Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 570  —  200. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Þjóðhagslegar forsendur fjárlaga hafa breyst mikið frá þjóðhagsspá sem var birt í júní síðastliðinn. Nú er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,9% á næsta ári í stað 3,2%. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá kemur fram að fjárfesting mun dragast saman um allt að 10,3% frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2011. Samdráttur þessi stafar fyrst og fremst af því að ekki er lengur gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík árið 2012. Innlend eftirspurn mun dragast saman um 1,6% og útflutningur um 0,8% frá fyrri spá, sjá töflu. Drifkraftar hagvaxtar virðast því verða afar veikir á næsta ári og lítið má út af bregða til að allt fari á verri veg. Fjárlagafrumvarpið virðist því allt hvíla á hnífsegg.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Athygli vekur að þrátt fyrir að þjóðhagsforsendur séu nú mun verri en í júní er því spáð að atvinnuleysi muni dragast saman um 1%. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfesting verði mun minni en gert var ráð fyrir í spánni frá í júní og hefur ekki verið lægri á lýðveldistímanum. Enn meiri athygli vekur að gert er ráð fyrir að kaupmáttur breytist óverulega og er það vegna hagstæðari verðlagsforsendna. Þannig var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að meðalverðbólga yrði 3,5% á næsta ári en nú er gert ráð fyrir hún verði 2,3%. 1. minni hluti telur þessa spá tæpast ganga upp. Verri þjóðhagsforsendur ættu að leiða til meiri samdráttar í eftirspurn en hér er gert ráð fyrir.

Áhrif verri þjóðhagsforsendna á frumvarp til fjárlaga.
    Áhrif lakari þróunar efnahagsstarfseminnar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu hefur mikil áhrif á ríkissjóð. Það er mat Samtaka atvinnulífsins að breyttar þjóðhagsforsendur leiði til 6,1 milljarðs kr. verri afkomu ríkissjóðs en ella, sjá töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) er svartsýnni á hagvöxt en Hagstofa Íslands en hagvaxtarspá OECD fyrir næsta ár hljóðar upp á 1,5% sem er um 0,4% lægra en endurskoðuð spá Hagstofu Íslands. Vegna þessa metur OECD það svo að tekjur ríkissjóðs á næsta ári séu ofmetnar um 15 milljarða kr. Þá spáir Evrópusambandið því að hagvöxtur verði einungis um 0,7% á næsta ári. Ef sú spá rætist er ljóst að ástand ríkisfjármála yrði mun verra en hér er gert ráð fyrir. Miðað við sömu forsendur og áður yrðu skatttekjur ríkissjóðs allt að 27 milljörðum kr. lægri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Minni hagvöxtur mun setja tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins úr skorðum og þar með tekjuhlið þess. Ljóst er að bregðast verður við verri horfum ef halda á áætlun um umskipti í ríkisfjármálum. Það verður að gera með því að leggja áherslu á breikkun skattstofna. Auknar skattaálögur eða enn frekari niðurskurður munu festa efnahagslífið enn frekar í þeim vítahring sem það er í núna. Því varar 1. minni hluti við því að gripið verði til vanhugsaðra ráðstafana og býður um leið fram krafta sína við að ná tökum á ástandinu. Einnig er lífsnauðsynlegt að leggja áherslu á að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins. Rétt er að taka fram að ekki er fjallað hér um áhrif minni hagvaxtar á útgjaldahlið frumvarpsins.

Langtímaáhrif minni framleiðslugetu.
    Langtímaáhrif af minnkandi framleiðslugetu íslenska hagkerfisins virðast vera vanmetin. Undanfarin tvö ár hafa um 22.500 störf tapast á vinnumarkaði. Um 13.000 einstaklingar eru nú atvinnulausir. Hver atvinnulaus leiðir til um 3 millj. kr. verri afkomu ríkissjóðs vegna bótagreiðslna og minni skatttekna og gæti afkoma ríkissjóðs því versnað um allt að 29 milljarða kr. Um 9.500 einstaklingar hafa horfið af vinnumarkaði, þeir hafa sest í helgan stein, farið á örorkubætur, flutt til útlanda eða farið í skóla. Minni fjárfesting og minnkandi vinnumarkaður hefur óhjákvæmilega í för með sér minni framleiðslugetu íslenska hagkerfisins til lengri tíma. Því er líklegt að óbreyttu að langtímahagvöxtur verði minni en ef hægt hefði verið að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins og þar með verði grunnur ríkisrekstrar mun veikari enn menn hafa hingað til viljað viðurkenna. Jafnframt er hér komin skýring á því af hverju atvinnuleysi hefur ekki orðið jafn mikið á Íslandi og spáð var haustið 2008. Fólk hefur í miklum mæli horfið af vinnumarkaði. Þetta er ógnvænleg þróun að mati 1. minni hluta og full ástæða til að leita allra leiða til að snúa þessari þróun við. Þá ber að geta þess, þótt möguleikinn sé e.t.v. langsóttur, að ef framleiðslugetan minnkar mikið er hætta á að strax komi til framleiðsluspennu ef hagvöxtur tekur við sér af krafti með tilsvarandi háum vöxtum sem enn slær á möguleikann til að vinna upp tapaðan hagvöxt, sjá nánar álit 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar í fylgiskjali II.

Áhrif skattahækkana ríkisstjórnarinnar.
    Skattbyrði hefur þyngst um a.m.k. 60 milljarða kr. á ári vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar ef tillögur þessa frumvarps ná fram að ganga. Þessar skattahækkanir hafa dregið mátt úr heimilum og fyrirtækjum og nú er svo komið að skattstofnar eru farnir að dragast saman vegna mikillar skattbyrði. Brýnt er að þessari þróun verði snúið við til að hægt sé að auka umsvif á ný, endurheimta skattstofna og auka kaupmátt og lífskjör í landinu.
    Gert er ráð fyrir að nýir og hækkaðir skattar skili um 8,1 milljarði kr. í auknar tekjur á næsta ári. Það er gert ráð fyrir að skatttekjur vegna úttektar á séreignarsparnaði verði 3 milljarðar kr., sjá töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjármagnstekjuskattur.
    Lögð er til hækkun á fjármagnstekjuskatti, úr 18% í 20%. Áætlað er að hækkunin muni skila 1.500 millj. kr. í auknar tekjur fyrir ríkissjóð á næsta ári. Þetta er þriðja hækkun þessa skatts á örskömmum tíma. Skatturinn var hækkaður úr 10% í 15% þann 1. janúar 2009 og í 18% þann 1. janúar 2010. Skatturinn hefur því tvöfaldast á einungis tveimur árum ef hækkunin sem nú er lögð til nær fram að ganga. Eitt af grundvallarlögmálum skattahagfræðinnar er að skatthlutföllum skuli halda sem stöðugustum til að halda óvissu um skattaframkvæmd í lágmarki. Þrjár hækkanir á tveim árum getur tæpast talist skynsamleg skattaráðstöfun.
    Fjármagnstekjuskattur er lagður á nafnávöxtun fjármagns, þ.e. raunvexti að viðbættri verðbólgu. Þetta leiðir til þess að þegar verðbólga er mikil, eins og verið hefur undanfarin ár, þá heggur skatturinn í höfuðstólinn, þ.e. hann rýrnar að raungildi. Sem dæmi má nefna að ef raunvextir eru 1% og verðbólga 6% á ársgrundvelli þá leiðir 20% fjármagnstekjuskattur sem lagður er á nafnvexti til þess að höfuðstóll rýrnar um 0,33% að raunvirði en 2,53% ef verðbólga er 20%. Varpa má fram þeirri spurningu hvort það geti verið að slík skattlagning höfuðstóls sé skerðing á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Miklar fjármagnstekjur leiða til þess að þjóðhagslegur peningalegur sparnaður minnkar vegna minni arðsemi sem aftur leiðir til hægari uppbyggingar fjármagnsstofns en ella og þar með hagvaxtar til lengri tíma (sjá nánar kaflann um tekjuskatt lögaðila). Sparifjáreigendur flýja með sparifé sitt í eignir sem ekki eru skattlagðar eða eignir sem liggja utan hefðbundinna markaða. Jafnframt er hætta á að fjármagn muni streyma úr landi ef gjaldeyrishöft verða afnumin. Því leiða háir skattar á fjármagn til þess að erfiðara verður en ella að afnema gjaldeyrishöft. Mikilvægt er að hverfa af braut síhækkandi skatta á fjármagn þannig að þjóðhagslegur sparnaður minnki ekki.

Tekjuskattur lögaðila.
    Lagt er til að tekjuskattar lögaðila verði hækkaðir í annað sinn á rétt rúmu ári, úr 15% sem hækkað var í 18% og núna í 20%. Endurtekin hækkun leiðir, eins og áður er nefnt, til aukinnar óvissu. Þetta er þvert á viðbrögð þeirra þjóða sem verst hafa orðið úti í fjármálakreppunni – þjóða þar sem stjórnmálamenn skilja að ekki er hægt að skattleggja sig út úr kreppu. Þannig hafa Írar lýst því yfir að ekki komi til greina að hækka tekjuskatt fyrirtækja, en hann er nú 12% þar í landi. Írar hafa þvert á móti auglýst í alþjóðlegum miðlum að þeir muni ekki hækka þessa skatta í þeirri von að laða að erlent fjármagn. Þá hyggjast Grikkir lækka tekjuskatt fyrirtækja til að freista þess að erlend fjárfesting aukist. Meðalskatthlutfall fyrirtækja í ESB er nú 23,5%. Með því að hækka tekjuskatt fyrirtækja færast Íslendingar nær því sem gengur og gerist í Evrópu og missa með því forskot sitt hvað varðar skattalegt hagræði. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir erlenda fjárfestingu og lýsir vel þeirri helför sem ríkisstjórnin er á þegar kemur að skattamálum.
    Hækkun skatta á fyrirtæki leiðir til þess að arðsemi þeirra minnkar og verðmæti hlutafjár minnkar. Þannig letja háir skattar fjárfestingu áhættufjárfesta sem leiðir til þess að sneiðist um áhættufjármagn sem aftur leiðir til minni fjárfestingar og færri starfa. Þetta er þvert á það sem stjórnvöld segjast stefna að en Grikkir og Írar skilja. Myndin sýnir samband tekjuskatts lögaðila og verðmætis hlutafjár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af myndinni má sjá að 0% tekjuskattur hefur engin áhrif á verðmæti hlutafjár – hlutfallslegt verðmæti er 100%. Eftir því sem skatturinn hækkar minnkar verðmæti hlutafjárins. Þannig leiðir t.a.m. 40% tekjuskattur til þess að verðmæti hlutafjár verður 60% af því sem það væri ef skatturinn væri 0%.
    Með því að notfæra sér þetta samband verðmætis hlutafjár og tekjuskatts á hagnað fyrirtækja má sjá að hækkun tekjuskatts úr 10% í 20% leiðir til þess að verðmæti hlutafjár lækkar um 11%. Ef síðan fjármagnstekjuskattur er hækkaður úr 15% í 20% lækka hlutabréf vegna þess um 5% til viðbótar. Hækkun á tekjusköttum fyrirtækja og á fjármagnstekjuskatti lækka því verðmæti hlutafjár um 16%. Þessi lækkun endurspeglar minni arðsemi hlutafjár og minni hvata til að fjárfesta í atvinnustarfsemi sem aftur speglast í minni fjármagnsstofni, minni hagvexti og að lokum lakari lífskjörum og verri afkomu ríkissjóðs. Þetta eru afleiðingar skattastefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
    Ein af grunnsetningum alþjóðahagfræðinnar er setning bandaríska hagfræðingsins Arnold Harberger um áhrif skattlagningar hagnaðar fyrirtækja á þjóðarhag. Rannsókn sem Martin Feldstein framkvæmdi sýnir með því að nota niðurstöðu Harberger að landsframleiðsla á mann minnkar um 15%–40% ef skattur á hagnað fyrirtækja er á bilinu 35%–50% til langs tíma. Minni landsframleiðsla á mann leiðir til verri lífskjara þjóðfélagsþegnanna til langs tíma. Nú eru skattar á hagnað umtalsvert lægri hér á landi en í rannsókn Feldstein en vísbendingarnar eru ótvíræðar eins og útreikningarnir hér að framan sýna. Hækkun skatta á fyrirtæki leiðir til lægri landsframleiðslu, verri lífskjara og lægri skatttekna fyrir ríkissjóð til lengri tíma litið. Ríkisstjórnin ætti að horfa til viðbragða Grikkja og Íra þegar kemur að skattlagningu fyrirtækja – ekki er hægt að skattleggja sig úr kreppu en það er hægt að skattleggja sig í kreppu.
    Í umsögn Deloitte um þessa hækkun kemur fram að það sé talið „ganga gegn hagsmunum fyrirtækja að auka skattbyrði þeirra með neikvæðum ávinningi. Fyrirtæki, sem að öðru leyti væru tilbúin til fjárfestinga hérlendis sjá að óstöðugt skattaumhverfi og hækkun skatta, eykur beinan kostnað fyrirtækja og takmarkar fjárfestingargetu þeirra til þátttöku í nýjum verkefnum, gerir fjárfestingarumhverfið ekki heppilegt, hvorki fyrir innlenda eða erlenda aðila, sem vilja fjárfesta hérlendis. Þrátt fyrir að skilningur sé um að íslenska ríkið þurfi viðbótartekjur, þá mega auknar skattheimtur ekki leiða til þess að hvati einstaklinga og fyrirtækja til neyslu og fjárfestinga verði minni. Þá ber að benda á að sú hækkun sem nú er boðuð er önnur hækkunin á skömmum tíma. Skattar fyrirtækja hafa hækkað úr 15% í 18% og nú aftur er boðuð hækkun í 20%. Samtals nemur hækkunin liðlega 33% á tveimur árum. Það er mikil hækkun í 2,6% verðbólgu.“

