Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 528  —  256. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um tekjuöflun ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Vilhjálm Egilsson, Hannes G. Sigurðsson og Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Elínu Björgu Jónsdóttur og Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna, Jón Steindór Valdimarsson og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Þór Ásgeirsson frá ÍSAL, Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli, Gunnar Jónsson hrl. fyrir hönd Alcoa Fjarðaáls, Gunnar H. Sigurðsson frá Sementsverksmiðjunni, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Árna Gunnarsson, Ernu Hauksdóttur og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Birki Hólm Guðnason og Björgólf Jóhannsson frá Icelandair, Matthías Imsland og Bjarna Jónsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árna Bjarnason og Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Friðrik Jón Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Sigríði Ósk Sigurðardóttur frá ÁTVR, Andrés Magnússon og Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Finn Oddsson og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Almar Guðmundsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Guðjón Rúnarsson og Helgu Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Braga Gunnarsson frá Nýja Landsbankanum, Tönyu Zharov frá Auði Capital, Örn Gústafsson frá Okkar lífi, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Hrafn Magnússon og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Marinó G. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Unnar Stefánsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Kristjönu H. Guðmundsdóttur frá Félagi eldri borgara í Kópavogi, Helga K. Hjálmsson og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Guðmund Magnússon og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Karl Björnsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Gunnarsson, Markús Möller, Þórarin Gunnar Pétursson og Þorvarð Tjörva Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Svein Agnarsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Axel Hall frá Háskólanum í Reykjavík, Þóri H. Ólafsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Friðgeir Sigurðsson og Elínu Árnadóttur frá PriceWaterhouseCoopers hf., Völu Valtýsdóttur og Garðar Valdimarsson frá Deloitte hf., Sigurð Jónsson, Alexander Eðvardsson og Sigurjón Pál Högnason frá KPMG, Árna Stefánsson og Gunnar Birgisson frá Vífilfelli, Ingvar J. Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Runólf Birgi Leifsson, Sigurð Grétarsson og Rögnu Haraldsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Stefán Skjaldarson frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Eddu Símonardóttur frá tollstjóra og Barböru Wdowiak og Magdalenu Láru Gestsdóttur frá Félagi viðurkenndra bókara.
    Þá bárust umsagnir og athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bílum og fólki ehf., Bændasamtökum Íslands, Deloitte hf., Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna sameiginlega, Félagi ferðaþjónustubænda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Félagi viðurkenndra bókara, Fjármálaeftirlitinu, fjármálaráðuneytinu, Guðmundi Tyrfingssyni ehf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Háskólanum í Reykjavík, Íbúðalánasjóði, Jafnréttisstofu, Kauphöll Íslands, KPMG hf., Landssambandi eldri borgara, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva sameiginlega, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi veiðifélaga, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lýðheilsustöð, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Olíuverslun Íslands hf., Orkustofnun, Orkuveitu Húsavíkur, Persónuvernd, PriceWaterhouseCoopers hf., Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi garðyrkjubænda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtök iðnaðarins o.fl. (SA, SI, SART, SFF, LÍÚ, SAF, SF, SVÞ) sameiginlega, Seðlabanka Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Skattstofu Suðurlandsumdæmis, Skattstofu Vestfjarðaumdæmis, Skattvís slf., Skeljungi hf., Strætó bs., SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, tollstjóranum í Reykjavík, Tónastöðinni, Tryggingastofnun ríkisins, Umhverfisstofnun, Viðskiptaráði Íslands, Vínbúðinni – ÁTVR og Æðarræktarfélagi Íslands.
    Markmið stjórnvalda í ríkisfjármálum gera ráð fyrir að áhersla sé meiri á niðurskurð en tekjuöflun, þ.e. 55% á móti 45%. Á fundum nefndarinnar var gagnrýnt að stjórnvöld legðu of mikinn þunga á skattahækkanir til að ná markmiðunum og að gögn skorti um hvort heimili og fyrirtæki hefðu burði til að standa undir þeim. Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu væri sú hætta til staðar að skattstofnar mundu dragast saman við auknar álögur vegna neikvæðra áhrifa á eftirspurn.
    Í eftirfarandi umfjöllun verður gerð grein fyrir þeim þáttum frumvarpsins sem nefndin ræddi helst en í grófum dráttum lúta þeir að tvennu, annars vegar tekjuöflun ríkisins og hins vegar rekstrarumhverfi fyrirtækja.

