Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
Prentað upp.

Þskj. 436  —  380. mál.
Nýtt fylgiskjal I.




Frumvarp til laga

um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir 24. gr. þessara laga er ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum, sbr. ákvæði um greiðsluþátttöku í eldri hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, til ársloka 2008. Þetta á við um framkvæmdir sem skilgreindar eru í siglingamálakafla samgönguáætlunar 2005–2008 og þær framkvæmdir sem koma inn í siglingamálakafla samgönguáætlunar 2007–2010 vegna endurskoðunar á áformum samgönguyfirvalda um að hafnir skuli jafnsettar á aðlögunartíma nýrra hafnalaga.
    Þrátt fyrir 26. gr. þessara laga er Hafnabótasjóði heimilt að veita styrk skv. 3. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 23/1994 fram til 1. janúar 2009.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram svo að aðlögun hafna að nýjum hafnalögum geti gengið sem best fyrir sig. Núverandi hafnalög gera ráð fyrir verulegum breytingum á styrkjum til hafna þegar á árinu 2007, sbr. bráðabirgðaákvæði II í sömu lögum. Margt mælir nú hins vegar með því að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði framlengdur hvað þetta varðar. Hér er þó ekki lagt til að breyting verði á fjárútlátum ríkissjóðs umfram það sem núgildandi áætlanir í ríkisfjármálum tiltaka því að miðað er við ákveðin skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins. Skilyrði þessi eru af tvennum toga.
    Hið fyrra miðast við hafnir sem af framkvæmdalegum orsökum telja hagfellt að fresta þegar ákveðnum framkvæmdum á samgönguáætlun 2005–2006 til áranna 2007–2008 án þess að styrkhlutfall breytist miðað við þrengri ákvæði nýrra hafnalaga. Fyrst skal bent á að nú þegar hefur verið ákveðið að leggja til frestun greiðslu 200 millj. kr. til hafnarframkvæmda í fjárlagafrumvarpi ársins 2006. Gert er ráð fyrir að þessi fjárhæð komi til baka á árinu 2007. Vegna þenslu í þjóðfélaginu, og þá sérstaklega á verktakamarkaði, og bágrar fjárhagsstöðu nokkurra hafnarsjóða hefur reynst erfitt að halda uppi þeim framkvæmdahraða í hafnargerð sem gildandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Erfitt er að fá verktaka til að vinna sérhæfð hafnargerðarverkefni og dæmi er um að ekkert tilboð hafi borist í verk sem boðið var út. Þá er algengt að verk hafi dregist sökum manneklu og að verktakar hafi ekki getað byrjað á umsömdum tíma á verkefnum þar sem þeir eru uppteknir í öðrum hafnargerðarverkefnum. Margir verktakar eru mjög ásettir og hefur verktökum sem bjóða í verk fækkað sem aftur hefur orðið til þess að tilboðsverð hefur hækkað. Augljós tengsl eru jafnframt við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, en frestun hafnarframkvæmda hefur æskileg áhrif á almenna þenslu sem á sér stað í þjóðfélaginu nú um þessar mundir. Allt þetta gerir það að verkum að hagfellt er að fresta ákveðnum framkvæmdum tímabundið með óskertu styrkhlutfalli.
    Seinna skilyrðið snýst um það að heimilt verði að beita þessu ákvæði gagnvart endurskoðun á áformum samgönguyfirvalda um jafnsetningu hafna í framkvæmdalegu tilliti á aðlögunartíma nýrra hafnalaga líkt og bráðabirgðaákvæði II í lögunum gerir beinlínis ráð fyrir. Jafnsetningin snýst um að þessi vatnaskil í styrkjum ríkissjóðs til hafnarframkvæmda komi með líkum hætti við hafnir. Forsenda þess að hægt sé að beita ákvæðinu er að við gerð samgönguáætlunar 2007–2010 liggi fyrir endurskoðuð áætlun um jafnsetningu hafna og þá með tilliti til staðalkrafna til viðkomandi hafnar og ástands hafnarmannvirkja. Í gildandi samgönguáætlun lúta flest jafnsetningarverkefnin að endurnýjun gamalla viðlegukanta, en sú endurnýjun sem nú á sér stað í fiskiskipaflotanum gerir ekki síður kröfur til að jafnsetningin nái til dýpis í höfn og innsiglingu. Þá má einnig nefna að í kjölfar sameiningar sveitarfélaga og breytinga á útgerðarmynstri á landsbyggðinni hafa óskir og áherslur nokkurra hafnarstjórna um endurbyggingarverkefni breyst frá því sem lagt var upp með við gerð samgönguáætlunar 2005–2008 og m.a. þess vegna þarf að endurskoða þá jafnsetningaráætlun sem fram kemur áætluninni. Enn og aftur kemur fram þessi mikli kraftur sjávarútvegsins til aðlögunar og breytinga sem aftur kallar á breytingar hjá höfnunum.
