Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 624. máls.

Þskj. 917  —  624. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Orðin „efnis- og“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „220.000“ í 3. tölul. 4. gr. laganna kemur: 500.000.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði 2. mgr. þessarar greinar skulu einnig gilda um skattskylda byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð skv. 2. mgr. 3. gr.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Fjármálaráðherra getur sett nánari reglur í reglugerð um mat til verðs samkvæmt þessari grein eða falið það ríkisskattstjóra.

4. gr.

    Í stað orðsins „tíu“ í 5. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: tuttugu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmark virðisaukaskattsskyldrar sölu á ársgrundvelli verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laganna eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu. Það er frumforsenda fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá að starfsemi sé í atvinnuskyni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt segir um 3. tölul. 4. gr. að tilgangur ákvæðisins sé að undanþiggja mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem eingöngu er rekin í hjáverkum eða stöku sinnum og að þetta helgist fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum.
    Einn meginþátturinn sem horft er til við mat á því hvort um atvinnustarfsemi er að ræða er umfang starfsemi. Umfangslítil starfsemi bendir til þess að ekki sé um atvinnustarfsemi að ræða. Segja má að veltumarkið feli í sér vísbendingu um það hvað umfangið þurfi að vera mikið til að um atvinnustarfsemi sé að ræða. Út frá því sjónarmiði má segja að ákvörðun veltumarks sé öðrum þræði skattatæknileg, þ.e. markar hugtakið atvinnustarfsemi í skattalegu tilliti.
    Núgildandi lágmarksveltuákvæði hefur staðið óbreytt í lögunum frá 1. júlí 1997, þegar fjárhæðin var lögbundin og afnumin vísitölubundin hækkun sem gilti fyrir þann tíma. Ef núgildandi veltumark er fært upp á verðlag dagsins í dag, miðað við vísitölu neysluverðs frá 1. júlí 1997, er það 300.622 kr.
    Samsvarandi skilyrði um lágmarksveltu eru sem hér segir á Norðurlöndunum (í íslenskum krónum): Danmörk 494.588 kr., Finnland 624.655 kr. og Noregur 439.103 kr. Engin slík lágmarksskilyrði eru í Svíþjóð. Er því íslenska veltumarkið töluvert lægra en í nágrannalöndum okkar, að Svíþjóð undanskilinni.
    Með hliðsjón af hagkvæmnisástæðum, atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. laganna og fyrirkomulagi í nágrannalöndum er því með frumvarpi þessu lagt til að lágmarksveltuákvæði laganna verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr.
    Í öðru lagi er lagt til með frumvarpi þessu að leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir verði lengt úr tíu árum í tuttugu ár. Reynslan af þessu ákvæði hefur sýnt að tíu ára leiðréttingarskylda innskatts varðandi fasteignir er of stutt tímabil. Auk þess er áformað að gera breytingu á reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem lengdur verði sá tími sem aðilar sem stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi geti verið með svokallaða fyrir fram skráningu á virðisaukaskattsskrá. Er gert ráð fyrir að sá tími verði lengdur úr sex árum í tólf ár. Gangi áform þróunar- eða undirbúningsstarfs ekki eftir, þannig að ekki komi til eiginlegrar virðisaukaskattsskyldrar starfsemi, ber hinum fyrir fram skráða m.a. að leiðrétta fenginn innskatt vegna framkvæmda við fasteignir. Skylda til leiðréttingar varir í 10 ár frá því að framkvæmdir áttu sér stað og skal leiðrétting vera hlutfallsleg miðað við leiðréttingartímann. Með tvöföldun tímalengdar fyrirframskráningar getur komið til þess, verði ekkert að gert, að leiðréttingartími verði liðinn þegar á leiðréttingarskyldu reynir. Er það andstætt þeim sjónarmiðum sem búa að baki reglum um fyrirframskráningu og leiðréttingu innskatts. Er því nauðsynlegt samhliða þessari breytingu að lengja tímabil leiðréttingarskyldu á innskatti varðandi fasteignir, þar sem eðlilegt þykir að það tímabil sé talsvert lengra en tímabil mögulegrar fyrirframskráningar.
    Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði smávægilegar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna er varða byggingarstarfsemi. Unnið hefur verið að einföldun reglna um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi um nokkurt skeið. Í þessari vinnu hefur sérstök áhersla verið lögð á það að reglur um skattverð, útskatt og innskatt í virðisaukaskattsskyldri byggingarstarfsemi verði settar fram með skýrari og einfaldari hætti en nú er. Til þess að ná fram þeirri einföldun og samræmingu sem að er stefnt er nauðsynlegt að gera nokkrar smávægilegar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að aðilar sem stunda byggingastarfsemi og mannvirkjagerð á eigin kostnað þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt (útskatt) af efnisnotkun, hvort sem byggt er til sölu, leigu eða til eigin nota. Við útreikning virðisaukaskatts í byggingarstarfsemi sem skattskyld er skal miða skattverð við almennt gangverð í viðskiptum. Afar erfitt er að henda reiður á hvert almennt gangverð er á byggingarefni í viðskiptum í dag. Hefur þessi regla því reynst erfið í framkvæmd. Er með greininni því lagt til að ekki þurfi að greiða útskatt af efnisnotkun. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að eigi verði heimilt að innskatta byggingarefni.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að lágmark virðisaukaskattsskyldrar sölu á ársgrundvelli verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr. Ákvæðið hefur staðið óbreytt frá 1. júlí 1997, þegar fjárhæðin var lögbundin og afnumin vísitölubundin hækkun sem gilti fyrir þann tíma. Eins og gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum er þessi hækkun lögð til með hliðsjón af hagkvæmnisástæðum, atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. laganna og fyrirkomulagi í nágrannalöndum.