Auðlegðarskattur.
    Fyrsti skattur Íslandssögunnar var skattur á eignir fólks – tíundin. Árið 2004, eftir rúm 1000 ár, var eignarskattur lagður af á Íslandi. Í lok síðasta árs var skatturinn lögleiddur á ný. Skatturinn var vafinn í nýjar umbúðir og nefndur auðlegðarskattur. Skatturinn árið 2010 var ákvarðaður 1,25% á hreinar eignir einstaklinga yfir 90 milljónir og 120 millj. kr. hjá hjónum. Nú er lagt er til að skatturinn verði hækkaður í 1,5% og eignamörkin lækkuð í 75 millj. kr. hjá einstaklingum og 100 millj. kr. hjá hjónum. Áætlað er að skatturinn skili í heild 5.200 millj. kr. og þar af komi 1.500 millj. kr. til vegna hækkunar skatthlutfalls og lækkunar eignamarka.
    Eignarskattur er ólíkur öðrum sköttum að því leyti að hann leggst á eignir en ekki tekjur. Þannig er skatturinn nánast ígildi eignaupptöku og því er hann talinn skerða eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Nýverið lögðu stjórnvöld í Þýskalandi og Svíþjóð eignarskatta einmitt af með þeim rökum að þeir ógnuðu lögvörðum réttindum borgara landanna. Það var því eftir öðru að íslenska ríkisstjórnin skyldi innleiða á ný skatta á eignir. Líklegt er að einhverjir borgarar muni láta reyna á rétt sinn og varar 1. minni hluti við þessari tegund skattlagningar. Mögulegt er að dómsmáli mundi ljúka með endurgreiðslu eignaupptökunnar, 8.900 milljóna króna, auk vaxta og hugsanlegra skaðabóta.
    Eignarskattar hafa verið á undanhaldi í Evrópu undanfarna áratugi – nú leggja einungis þrjú ríki á eignarskatta. Ástæðan er sú að þeir leiða til fjármagnsflótta, þeir eru dýrir í framkvæmd miðað við þær tekjur sem þeir gefa og þeir eru óhagkvæmir. Alvarlegasta gagnrýnin, fyrir utan eignaupptöku, lýtur að því að með því að skattleggja eignir flytji fólk heimili sitt til landa sem ekki innheimta slíka skatta. Mörg nýleg dæmi eru um að efnaðir Íslendingar flytji til Sviss en þar eru ekki lagðir á eignarskattar auk þess sem þar geta efnaðir einstaklingar samið um tekjuskatta sína. Tæplega 1% þeirra sem greiddu auðlegðarskatt fluttu heimilisfesti sína fyrstu 11 mánuði ársins. Þetta er lægra hlutfall en flutti frá Íslandi þegar íbúafjöldinn í heild er skoðaður. Frá tekjuöflunarsjónarhóli er efnaður einstaklingur mun verðmætari en fátækur einstaklingur – hann borgar hærri skatta. Því er hér um alvarlega þróun að ræða. Jafnframt er líklegt að hækkun auðlegðarskattsins muni hrekja enn fleiri efnaða einstaklinga úr landi í framtíðinni.
    Í umsögn KPMG um frumvarpið er bent á að auðlegðarskattur miðist við eignastöðu skattgreiðanda og því væri ekki tekið tillit til tekna hans eða greiðslugetu. Því gæti sú staða komið upp að ráðstöfunartekjur skattgreiðanda verði lægri en álagður auðlegðarskattur og hann gæti því neyðst til að selja eignir sínar til að standa skil á skattgreiðslum. Bent var á að í Svíþjóð og Þýskalandi hefðu slíkir skattar verið lagðir af þar sem talið var að álagning þeirra kynni að stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Erfðafjárskattur.
    Í gildandi lögum er erfðafjárskattur 5% en þó er maki eða sambúðaraðili undanþeginn greiðslu skattsins. Skattfrelsismörk eru 1 millj. kr. á hvert dánarbú sem eiga þó ekki við ef arfur er fyrirframgreiddur. Lagt er til í frumvarpinu að erfðafjárskattur verði hækkaður í 10%, þ.e. hann verði tvöfalt það sem hann er nú og að skattfrelsismörkin hækki í 1,5 millj. kr.
    Þetta kann að leiða til þess að einhverjir munu greiða út fyrirframgreiddan arf til erfingja sinna fyrir gildistöku skattsins um áramót með 5% skatti og lækka jafnvel eignir sínar niður undir þau mörk sem 1,5% auðlegðarskatturinn mótast af. Þetta kann að gefa ríkissjóði 3,5% til 5% skatttekjur af fyrirframgreiddum arfi en rýrir tekjur hans seinna. Þá er skatturinn ósanngjarn eins og Viðskiptaráð bendir á í umsögn sinni. Þegar hefur verið greiddur skattur af því fé sem erfðafjárskatturinn nær til og er því um tvísköttun að ræða.

Áfengis- og tóbaksgjald og vörugjald á áfengi og tóbak.
    Þann 1. janúar sl. var skattur á tóbak hækkaður um 10%. Helstu rökin fyrir hækkuninni voru þau að það þyrfti að stoppa í fjárlagagatið. Tóbaksgjaldið var hækkað um 10% en það sem af er ári (m.v. sölutölur ÁTVR janúar–nóvember) hefur sala á sígarettum minnkað um 12,08%, en sala á sígarettum er 92% af tóbakssölu.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir gildi verðteygni eftirspurnar þegar gjöld á vöru og þjónustu sem keypt er á frjálsum markaði eru ákvörðuð. Bæði er að fólk dregur saman neyslu sína þegar verð hækkar en einnig leitar fólk í staðkvæmdarvörur. Miklar verðhækkanir á víni hafa leitt til þessara áhrifa. Þannig hefur sala á vodka t.a.m. dregist saman um 20% eftir miklar verðhækkanir. Flaska af vodka kostar nú á bilinu 6.000–7.000 kr. í verslunum ÁTVR. Neysla á landa er talin hafa aukist mikið en flaska af honum er talinn kosta á bilinu 2.000–2.500 kr. á svörtum markaði. Fólk hefur minnkað neyslu sína á vodka eða skipt yfir í landa. Þetta er talandi dæmi um verðteygni eftirspurnar.
    Minni sala á sígarettum hefur haft eftirfarandi fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð:
          Innheimt tóbaksgjald af sígarettum hefur lækkað um 147,4 millj. kr.
          Álagning ÁTVR á sígarettur hefur lækkað um 74,5 millj. kr.
          Virðisaukaskattur af sölu á sígarettum hjá ÁTVR hefur lækkað um 124,5 millj. kr.
          Virðisaukaskattur af smásölu á sígarettum hefur lækkað um 34,9 millj. kr.
          Hagnaður innflytjenda vegna sölu á sígarettum hefur lækkað um 41 millj. kr. (áætlað m.v. fast söluverð til ÁTVR) sem leiðir til lægri tekjuskatts sem þeir aðilar greiða til ríkissjóðs (18% = 7,4 millj. kr.).
          Hagnaður smásala af sölu á sígarettum hefur lækkað um 136,7 millj. kr. sem leiðir til lægri tekjuskatts sem þeir aðilar greiða til ríkissjóðs (18% = 24,6 millj. kr.)
    Samtals leiddi hækkun tóbaksgjaldsins því til 413,3 millj. kr. taps fyrir ríkissjóð.
    Sala á áfengi og tóbaki í komuverslun fríhafna er undanþegin vörugjaldi og virðisaukaskatti. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011 hefði verið reiknað með að tekið yrði upp sérstakt vörugjald á áfengi og tóbak í komuverslunum fríhafna sem ættu að skila ríkissjóði nálægt 1 milljarði kr. Þessi áform hafa nú verið tekin til endurskoðunar, enda var óttast að verslunin flyttist frá Keflavík til annarra flugvalla. Þannig hefur ríkisstjórnin skynjað áhrif aukinna skattstofna í þessu tilviki og er það vel.
    Í umsögn ÁTVR um frumvarpið kemur fram að skattlagning á áfengi væri komin að þolmörkum og að hætta sé á að sala á áfengi færist í hendur bruggara og smyglara. ÁTVR telur sölu á vodka þegar hafa færst frá vínbúðunum. Samtök ferðaþjónustunnar benda á að sala áfengis hafi færst undir yfirborðið þar sem sala á landa til ungmenna hafi verið umtalsverð á síðasta ári auk þess sem aukning hefði orðið á heimatilbúnu áfengi og smygli. Þá telja samtökin að sú hækkun sem frumvarpið felur í sér muni helst skila öflugri heimilisiðnaði og neðanjarðarsölu á áfengi og að minnkandi velta muni skila sér í minni umsvifum og fækkun starfsfólks á veitingahúsum.

Kolefnisgjald.
    Á síðasta ári var stigið skref í nýrri skattheimtu á sviði umhverfis- og auðlindaskatta með því að taka upp kolefnisgjald á fljótandi eldsneyti úr jarðefnum, sbr. lög um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009. Lagt er til í frumvarpinu að gjaldið hækki um 50% í flestum gjaldflokkum. Þessi hækkun skekkir samkeppisstöðu íslensks atvinnulífs eins og bent er á í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Hækkun á eldsneytisverði eykur útgjöld heimila og eykur erfiðleika þeirra sem reiða sig á bifreið til að komast til og frá vinnu og til að flytja börn í leikskóla, skóla og tómstundir.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtaka kemur fram sú skoðun þeirra að þrátt fyrir fagrar útskýringar á því hvernig gjaldið væri reiknað út hefði það ekkert með umhverfismál að gera heldur væri það fyrst og fremst til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þá var bent á að þegar lög um umhverfis- og auðlindaskatta voru sett hefði ekki verið lagt mat á áhrif gjaldsins til minnkunar útstreymis gróðurhúsalofttegunda og það hefði ekki heldur verið gert nú þegar ætti að hækka gjaldið um 50%.
    Þá ítrekuðu samtökin athugasemdir sínar um áhrif laga um umhverfis- og auðlindaskatta á útflutningsgreinarnar og bentu á að norsk fiskiskip væru undanþegin kolefnisgjaldi. Stærsti kostnaðarliður útgerðarinnar, olíukostnaður, hefði hækkað mikið sl. ár og hefði verið í sögulegu hámarki árið 2008 og væri enn hár. Samtökin sögðu íslensk stjórnvöld verða að hafa í huga að íslensk útflutningsfyrirtæki gætu ekki tekið meira á sig en erlendir samkeppnisaðilar og mótmæltu hækkun gjaldsins.
    Í umsögn Deloitte var sömuleiðis bent á að flugfélög mundu ekki fara varhluta af hækkun kolefnisgjaldsins og yrði samkeppnisstaða Íslands verri með hækkun af þessu tagi. Bent var á að eldsneyti hefði mikil áhrif á kostnað við það að koma ferðamönnum til landsins.
    Strætó bs. benti á að hækkað kolefnisgjald hindraði að þjónusta almenningsvagna yrði efld. Neytendasamtökin vísuðu til umsagnar sem þau sendu þegar lög um umhverfis- og auðlindaskatta voru sett og ítrekuðu andstöðu sína við þau. Samtökin töldu þá að skattlagningin bitnaði ekki aðeins hart á neytendum í formi hærra verðs heldur einnig í formi meiri greiðslubyrði verðtryggðra lána.

Bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt bensíngjald, sérstakt bensíngjald og olíugjald hækki um 4% og er þessari hækkun ætlað að skila um 750 millj. kr. í ríkissjóð. Efnahags- og skattanefnd hefur jafnframt haft til umfjöllunar frumvarp fjármálaráðherra um kerfisbreytingar á bifreiðagjaldi og vörugjaldi bifreiða (197. mál) þar sem gert er ráð fyrir því að skattlagning ökutækja verði framvegis miðuð við koltvísýringslosun þeirra.
    Talið er óhjákvæmilegt að þessi hækkun renni út í verðlag, m.a. með hækkandi taxta leigubifreiða líkt og fram kemur í umsögn Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra. Þá segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar að þessi hækkun, auk hækkunar auðlinda- og umhverfisgjalds og ný lög um bifreiðagjöld, muni reynast hópbifreiðafyrirtækjum gríðarlega þungbær. Í umsögn Bændasamtaka Íslands segir að þegar hafi verið gengið of nærri heimilum og fyrirtækjum með auknum álögum og þær hefðu áhrif á vísitölu og þar með fjármagnskostnað einstaklinga og fyrirtækja. Jafnframt er bent á að álögur á olíu og bensín væru sérstaklega íþyngjandi fyrir bændur og aðra íbúa dreifbýlis sem hefðu ekki færi á að nýta sér almenningssamgöngur líkt og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar.
    Í byrjun árs 2009 var veitt lögfest heimild sem heimilaði eigendum séreignarsparnaðar undir 60 ára að taka út allt að 1 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum. Fjárhæðin var síðar hækkuð um 1,5 millj. kr. Samkvæmt gildandi lögum geta eigendur séreignarsparnaðar því tekið út allt að 2,5 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum. Þessi heimild hefur valdið miklum vandræðum hjá tryggingafélögum, sem bjóða séreignasparnað á formi söfnunartrygginga þar sem rekstrarkostnaður er greiddur í byrjun tryggingar og eignin því neikvæð fyrstu árin. Hér er enn aukið að þann vanda. Samkvæmt því frumvarpi sem er til umfjöllunar hér verður hverjum rétthafa heimilt að taka út allt að 5 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum sem verður greiddur út næstu 12 mánuði og er umsóknarfrestur til 1. apríl 2011. Þessi aukna heimild sem mælt er fyrir um í frumvarpinu hefur í för með sér að þessi sparnaður sumra heimila er eyðilagður með öllu. Útgreiðsluformið er auk þess þannig að hætta er á að sparnaðurinn verði nýttur til að halda uppi neyslu í stað þess að gagnast við uppgjör skulda. Þó munu margar fjölskyldur geta nýtt sér sparnaðinn til að standa í skilum með leigu eða afborganir af lánum. Í umsögn Félags atvinnurekenda er bent á að það hefði verið heppilegra að leggja skatt á greiðslur í séreignarsparnað, eða a.m.k. stíga stærri skref í þá átt.

Barnabætur og vaxtabætur.
    Þessir bótaflokkar heyra undir skattamál og því verður að vara við skerðingu þeirra hér, sérstaklega barnabóta, sem geta verið varasamar á tímum kreppu. Í frumvarpinu er lagt til að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar af tekjum eins og aðrar bætur. Þá verði tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns hækkað úr 2% í 3% en ekki er gert ráð fyrir breytingu á skerðingarhlutfalli þegar börnin eru fleiri. Þá er lagt til að gerð verði sú breyting á útreikningi vaxtabóta að tekjutenging þeirra verði 7% í stað 6% nú. Þá er lagt til að þannig ákvarðaðar vaxtabætur verði skertar um 8% hjá öllum bótaþegum til að unnt verði að ná markmiðum um sparnað í ríkisfjármálum. Nefndinni barst athugasemd frá ríkisskattstjóra þess efnis að þessi breyting hefði í för með sér aukið flækjustig í álagningu opinberra gjalda þegar í næstu álagningu og næstu ára.
    Vaxtabætur eru ásamt húsaleigubótum styrkur til búsetu þar sem vaxtabætur gagnast þeim sem skulda nógu mikið en húsaleigubætur gagnast ekki stórum fjölskyldum. 1. minni hluti hvetur til þess að þessir bótaflokkar verði teknir út úr skattalögum og fluttir í bótakerfið með skynsamlegum forsendum um eignir, tekjur og stærð fjölskyldu.
    Fyrir skemmstu tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir í þágu skuldugra heimila sem voru ræddar við meðferð málsins í nefndinni. Í þeim er gert ráð fyrir að kostnaður vegna vaxta af fasteignalánum verði niðurgreiddur umfram almennar vaxtabætur. Tillagan byggist á yfirlýsingu í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að sérstakri hækkun vaxtabóta verði haldið við. Niðurgreiðsla vaxta er óháð tekjum en er miðuð við ákveðin eignamörk og nemur 0,6% af skuld vegna öflunar húsnæðis. Áætlað er að til nýju vaxtabótanna verði varið 6 milljörðum kr. á næsta ári. Tillagan byggist á yfirlýsingu í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að sérstakri hækkun vaxtabóta verði haldið við. Fagna ber þessu framtaki sem er mjög í anda nýlegrar tillögu Sjálfstæðisflokksins, sjá fylgiskjal I.

Almenn hækkun krónutöluskatta.
    Til viðbótar við framangreindar hækkanir eru í frumvarpinu tillögur um almenna 4% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum í takt við verðlagsforsendum fjárlagafrumvarpsins þrátt fyrir að ný þjóðhagsspá geri ráð fyrir að verðlag muni hækka um 2,3%. Því er um 1,7% raunhækkun að ræða á öllum gjöldum á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Þetta leiðir til aukinnar byrðar á landsmenn, byrðar sem stjórnvöld dylja í búning verðlagshækkana sem ekki verða. Þetta mun hafa afdrifarík áhrif á hag fjölskyldna, sem margar hafa þurft að sæta missi atvinnu, lækkun launa, skertri eða niðurfelldri yfirvinnu, missi aukavinnu og stórhækkun skatta og hækkun verðbólgu sem kemur niður á neyslu og getu til að standa við fastar verðtryggðar skuldbindingar eins og leigu og afborganir af lánum. Í umsögn Félags atvinnurekenda um frumvarpið er varað við framangreindri hækkun krónutöluskatta og bent á að hún auki á verðbólgu. Minnt er á að breytingar á skattalögum séu einn stærsti einstaki þátturinn í verðbólgu á þessu ári og að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé verið að ræsa verðbólguhringekju með gamla laginu.

Niðurstaða.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands er vísað til þess að í athugasemdum við frumvarpið sé að finna alvarlega staðreyndavillu sem lúti að því að fullyrt er að tillögur frumvarpsins muni lækka ráðstöfunartekjur heimilanna um 0,5%. Sambandið telur að hið rétta sé að frumvarpið skerði ráðstöfunartekjur heimilanna um 1%.
    Fyrsti minni hluti varar við stefnu ríkisstjórnarinnar sem ætlar sér að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. 1. minni hluti skorar á meiri hlutinn að kanna hvort þær leiðir, sem lagðar eru til í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins, séu ekki vænlegri til að blása þjóðinni von í brjóst og bjartsýni og gefa henni undirstöður til að byggja framtíð sína á


Alþingi, 14. des. 2010.



Tryggvi Þór Herbertsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.



Fylgiskjal I.


Tillaga til þingsályktunarum aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin,
verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum.
(Lögð fram á 139. löggjafarþingi á þskj. 156 –141. mál.)

Flm.: Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða með hliðsjón af mikilvægi þess að verja velferð í landinu, bæta stöðu heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar, fjölga störfum og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims:

I.
Gefum heimilum von.

     1.      Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði dregnar til baka á næstu tveimur árum. Á næsta ári verði 10 milljörðum kr. varið til þess að lækka tekjuskatta einstaklinga og á árinu 2012 skulu skattahækkanir ríkisstjórnarinnar ganga að fullu til baka.
     2.      Skilyrði laga er varða greiðsluaðlögun einstaklinga verði einfölduð verulega og möguleikar einstaklinga til að leita greiðsluaðlögunar auknir frá því sem nú er, svo sem með því að færa neysluviðmið í átt til raunveruleikans, endurskoða þau ákvæði laganna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð og einfalda umsóknarferlið.
     3.      Öllum sem þess óska standi til boða að lækka greiðslubyrði fasteignalána sinna um allt að 50% næstu þrjú ár gegn lengri lánstíma.
     4.      Þeim sem missa atvinnu verði veittur réttur til frystingar á greiðslum vegna húsnæðisskulda í allt að sex mánuði.
     5.      Þeim sem misst hafa fasteignir sínar vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrota verði gert kleift að leigja þær fasteignir gegn hóflegri greiðslu húsaleigu sem endurspegli markaðsverð. Sömu aðilum verði tryggður kaupréttur á fasteigninni sem gildi í allt að fimm ár frá undirritun húsaleigusamnings.
     6.      Lögum verði breytt í þá veru að fyrningarfrestur eftir að úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp verði styttur frá því sem nú gildir.
     7.      Grundvöllur vaxta- og húsaleigubóta verði styrktur í þágu þeirra fjölskyldna sem búa við bágust kjör.
     8.      Stimpilgjöld verði afnumin í þeim tilgangi að auðvelda einstaklingum að njóta bestu kjara við endurfjármögnun skulda.
     9.      Komið verði í veg fyrir að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi stofn til töku tekjuskatts liggi ljóst fyrir að viðkomandi hafa orðið eignalausir vegna afskriftanna.
     10.      Ákvæði réttarfarslaga um endurupptöku mála verði endurskoðuð þannig að tryggt verði að þeir sem misst hafa eigur sínar vegna vanskila á ólögmætum gengistryggðum lánum geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Tryggt verði að slík mál fái skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu.

II.
Endurheimtum störf – eflum atvinnulífið.

    Endurheimt verði þau störf sem glatast hafa í efnahagshruninu. Mynda skal skilyrði þess að yfir 22 þúsund ný störf verði til á næstu tveimur til þremur árum. Lögð verði áhersla á að nýta auðlindir okkar – veiða meira og virkja orkuna. Bæta skal rekstrarskilyrði enda munu lítil og meðalstór fyrirtæki þá ná sér á strik að nýju og geta orðið uppspretta fjölda starfa í framleiðslu og þjónustu. Með hliðsjón af framangreindu verði gripið til eftirfarandi aðgerða:

     1.      Nýtum auðlindirnar skynsamlega:
                  a.      Leyfilegur heildarafli þorsks verði aukinn um 35.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og auknum aflaheimildum ráðstafað á grundvelli aflahlutdeilda.
                  b.      Horfið verði tafarlaust frá hugmyndum um fyrningarleið (innköllun aflaheimilda) í sjávarútvegi og hafist handa við undirbúning nýrrar fiskveiðistjórnarlöggjafar í samræmi við niðurstöður starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.
                  c.      Framkvæmdir við álver í Helguvík verði hafnar á ný.
                  d.      Eytt verði lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum.
                  e.      Arðbærum framkvæmdaverkefnum verði komið af stað í samvinnu við lífeyrissjóðina og aðra fjármögnunaraðila.
                  f.      Leitað verði, af fullri alvöru, leiða til að koma af stað orkufreku atvinnuverkefni að Bakka við Húsavík.

     2.      Beitum hvötum til að örva hagkerfið:
                  a.      Óhagkvæmir skattar sem letja verðmætasköpun verði afnumdir. Árið 2011 verði 10 milljörðum kr. varið til þessa verkefnis og 10 milljörðum kr. árið 2012.
                  b.      Skattaafslættir vegna rannsókna- og þróunarstarfs verði auknir.
                  c.      Fyrirtækjum sem sýnt geta fram á fjölgun starfsgilda árin 2011 og 2012 verði veittur afsláttur af greiðslu tryggingagjalds.
                  d.      Skattaafslættir vegna hlutafjárkaupa verði leiddir í lög á ný.
                  e.      Innleiddar verði undanþágur frá tryggingagjaldi fyrir ný fyrirtæki í tvö ár frá stofnun þeirra.
                  f.      Skattkerfið verði endurskoðað í heild sinni með einföldun, hagkvæmni og hvata til verðmætasköpunar að leiðarljósi. Þeirri vinnu verði lokið fyrir 31. ágúst 2011.
                  g.      Vörugjöld og verndartollar sem skekkja samkeppni og rýra hag almennings verði endurskoðaðir.