    Sökum þess að framkvæmdir hafa dregist, eins og áður hefur verið vikið að, liggur nú fyrir að um áramótin 2005/2006 mun standa inni í ríkissjóði ónotuð fjárveiting, sem ætluð var til hafnargerðar. Í frumvarpi þessu, og þeirri áætlun sem með því fylgir, er gert ráð fyrir að þessar ónotuðu fjárveitingar verði notaðar á næstu þremur árum í stað eins, sem er hagkvæmt fyrir ríkissjóð. Að óbreyttum hafnalögum yrði að vinna upp þessa seinkun árið 2006 til viðbótar við þau verkefni sem fyrir eru á áætlun ársins, en sýnt hefur verið fram á hér að framan að slíkt er einkar óhagkvæmt fyrir alla aðila. Með frumvarpi þessu er því lagt til að næstu þrjú ár (árin 2006, 2007 og 2008) verði notuð til að vinna upp umrædda seinkun og að auki verði tekin til endurskoðunar áætlun um þau jafnsetningarverkefni sem ólokið er.
    Samþykkt þessa frumvarps mun ekki þýða breytingar á fjárveitingum til hafnargerðar frá því sem segir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 og enn fremur við það miðað að á árum 2007 og 2008 verði fjárveitingar til siglingamála innan þess ramma sem settur er fram í kaflanum „Horfur í ríkisfjármálum næstu fjögur árin“ á bls. 399 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006. Heildarframkvæmdakostnaður 2006–2008 er áætlaður um 5.107 millj. kr., með virðisaukaskatti, og þar af er fjárveiting ríkissjóðs 1.920 millj. kr. en þá er ekki tekið tillit til frestaðra fjárveitinga frá árinu 2005.
    Í fylgiskjali I er tafla yfir framkvæmdir og áætlaða ríkisstyrki á árunum 2006–2008 sem miðast við að frumarp þetta verði samþykkt. Hér er í reynd verið að sýna öll þau verkefni sem áætlað er að komi fram í tillögu að samgönguáætlun 2007–2008 svo að það fari ekki milli mála. Sá fyrirvari er hér gerður að taka gæti þurft tillit til breyttra óska hafnarstjórna fram að samþykkt samgönguráætlunar 2007–2010. Þannig gæti þessi framkvæmdalisti tekið einhverjum breytingum, þó ekki þannig að heildarfjárhæðir breytist.
    Rétt er að geta þess að eftirtaldar hafnarframkvæmdir hafa fallið út frá fyrri áætlun: endurbygging aðalhafnargarðs á Akranesi í Faxaflóahöfn, uppsátur fyrir smábáta á Ólafsfirði, klæðning Gömlu bryggju í Austurbyggð og lenging stálþils á Djúpavogi.
    Nokkur verkefni hafa verið útvíkkuð með tilliti til jafnsetningar hafna, og þá út frá dýpi í innsiglingu og innan hafnar, frá því sem er gert ráð fyrir í samgönguáætlun 2005–2008. Gert er ráð fyrir að verði frumvarp þetta samþykkt liggi fyrir heimild Alþings um þessa nýju útfærslu á samgönguáætlun 2005–2008. Verkefnin sem um er að ræða eru: Dýpkun innsiglingar í höfnum Snæfellsbæjar, dýpkun við lengingu Löndunarbryggju á Vopnafirði og breikkun innsiglingarrennu í Grindavík.
    Að lokum er rétt að tiltaka að verði frumvarp þetta að lögum munu smærri hafnir sem falla undir b-lið 24. gr. núgildandi hafnalaga ekki njóta styrkhlutfalls samkvæmt þeirri grein fyrr en árið 2009. Í staðinn eiga þær möguleika á styrk úr B-deild Hafnabótasjóðs svo sem verið hefur.