1. Tekjuöflun ríkisins.
Þrepaskiptur tekjuskattur.
    Í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að tekið verði upp þrepaskipt tekjuskattkerfi. Um er að ræða grundvallarbreytingar sem felast í þremur skattþrepum með stighækkandi skatthlutföllum. Með þessari breytingu er stefnt að sanngjarnari skattlagningu þar sem reynt er að vernda tekjulægri hópa. Að jafnaði miðast tekjuskattsstofn við tekjur einstaklinga en jafnframt er heimild fyrir ákveðnum tilfærslum milli samsköttunaraðila. Í frumvarpinu er lagt til að tenging persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs verði afnumin, sbr. b-lið 15. gr. Jafnframt verður fallið frá þeim hækkunum sem áttu að eiga sér stað í upphafi árs 2010 og 2011, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXII í tekjuskattslögunum. Á móti kemur hækkun á persónuafslættinum í 530.446 kr., sbr. a-lið 15. gr. frumvarpsins.
    Í máli umsagnaraðila komu fram skiptar skoðanir um upptöku þrepaskipts tekjuskattskerfis. Fögnuðu m.a. Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eflingu á jöfnunarhlutverki og uppbyggingu á réttlátara skattkerfi. Aftur á móti var einnig varað við flækjustigi þessara tillagna sem mundi leiða til mikilla eftirágreiðslna, innheimtuhlutfall mundi lækka og sú skylda að launamaður skuli tilkynna atvinnurekanda hvaða skatthlutfalli hann tilheyrði væri erfiðleikum bundin og í sumum tilfellum ómöguleg. Enn fremur var bent á að hin fulla samsköttun á tekjur samskattaðra aðila yrði rofin en bætur yrðu eftir sem áður miðaðar við samanlagðar tekjur.
    Töluverðar athugasemdir voru gerðar við afnám vísitölubindingar persónuafsláttar við neysluverð og á það bent að kaupmáttur almenns launafólks hefði lækkað í kjölfar verðbólgu. Enn fremur var því haldið fram að hækkun tekna þeirra hefði að óbreyttum lögum orðið meiri enda væri í frumvarpinu fallið frá hækkun persónuafsláttarins árin 2010 og 2011 samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í tekjuskattslögum. Á móti var bent á að hækkun persónuafsláttar kæmi öllum launamönnum jafnt til góða, óháð efnahag, en ekki aðeins þeim tekjulægstu og að þrepaskiptur tekjuskattur væri betra tæki til tekjudreifingar.
    Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur jafnframt til að skatthlutfall þrepa verði tengt við launavísitölu en þó einungis til hækkunar.
    Meiri hlutinn gerir enn fremur breytingu sem ætlað er að koma til móts við þá samsköttuðu aðila sem mögulega eiga rétt á millifærslu í samræmi við ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga þannig að heimilt verði að endurgreiða ofgreidda staðgreiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fyrir álagningu opinberra gjalda. Gert er ráð fyrir að heimild til endurgreiðslu verði bundin við tiltekið lágmark og hámark og er það gert í varúðarskyni þar sem við framtalsgerð og álagningu koma oft á tíðum fram skattskyldar tekjur sem eru undanþegnar staðgreiðslu. Jafnframt er gert ráð fyrir að réttur til endurskoðunar verði ekki virkur fyrr en á síðasta ársfjórðungi staðgreiðsluársins þegar ljóst þykir að sameiginlegar tekjur samskattaðra aðila muni verða innan viðmiðunarmarka og er það í samræmi við gildandi framkvæmd.

