Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 528  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2007.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Við 3. umræðu um fjárlög fyrir árið 2007 leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að útgjöld verði lækkuð um 96 millj. kr. Að stærstum hluta er um að ræða lækkun á framlagi til Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna minni fjölgunar á umsóknum en gert var ráð fyrir. Ekki eru lagðar til breytingar á tekjuhlið og því mun áætlaður tekjuafgangur aukast um áðurnefnda fjárhæð og verða 9,1 milljarðar kr. Tekjuafgangurinn hefur því lækkað um 6,4 milljarða kr. frá því að frumvarpið var lagt fram.

Breytingartillögur.
    Minni hluti fjárlaganefndar leggur til tvær breytingar við 3. umræðu, annars vegar tillögur um hækkun frítekjumarks atvinnutekna elli- og örorkulífeyrisþega í 70.000 kr. á mánuði en við 2. umræðu voru tillögur stjórnarandstöðunnar um að frítekjumörkin yrðu 75.000 kr. á mánuði felldar. Nú er tillögunni breytt í þeirri von að stjórnarmeirihlutinn geti frekar samþykkt að frítekjumarkið verði 70.000 kr. á mánuði í stað 25.000 kr. Hins vegar er lagt til að skilað verði aftur þeim 5 milljörðum kr. sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur verið skertur um á undanförnum árum. Upphæðinni verði varið til úrbóta í búsetu- og umönnunarmálum aldraðra. Þá eru tekjutillögur minni hlutans frá 2. umræðu endurfluttar.

Gjöld.
    Gjöld ríkissjóðs eru nú áætluð 367,3 milljarðar kr. og hafa þau aukist um 16,7% frá fjárlögum ársins 2006. Gjöld hafa verið lækkuð frá frumvarpinu um rúman 1 milljarð kr. vegna þess að breytingar á virðisaukaskatti eru taldar leiða til þess að verðbólga verði um 3% á næsta ári í stað 4,5% eins og áætlað var í frumvarpinu.
    Ef eingöngu er miðað við fjárlög hefur rekstur ríkisins á árunum 2002–2005 farið að meðaltali 21,1 milljarði kr. fram úr heimildum fjárlaga eins og þau voru samþykkt hverju sinni. Á sama tímabili hefur verið sótt að meðaltali um 15 milljarða kr. í fjáraukalögum. Þessar tölur sýna í hnotskurn hvernig haldið hefur verið á ríkisfjármálum undanfarin ár.
    Í umræðum hér á Alþingi um fjáraukalög og fjárlög nú í haust hefur margoft komið fram að verulegur fjöldi ríkisstofnana á við fjárhagsvanda að etja. Fæstar þeirra fá lausn sinna mála í þessu frumvarpi. Þessar stofnanir þurfa því að skerða þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita samkvæmt lögum eða auka enn fjárhagsvanda sinn. Engar upplýsingar fást um hvað veldur, hvort um er að kenna vanmati á fjárþörf viðkomandi stofnana eða stjórnunarvanda. En verst er að fjárhagsvandinn er ekki viðurkenndur og þess vegna er ekki fundin lausn á honum. Það er fráleitt að halda mörgum stofnunum í fjárhagslegri gíslingu í mörg ár eins og dæmi eru um. Þá er ekki síður mikilvægt að skoða fjármál þeirra stofnana sem virðast auka fjárheimildir sínar jafnt og þétt. Allar stofnanir ríkisins á að reka sem næst núlli, þ.e. þær eiga hvorki að safna skuldum né inneignum hjá ríkissjóði. Vissulega geta einstök verkefni flust á milli ára en meginmarkmiðið er þó ætíð hið sama.
    Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum harðlega gagnrýnt framkvæmd fjárlaga án þess að framkvæmdarvaldið hafi brugðist við. Einnig má segja að Alþingi hafi brugðist skyldu sinni með því að samþykkja fjárlög vitandi það að fjölmargar stofnanir búa við verulegan rekstrarvanda eins og fram hefur komið m.a. hjá formanni fjárlaganefndar.

Tekjur.