     3.      Vinnum markvisst gegn atvinnuleysi og hjálpum fólki til sjálfshjálpar:
                  a.      Boðið verði upp á aðstoð við fólk sem hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur og hefur áhuga á að hefja eigin rekstur. Þeim einstaklingum verði veittur réttur á aðstoð, menntun, fyrirgreiðslu og eftir atvikum beinum fjárframlögum að jafngildi 500 þúsund kr.
                  b.      Starfsendurhæfingarsjóður verði efldur með þátttöku allra atvinnurekenda og stuðningi frá ríkinu.
                  c.      Tryggingagjald verði lækkað samhliða því sem atvinnuleysi minnkar.
                  d.      Aðilum vinnumarkaðarins verði falin umsjón með málefnum atvinnulausra.

     4.      Eyðum óvissu og bætum umhverfi atvinnustarfseminnar:

                  a.      Endurskipulagningu skulda fyrirtækja verði að fullu lokið fyrir 31. mars 2011.
                  b.      Horfið verði alfarið frá fyrningarleið í sjávarútvegi og unnið að sátt um fiskveiðistjórnarkerfið í samræmi við niðurstöður starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.
                  c.      Unnið verði markvisst að því að aflétta þrýstingi af gjaldmiðlinum og þannig tryggt að gjaldeyrishöftin verði afnumin innan skamms tíma.
                  d.      Óvissu um skattaframkvæmd næstu ára verði eytt, svo sem hvað varðar innheimtu virðisaukaskatts í tengslum við byggingu gagnavera.

III.
Hagræðing og aðhald í rekstri ríkisins,
mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar.

     1.      Ríkissjóður verði rekinn hallalaus árið 2013. Við niðurskurð og sparnað verði tryggður jafn réttur allra landsmanna, óháð búsetu, til grunnþjónustu í heimabyggð – heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntunar.
     2.      Tekið verði upp breytt verklag við fjárlagagerð og áhersla lögð á langtímaáætlun sem sundurliðuð verði eftir ráðuneytum og málaflokkum.
     3.      Náð verði fram aukinni hagræðingu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Haldið verði áfram vinnu við að stytta námstíma til stúdentsprófs. Við mótun menntastefnunnar verði byggt á valfrelsi nemenda og foreldra, fjölbreytni og sveigjanleika.
     4.      Vegna mikilvægis menntunar fyrir framtíðarhagvöxt verði forðast að ráðast í flatan niðurskurð á háskólastiginu en byggt þess í stað fyrst og fremst á aukinni hagkvæmni með færri og sterkari einingum.
     5.      Fátæktargildrum í lífeyris- og bótakerfum verði útrýmt og hvatar til atvinnuþátttöku skerptir. Bótakerfið verði endurskoðað til að koma í veg fyrir hugsanlega van- eða oftryggingu bótaþega.
     6.      Þegar verði hafist handa við að endurskoða og samræma lífeyrisréttindakerfi opinberra starfsmanna svo að framtíðarfjármögnun þess verði tryggð. Komið verði í veg fyrir að áfram safnist upp óbærilegar byrðar fyrir ríkissjóð.
     7.      Unnið verði að endurskipulagningu og frekari hagræðingu í heilbrigðiskerfinu með því að auka hagkvæmni, auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila og byggja í auknum mæli á samkeppni um þá þjónustu sem veita þarf.
     8.      Tekið verði upp sérstakt gjald vegna ríkisábyrgðar innstæðna sem nemi 0,25% af stofni allra innstæðna hjá fjármálafyrirtækjum.
     9.      Innleidd verði skattlagning inngreiðslna séreignarsparnaðar.
     10.      Innleidd verði fjármálaregla sem styður við stjórn peningamála, hemur hagsveifluna, lækkar vexti og styður við gengi krónunnar.

Greinargerð.


1.     Von fyrir heimilin.
    Efnahagsbatinn sem áætlað var að hæfist á þessu ári hefur látið á sér standa. Það stafar fyrst og fremst af vanhugsuðum aðgerðum í skattamálum, aðgerðaleysi við að leysa úr skuldavanda heimila og fyrirtækja og mótstöðu við uppbyggingu atvinnulífs. Atvinnuleysi, minni ráðstöfunartekjur og kaupmáttar rýrnun er því miður staðreynd. Við þessu verða stjórnvöld að bregðast. Skapa verður framtíðarsýn og blása fólki aftur von í brjóst. En það verður aðeins gert með því að efla atvinnustarfsemina á ný. Velferð heimilanna er samofin velferð fyrirtækjanna.
    Ef ekki verður gripið til aðgerða vegna vanda skuldsettra heimila og fyrirtækja dregst endurreisn efnahagslífsins enn á langinn, þar sem gjaldþrot, greiðsluerfiðleikar og atvinnuleysi verður viðvarandi en ekki tímabundin staðreynd. Þetta ástand hefur alvarlegar samfélagslegar afleiðingar í för með sér. Því er nauðsyn á markvissari aðgerðum til að endurskipuleggja skuldir heimila og gera þeim kleift að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Jafnframt þarf að draga vanhugsaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar til baka.
    Þau úrræði sem nú er boðið upp á duga engan veginn. Fólkið í landinu vill lifa með reisn og það er verkefni stjórnvalda að gera þeim það kleift. Þær leiðir sem ríkisstjórnin vill fara til að leysa skuldavanda heimila eru flóknar, tímafrekar og niðurlægjandi fyrir þorra fólks. Aðgerðir stjórnvalda verða að taka mið af stöðu fólks og því hvernig flestir bregðast við erfiðleikum. Ríkisstjórnin hefur horft fram hjá því að þau úrræði sem upp á er boðið eru flókin og niðurlægjandi. Ríkisstjórnin kvartar yfir því að fólk sýni ekki frumkvæði að því kynna sér og nýta úrræðin. Þetta er veruleikaflótti. Fólk vill ekki bíða í biðröð hjá umboðsmanni skuldara, sérstaklega ef það fær í fangið þungbærar kröfur um gagnaöflun og skýrslugjafir. Fólk forðast í lengstu lög að fá skipaðan tilsjónarmann og láta opinbera starfsmenn skilgreina húsnæðis- og framfærsluþörf sína. Slíkar lausnir kunna að ganga upp á blaði en þær gera það ekki í raunveruleikanum.

Skattar einstaklinga verði lækkaðir um 10 milljarða kr.
    Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með aukið á vanda þeirra. Heimili sem að öðrum kosti hefðu ráðið við greiðslubyrði af lánum sínum eru komin fram á hengiflugið vegna skattpíningar. Besta leiðin til að hjálpa heimilum í skuldavanda er að tryggja þeim umráð stærri hluta sjálfsaflafjár síns, rífa ekki af þeim hverja krónu til að fjármagna útbólginn ríkissjóð sem er í engu samræmi við þann efnahagslega veruleika sem við búum við í dag.
    Jafnframt hefur stighækkandi tekjuskattur leitt til þess að fólk sér hag í því að skjóta sér undan skattlagningu með svartri atvinnu sem merki eru um að fari mjög vaxandi. Þessum vanda hefur ríkisstjórnin mætt með því að stórefla eftirlit. Flutningsmenn telja að eðlilegra sé að hvatinn til undanskota sé slævður með réttlátara og hagkvæmara skattkerfi.
    Því er hér lagt til að allt að 10 milljörðum kr. verði varið til að lækka skattbyrðina á næsta ári og að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði að fullu dregnar til baka árið 2012.

Einfaldari og rýmri reglur.
    Til að mæta betur þörfum þeirra sem sjá ekki fram úr skulda- og greiðsluvandamálum sínum er hér lagt til að greiðsluaðlögunarúrræði verði einfölduð verulega og rýmkuð frá því sem nú er, svo sem með því að færa neysluviðmið í átt til raunveruleikans og endurskoða þau ákvæði laga sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.
    Opinberar tölur um fjölda þeirra sem leitað hafa eftir eða fengið greiðsluaðlögun segja í raun allt sem segja þarf. Úrræðið er fráhrindandi og skilyrðin of ströng. Fjöldi fólks sem fengið hefur greiðsluaðlögun mun lenda að nýju í vanskilum vegna óraunhæfra framfærsluviðmiða.

Greiðslubyrði lækkuð um 50% í þrjú ár gegn lengri lánstíma.
    Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins endurflytur þessa tillögu sína en hún gengur lengra en greiðslujöfnunarúrræði ríkisstjórnarinnar. Tillagan mætir þörfum þeirra sem sjá ekki fram úr skulda- og greiðsluvanda sínum eins og sakir standa en kjósa að fara ekki í greiðsluaðlögun eða uppfylla ekki skilyrði til þess. Með því að lækka greiðslubyrði tímabundið vinnst einkum þrennt:
     *      Í fyrsta lagi er létt undir með þeim stóra hópi sem ýmist alls ekki eða með herkjum getur staðið í skilum vegna efnahagsástandsins. Úrræðið kemur þessum stóra hópi til góða á meðan aðstæður eru hvað erfiðastar. Langflestir lántakendur munu geta staðið betur undir greiðslubyrði þegar kaupmáttur fer að vaxa á ný með auknum umsvifum og hagvexti.
     *      Í öðru lagi mun svigrúm vegna léttari greiðslubyrði nýtast fólki til að losna undan dýrari skuldum eins og neyslulánum og yfirdráttarskuldum.
     *      Í þriðja lagi mun aðgerðin auka einkaneyslu sem leiðir til meiri umsvifa og skjótari efnahagsbata.

Styrkja ber vaxtabóta- og húsaleigubótakerfin.
    Fall á kaupmætti hefur komið verst niður á þeim sem lægst hafa launin. Þannig sýna hagtölur að einkaneysla dróst saman um 16% á síðasta ári sem er einsdæmi. Ríkisstjórnin hefur afnumið verðtryggingu persónuafsláttar sem hefur enn dregið úr ráðstöfunartekjum þessa hóps. Vaxtabótakerfið er tilvalið til að ná sérstaklega til þeirra sem bágust hafa kjörin. Með því er hægt á hagkvæman hátt að ná til þeirra sem eru á lágum launum og skulda mikið.
    Horfast verður í augu við þann veruleika að fjöldi heimila mun ekki ráða við afborganir af lánum þrátt fyrir að þau hafi verið lækkuð og að vaxtabótakerfið verði styrkt. Sá hópur hefur því stækkað að undanförnu sem mun leita á leigumarkaðinn. Af þessari ástæðu þarf að styrkja húsaleigubótakerfið.

Frysting á greiðslum húsnæðislána í allt að sex mánuði.
    Lagt er til að þeir sem nú eru atvinnulausir eða eru að missa atvinnu sína öðlist rétt á frystingu afborgana af fasteignaveðlánum í allt að sex mánuði. Með tillögunni er reynt að koma í veg fyrir að þeir sem verða fyrir tímabundnu atvinnuleysi missi heimili sitt meðan það ástand varir.
    Verði ráðist í þær atvinnuskapandi aðgerðir sem mælt er fyrir um í þingsályktunartillögu þessari er ljóst að draga mun verulega úr atvinnuleysi á Íslandi, ráðstöfunartekjur munu aukast og þeim sem glíma við langtímaatvinnuleysi mun fækka. Það leiðir til þess að fleiri fjölskyldur munu verða færar um að standa skil á fasteignaveðlánum sínum.
    Þar til hægt verður að tryggja hærra atvinnustig telja flutningsmenn tillögunnar eðlilegt að tryggja þeim sem eru atvinnulausir lágmarksskjól.