Um 3. gr.


    Breyting sú sem lögð er til í a-lið greinarinnar leiðir af 1. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. 8. gr. laganna er talað um „skattskyldar vörur“. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að aðilar sem stunda byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á eigin kostnað þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt (útskatt) af efnisnotkun en það byggingarefni mun falla undir þær skattskyldu vörur sem talað er um í 3. mgr. 8. gr. laganna. Þarf því að breyta greininni þessu til samræmis.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að fjármálaráðherra geti sett nánari reglu um mat til verðs skv. 8. gr. laganna eða falið það ríkisskattstjóra. Í dag er þetta í höndum ríkisskattstjóra og tvær auglýsingar um setningu reglna á grundvelli þess ákvæðis verið gefnar út, auglýsing nr. 8/1994 frá ríkisskattstjóra, um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi, og auglýsing nr. 17/1996, um reglur um skattverð aðila sem hafa með höndum starfsemi samkvæmt reglugerðum nr. 562/1989, 564/1989 og 248/1990. Er gert ráð fyrir að með nýrri reglugerð um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, sem sett yrði ef breytingar samkvæmt þessari grein yrðu samþykktar, verði auglýsing nr. 8/1994 óþörf þar sem hin nýja reglugerð muni einnig taka yfir gildissvið auglýsingarinnar. Er hér því lagt til að fjármálaráðherra geti kveðið á um nánari reglur um mat til verðs í reglugerð.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir verði lengt úr tíu árum í tuttugu ár. Eins og greinir frá í almennum athugasemdum hefur reynslan sýnt að tíu ára leiðréttingarskylda innskatts varðandi fasteignir er of stutt tímabil. Auk þess er áformað að gera breytingu á reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem lengdur verði sá tími sem aðilar sem stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi geti verið með svokallaða fyrirframskráningu á virðisaukaskattsskrá. Samhliða þessari breytingu er nauðsynlegt að lengja tímabil leiðréttingarskyldu á innskatti varðandi fasteignir, þar sem eðlilegt þykir að það tímabil sé talsvert lengra en tímabil mögulegrar fyrirframskráningar.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Verði frumvarpið að lögum hefur það óveruleg áhrif á bæði tekjur og útgjöld ríkisssjóðs.