Fylgiskjal I.


Samgönguáætlun 2005–2008, siglingamálakafli.
Tillaga að breytingum 2006–2008.


Sundurliðun framkvæmda í einstökum höfnum í grunnneti.
Skýringar við töflu: Frumáætlun Siglingastofnunar um heildarkostnað við framkvæmdir, virðisaukaskattur meðtalinn. Í aftasta dálki er þátttökuhlutfall ríkissjóðs sem reiknast af heildarkostnaði að frádregnum virðisaukaskatti. Verðlag er áætlað meðalverðlag ársins 2006.
Höfn 2006 2007 2008 Hlutur
    Verkefni millj. kr. millj. kr. millj. kr. ríkissj.
NORÐVESTURKJÖRDÆMI
Snæfellsbær
    Rifshöfn:
    Lokið endurbyggingu trébryggju (5x18 m) og rif á eldri bryggju (eftirstöðvar frá 2005) 23,6 60%
    Tengibrautir að hafnarvog frá Staurakistu og stálþili (800+1.630 m²), slitlag og lýsing 8,5 60%
    Lýsing við núverandi flotbryggju (ljósamasturshús 2x2, mastur og raflögn) 4,4 60%
    Stofndýpkun í innsiglingu og höfn (áætl. um 40 þús. m³ gröftur og 5 þús. m³ dælanlegt) 62,0 75%
    Ólafsvík:
    Breikkun þekju við Suðurþil úr 11 m í 20 m (810 m²) 8,0 60%
    Endurbygging grjótgarða, Suður- og Norðurgarður (endurraða og bæta í um 7.000 m³) 46,1 75%
    Stofndýpkun í höfn (áætlað 8 þús. m³) 16,0 75%
Grundarfjörður
    Stálþil sunnan Litlubryggju (br. 20 m, N.hl. 85 m, dýpi 6 m, S.hl. 60 m, dýpi 4 m), lagnir og þekja (1.700 m²) og rif á Litlubryggju 118,5 60,3 60%
    Dýpkun hafnar við nýja bryggju, smábátaaðstöðu og víðar (um 15.000 m³, dæling) 9,6 75%
    Smábátaaðstaða, uppsátur (15x30 m), flotbryggja (10 m), lýsing, vatns- og raflögn 12,2 60%
Stykkishólmur
    Stálþil Súgandisey, lagnir og þekja (700 m²) 10,2 60%
    Skipavík, ljósamasturs- og vatnshús 3,2 60%
    Bryggja við Árnasteina, léttbyggð trébryggja (30 m, dýpi 3 m – 16 m, dýpi 2,5m) 28,6 60%
Vesturbyggð
    Patreksfjörður:
    Innsigling lagfærð, dýpkun (um 4.000 m³) og grjótvörn (500 m³) á enda Oddans 17,5 75%
    Endurbygging stálþils, 1. áfangi, (140 m, dýpi 6–8 m, þekja 2.800 m²) 103,2 42,4 60%
    Endurbygging stálþils, seinni áfangi (140 m þil, dýpi 6 m, þekja 2.800 m²). 143,0 60%
Ísafjarðarbær
    Ísafjörður:
    Ásgeirsbakki, endurbygging þils frá 1955 (95 m, dýpi 8 m, þekja 1.900 m²) 27,5 41,4 60%
    Uppsátur fyrir smábáta (skáplan 5x20 m) 2,7 60%
    Ný flotbryggja Sundahöfn (40 m) 12,9 60%
    Bátahöfn við Olíumúla, lokið endurbyggingu 19,0 20,0 60%
    Dýpkun við Olíumúla (u.þ.b. 22.000 m³ – gröftur) 50,0 75%
    Viðhaldsdýpkun, innsiglingarrenna (áætlaðir efnisflutningar 2–3 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Bolungarvík
    Endurbygging stálþils efst við Brjótinn (100 m, dýpi 7 m), lagnir og þekja (2.000 m²) 81,0 41,6 60%
    Öldudempandi flái næst Brjót (100 m, um 3.000 m³) 9,5 75%
    Grundargarður, endurbygging á u.þ.b. 300 m kafla (24.000 m³) 32,4 75%
    Viðhaldsdýpkun, innsiglingarrenna (áætlaðir efnisflutningar 1–2 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Skagaströnd
    Endurbygging á plani og löndunarbryggju, stálþil (75 m, dýpi 7 m) og rif á löndunarbryggju 30,0 55,7 32,3 60%
    Lenging viðlegukants við hafnarvog, staurabryggja (40 m, dýpi 4 m) 31,0 60%