    Nú eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 376,4 milljarðar kr. sem er 12,5% aukning frá fjárlögum ársins 2006. Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs á næsta ári. Í meginatriðum ganga tillögurnar út á það að fella niður vörugjöld af matvælum, öðrum en sykri og sætindum, að öll matvara og önnur vara til manneldis beri 7% virðisaukaskatt í stað 14% og að áfengisgjald verði hækkað um 58% til að vega upp tekjumissi sem felst í því að lækka virðisaukaskatt á áfengi úr 24,5% í 7%. Talið er að þessar breytingar leiði til 8,7 milljarða kr. lækkunar á ríkistekjum á næsta ári. Það er hins vegar mjög óljóst hvort þessi markmið náist.
    Félag íslenskra stórkaupmanna og Samtök iðnaðarins hafa nú þegar lýst andstöðu við hækkun áfengisgjalds. Félag íslenskra stórkaupmanna telur það fullkomlega óásættanlegt að lauma inn verðhækkun á áfengi í söluhæsta flokknum á sama tíma og virðisaukaskattur er lækkaður. Þetta leiði til hækkunar neysluverðsvísitölu og þar með verðbólgu. Þetta gerist þrátt fyrir það að í frumvarpinu sé skýrt tekið fram að þessar breytingar eigi ekki að leiða til hækkunar. Svo illa eru þessar tillögur undirbúnar að fjármálaráðherra hefur í raun viðurkennt að þær séu ekki fullunnar því að strax við 1. umræðu um þær lagði hann til að þeim yrði frestað.
    Þessar breytingar kalla líka á öflugt verðlagseftirlit af hálfu yfirvalda ef ná á fram þeim áhrifum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Vitað er að undirliggjandi er verulegur verðbólguþrýstingur, sérstaklega í matvælaversluninni eftir óvægin verðstríð undanfarinna missira. Það er því nauðsynlegt að verðlagsyfirvöld standi vaktina í þessum efnum.
    Tekjuhlið ríkissjóðs á næsta ári er háð mörgum óvissuþáttum og hefur ekki verið jafnbrothætt í mörg ár. Þegar við bætist að fjármálaráðuneytið ætlar ekki að gefa út nýja þjóðhagsspá fyrr en í janúar 2007 eykst óvissan því að tekjuhliðin er verulega háð ýmsum þáttum efnahagslífsins eins og spá um einkaneyslu og kaupmátt ráðstöfunartekna. Ljóst er að ríkisstjórnin verður að fylgjast mjög vel með þróun ríkissjóðstekna á næsta ári og vera tilbúinn að grípa til viðeigandi aðgerða.

Gagnsæi.

    Gagnsæi er gríðarlega mikilvægt þegar taka á þýðingarmiklar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða einkaaðila eða ríkisaðila. Samþykkt fjárlaga er stærsta einstaka fjármálaákvörðunin sem hver ríkisstjórn tekur og því mikilvægt að slík ákvörðun sé tekin á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga. Því miður hefur svo ekki verið undanfarin ár þegar fjallað hefur verið um ríkisfjármálin og þá sérstaklega fjárlög. Þau hafa verið afgreidd án tengsla við fortíð eða nútíð og aðallega byggt á óskhyggju varðandi framtíðina. Þannig hafa lokafjárlög síðasta árs ekki legið frammi og í fjáraukalögum hafa oft verið liðir sem beinlínis eiga heima í fjárlögum. Fjárlög hafa því ekki tekið mið af raunverulegu rekstrarumfangi ríkisins heldur ímynduðu umfangi sem aldrei hefur staðist. Þetta hefur leitt til þess að fjárlög njóta ekki þeirrar virðingar hjá framkvæmdarvaldinu sem nauðsynleg er til að fjármálastjórn hins opinbera sé trúverðug.
    Skýrt dæmi um þetta er að daginn fyrir lokaumræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 fer fram 1. umræðu um viðamikið frumvarp um vörugjald, virðisaukaskatt og gjald af áfengi og tóbaki í tengslum við lækkun matarskatts. Þetta frumvarp, sem er ótrúlega seint fram komið, hefur mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs og þegar hafa komið fram miklar efasemdir um þá útreikninga á áhrifum þess sem birtast í frumvarpinu. Ekki liggja fyrir umsagnir hagsmunaaðila og ef frumvarpið tekur breytingum í meðförum Alþingis hefur það áhrif á fjármál ríkisins. Í raun ætti að fresta 3. umræðu um fjárlög þar til frumvarpið hefur verið samþykkt. Annað flokkast undir ófagleg vinnubrögð sem ekki er nýtt í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Efnahagsmál.

