissu um réttarstöðu opinberra starfsmanna vegna flutningsins.

Virðingarfyllst,
f.h. laganefndar LMFÍ,
Andri Árnason hrl., formaður.


Umsögn Eyþings – Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
(9. janúar 1997.)

    Stjórn Eyþings tók til umjöllunar ofangreinda þingsályktunartillögu á fundi sínum 8. janúar sl. Svofelld bókun var gerð:
    „Stjórn Eyþings varar við því að settar verði reglur sem á einhvern hátt torvelda flutning ríkisstofnana út á land.“
    Þetta tilkynnist hér með.

F.h. stjórnar Eyþings,
Hjalti Jóhannesson, framkvæmdastjóri.

Umsögn Vinnumálasambandsins.
(6. janúar 1997.)

(2 síður myndaðar Athugið pdf-skjalið.)

Virðingarfyllst,
f.h. Vinnumálasambandsins,
Árni Benediktsson, formaður.


Umsögn Byggðastofnunar.
(6. mars 1997.)

(2 síður myndaðar Athugið pdf-skjalið.)

Virðingarfyllst,
Guðmundur Malmquist,
Sigurður Guðmundsson.