Röskum ekki búsetu fólks.
    Í septembermánuði 2010 voru 1.286 heimili á framhaldsuppboði. Ljóst er að hluti þessara heimila mun enda á lokauppboði og í framhaldi af því munu fjölmargar fjölskyldur missa heimili sitt að öðru óbreyttu. Því er hér lagt til að:
     *      Þeim sem misst hafa fasteignir sínar vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots verði gert kleift að leigja þær gegn hóflegri greiðslu sem endurspegli markaðsverð.
     *      Þá er lagt til að þessir aðilar fái kauprétt á húsnæðinu sem gildi í allt að fimm ár.
    Þetta úrræði mætir þörfum þeirra sem misst hafa eða munu missa húsnæði sitt og gerir þeim kleift að eignast aftur þak yfir höfuðið án þess að búsetu sé raskað. Jafnframt kemur úrræðið í veg fyrir að fasteignum verði „sturtað“ inn á markaðinn með tilheyrandi verðlækkunum. Núgildandi reglugerð um útleigu uppboðsíbúða Íbúðalánasjóðs felur ekki í sér kaupréttarfyrirkomulag auk þess sem þar er um skammtímaleigu til tólf mánaða að ræða.
    Markmiði tillögunnar má t.d. ná með því að Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir stofni með sér fasteignafélag sem yfirtaki allt íbúðarhúsnæði sem eigendur hafa misst vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots og leigi þeim með kauprétti.
    Fasteignafélaginu yrði gert skylt að bjóða núverandi eigendum að leigja húsnæði á meðalleiguverði á viðkomandi markaðssvæði. Samhliða þessu verði leigutaka gefinn kostur á að kaupa viðkomandi eign hvenær sem er innan tiltekins tíma og gildi kaupréttur þessi í t.d. fimm ár. Með þessu vinnst margt:
     *      Komið verður í veg fyrir að hundruð eða þúsundir fasteigna komi inn á markaðinn og lækki þannig verð á fasteignum enn frekar. Slíkt kæmi sér einkar illa gagnvart öðrum húsnæðiseigendum þar sem verðmæti eigna þeirra mundi minnka. Þannig má koma í veg fyrir frekara verðfall fasteigna sem mundi verða dragbítur á íslenskt efnahagslíf.
     *      Komið verður í veg fyrir að hundruð eða þúsundir fjölskyldna þurfi að leita sér nýs heimilis.
     *      Haldið verður í séreignarstefnuna sem meginskipan á fasteignamarkaði.
     *      Eiginfjárgrunnur fjármálastofnana mun styrkjast þar sem „vondum lánum“ er komið fyrir í sérstöku fyrirtæki sem aftur leiðir til þess að ekki þarf að afskrifa jafnmikið og ella og bankar sitja síður uppi með fasteignir sem falla stöðugt í verði. Þannig er komið í veg fyrir enn frekara verðfall.

Gjaldþrotameðferð mannúðlegri.
    Þrátt fyrir að framangreindar tillögur muni hjálpa flestum fjölskyldum í landinu má sá hópur fólks sem varð eða er að verða gjaldþrota sín lítils gegn hamförunum sem urðu haustið 2008. Vart er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að um of hafi hallað á skuldara í samskiptum við kröfuhafa enda er miklum vandkvæðum bundið að hefja nýtt líf á grundvelli gildandi löggjafar þegar kröfuhafi getur haldið rétti sínum til streitu eins lengi og hann lystir.
    Við þessu þarf að bregðast og því er lagt til að gjaldþrotalögum verði breytt í þá veru að fyrningarfrestur eftir gjaldþrotameðferð verði styttur frá því sem nú gildir. Með því að stytta fyrningarfrest krafna og taka til endurskoðunar reglur um rof fyrningar eftir gjaldþrot er ætlunin að gefa þeim sem orðið hafa gjaldþrota tækifæri til á að „byrja upp á nýtt“ innan hæfilegs tíma.
    Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá dómsmálaráðherra um grundvallarbreytingar á löggjöfinni hvað þetta snertir. Mikilvægt er að málið fái vandaða og ítarlega meðferð í þinginu og sjálfsagt að málið verði farvegur fyrir umræðu um efnið.
    Stjórnarskráin setur því mörk hve langt er hægt að ganga að rétti kröfuhafa. Þá ber jafnframt að hafa í huga þá meginreglu að samninga skuli halda og að löggjöf sé ekki þannig háttað að hvatar séu til staðar til að skjóta sér undan fjárskuldbindingum. Einnig ber að hafa í huga að breytingar á fyrningarreglum geta haft óæskileg áhrif á lánamarkað.
    Engu síður er tímabært og aðkallandi vegna þeirrar stöðu sem upp er komin að taka gildandi lög til endurskoðunar með það að markmiði að einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota geti reist fjárhag sinn við innan eðlilegs tíma.

Aukin samkeppni á lánamarkaði.
    Til að auðvelda fólki endurfjármögnun fasteignaskulda og auka samkeppni á íbúðalánamarkaði er hér lagt til að stimpilgjöld verði afnumin. Það mun auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun.
    Þetta úrræði eykur ekki aðeins samkeppni á lánamarkaði heldur skapar það um leið tækifæri fyrir fjölskyldur til að lækka greiðslubyrði sína. Loks mun afnám stimpilgjalda örva viðskipti á fasteignamarkaði.

Endurupptaka skuldamála fyrir dómi og flýtimeðferð þeirra.
    Lagt er til að ákvæði réttarfarslaga um endurupptöku mála verði endurskoðuð. Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að tryggja að þeir sem misst hafa eigur sínar vegna vanskila á gengistryggðum lánum, sem Hæstiréttur Íslands dæmdi ólögmæt síðastliðið sumar, þurfi ekki að sæta fullnustugerðum vegna þeirra. Tryggja þarf að þeir geti leitað réttar síns fyrir dómstólum og fengið mál sín endurupptekin. Lagt er til að slík mál fái skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu.

Hvati til að semja um lausn sinna mála.
    Hér er lagt til að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki skattstofn þegar fyrir liggur að viðkomandi hefur orðið eignalaus í tengslum við afskriftirnar. Augljóst er að ef ríkið hyggst skattleggja niðurfærslu skulda er veruleg hætta á því að dregið sé úr hvata fyrir þá sem skuldugastir eru til að semja um lausn sinna mála. Sá sem framselur allar eigur sínar í skuldauppgjöri og óskar í framhaldi af því eftir niðurfellingu er í raun verr settur en ef hann óskaði eftir gjaldþroti, því við gjaldþrot væri ekki hætta á skattlagningu vegna þess sem ekki fengist innheimt. Við þessu verður að bregðast.
    Núgildandi lög og reglur gera ráð fyrir því að eina leiðin til að komast hjá skattlagningu vegna niðurfellingar sé að missa eigur sínar við gjaldþrot eða nauðasamninga.

2.     Eflum atvinnulífið – endurheimtum störfin.
    Frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2010 hafa tapast um 22.500 störf á Íslandi. Um 16.200 urðu atvinnulausir og 6.300 hurfu af vinnumarkaði. Lauslegir útreikningar sýna að hvert starf kostar ríkissjóð um 3 milljónir kr. í bætur og tapaðar skatttekjur á ári. Þá er ekki talið til allt það framleiðslutap og óbein áhrif sem þjóðfélagið verður fyrir. Bein áhrif á ríkissjóð af töpuðum störfum eru því allt að 70 milljarðar kr. á ári.
    Á næstu tveimur til þremur árum þurfa að verða til yfir 22 þúsund ný störf á Íslandi. Þetta þarf að gerast á sama tíma og óhjákvæmilegt er að fækka störfum hjá hinu opinbera. Háttalag ríkisstjórnarinnar bendir til þess að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri vá sem er fyrir dyrum ef ekkert verður að gert. Erlendum aðilum sem vilja fjárfesta er sýndur fjandskapur, skattar eru hækkaði úr öllu hófi og óvissa er innleidd með tilviljanakenndum vanhugsuðum ráðstöfunum sem einstakir fagráðherrar taka oft ákvarðanir um án umræðu.

Störfin verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Megnið af þeim störfum sem þurfa að verða til eru í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sjálfstæðisflokkurinn vill mynda það efnahagsumhverfi sem þarf til að þessi fyrirtæki hefji á ný fjárfestingu í umsvifum og störfum.
    Með því að gera umhverfi um atvinnulíf vinsamlegra en nú er og snúa af þeirri braut hafta og afturhalds sem núverandi stjórnvöld viðhalda er áætlað að um 8.000 ný störf verði til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á næsta ári og 6.000 á árinu 2012. Til að ná þessu markmiði þarf að grípa til fjölþættra aðgerða.

Veiðum meira.
    Jákvæð merki sjást nú um umtalsverðan vöxt þorskstofnsins og gildir þá einu hvort rætt er um hrygningarstofninn eða svo kallaðan viðmiðunarstofn (sem er þorskur 4 ára og eldri). Þetta er mikil breyting frá árinu 2007. Í ljósi þess að nú er veiðistofn þorsks stærri en verið hefur í tvo áratugi er eðlilegt að nýtingarprósentan verði strax færð úr 20% í 23% og sveiflujöfnun verði beitt við ákvörðun aflamagns á næsta fiskveiðiári. Þar með verður útgefið aflamagn þorsks 195 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári í stað 160 þúsund tonna og 200 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.
    Á undanförnum árum, hefur hámark aflamagns byggst á aflareglu. Fræðilegar úttektir hafa sýnt að eðlilegt sé að nýtingarhlutfallið sé lágt þegar stofninn er lítill, en hækki þegar stofninn stækkar. Jafnframt byggist nýtingarstefnan á sveiflujöfnun. Er það gert með þeim hætti að útgefið aflamagn ræðst annars vegar af nýtingarhlutfalli viðmiðunarstofns, en jafnframt er að hálfu tekið tillit til útgefins kvóta ársins á undan. Er þetta gert með hagfræðilegum, rekstrarlegum og markaðslegum rökum til þess að draga úr sveiflum í útgefnum aflakvótum. Árið 2007 var nýtingarhlutfallið lækkað úr 25% í 20% í ljósi lélegra viðmiðunar- og hrygningarstofna og áætlana vísindamanna um að stofnar færu minnkandi með óbreyttri nýtingarstefnu.
    Ljóst er að jafnt hrygningarstofn og viðmiðunarstofn hafa vaxið mjög frá því að gripið var til niðurskurðar á þorskafla árið 2007. Stærð viðmiðunarstofns er lögð til grundvallar ákvörðun um aflamark ár hvert jafnframt því að tekið er tillit til kvóta yfirstandandi árs að hálfu. Er það gert til þess að jafna sveiflur í úthlutun á aflaheimildum.
    Hrygningarstofninn mælist nú um 300 þúsund tonn. Slíkar tölur hafa ekki sést, með tveimur undantekningum, frá árinu 1970 eða í 40 ár. Til samanburðar var hrygningarstofninn talinn vera um 180 þúsund tonn á árinu 2007, þegar ákveðið var að draga saman þorskaflann mjög verulega. Þannig mældur hefur hrygningarstofninn því vaxið um 66% eða um tvo þriðju á þessum tíma.
    Svipaða sögu er að segja af viðmiðunarstofninum. Hann mælist nú 846 þúsund tonn og er áætlaður 902 þúsund tonn á næsta ári. Stærri viðmiðunarstofn hefur ekki mælst hér frá árinu 1989. Hann var áætlaður 650 þúsund tonn árið 2007 og talinn fara niður í 580 þúsund tonn næsta ár á eftir. Viðmiðunarstofninn er því talinn um 60% stærri nú en í ársbyrjun 2008.
    Mjög mikilvægt er að auknum aflaheimildum verði ráðstafað á grundvelli aflahlutdeildar. Útgerðir og sjómenn hafa tekið á sig afkomu- og tekjuskerðingu vegna minni þorskafla. Það er sjálfsagt mál að hinir sömu njóti nú árangurs við uppbyggingu þorskstofnsins og fái þannig bættan skaðann af lægri aflaheimildum liðinna ára. Sanngjarnt er að þær heimildir sem koma nú til ráðstöfunar, í byggðalegum og atvinnulegum tilgangi, samkvæmt gildandi lögum aukist og í samræmi við hlut þeirra af úthlutuðum aflaheimildum.
    Afar brýnt er að þegar í stað verði horfið frá öllum hugmyndum um fyrningarleið. Almenn og víðtæk sátt náðist um svokallaða samningaleið í sjávarútvegi í fjölskipaðri nefnd stjórnvalda um endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Þar komu að málum fulltrúar allra þingflokka og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Sú leið á að liggja til grundvallar nýrri skipan fiskveiðistjórnar. Hin mikla óvissa sem stjórnvöld hafa skapað í starfsumhverfi sjávarútvegsins er farin að baka samfélaginu gríðarlegt tjón og á mikinn þátt í landlægu atvinnuleysi og stöðnun efnahagslífs.