    Viðhaldsdýpkun, innsigling og höfn (áætlaðir efnisflutningar 2–3 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Skagafjörður
    Sauðárkrókur:
    Grjótgarður innan Norðurgarðs til suðvesturs, þvergarður (35 m – um 10.000 m³) 20,3 75%
    Smábátahöfn, endurbætur á aðstöðu smábáta – léttbyggð trébryggja (44 m, dýpi 3 m) 16,7 60%
    Smábátahöfn, endurbætur á aðstöðu smábáta – dýpkun við trébryggju (500 m³) 1,2 75%
    Viðhaldsdýpkun, innsigling og höfn (áætlaðir efnisflutningar 4–5 þús. m³/ár) – sjá óskipt
NORÐAUSTURKJÖRDÆMI
Siglufjörður
    Dýpkun við Óskarsbryggju (54.000 m², dæling) 33,0 75%
    SR-bryggja, kaup og niðurrif (um 1.000 m² bryggja) 23,7 60%
    Lenging skjólgarðs við Öldubrjót (80 m, um 35.000 m³ – þar af 15.000 m³ úr dýpkun) 37,0 75%
Hafnasamlag Eyjafjarðar
    Ólafsfjörður:
    Innsigling í Vesturhöfn, endurbygging og frágangur garðsenda 26,0 75%
    Viðhaldsdýpkun, innsigling og höfn (áætlaðir efnisflutningar 4–5 þús. m³/ár) – sjá óskipt
    Dalvík:
    Styrking grjótvarnar Suðurgarði og grjótflái við verbúð (8.000 m³), frestað 2004 22,0 75%
    Timburbryggja Suðurgarði, endurbygging (65 m), frestað 2004 46,0 60%
    Viðhaldsdýpkun, innsigling (áætlaðir efnisflutningar um 1 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Hafnasamlag Norðurlands
    Akureyri:
    Tangabryggja, lenging til norðurs (100 m, dýpi 11 m), lagnir og þekja (3.000 m²) 30,5 47,1 60%
    Ísbryggja ÚA, stálþil (70 m, dýpi 9 m), lagnir og þekja (1.600 m²) 25,0 33,2 29,4 60%
Húsavík
    Bökugarður, stálþil (130 m), lagnir og steypt þekja (3.900 m²) 80,7 60%
    Endurbygging bryggju Suðurgarði, 1. áfangi (150 m stálþil, dýpi 6–6,5 m), lagnir og þekja (2.600 m²) 121,8 47,9 60%
    Endurbygging Suðurgarði, 2. áfangi (60 m bryggja, dýpi 3,5 m) 56,0 60%
    Smábátahöfn, flotbryggja (30 m) og endurbygging trébryggju (40 m, dýpi 3 m) 11,0 22,0 60%
    Viðhaldsdýpkun, innsigling (áætlaðir efnisflutningar um 1 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Raufarhöfn
    Frágangur vegna niðurrifs á bryggjum, grjóthleðsla við hótel Norðurljós (120 m) 4,6 60%
    Bryggja fyrir björgunarbát, frágangur (trédekk, handrið og fenderklæðning) 3,7 60%
    Slitlag á smábátagarð (u.þ.b. 1.500 m² klæðning) 4,0 60%
    Breikkun þekju (10x55 m steypt) og tengibraut að löndunarbryggju (800 m² klæðning) 8,4 60%
Þórshöfn
    Endurbygging löndunarbryggju, stálþil (67 m), lagnir og þekja (1.500 m²) 24,6 60%
    Lenging Norðurgarðs (50 m, um 15.000 m³) 41,0 75%
    Hafskipabryggja, endurbygging, stálþil (135 m, dýpi 6,5–8 m) 30,0 110,0 60%
Vopnafjörður
    Miðbryggja – Löndunabryggja, stálþil, lagnir og þekja (3.240 m²) 67,0 60%
    Dýpkað í 10 m að Miðbryggju eftir endurbyggingu og stækkun (viðbót 2.400 m² spr.) 30,0 75%
    Ásgarður, endurnýjun staura í trébryggju og steypukants á stálþili 16,0 60%
Seyðisfjörður
    Bæjarbryggja, endurbygging (40 m staurabryggja, dýpi 7 m) 15,5 60%
    Bryggja við bræðslu endurbyggð (40 m, dýpi 8,5 m), lýsisbryggja breikkuð (100 m²) og 2 einbúar 44,5 60%
    Ferjulægi, sérbúnaður (frágangur þjónustuhúss) 5,0 75%
