Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 574  —  317. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (listaverk o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Hlyn Ingason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneytinu, Skúla Eggert Þórðarson, Ingvar Rögnvaldsson, Óskar Albertsson og Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Jónu Björk Guðnadóttur og Sigurjón Högnason frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Hafdísi Böðvarsdóttur og Hallgrím Ásgeirsson frá Landsbankanum, Árna Jóhannsson, Sigurð B. Halldórsson og Skarphéðin Ómarsson frá Samtökum iðnaðarins, Guðmund Guðbjörnsson frá ERGO-Íslandsbanka og Sigurbjörgu Leifsdóttur og Pétur Örn Sverrisson frá Lýsingu. Þá hefur nefndinni borist umsögn frá Samtökum iðnaðarins.

Frumvarpið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt og það er að meginstefnu til tvíþætt, annar þáttur þess sem birtist í 1., 2. og 4. gr. varðar meðferð undanþága listamanna vegna sölu eigin verka og þær tegundir listaverka sem undir þær heyra en í 5., 6. og 7. gr. eru ákvæði sem varða framhald tilgreindra bráðabirgðaheimilda til endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting er lýtur að eftirlitsskyldum ríkisskattstjóra.
    Tilurð frumvarpsins má m.a. rekja til athugasemda Bandalags íslenskra listamanna sem þáverandi efnahags- og skattanefnd bárust á 139. þingi í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, lögum um vörugjald og tollalögum sem varð að lögum nr. 121/2011 (898. mál). Lagt er til að fleiri tegundir listaverka verði felld undir þá undanþágu sem listamenn njóta vegna sölu eigin verka með fjölgun tollskrárnúmera, sbr. 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga.
    Tillaga frumvarpsins er gerð með hliðsjón af dönsku virðisaukaskattslögunum og tilskipun ESB varðandi sama efni og verður aðilum sem hagsmuna eiga að gæta gert kleift að óska ákvörðunar tollstjóra um tollflokkun listaverka sem síðan er hægt að skjóta til ríkistollanefndar.
    Þá er einnig lagt til að tímabundnar heimildir til endurgreiðslu á virðisaukaskatti verði framlengdar um eitt ár en um er að ræða heimildir sem fram koma í ákvæði til bráðabirgða X, XI og XV í lögum um virðisaukaskatts, þ.e. endurgreiðslu vegna hópbifreiða og almenningsvagna, vetnisbifreiða og vinnu manna á byggingarstað.
    Meiri hlutinn telur að ákvæði frumvarpsins sem varða listamenn séu jákvæð en telur í ljósi sjónarmiða Bandalags íslenskra listamanna sem legið hafa fyrir í málinu að ákvæðin þarfnist frekari skoðunar með tilliti til handverks. Vegna tímaskorts hefur nefndinni ekki gefist færi á að ræða mál þetta til hlítar og heldur ekki tillöguna varðandi skatteftirlit ríkisskattstjóra.     Meiri hlutinn telur aftur á móti brýnt að lögfesta framangreind ákvæði varðandi endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar.
    Við meðferð málsins barst nefndinni tillaga frá fjármálaráðuneytinu um breytingu á frumvarpinu og er sú tillaga lögð fram í framhaldi af dómi Hæstaréttar í tengslum við ólögmæti gengistryggingar, mál nr. 282/2011, og áhrif hans á uppgjör virðisaukaskatts. Nefndin hafði áður fjallað um málið á opnum fundi 2. nóvember sl. ásamt fulltrúum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og ríkisskattstjóra.
    Eftir að tillaga ráðuneytisins kom fram óskaði nefndin eftir sjónarmiðum umræddra aðila og í framhaldinu gerðu Samtök fjármálafyrirtækja tillögu um aðra útfærslu að breytingu. Aðilarnir voru síðan kallaðir til fundar með nefndinni og kom þá í ljós að skiptar skoðanir eru um hver viðbrögð skattyfirvalda við dómnum eigi að vera þar sem fjárhagslegir hagsmunir aðila togast á í málinu.
    Fjármögnunarleigur hafa á grundvelli fjármögnunarleigusamninga sem þær hafa gert innheimt virðisaukaskatt af viðsemjendum sínum og skilað til ríkisins. Hafi viðsemjendurnir verið í virðisaukaskattsskyldri starfsemi má almennt gera ráð fyrir að þeim hafi verið heimilt að færa greiðslu skattsins til innskatts. Eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 var eðli fjármögnunarleigusamnings dæmt sem lán sem þýðir að innheimta skattsins byggðist á röngum forsendum, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þegar virðisaukaskattur er ranglega innheimtur ber seljanda að standa skil á honum í ríkissjóð nema hann komi fram leiðréttingu gagnvart kaupanda áður en virðisaukaskattstímabili lýkur.