Nýtum orkulindir okkar.
    Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að atvinnusköpun með því nýta orkulindir þjóðinni til heilla. Beita á öllum ráðum til að flýta framkvæmdum við nýtt álver í Helguvík, orkufrekt verkefni að Bakka og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir. Talið er að þessar framkvæmdir geti skapað allt að 4.000 bein störf á ári á framkvæmdatímanum og annað eins í afleiddum störfum. Komist fyrirhugaðar framkvæmdir af stað verða þær uppspretta fjölda starfa í framleiðslu og þjónustu. Eftir að framleiðsla hefst verða til um 900 bein störf á ári í verksmiðjunum og annað eins af afleiddum störfum. Þá verði fyrirhuguðum framkvæmdum í samvinnu við lífeyrissjóðina flýtt. Til að þetta megi takast þarf að:
     a.      setja framkvæmdir við álver í Helguvík af stað,
     b.      eyða lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum,
     c.      stjórnvöld leiti í fullri alvöru leiða til aðkoma af stað orkufreku atvinnuverkefni að Bakka,
     d.      koma af stað arðbærum framkvæmdaverkefnum í samvinnu við lífeyrissjóðina og aðra fjármögnunaraðila.
    Umhverfi til fjárfestinga er allt of þunglamalegt. Ráðherrar og stofnanir ríkisins nýta allan umþóttunartíma til hins ýtrasta og virða jafnvel ekki lög um fresti. Minnstu ágreiningsmál eru leidd um allt dómskerfið. Ákvarðanir um umhverfismat eru tilviljanakenndar og eru oftar en ekki byggðar á ófaglegum forsendum. Allt virðist gert til að drepa málum á dreif.
    Fullkomlega löglegir gjörningar eru gerðir að pólitísku bitbeini á vettvangi stjórnmálanna og í alvöru er talað um að ganga á bak gerðum samningum við erlenda fjárfesta, t.d. í skattamálum. Þetta leiðir til þess að fjárfestingar á Íslandi er orðnar lakur kostur – fjárfestar treysta ekki lengur íslenska stjórnkerfinu. Tjónið af framangreindu er okkar allra og ekki verður unað við þetta ástand lengur.

Einföldum skattkerfið – beitum hvötum.
    Undanfarið hefur skattkerfið verið flækt og gert óhagkvæmt. Þessi staðhæfing er í samræmi við vitnisburð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Afleiðingar óhagkvæms skattkerfis og óvissu um skattaframkvæmd eru minni fjárfesting og hagvöxtur en ella. Því er mikilvægt að:
     a.      Óhagkvæmir skattar sem letja verðmætasköpun verði afnumdir. Árið 2011 verði 10 milljörðum kr. varið til þessa verkefnis og 10 milljörðum kr. árið 2012.
     b.      Skattaafslættir vegna rannsókna- og þróunarstarfs verði útvíkkaðir enn frekar.
     c.      Afsláttur frá tryggingagjaldi verði veittur fyrirtækjum sem sýnt geta fram á að störfum hafi fjölgað hjá þeim á árinu 2011 og 2012.
     d.      Skattaafslættir vegna hlutafjárkaupa verði innleiddir á ný.
     e.      Undanþágur frá tryggingagjaldi fyrir ný fyrirtæki verði innleiddar í tvö ár frá stofnun þeirra.
     f.      Skattkerfið verði endurskoðað í heild sinni með einföldun, hagkvæmni og hvata til verðmætasköpunar að leiðarljósi. Þeirri vinnu verði lokið fyrir 31. ágúst 2011.
     g.      Vörugjöld og verndartollar sem skekkja samkeppni og rýra hag almennings verði endurskoðaðir.
    Þrátt fyrir að útgjaldahlið ríkissjóðs sé mikilvæg er tekjuhliðin jafnvel enn mikilvægari. Hún þarf að styðja við atvinnuuppbyggingu og tryggja sterka skattstofna. Því leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að óhagkvæmum sköttum sem virka sem dragbítur á atvinnulífið verði útrýmt í áföngum. Næsta ár verði notað til að endurskoða skattkerfið með einföldun þess í fyrirrúmi. Í þeirri vinnu má styðjast við skýrslu AGS frá í sumar en þar er bent á margt sem betur mætti fara í skattkerfinu og eru niðurstöður AGS um margt samhljóma þeim málflutningi sem Sjálfstæðismenn hafa haft í frammi.

Hvetjum til aukinnar fjárfestingar – myndum ný störf.
    Besta leiðin til að hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki til að fjárfesta í umsvifum er að beita skattalegum hvötum. Jafnframt er mikilvægt að fólk sem nú er atvinnulaust en hefur hugmyndir um hvernig það geti skapað sér vinnu, en skortir fjárhagslegt bolmagn til þess, verði stutt í þeirri viðleitni sinna að sjá sér og sínum farborða.
     a.      Boðið verði upp á hjálp til fólks sem hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur við að undirbúa stofnun eigin atvinnurekstrar. Einstaklingar eigi rétt á hjálp – aðstoð, menntun og beinum fjárframlögum – sem meta megi til 500 þúsund kr. Þetta verði gert í samvinnu við Starfsendurhæfingarsjóð aðila vinnumarkaðarins.
     b.      Starfsendurhæfingarsjóður verði efldur með þátttöku allra atvinnurekenda og stuðningi frá ríkinu.
     c.      Tryggingagjald verði lækkað samhliða því sem atvinnuleysi minnkar.
    Starfsendurhæfingarsjóður hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og það framtak ber að styðja áfram með víðtækari þátttöku. Hækkun tryggingagjalds sem atvinnulífið samþykkti var í beinum tengslum við vöxt atvinnuleysis. Það væru skýr svik við atvinnurekendur ef ríkissjóður gerði alvöru úr áformum um að viðhalda háu tryggingagjaldi þegar dregur úr atvinnuleysi.

Efnahagsumhverfið bætt – endurskipulagningu fyrirtækja hraðað.
    Einn mikilvægasti þátturinn sem fjárfestar horfa til er gott efnahagsumhverfi og lítil óvissa um stjórnvaldsaðgerðir. Vanhugsaðar hugmyndir, eins og hafa komið fram í Magma- málinu, umræða um fiskveiðistjórnarkerfið og hringlandaháttur í skattaframvæmd er eitur í beinum fjárfesta. Hér þarf heilbrigt efnahagsumhverfi til að fyrirtækin blómstri og fjármagnseigendur fjárfesti. Nauðsynlegt er að:
     a.      Endurskipulagningu skulda fyrirtækja verði að fullu lokið fyrir 31. mars 2011.
     b.      Alfarið verði horfið frá fyrningarleið í sjávarútvegi og að farið verði að tillögum sáttanefndar um fiskveiðistjórnarkerfið.
     c.      Unnið verði markvissar að því að aflétta þrýstingi af gjaldmiðlinum og þannig tryggt að gjaldeyrishöftin verði afnumin innan hæfilegs tíma.
     d.      Óvissu hvað varðar skattaframkvæmd næstu ára verði eytt, svo sem um virðisaukaskatt í tengslum við gagnaver.
    Í umræðu um stöðu fyrirtækja hefur sjónum verið beint í of miklum mæli að stærstu fyrirtækjum landsins og eignarhaldsfélögum. Fyrir liggur að langflest störf eru hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þessum fyrirtækjum hefur ekki verið sinnt nógu vel af nýju bönkunum. Þessu verður tafarlaust að breyta og endurskipulagningu skulda og efnahags fyrirtækja verður að ljúka á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Í einhverjum tilvikum mun stærð fyrirtækja og umfang efnahags leiða til þess að lengri tími reynist nauðsynlegur en það á ekki við um meginþorra fyrirtækja.
    Mikilvægt er að sett verði fram skýr og samræmd aðferðafræði um það hvernig standa skuli að endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna. Tryggja verður að allir sitji við sama borð, að ferlið sé gagnsætt og að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstaða verði ekki bjöguð. Sjálfsagt er að eigendum og starfsfólki verði gert kleift að eignast fyrirtækin að nýju ef færa þarf niður allt hlutafé eftir að fyrirfram skilgreindum áföngum er náð. Þannig viðhaldast þau verðmæti sem felast í þekkingu og atorku starfsmanna og eigenda, tengslum og viðskiptavild.
    Ljóst er að þetta mun geta haft kostnað í för með sér fyrir fjármálastofnanir en sá kostnaður getur aðeins orðið brot af þeim samfélagslega kostnaði sem orðið hefur og verða mun ef endurskipulagningin dregst enn á langinn. Mikilvægt er að bönkunum verði gefið fullt ráðrúm til verksins.

3.     Almannaþjónustan – meira fyrir minna.
    Stöðva þarf núverandi hallarekstur sem er til kominn vegna þess að skattstofnarnir gáfu eftir í hruninu og vaxtabyrði ríkissjóðs jókst vegna skuldsetningar. Ríkisútgjöld hafa vaxið um tæplega 50% umfram verðlag á undanförnum áratug. Þetta er óheillaþróun. Nú er nauðsynlegt að ná tökum á ríkisfjármálunum með það að markmiði að ríkissjóður verði hallalaus árið 2013. Ekkert svigrúm er fyrir frekari vöxt útgjalda næstu ár. Það er því ljóst að áhersla næstu ára verður að vera á hagræðingu í rekstri ríkisins, lækkun útgjalda og tekjuöflun sem byggð er á aukinni verðmætasköpun en ekki skattahækkunum. Þetta er forsenda þess að okkur takist að verja velferðina og auka lífsgæðin á komandi árum. Við þurfum að gera meira fyrir minna.
    Oft er því ranglega haldið fram að útgjaldavöxtur sé hinn endanlegi mælikvarði á aukin gæði opinberrar þjónustu. Ekkert svigrúm er fyrir ranghugmyndir af þessum toga. Á mörgum sviðum hefur orðið ofvöxtur í útgjöldum ríkisins og hann verður að leiðrétta. Hafa ber hugfast að bæði gæði opinberrar þjónustu og umfang rekstrar á ábyrgð hins opinbera hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu landsins gagnvart öðrum löndum.
    Eignir sem ríkið hefur fjármagnað með lántöku, svo sem í ýmsum fjármálastofnunum, á að selja við fyrsta tækifæri og lækka þannig skuldir og fjármagnskostnað ríkissjóðs.
    Í stuttu máli þurfa ríkisfjármál næstu ára að snúast um að styrkja tekjustofnana og auka framleiðni á gjaldahliðinni. Verkefnið er stórt og endurmeta þarf alla þætti almannaþjónustunnar. Velta þarf við hverjum steini, draga reynslu af því sem vel hefur gefist og síðast en ekki síst að byggja aðgerðir á nánu og virku samstarfi við þá sem starfa á vettvangi.
    Stærstu útgjaldaliðirnir, fyrir utan fjármagnskostnað (75 milljarða kr.) eru: Menntamál (57 milljarðar kr.), heilbrigðismál (98 milljarðar kr.) og félags- og tryggingamál (121 milljarður kr.). Þessir liðir taka samtals um 68% af útgjöldum ríkisins.

Heilbrigðisþjónustan – tryggjum þjónustu, nýtum valfrelsi og sköpunarkraft.
    Grundvallaratriði við niðurskurð og sparnað í ríkisrekstrinum er að jafn réttur allra landsmanna til að njóta heilbrigðisþjónustu sé tryggður, óháð búsetu. Flutningsmenn tillögunnar harma verklag ríkisstjórnarinnar við niðurskurðinn, sem unninn er án alls samráðs og framtíðarsýnar. Markmiðið er að veita áfram öllum Íslendingum heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Lélegur undirbúningur af hálfu ríkisstjórnarinnar og minni fjármunir til heilbrigðisþjónustu á þessu og næsta ári ógna því markmiði.
    Til að ná niður kostnaði í heilbrigðisþjónustunni verður að vinna á grundvelli heildstæðrar stefnumótunar og er afar mikilvægt að hún sé byggð á vel skilgreindum réttindum hvers og eins. Jafnframt þarf að tryggja samstarf og samvinnu við fagaðila og rétthafa þjónustunnar. Þjónustuna þarf að kostnaðargreina. Um leið og þjónustan er skilgreind út frá þörfum einstaklinganna en ekki þörfum kerfisins og einstakra stofnana skapast grunnur fyrir valfrelsi og samkeppni um hagkvæm og árangursrík þjónustuúrræði. Mikilvægt er að auka ábyrgð fólks á eigin heilsu. Það verður gert með samvinnu aðila og heildstæðri stefnumótun á svið forvarna.
    Skilgreina þarf hlutverk stofnana og sameina stjórnsýslu- og heilbrigðisstofnanir með hagræðingu og bætta þjónustu að markmiði. Greiðslur til stofnana eiga að vera gagnsæjar og skýrar. Endurskoða þarf greiðslufyrirkomulag sjúklinga með það að markmiði að þak verði á kostnaði langveikra og aðstandenda þeirra.
    Ný heilbrigðisstefna verður ekki unnin meðfram fjárlagavinnu. Verði látið undir höfuð leggjast að hefja heildstæða endurskoðun á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins mun það óumdeilanlega bitna á gæðum þjónustunnar í náinni framtíð og möguleikum til að viðhalda því þjónustustigi sem byggt hefur verið upp um landið allt.
    Sjálfsagt er að gera einkaaðilum kleift að leigja ónýtta aðstöðu af heilbrigðisstofnunum til að geta boðið fram heilbrigðisþjónustu til útflutnings.