    Austurendi Bjólfsbakka, stálþil (7 m, dýpi 6 m og gaflþil – frestað 2004) 10,6 60%
Fjarðabyggð
    Neskaupstaður:
    Skjólgarður norðan hafnar, byggður í áföngum (alls um 155.000 m³), lokaáfangi 24,7 75%
    Stálþil við Togarabryggju lengt (78 m, dýpi 9 m), lagnir og þekja (2.700 m²) 40,0 60%
    Stálþil við bræðslu lengt (52 m, dýpi 9 m) 50,1 60%
    Reyðarfjörður
    Stóriðjuhöfn Mjóeyri, verklok stálþils, lagnir og þekja (11.400 m²) 124,0 60%
    Stóriðjuhöfnin, siglingarmerki Stórhólma 3,0 10,0 75%
    Hafnsögubátur (15 t togkraftur, LOA um 20 m – tölur án vsk.) 112,0 30,0 75%
Djúpivogur
    Smábátaaðstaða, trébryggja endurbyggð og lengd (5x24 m), lagnir og lýsing 10,0 33,1 60%
    Dýpkað við þil í Gleðivík í 7 m (um 2.000 m²) frestað 2004 5,2 75%
SUÐURKJÖRDÆMI
Hornafjörður
    Stofndýpkun innan hafnar (47.000 m³, að hluta klöpp) 33,8 75%
    Bátstangabryggja, staurabryggja (40 m, dýpi 8 m), lagnir og lýsing 32,8 60%
    Endurnýjuð raflögn á Austur- og Suðurfjöru og lýsing á Hlein 8,7 75%
    Bryggja við vogarhús, endurbygging, harðviðarbryggja (50 m, dýpi 4 m) 47,0 60%
    Sandfangari út í Einholtskletta og styrking grjótvarnar á Suðurfjöru (um 70.000 m³) 70,0 72,0 75%
    Viðhaldsdýpkun í höfn (áætlaðir efnisflutningar 25 þús. m³/ár) – sjá óskipt
    Viðhaldsdýpkun á Grynnslum eftir stofndýpkun (áætlaðir efnisflutningar 60 þús. m³/ár en minna eftir byggingu sandfangara) – sjá óskipt
Vestmannaeyjar
    Básaskersbryggja, endurbygging, norður- og austurkantur, stálþil (210 m, dýpi 4–8 m), lagnir og þekja (5.200 m²) 156,8 88,0 60%
    Viðhaldsýpkun í innsiglingu og höfn (áætlaðir efnisflutningar 10–12 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Þorlákshöfn
    Þil norðan Svartaskers (250 m, dýpi 5–9 m), lagnir og þekja (7.000 m²) 81,0 55,0 60%
    Dýpkun í vestur-, austur- og smábátahöfn í 2–8 m (dæling um 118.000 m³, grafið 47.000 m³) 104,0 35,0 75%
    Byggjurif, rifinn fremsti hluti Norðurvararbryggju (um 25.000 m³ steypuker) 90,0 60%
    Aðstaða fyrir smábáta í austurhöfn, færð flotbryggja, lýsing o.fl. 4,9 60%
    Viðhaldsdýpkun í innsiglingu og höfn (áætlaðir efnisflutningar 8–10 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Grindavík
    Dýpkun og breikkun innri rennu (u.þ.b. 25.000 m³ spr./fleygað og grafið) 70,0 75%
    Svíragarður, endurbygging, lagnir og þekja (4.000 m³) 70,0 60%
    Stálþilsbryggja vestan Miðgarðs (100 m, dýpi 9 m) 50,0 69,0 47,0 60%
    Nýr hafnsögubátur (togkraftur 12 t, LOA <15 m) smíðaverð án vsk. 62,0 75%
Sandgerði
    Dýpkun í suðurhöfn við flotbryggjur, dýpkað í 3 m (um 15.000 m³ dæling) 11,2 75%
    Flotbryggja (40 m, kostnaður án fingra) 12,9 60%
Reykjanesbær
    Festipollar við vestur- og austurenda viðlegu í Helguvík (tveir 100 t pollar) 4,0 60%
ÓSKIPT
    Viðhaldsdýpkanir og viðhald skjólgarða 76,8 130,9 184,2 75%
    Til slysavarna o.fl. (styrkhæfni 40%–75%, meðaltal áætlað 60%) 25,0 21,7 30,0 60%
    Ferjulægi Bakkafjöru – rannsóknir 10,0 100%
    
Áætlaður heildarkostnaður í grunnneti samtals 1.855,6 1.472,8 1.217,1
Þar af vsk. 343,1 283,9 227,3

Sundurliðun framkvæmda í einstökum höfnum utan grunnnets.