Afnám sjómannaafsláttar í áföngum.
    Í 25. gr. frumvarpsins er kveðið á um afnám sjómannaafsláttar. Er lagt til að hann fari stiglækkandi á næstu árum og verði síðast veittur við álagningu 2014 vegna tekjuársins 2013. Í athugasemdum með frumvarpinu eru færð þau rök að sjómenn búi við aðrar aðstæður en áður og að mikilvægt sé að tryggja jafna stöðu atvinnugreina.
    Á fundum nefndarinnar kom fram mikil andstaða af hálfu aðila sjávarútvegarins sem telja rökin fyrir sjómannaafslættinum enn vera í fullu gildi vegna erfiðra vinnuaðstæðna til sjós og langrar fjarveru frá heimili. Jafnframt kæmi afnám fullrar samsköttunar á tekjur samsköttunaraðila sér einkar illa fyrir sjómannsfjölskyldur þar sem annar aðilinn hefði ekki kost á öðru en að vera heimavinnandi. Rétt er að benda á að fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna eru tilbúnir til viðræðna við stjórnvöld um upptöku annars konar fyrirkomulags og var í því sambandi rætt um dagpeningagreiðslur sem ýmsar starfsstéttir njóta.

Tryggingagjald.
    Í 39. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði hækkað um 1,6% svo að hægt sé að mæta auknum útgjöldum sjóðsins. Gjald þetta hefur verið breytilegt og tekið mið af atvinnuástandi í landinu. Einnig er ljóst að auka þarf tekjur sjóðsins vegna áætlaðs viðvarandi atvinnuleysis næstu árin.
    Sumir telja að hækkun tryggingagjalds sé skaðlegt fyrir atvinnustig vegna fyrirsjáanlega aukins kostnaðar launagreiðenda. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins gerðu hins vegar ekki athugasemdir við þessa hækkun heldur vísuðu til stöðugleikasáttmálans og töldu að hækkunina mætti leiða af lögum um tryggingagjald.

Tekjuskattur lögaðila.
    Kveðið er á um hækkun tekjuskatts á lögaðila í a- og b-lið 18. gr. frumvarpsins. Er lagt til að tekjuskattur skattskyldra aðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., þ.m.t. hlutafélög og einkahlutafélög, hækki úr 15% í 18%. Jafnframt er mælt fyrir um að skattskyldir aðilar skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 5. gr., þ.m.t. samlagsfélög og sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila o.fl., greiði 32,7% tekjuskatt í stað 23,5% líkt og nú.
    Fram kom í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífisins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fjármálafyritækja, Landssambands íslenskra útvegsmanna o.fl. gagnrýni á fyrrgreinda breytingu og telja þeir hana raska samhengi á milli nafnhlutfalla hinna ólíku rekstrarforma. Þá var athygli vakin á því að tekjuskattur lögaðila væri almennt kvikur skattstofn en meiri hlutinn fellst ekki á það sjónarmið að með hækkun tekjuskattsprósentu um 3% sé höggvið nærri þeim mörkum í alþjóðlegu tilliti.

Skattlagning gengishagnaðar af innlánsreikningum.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting er varðar það hvernig reikna skuli gengishagnað af innlánsreikningum til tekna. Í athugasemdum er tekið fram að ekki sé um að ræða efnisbreytingu heldur aðeins umorðun á greininni. Á fundum nefndarinnar komu hins vegar fram athugasemdir um að gildandi regla væri óframkvæmanleg.
    Fulltrúar ríkisskattstjóra viðurkenndu að misbrestur hefði verið á að þessi tegund gengishagnaðar væri talin fram í framkvæmd. Í ljósi lagaskyldu fjármálafyrirtækja um að veita embættinu upplýsingar um innstæður á bankareikningum og áforma í 35. gr. frumvarpsins um að telja innleystan gengishagnað til staðgreiðsluskyldra vaxtatekna mætti þó búast við að þetta stæði til bóta auk þess sem fyrirtækin hefðu yfir að ráða fullkominni tölvutækni til að halda utan um inn- og útborganir á innlánsreikningum. Aftur á móti var fallist á athugasemdir um að erfitt væri í framkvæmd að finna tækt viðmið til útreiknings á gengishagnaði
    Að fengnum ábendingum ríkisskattstjóra og að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti leggur meiri hlutinn til að gengishagnaður verði skattlagður á þeim tímapunkti sem hann verður til óháð úttekt eða innlausn svo sem gert er hjá rekstraraðilum. Tekin verður þannig upphafsstaða innlánsreiknings í ársbyrjun 2010 eða við innlögn á því ári og umreiknuð í íslenskar krónur og lokastaða í árslok, eða við úttekt innan ársins, og umreiknuð í íslenskar krónur. Jákvæður mismunur þessara fjárhæða í íslenskum krónum telst skattskyldar tekjur.
    Meiri hlutinn leggur til að breytingin komi til framkvæmda við staðgreiðslu árið 2010 og að þess verði gætt að henni verði ekki beitt með afturvirkum hætti, þ.e. um gengishagnað sem er áfallinn til og með 31. desember 2009.
    