Eyða þarf fátæktargildrum og hvetja til sjálfshjálpar.
    Á síðustu fimmtán árum hefur fjöldi öryrkja tvöfaldast, farið úr tæplega 7.600 árið 1996 í rúmlega 14.500 á síðasta ári. Þá hafa greiðslur Vinnumálastofnunar til atvinnulausra aukist mikið. Á síðasta ári greiddi stofnunin rúmlega 29.000 einstaklingum tæpa 25 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur. Þessi upphæð er rúmlega tíu sinnum hærri en hún var fyrir einungis þremur árum. Nauðsynlegt er að vinna gegn framhaldi á þessari þróun.
    Starfsendurhæfingarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki í því sambandi en hann ber að styrkja og tryggja almennari þátttöku aðila á vinnumarkaði að honum.
    Hér verður einnig að nefna að tilfærslu- og bótakerfið á Íslandi er vegna tekjutenginga hlaðið fátæktargildrum. Hvers vegna ætti nokkur að vilja hverfa af bótum og fara út á vinnumarkaðinn þegar nær allar tekjurnar eru hirtar af ríkinu með skertum bótum? Nauðsynlegt er að endurskoða samspil bóta og tekna til að hvetja sem flesta út á vinnumarkað á ný. Með því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar tryggjum við því tækifæri til að bæta lífskjör sín um leið og ríkið hefur betri möguleika til að standa undir mannsæmandi bótum fyrir þá sem ekki geta unnið fyrir sér og sínum.

Ávinnsla lífeyrisréttinda verði sjálfbær.
    Nauðsynlegur liður í úrbótum á opinberum rekstri er að endurskoða lífeyrisréttindakerfi opinberra starfsmanna og samræma þau. Lífeyriskerfi ríkisins er ósjálfbært og að óbreyttu mun annaðhvort þurfa að hækka lífeyrisaldur eða hækka skatta til að standa undir byrðinni.
    Það stríðir gegn réttlætisvitund fólks á almennum vinnumarkaði, sem þarf að líða skert lífeyrisréttindi, að það skuli um leið þurfa að greiða hærri skatta til að tryggja óbreytt réttindi þeirra sem tilheyra opinberu lífeyrissjóðunum. Þrátt fyrir að ríkið hafi að meðaltali gjaldfært um 20 milljarða kr. á ári vegna skuldbindinga í opinbera lífeyriskerfinu hefur ófjármögnuð lífeyrisskuldbinding þess vaxið í meira en 500 milljarða kr., eða sem nemur um 4 milljónum kr. á hvert heimili í landinu. Af þessari braut verður að snúa.
    Því er óhjákvæmilegt að nú þegar verði hafist handa við að endurskoða lífeyriskerfi opinberra starfsmanna svo framtíðarfjármögnun kerfisins verði tryggð og komið í veg fyrir að áfram safnist upp óbærilegar byrðar fyrir framtíðarkynslóðir. Þá ber að stefna að jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði.

Menntamálin verði áfram í forgangi.
    Útgjöld til menntunar eru fjárfesting til framtíðar. Það er vanhugsuð ráðstöfun að draga jafn mikið úr útgjöldum til menntamála og hugmyndir ríkisstjórnarinnar byggja á þar sem menntun er forsenda framtíðarhagvaxtar og efnahagslegrar velmegunar allra Íslendinga. Það tekur marga áratugi að byggja upp menntakerfi eins og við Íslendingar búum við en einungis örskamma stund að eyðileggja það. Verkefni stjórnmálanna er að byggja á því sem vel er gert og sækja fram á réttum forsendum. Velmegun þjóða ræðst af menntunarstigi og þekkingaröflun. Það þarf að efla menntun ungs fólks í tæknigreinum til að uppfylla áætlaða þörf í hátækniiðnaði á næstu árum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þveröfuga leið, með því að þrengja mest að tæknimenntuninni. Sækja ætti í smiðju þeirra þjóða þar sem best hefur tekist til á þessu sviði.
    Tímann frá því að börn hefja skólagöngu þar til þau hefja sérnám þarf að nýta betur. Það kemur samfélaginu öllu til góða. Við Íslendingar getum ekki verið eftirbátar nágrannaríkjanna í þessu tilliti. Íslensk ungmenni útskrifast síðar úr menntaskóla en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum. Það hefur í för með sér mikinn kostnað auk þess sem þeir sem ganga menntaveginn koma síðar út á vinnumarkaðinn en víðast hvar annars staðar. Á háskólastiginu ber að stefna að samnýtingu og sameiningu háskóla.
    Halda ber áfram vinnu við að stytta námstíma til stúdentsprófs og við mótun menntastefnunnar á að byggja á sveigjanleika, valfrelsi og ábyrgð.
    Skýringin á því að flutningsmenn vilja hlífa menntamálum er sú, að til þess geta boðið upp á sterkt velferðarkerfi verður að tryggja efnahagslegar framfarir og einn af gangráðum hagvaxtar er vel menntuð þjóð. Þannig sýna rannsóknir að allt að 20% hagvaxtar á Íslandi árabilið 1970–1992 má rekja til fjárfestingar í menntun. Því væri það glapræði að minnka fjárfestingu til þessa málaflokks nú um stundir þegar auka þarf umsvif og fjölga störfum.

Fjármálafyrirtæki greiði gjald fyrir yfirlýsingu um ábyrgð á innstæðum.
    Í aðdraganda hrunsins 2008 lýstu ráðamenn því yfir að allar innistæður í íslenskum fjármálastofnunum nytu ríkisábyrgðar. Var þetta gert til að koma í veg fyrir áhlaup á bankana og önnur fjármálafyrirtæki. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa staðfest þessa ábyrgð ítrekað síðan þótt hún hafi ekki verið lögfest.
    Mikilvægt er að losa ríkissjóð undan þessum ábyrgðaryfirlýsingum hið fyrsta, en það verður að gera á þann hátt að ekki valdi óróa á fjármálamarkaði. Óeðlilegt er að á meðan yfirlýsingin gildir sé hún gjaldfrjáls fyrir bankana enda er hún í eðli sínu niðurgreiðsla á kostnaði þeirra.
    Því er hér lagt til að sett verði á sérstakt gjald sem nemi 0,25% af stofni allra innstæðna hjá fjármálafyrirtækjum þar til yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur verið dregin til baka.
    Líklegt er að viðbrögð markaðarins verði þau að innlánsstofnanir fari að bjóða reikninga sem ekki njóta ríkistryggingar og þeir beri hærri vexti en þeir sem eru ríkistryggðir. Eftir því sem traust eykst á fjármálakerfið munu stöðugt fleiri kjósa ótryggða reikninga vegna ávöxtunarinnar allt þar til einungis verður um lágmarkstryggingu Tryggingarsjóðs að ræða.
    Með gjaldinu vinnst þrennt:
     *      ríkissjóður fær sjálfsagða umbun fyrir þá áhættu sem fylgir yfirlýsingunni,
     *      gjaldið mun leiða til þess að með tímanum mun upphæð innstæðna sem njóta yfirlýsingarinnar lækka og að lokum hverfa,
     *      innlánsstofnanir njóta ekki lengur niðurgreiðslu á vöxtum til innlánseigenda.

Betri stjórn ríkisfjármála.
    Ein orsök þess að hér var of mikil þensla í aðdraganda efnahagshrunsins er sú, að stefnan í opinberum fjármálum studdi ekki nægjanlega við peningamálastefnu Seðlabankans. Á sama tíma og Seðlabankinn leitaðist við að slá á þenslu í hagkerfinu voru ýmsar ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga til þess fallnar að verka í öfuga átt.
    Til að koma ríkisfjármálum í fastari skorður og fjármálastefnan styðji betur við peningamálastefnuna er skynsamlegt að innleidd verði formleg fjármálaregla við stjórn ríkisfjármála á Íslandi. Það mun skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum á Íslandi til frambúðar og draga úr hagsveiflum og óvissu og leiða til aukins hagvaxtar. Tillaga þessa efnis liggur fyrir á Alþingi frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Felur hún í sér að ríkisútgjöld skuli ekki vaxa meira á ári en sem nemur langtímahagvexti.

Hvað kosta tillögurnar og hvernig á að fjármagna þær?
    Augljóst er að framangreindar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins mundu leiða til meiri halla á ríkissjóði en leið ríkisstjórnarinnar kæmi ekkert þeim til mótvægis. Þannig mundi minni niðurskurður í menntakerfinu leiða til tæplega 3 milljarða kr. minni bata ef snúið yrði ofan af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Afnám óhagkvæmra skatta kostar 10 milljarða kr., tekjuskattslækkanir 10 milljarða kr. og aðra 11 milljarða kr. að ráðast ekki í skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Þannig mundu tillögurnar leiða til 31 milljarðs kr. verri afkomu ríkissjóðs. Því væri batinn ekki nema um 4 milljarðar kr. í stað 43 milljarða kr. ríkisstjórnarinnar og við það yrði ekki unað.
    Telja verður að sú fjölgun starfa sem fjallað er um hér að framan muni bæta stöðu ríkissjóðs um 36 milljarða kr. á næsta ári og um 33 milljarða kr. árið 2012.
    Batinn við þær ráðstafanir sem hér er fjallað um yrði því um 45 milljarðar kr. sem er um 2 milljörðum kr. meira en tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Frumjöfnuður yrði þannig 19 milljarðar kr. á næsta ári í stað 17 milljarða kr. ríkisstjórnarinnar og halli að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar yrði um 51 milljarður kr. í stað 53 milljarða kr. ríkisstjórnarinnar. Jafnframt yrði skuldasöfnun minni sem leiddi til minni fjármagnskostnaðar og minni halla til lengri tíma litið. Þá er þessi ráðstöfun fallin til þess að styðja við eftirspurn, flýta bata og breikka og styrkja skattstofna. Hér er ekki talinn til tekjuauki vegna aukins þorskafla og aukinna óbeinna umsvifa og er það gert til að hafa borð fyrir báru við mat á jákvæðum áhrifum á ríkissjóð.
    Til að tryggja enn frekar tekjugrunn ríkissjóðs er hér lagt til að inngreiðslur í séreignarsjóði landsmanna verði skattlagðar. Það mundi skapa um 80 milljarða kr. í tekjur fyrir ríkissjóð á næsta ári auk þess sem tekjur sveitarfélaganna mundu aukast um allt að 40 milljarða kr. sem kæmi þeim vel í þessu erfiða árferði. Tekjur á ári eftir 2011 vegna þessarar ráðstöfunar gætu orðið allt að 7,5 milljarðar kr. á ári fyrir ríkissjóð og 3,5 milljarðar kr. fyrir sveitarfélögin. Þær tekjur sem ekki yrðu notaðar til að fjármagna tillögurnar á árunum 2011 og 2012 skulu nýttar til að greiða niður skuldir sem aftur mundi lækka vaxtakostnað ríkisins og bæta stöðu ríkissjóðs.
    Mikilvægt er að undirstrika að flutningsmenn hafna algjörlega að gera þessa kerfisbreytingu á skattlagningu inngreiðslna í séreignarsjóði ef þær leiða ekki til verulegra skattalækkana á sama tíma. Slíkar breytingar má alls ekki gera í þeim tilgangi að fresta nauðsynlegu aðhaldi í ríkisrekstrinum eins og sumir stjórnarliðar hafa rætt um.
    Framangreindar tillögur eru framsæknar og munu hafa mjög jákvæð áhrif á heimili, fyrirtæki og ríkissjóð, nái þær fram að ganga. Þær eru skýr kostur gagnvart hugmyndum ríkisstjórnarinnar sem allar miða að undan- og afturhaldi og uppgjöf andspænis vandanum. Það er trú flutningsmanna að með því að ráðast í framangreindar tillögur verði brotin á bak aftur sú stöðnun sem ríkir í dag og að Ísland verði í framhaldinu aftur land þar sem íbúarnir búa við hvað best lífskjör.


Fylgiskjal II.


Álit um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1,
og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.
(Fylgiskjal II með nefndaráliti á þskj. 413 í máli nr. 1 á 139. löggjafarþingi.)

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.