Skýringar við töflu: Frumáætlun Siglingastofnunar um heildarkostnað við framkvæmdir, virðisaukaskattur meðtalinn. Í aftasta dálki er þátttökuhlutfall ríkissjóðs sem reiknast af heildarkostnaði að frádregnum virðisaukaskatti. Verðlag er áætlað meðalverðlag ársins 2006.
Höfn 2006 2007 2008 Hlutur
    Verkefni millj. kr. millj. kr. millj. kr. ríkissj.
NORÐVESTUR KJÖRDÆMI
Snæfellsbær
    Arnarstapi:
    Viðhaldsdýpkun (áætlaðir efnisflutningar 800–1.000 m³/ár) – sjá óskipt
Dalabyggð
    Gamla bryggjan Búðardal, endurbyggð kanttré, þybbur, stigar og þekja (130 m² – frestað 2004) 3,7 60%
    Skarðsstöð, lagfærð löndunaraðstaða, steypt plan (50 m²) við löndunarkrana o.fl. 1,0 60%
Reykhólar
    Dýpkun, innsigling, 40 m breið í 4 m og innan garðs í 2 m (dælt 20.000 m³) 6,7 75%
    Grjótvarnargarður norðaustan við höfnina, lengd u.þ.b. 200 m (18.000 m³) 41,0 75%
    Smábátaaðstaða, flotbryggja (20 m) 6,8 60%
    Viðhaldsdýpkun í höfn og innsiglingu (áætlaðir efnisflutningar um 1 þús. m³/ár) – sjá óskipt
Vesturbyggð
    Brjánslækur:
    Færð flotbryggja og endurbyggð legufæri (frestað 2004) 4,1 60%
    Bíldudalur:
    Stálþil við kalkþörungaverksmiðju (80 m, dýpi 10 m), lagnir og þekja (2.400 m²) 37,3 60%
    Dýpkun við þil (1.000 m³) 4,1 75%
Tálknafjörður
    Lagfærðir stigar á stálþili og sett í þá lýsing 2,3 60%
    Endurnýjun á flotbryggjum (27 m og 37 m) 16,5 60%
    Gamla bryggja endurbyggð, stálþil utan með bryggjuhluta 2, 3 og 4 (140 m, dýpi 6 m) 110,0 60%
Ísafjarðarbær
    Þingeyri:
    Rifin gamla trébryggjan við ytri hafnargarð og gengið frá kanti (frestað 2004) 5,6 60%
    Dýpkun í smábátahöfn (um 3.000 m³) 6,1 75%
    Suðureyri:
    Stækkun smábátahafnar, dýpkun (4.000 m³ – frestað 2004) 7,8 75%
    Stækkun smábátahafnar, flotbryggja (30 m – frestað 2004) 9,0 60%
    Dýpkun innsiglingarrennu í 5 m (10.000 m³, dæling) 8,7 75%
Súðavík
    Suðurgarður, endurbyggð grjótvörn innan á garði á 100 m kafla 3,3 75%
    Harðviðarbryggja við Frosta, lenging til norðurs (35 m, dýpi 6 m) 45,2 60%
    Viðhaldsdýpkun við hafnarmynni (áætlaðir efnisflutningar um 1.000 m³/ár) – sjá óskipt
Norðurfjörður
    Uppsátur fyrir smábáta (skáplan 5x20 m) 3,2 60%
Drangsnes
    Drangsnesbryggja, grjótvörn í kverkina utan á bryggju (um 1.000 m³) 4,3 75%
    Drangsnesbryggja, endurbyggð þekja við krana og fram á enda bryggju (um 280 m²) 3,2 60%
    Flotbryggja Kokkálsvík endurnýjuð (40 m) 9,9 60%
Hólmavík
    Bætt aðstaða smábáta, flotbryggja – frestað 2004 7,3 60%