Fjármagnstekjuskattur einstaklinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli hækka úr 10% í 18%, sbr. b-lið 14. gr.
    Á fundum nefndarinnar kom fram sú gagnrýni að vextir hefðu undanfarið ekki haldið í við verðlagsþróun og að áhrif hækkunar skattsins gætu haft verulega neikvæð áhrif á sparnað. Aðrir bentu á að misræmi væri til staðar í skattlagningu fjármagnstekna og launatekna og væri eðlilegt að draga úr þeim mun.

Auðlegðarskattur.
    Í 25. gr. frumvarpsins er kveðið á um upptöku auðlegðarskatts. Er um að ræða tímabundinn 1,25% skatt á eignir manna að frádregnum skuldum sem eru yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingum en 120 millj. kr. hjá samsköttunaraðilum. Lagt er til að skatturinn verði lagður á við álagningu 2010, 2011 og 2012. Við ákvörðun skattlagningarstofns hlutabréfa er lagt til að reynt verði að taka mið af raunverulegu verðmæti hlutabréfanna. Gerður er greinarmunur á því, við mat á skattlagningarstofninum, hvort hlutabréfaeignin sé í félagi sem er skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði eða ekki. Sé hlutafélagið skráð skal miða við markaðsverðmæti í lok viðmiðunarárs en ef hlutafélagið er ekki skráð skal miða við hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags. Ákvæðið gerir enn fremur ráð fyrir því að allir framteljendur geri grein fyrir eign sinni í hlutafélögum og einkahlutafélögum með þessum hætti.
    Á fundum nefndarinnar hefur komið fram mikil gagnrýni á áður nefnt ákvæði og framkvæmd þess, til að mynda í máli fulltrúa endurskoðendafyrirtækja sem benda á að einstaklinga skorti fullnægjandi forsendur til að meta raunvirði félaga sem þeir eiga eignarhluti í.
    Meiri hlutinn telur rétt, með tilliti til framkominnar gagnrýni, að leggja til breytingar á greininni. Með þeirri tillögu sem hér er sett fram er lagt til að lögaðilum sem eiga hlut í öðrum félögum verði gert að telja þann eignarhlut sinn fram miðað við raunvirði annaðhvort miðað við markaðsvirði ef um félög er að ræða sem skráð eru á opinberum hlutabréfamarkaði eða hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé. Með þessari breytingu verður framtal manna bæði einfaldara og réttara enda verður þá búið að taka tillit til raunvirðis eignarhluta félags í öðrum félögum. Mönnum er síðan gert að telja fram eignarhlut sinn í félögum í samræmi við framanritað.
    Álagning opinberra gjalda á menn fer fram í lok júlí ár hvert en á lögaðila í lok október. Raunvirði eignarhluta í félögum liggur þannig oft ekki fyrir þegar framtalsfresti manna lýkur. Við frumálagningu verður því einungis unnt að ákvarða skattstofn á grundvelli nafn- eða stofnverðs eignarhluta í félögum. Af þeim sökum er lagt til að mönnum verði gert að telja þann hluta eigna sinna í félögum sem er umfram nafnvirði eða stofnverð fram í skattframtölum 2011, 2012 og 2013 vegna eignarhluta í árslok 2009, 2010 og 2011. Auðlegðarskattsstofn verður þannig endurákvarðaður og auðlegðarskattur endurreiknaður sérstaklega samhliða almennri álagningu skattsins vegna næstliðins árs, að teknu tilliti til raunvirðis eignarhluta í félögum og viðmiðunarmarka. Með þessu móti getur komið til þess að auðlegðarskattur ákvarðist í álagningu 2013 vegna eignar í árslok 2011.