Forsendur fjárlaga.
    Þjóðhagslegar forsendur fjárlaga hafa breyst mikið frá þjóðhagsspá sem birt var í júní síðastliðinn. Þannig er nú gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,9% á næsta ári í stað 3,2%. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá kemur fram að fjárfesting mun dragast saman um allt að 10,3 prósentustig frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Stafar þessi samdráttur fyrst og fremst af því að ekki er nú lengur gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík árið 2011. Innlend eftirspurn mun dragast saman um 1,6 prósentustig og útflutningur um 0,8 prósentustig frá fyrri spá, sjá töflu. Drifkraftar hagvaxtar virðast því verða afar veikir á næsta ári og lítið má út af bregða til að allt fari á verri veg. Fjárlagafrumvarpið virðist því hvíla á hnífsegg.

Endurskoðuð
þjóðhagsspá
(nóvember)
Forsendur
fjárlaga
(júní)
Breyting
Hagvöxtur 1,9% 3,2% -1,3%
    Fjárfesting 14 ,9% 25,2% -10,3%
    Einkaneysla 2 ,6% 3,4% -0,8%
    Samneysla -4 ,3% -3,8% -0,5%
    Útflutningur 1 ,0% 1,8% -0,8%
    Innflutningur 2 ,0% 3,2% -1,2%
Innlend eftirspurn 2,4% 4,0% -1,6%
Kaupmáttur 3,6% 3,7% -0,1%
Verðbólga 2,3% 3,5% -1,2%
Launavísitala 4,4% 5,2% -0,8%
Atvinnuleysi 7,3% 8,3% -1,0%
Heimild: Hagstofa Íslands

    Athygli vekur að þrátt fyrir að þjóðhagsforsendur séu nú mun verri en í júní er því spáð að atvinnuleysi muni dragast saman um 1 prósentustig. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfesting verði mun minni en gert var ráð fyrir í spánni í júní. Enn meiri athygli vekur að gert er ráð fyrir að kaupmáttur breytist óverulega og er það vegna hagstæðari verðlagsforsendna. Þannig var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að meðalverðbólga yrði 3,5% á næsta ári en nú er gert ráð fyrir 2,3% verðbólgu. Það er mat 1. minni hluta að þessi spá gangi tæpast upp. Verri þjóðhagsforsendur ættu að öllu jöfnu að leiða til meiri samdráttar í eftirspurn en hér er gert ráð fyrir.

Áhrif verri þjóðhagsforsendna á fjárlagafrumvarp.
    Lakari þróun efnahagsstarfseminnar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu hefur mikil áhrif á ríkissjóð. Þannig er það mat Samtaka atvinnulífsins að breyttar þjóðhagsforsendur leiði til 6,1 milljarðs kr. verri afkomu ríkissjóðs en ella, sjá töflu.

Fjárlagafrumvarp Endurskoðuð áætlun
VLF, fjárlagafrumvarp (milljarðar kr.) 1.720 1.696
Magnbreytingar milli ára (%) 3,2% 1,9%
Verðbreytingar milli ára (%) 3,8% 3,8%
Lækkun landsframleiðslu (milljarðar kr.) 23,4
Hlutfall skatttekna í VLF (%) 26%
Lækkun skatttekna (milljarðar kr.) 6,1
Heimild: Samtök atvinnulífsins

    OECD er svartsýnna á hagvöxt en Hagstofa Íslands og hljóðar hagvaxtarspá stofnunarinnar fyrir næsta ár upp á 1,5% sem er um 0,4 prósentustigum lægra en endurskoðuð spá Hagstofu Íslands. Vegna þessa metur OECD það svo að tekjur ríkissjóðs séu ofmetnar um 15 milljarða kr. á næsta ári. Þá spáir Evrópusambandið að hagvöxtur verði einungis um 0,7% á næsta ári. Ef sú spá rætist er ljós að ástand ríkisfjármála yrði mun verra en hér er gert ráð fyrir. Miðað við sömu forsendur og áður yrðu skatttekjur ríkissjóðs allt að 27 milljörðum kr. lægri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.
    Minni hagvöxtur mun setja tekjuáætlun úr skorðum og þar með tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Ljóst er að bregðast verður við verri horfum ef halda á áætlun um viðsnúning í ríkisfjármálum. Það verður að gera með því að leggja áherslu á breikkun skattstofna. Auknar skattaálögur eða enn frekari niðurskurður munu festa efnahagslífið enn frekar í þeim vítahring sem það er fast í núna. Því varar 1. minni hluti við því að gripið verði til vanhugsaðra ráðstafana og bíður um leið fram krafta sína við að ná tökum á ástandinu. Einnig er lífsnauðsynlegt að leggja áherslu á að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins. Rétt er að taka fram að ekki er fjallað hér um áhrif minni hagvaxtar á útgjaldahlið frumvarpsins.

Langtímaáhrif minni framleiðslugetu.
    Langtímaáhrif af minnkandi framleiðslugetu íslenska hagkerfisins virðast vera vanmetin. Undanfarin tvö ár hafa um 22.500 störf tapast á vinnumarkaði. Um 13.000 einstaklingar er nú atvinnulausir. Hver atvinnulaus leiðir til um 3 milljóna kr. verri afkomu ríkissjóðs vegna bótagreiðslna og minni skatttekna. Heildaráhrif á ríkissjóð vegna atvinnulausra gætu því verið allt að 39 milljarðar kr. Um 9.500 einstaklingar hafa horfið af vinnumarkaði: þeir hafa sest í helgan stein, farið á örorkubætur, flutt búferlum úr landi eða farið í skóla. Áhrif af flutningi fólks eru enn alvarlegri fyrir afkomu ríkissjóðs en vegna atvinnulausra. Ríkissjóður verður ekki eingöngu af beinum skatttekjum heldur einnig óbeinum. Þá er rétt að benda á að langtímaáhrif af því að fólk fari í skóla eru jákvæð. Minni fjárfesting og minnkandi vinnumarkaður hefur óhjákvæmilega í för með sér minni framleiðslugetu íslenska hagkerfisins til lengri tíma. Því er líklegt að óbreyttu að langtímahagvöxtur verði minni en ef hægt hefði verði að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins og þar með verði grunnur ríkisrekstrar mun veikari enn menn hafa hingað til viljað viðurkenna. Jafnframt er hér komin skýring á því af hverju atvinnuleysi hefur ekki orðið jafnmikið á Íslandi og spáð var haustið 2008. Fólk hefur í miklum mæli horfið af vinnumarkaði. Þetta er ógnvænleg þróun að mati 1. minni hluta og full ástæða til að leita allra ráða til að snúa þessari þróun við. Þá ber að geta þess, þótt möguleikinn sé e.t.v. langsóttur, að ef framleiðslugetan minnkar mikið er hætta á að strax komi til framleiðsluspennu ef hagvöxtur tekur við sér af krafti með tilsvarandi háum vöxtum sem enn slær á möguleikann til að vinna upp tapaðan hagvöxt.

Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar.
    Í athugasemdum við tekjuöflunarfrumvarp fjármálaráðherra, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 200. mál, segir svo:
    „Frá haustinu 2008 hefur meginverkefni ríkisstjórnarinnar verið að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum veruleika með það að markmiði að endurreisa íslenskt efnahagslíf í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í skýrslu fjármálaráðherra sem lögð var fyrir Alþingi í júní 2009 var þetta verkefni útfært nánar sem áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Þar kemur skýrt fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni fela í sér hvort tveggja niðurskurð ríkisútgjalda og hækkun á tekjum ríkissjóðs. Sú blandaða leið niðurskurðar og tekjuöflunar sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum er þó í stöðugri endurskoðun og tekur mið af þeim árangri sem hvor leið skilar. Þannig er reynt að lágmarka það tjón sem niðurskurður á samneyslu veldur hagkerfinu og einnig þau neikvæðu áhrif er tekjuöflunaraðgerðir kunna að hafa.“
    Hér virðist ríkisstjórnin einblína á og sjá aðeins tvær leiðir til þess að laga stöðu ríkissjóðs – með skattahækkun og niðurskurði. Ríkisstjórnin hefur einnig heimilað útgreiðslu séreignarsparnaðar sem gefur nokkrar tekjur en skaðar eignastöðu heimila til framtíðar. Ríkisstjórnin virðist alfarið hafna þeirri leið að stækka skattstofna með því að örva efnahagsstarfsemina með lækkun skatta og einföldun á starfsumhverfis fyrirtækja. Þá gæti ríkisstjórnin farið út í arðbærar framkvæmdir á sviði orkumála sem skapa atvinnu og laða að erlenda fjárfestingu. Þá hefur verið bent á að aukning fiskveiðikvóta innan aflamarks mundi leiða til aukinna umsvifa.
    Stefnu ríkisstjórnarinnar, sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2010, er haldið áfram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Stefnan felst fyrst og fremst í að hækka skatta enn frekar og þyngja enn byrðarnar á heimili og fyrirtæki. 1. minni hluti varaði fyrir ári síðan við þessari stefnu þar sem ekki er skynsamlegt að gera tilraunir með að skattleggja þjóðina út úr kreppu. Skattstofnar gefa eftir og einkaneysla dregst saman sem og fjárfesting við aukna skattlagningu. Í kjölfarið minnkar þjóðarframleiðsla og þar með versnar hagur heimilanna. Hagtölur hafa leitt í ljós að þessar viðvaranir 1. minni hluta voru á rökum reistar. Þannig sýnir endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofunnar samdrátt í landsframleiðslu á yfirstandandi ári og veikan vöxt á því næsta. Spár um mikinn samdrátt í fjárfestingu eru uggvænlegar en fjárfesting hefur bein áhrif á atvinnustig bæði í bráð og lengd. Samdráttur í fjárfestingu leiðir til stöðnunar og vítahrings brottflutnings, veikari skattstofna, halla ríkissjóðs og enn hærri skatta og niðurskurðar. Fjárlaganefnd verður að skoða nákvæmlega þau teikn sem blasa við og skoða hvort ekki sé skynsamlegt að hvika frá þessari helstefnu og einbeita sér frekar að því að endurheimta skattstofna. Nauðsynlegur niðurskurður ríkisútgjalda, sem óhjákvæmilega bitnar á störfum opinberra starfsmanna, leiðir til aukins atvinnuleysis þar sem einkamarkaðurinn getur ekki tekið við atvinnulausum opinberum starfsmönnum.

Niðurstaða.
    Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar um hagvöxt setur allar áætlanir ríkisstjórnarinnar um tekjuhlið fjárlaga úr skorðum. Líkur eru til þess að skattstofnar bregðist kröftugar við álögum en ríkisstjórnin gerði og gerir ráð fyrir og meira í samræmi við þau varnaðarorð sem undirritaðir létu falla fyrir ári síðan. Það ætti að vera enn ein ástæða fjárlaganefndar til að endurskoða þá stefnu sem mörkuð er með fjárlögum.

Alþingi, 2. des. 2010.

Pétur H. Blöndal,
Tryggvi Þór Herbertsson.



Fylgiskjal III.


Breytingartillögur við frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 og við brtt. á þskj. 217.


(Þskj. 539 – 1. mál á 139. löggjafarþingi.)


Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar (KÞJ, ÁsbÓ, ÞKG).



Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 1:
    1.     Við brtt. á þskj. 517.
         Við I Skatttekjur
         a.     1.1.1.1 Tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla          89.300,0     3.500,0     92.800,0
         b.      1.5.1.1 Tekjuskattur lögaðila          26.400,0     1.500,0     27.900,0
         c.     Við bætist nýr liður,svohljóðandi:
              Skattur á séreignarsparnað          0,0     80.000,0     80.000,0
         d.     Við bætist nýr liður, svohljóðandi:
             Lækkun skatta frá 1. maí 2011          0,0     -40.000,0     -40.000,0
         e.     2.2.1.1 Atvinnutryggingargjald          33.917,9     -6.000,0     27.917,9
        f.     5.2.2.25.1.25 Veiðigjald fyrir veiðiheimildir          2.470,0     225,0     2.695,0
Breytingar á sundurliðun 2:
    2.     Við 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður
         1.11 Atvinnuleysisbætur     21.170,0     -1.000,0     20.170,0
         Greitt úr ríkissjóði     21.170,0     -1.000,0     20.170,0
    3.     Við 19-801 Vaxtagjöld ríkissjóðs
        a.     1.10 Vaxtagjöld ríkissjóðs          73.654,0     -2.700,0     70.954,0
         b.     Greitt úr ríkissjóði          71.422,0     -1.000,0     70.422,0