Húnaþing vestra
    Hvammstangi:
    Dýpkað í smábátahöfn (um 5.000 m³ – grafið frá landi) 6,1 75%
    Dýpkun hafnar í 5–6 m og innsigling í 7 m, sprengt að hluta (5.000 m²) 20,9 75%
Blönduós
    Endurbyggð steypt þekja efst á bryggju (950 m²) 9,8 60%
Skagafjörður
    Hofsós:
    Flotbryggja út frá Árgarði, 12 m 4,7 60%
    Norðurgarður, bryggjuveggur grjótvarinn (um 80 m – grjótvörn 2.500 m³) 6,0 60%
    Haganesvík:
    Viðhaldsdýpkun við bryggju (áætlaðir efnisflutningar um 200 m³/ár) – sjá óskipt
NORÐAUSTURKJÖRDÆMI
Hafnasamlag Norðurlands
    Hjalteyri:
    Viðhaldsdýpkun við bryggju (áætlaðir efnisflutningar um 400 m³/ár) – sjá óskipt
    Svalbarðseyri:
    Rifin trébryggja og lengdur grjótgarður, u.þ.b. 25 m (2.500 m³) 6,9 60%
    Trébryggja (10 m, dýpi 3 m) 5,4 60%
Grímsey
    Styrking grjótvarnar á hafnargarði, grjót úr landi (300 steinar 6–10 t – frestað 2004) 14,0 75%
    Lenging harðviðarbryggju (20 m, dýpi 3 m) 19,0 60%
    Dýpkað við lengingu harðviðarbryggju í 2 m (15x20 m svæði) 6,5 75%
    Steypt þekja við harðviðarbryggju og flotbryggju (1.500 m²) 18,2 60%
Bakkafjörður
    Lenging steyptrar skábrautar (u.þ.b. 5x5 m) og grjóthleðsla – seinkað (móti námufrágangi) 2,6 60%
Borgarfjörður eystri
    Lenging Nýjubryggju í átt að Hólma (12 m, dýpi 3 m) 4,2 60%
Mjóifjörður
    Styrking og endurbygging trébryggju 6,9 60%
Hafnasamlag Austur-Héraðs og Fella
    Hafnaraðstaða Lagarfljóti, undirbúningsframkvæmdir 5,0 60%
Breiðdalsvík
    Endurbygging brimvarnargarðs 16,0 75%
ÓSKIPT
    Viðhaldsdýpkanir og viðhald skjólgarða 7,8 10,2 22,7 75%
    Til slysavarna o.fl. (styrkhæfni 60%–90%, meðaltal áætlað 75%) 5,0 8,0 8,0 75%
Áætlaður heildarkostnaður utan grunnnets samtals 132,9 101,5 326,6
Þar af vsk. 26,2 20,0 64,3
    
Áætlaður heildarkostnaður alls innan og utan grunnnets 1.988,5 1.574,3 1.543,7
Samtals 2006–2008 5.106,5


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.


    Markmiðið með frumvarpinu er að gera höfnum kleift að aðlaga sig betur að nýjum hafnalögum. Með frumvarpinu verður höfnum, með skilyrðum, gert kleift að fresta framkvæmdum tímabundið með óskertu styrktarhlutfalli. Einnig að heimilt verði að beita heimildarákvæðinu gagnvart endurskoðun á áformum samgönguyfirvalda um jafnsetningu hafna. Hér er þó ekki átt við að breyting verði á fjárútlátum ríkissjóðs umfram núgildandi áætlanir í samgönguáætlun.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.