2. Rekstrarumhverfi fyrirtækja og fleira.
Skattlagning arðs sem launatekna.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að þegar heimil úthlutuð arðgreiðsla fari yfir tiltekin mörk skuli tilgreindir skattaðilar reikna sér til tekna sem laun 50% af þeim arði sem umfram er. Nánar tiltekið er átt við það þegar arðsúthlutun fer yfir 20% af skattalega bókfærðu eigin fé og móttakanda arðsins ber stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald. Ákvæðinu er ætlað að koma á meiri festu í framkvæmd reglna um reiknað endurgjald og bæta um leið sveitarfélögum tekjumissi sem þau hafa orðið fyrir á liðnum árum vegna yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélagaformið.
    Í minnisblaði ríkisskattstjóra sem sent var nefndinni í tilefni af athugasemdum umsagnaraðila kemur fram að með hugtakinu skattalega bókfærðu eigin fé sé átt við það eigið fé sem fram kemur í skattframtali, þ.e. mismunur á eignum og skuldum. Einnig kemur fram að í skattframkvæmd liggi fyrir ítarlegar upplýsingar um það hverjum beri að reikna sér endurgjald. Meiri hlutinn fellst á sjónarmið skattyfirvalda sem telja að ákvæðið sé vel framkvæmanlegt og til þess fallið að stemma stigu við misnotkun einkahlutafélagaformsins. Meiri hlutinn er heldur ekki sammála athugasemdum um að ákvæðið vinni óeðlilega gegn uppsöfnun eigin fjár í slíkum félögum.

Skattlagning afleiðna.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sérregla um skattalega meðferð afleiðusamninga verði afnumin, en hún gildir aðeins um afmarkaðan þátt afleiðuviðskipta, sbr. álit efnahags- og skattanefndar við afgreiðslu laga nr. 38/2008. Af hálfu ríkisskattstjóra hefur verið lögð áhersla á að samræmi sé í skattlagningu afleiðna óháð undirliggjandi verðmætum en aðrir hafa lagt áherslu á að umræddri afmörkun verði viðhaldið. Meiri hlutinn fellst á sjónarmið ríkisskattstjóra og leggur til að sams konar orðalag og í 4. gr. frumvarpsins falli brott úr 9. tölul. a 31. gr. laganna.

Skattlagning lífeyrisgreiðslna.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ef mótframlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda fer yfir 2 millj. kr. á ári skuli það sem umfram er teljast launþega til tekna, þó ekki lægri fjárhæð en kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags kveða á um. Gildir einu hvort launagreiðandi greiðir til öflunar skyldubundinna réttinda eða séreignar. Með þessari breytingu er ætlunin að einfalda gildandi ákvæði 5. tölul. 28. gr. tekjuskattslaganna með því að miða við tiltekna fjárhæð. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að viðmiðunarfjárhæðin sé það rúm að hún snerti ekki við eðlilegum greiðslum af þessu tagi. Þá kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að gildandi viðmið hafi ekki verið nægjanlega virkt í skattframkvæmd vegna þess hve flókið það er. Þannig hafa launþegar komist upp með að semja um há mótframlög úr hendi vinnuveitenda án þess að það reiknist þeim til tekna.
    Á fundum nefndarinnar kom fram töluverð gagnrýni á þessa breytingu. Var bent á að greinin viðhéldi ákveðinni mismunun á skattlagningu mótframlags eftir því hvort einstaklingar byggðu laun sín á kjarasamningum eða einstaklingsbundnum ráðningarkjörum. Þannig þurfi tekjuháar starfsstéttir, sem byggja laun sín á kjarasamningum, ekki að sæta skattlagningu mótframlags á meðan aðrir einstaklingar, oft með nokkuð lægri tekjur, sæti skattlagningu. Jafnframt var bent á að breytingin gæti leitt til þess að þeir aðilar sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð eða hafa stutta starfsævi hafi ekki færi á að afla sér sambærilegra lífeyrisréttinda og aðrir. Einnig þyrftu þeir einstaklingar sem standa utan kjarasamninga og fá greitt yfir 2 millj. kr. í mótframlag á ári að sæta tvísköttun á hluta mótframlags síns.
    Meiri hlutinn telur rétt að koma til móts við framangreinda gagnrýni og leggur til að mótframlag launagreiðanda teljist til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni fara fram úr 12% af iðgjaldsstofni auk 2.000.000 kr. á ári.