    Sú venja skapaðist þegar Þjóðhagsstofnun annaðist efnahagsspá fyrir stjórnvöld að gefin var út endurskoðuð þjóðhagsspá fyrir 3. umræðu fjárlaga sem iðulega hafði áhrif á tekjuhlið fjárlaga. Eftir að fjármálaráðuneytið tók við þessu verkefni hefur endurskoðuð þjóðhagsspá verið gefin út í janúar. Nú var eingöngu gerð afmörkuð endurskoðun á spánni í tengslum við frumvarp um lækkun matarskatta og vegur þar þyngst að spá um verðbólgu á næsta ári er lækkuð úr 4,5% í 3%. Þetta þýðir að verði verulegt frávik frá fyrri spám í janúar hefur það áhrif á nýsamþykkt fjárlög, ekki síst tekjuhliðina.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um stjórn ríkisfjármála hjá núverandi ríkisstjórn. Allt kjörtímabilið hefur einkennst af mikilli þenslu sem stjórnvöld hafa ekki geta unnið gegn með aðhaldsamri stjórn ríkisfjármála. Fram undan eru aðstæður sem geta reynst hættulegar í efnahagslegu tilliti. Jafnframt því sem hægir á hagkerfinu er næsta ár kosningaár sem oft hvetur ríkisstjórn sem óttast úrslit kosninga til að taka „vinsælar“ ákvarðanir á kostnað skynseminnar.

Aldraðir og öryrkjar.
    Þessarar ríkisstjórnar verður sennilega helst minnst fyrir að elda grátt silfur við þá þjóðfélagshópa sem minnst mega sín, þ.e. samtök aldraðra og öryrkja. Þessi ófriður gekk svo langt að öryrkjar fóru í mál við ríkið. Það má segja að þeir hafi tapað því máli vegna tæknilegra mistaka. Hverjum hefði dottið það í hug að undirskriftir ráðherra væru ekki meira virði en pappírinn sem þær voru á. Öldruðum hefur verið haldið í fátæktargildru og hafi þeir getað aflað sér aukatekna hefur ríkisvaldið m.a. endurkrafið þá um ,,ofgreiddar“ bætur af ótrúlegri hörku. Þá hafa búsetumál þessara þjóðfélagshópa setið á hakanum og hefur Framkvæmdasjóður aldraðra m.a. verið skertur um 5 milljarða kr. og hefur hann því ekki geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu.
    Annað sem nefna má eru vandamál ungs fólks sem er að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Mikil hækkun á fasteignaverði skerti möguleika þeirra til vaxtabóta verulega. Vegna þessa gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu 22. júní sl. þar sem hún „lýsir sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kemur við niðurstöður álagningar í ágúst nk. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefur leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum“. Í breyttum lögum um vaxtabætur er eignastuðulinn hækkaður um 30%. Þetta telur ASÍ algerlega ófullnægjandi enda beri að skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að finna eigi leiðir til að gera þá sem verða fyrir marktækri skerðingu nokkurn veginn jafnsetta og ef ekki hefði komið til þessi mikla hækkun fasteignamats. Þessu markmiði er ekki náð með breytingunum og telur ASÍ því að um vanefndir sé að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Eftirmæli ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili varðandi málefni þeirra sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni eru því heldur nöturleg.

Lokaorð.
    Ríkisstjórnarmeirihlutinn er orðinn þreyttur og farinn að kröftum. Það stafar hins vegar ekki af miklum afrekum heldur er ástæðan þvert á móti fyrst og fremst valdþreyta og hugmyndaskortur. Núverandi ríkisstjórnar verður m.a. minnst fyrir virðingarleysi gagnvart fjárlögum og agaleysi við stjórn ríkisfjármála. Væntanleg fjárlög fyrir árið 2007 eru því miður enn eitt dæmið um slík vinnubrögð ríkisstjórnarmeirihlutans.

Alþingi, 5. des. 2006.


Helgi Hjörvar,

frsm.

Einar Már Sigurðarson.

Guðjón A. Kristjánsson.


Jón Bjarnason.

Katrín Júlíusdóttir.