Frádráttarbærni arðs og hagnaðar á milli félaga.
    Í b- og c-lið 7. gr. frumvarpsins eru lögð til frekari skilyrði fyrir frádrætti arðs og söluhagnaðar félaga. Hvað arðinn varðar bætast við tvö ný, annars vegar að frádráttur skuli því aðeins heimill að yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað og hins vegar að móttakandi arðs eigi í lok árs sem arður er greiddur a.m.k. 10% í þeim lögaðila sem greiðir arðinn. Hvað söluhagnað hlutabréfa varðar er nú þegar í lögunum skilyrði um að yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað en með frumvarpinu er bætt við samhljóða skilyrði varðandi 10% hlut í viðkomandi lögaðila.
    Í athugasemdum frumvarpsins er tillaga þessi rökstudd með vísan til þess að verið sé að gæta samræmis við reglur ESB um móður- og dótturfélög. Sætti sá rökstuðningur gagnrýni af hálfu Samtaka atvinnulífsins og fleiri umsagnaraðila sem jafnframt bentu á að tillagan væri til þess fallin að takmarka dreifða eignaraðild í félögum. Meiri hlutinn bendir á að skattfrelsi arðs og söluhagnaðar í höndum félaga er ekki óumdeild ráðstöfun og vísar í því sambandi til umsagna sem fram komu við meðferð laga nr. 38/2008.
    Meiri hlutinn leggur til að gildistöku 1. efnismálsl. b-liðar og efnismálsliðar c-liðar 7. gr. verði frestað til 1. janúar 2011.

Skuldsettar yfirtökur.
    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að vextir af skuldum, sem stofnað er til í þeim tilgangi að yfirtaka fyrirtæki með þeim hætti að fyrirtækin sjálf fjármagni kaup hluthafanna eða beinar úttektir þeirra úr fyrirtækjunum, séu ekki frádráttarbærir frá tekjum. Í athugasemdum frumvarpsins er útskýrt hvers vegna skattyfirvöld álíta þessa reglu vera hluta gildandi réttar. Athygli nefndarinnar hefur einnig verið vakin á því að yfirvöldin hafa nú þegar til meðferðar mál þar sem tekist er á um tilvist reglunnar. Eins og hér háttar til telur meiri hlutinn, að gættum sjónarmiðum um afturvirkni, eðlilegra að viðeigandi úrskurðaraðilar skeri úr þessu. Leggur meiri hlutinn því til að 8. gr. frumvarpsins falli brott.
    Meiri hlutinn bendir á að komið hafa fram sjónarmið þess efnis að reglur um þunna eiginfjármögnun vanti hér á landi og bent hefur verið á að endurskoða þurfi m.a. ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög. Einnig kann innleiðing slíkra reglna að kalla á breytingar á tekjuskattslögum.

Tekjudreifing – eigin atvinnurekstur.
    Í 12. gr. frumvarpsins eru lögð til sú breyting að afnema heimild þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og selja þjónustu til að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70%. Í athugasemdum kemur fram að ákvæðið sé barn síns tíma og taki til fárra einstaklinga og seldrar þjónustu í þröngum skilningi. Það hafi því falið í sér ákveðna mismunun.
    Á fundi nefndarinnar voru gerðar athugasemdir við brottfall þessarar heimildar. Um mikilvæga heimild sé að ræða, sér í lagi nú þegar erfitt getur verið að fá greiddar útistandandi kröfur. Eins þykir rökstuðningurinn fyrir afnámi heimildarinnar, þ.e. að um eins konar sérreglu sé að ræða, skjóta skökku við þar sem eftir stendur mun þrengri regla sem heimilar tekjudreifingu milli ára hjá þeim sem selja eigin verk.

Takmörkuð skattskylda.
    Í 17. gr. frumvarpsins eru skýrð tengsl 70. gr. tekjuskattslaga við 3. gr. laganna sem varða skatthlutfall aðila með takmarkaða skattskyldu. Var það almennt mat gesta sem nefndin ræddi við að breytingin væri til mikillar einföldunar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. des. 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.



Ögmundur Jónasson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.