    Skoðanaágreiningur er uppi í málinu um hvernig fara eigi með þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hafa skilað sér í ríkissjóð á grundvelli umræddra samninga sem falla undir fordæmisgildi dómsins.
    Samtök fjármálafyrirtækja hafa gert að tillögu sinni að samningsaðilum sé rétt að leiðrétta frá upphafi öll uppgjörstímabil. Sú aðferð leiðir til þeirrar niðurstöðu að fjármögnunarleigurnar bakfæri útskatt vegna skila á virðisaukaskattinum eftir atvikum þannig að þau færi hjá sér neikvæðan útskatt sem nemur sömu fjárhæð. Þann neikvæða útskatt yrði þeim heimilt að nýta til frádráttar í virðisaukaskattsskilum vegna starfsemi sinnar á því tímabili þegar leiðrétting á sér stað. Í annan stað fæli þetta í sér að viðsemjendur fjármögnunarleiga bakfærðu innskatt sem umræddri fjárhæð næmi.
    Skattyfirvöld telja þessa aðferð sem Samtök fjármálafyrirtækja leggja til of áhættusama fyrir ríkissjóð þar sem torvelt geti reynst að hafa eftirlit með því hvort viðsemjendurnir bakfæra innskatt auk þess sem óvíst er hvort sumir þeirra hafa til að bera greiðslugetu. Telja skattyfirvöld að dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. mál nr. 319/2001, leiði til þeirrar niðurstöðu að þegar viðskiptavinur fjármögnunarleigu hefur notið innskattsréttar, sem er í um 90% tilvika, sé ekki þörf á leiðréttingu þar sem umræddur aðili hefur getað nýtt innskattinn sem myndaðist við greiðslu skattsins til frádráttar í virðisaukaskattsskilum sínum. Af dómnum megi draga þá ályktun að leiðrétting á grundvelli 3. mgr. 22. gr. virðisaukaskattslaga verði ekki gerð nema fyrir milligöngu ríkissjóðs eftir að viðkomandi virðisaukaskattstímabili er lokið, þ.e. að ríkissjóður endurgreiði og endurkrefji hinn oftekna skatt. Með þessari leið telja skattyfirvöld að framangreind áhætta ríkissjóðs sé takmörkuð auk þess sem hún leiðir til mikils vinnusparnaðar fyrir bæði ríkið og atvinnulífið.
    Skattyfirvöld benda einnig á að í þeim 10% tilvika þar sem viðsemjendur fjármögnunarleiga njóta ekki innskattsréttar eigi leiðrétting hins vegar rétt á sér þar sem viðkomandi hefur ekki getað nýtt hinn umkrafða virðisaukaskatt til innskatts.
    Skattyfirvöld vekja enn fremur athygli á því að í þeim tilvikum þegar fjármögnunarleigurnar hafa lagt út fyrir virðisaukaskatti vegna viðskiptanna en viðskiptavinirnir ekki staðið í skilum gætu almenn ákvæði virðisaukaskattslaga, sbr. 13. gr., átt við ef krafa er töpuð en annars geti við þessar aðstæður þurft að heimila sérstakar leiðréttingar að uppfylltum skilyrðum 22. gr. laganna.
    Í ljós hefur komið við umfjöllun nefndarinnar að andstaða Samtaka fjármálafyrirtækja við tillögu ráðuneytisins skýrist annars vegar af framkvæmd tillögunnar, þ.e. samtökin telja að fjármálafyrirtæki hafi hvorki forsendur til að meta né ákveða hvort viðskiptamenn þeirra njóta innskattsréttar, og hins vegar að hún varði umtalsverða fjárhagslega hagsmuni einstakra fjármálafyrirtækja sem stafi af því að þau fái ekki til baka útlagðan virðisaukaskatt fyrir viðskiptavini sem eru á leið í þrot. Þessum rökum hafa skattyfirvöld hafnað með vísan til þess að þeim sé mögulegt að miðla upplýsingum um innskattsskyldu til fjármálafyrirtækja og í annan stað sé innheimtur virðisaukaskattur ekki umsemjanlegur, sbr. 3. mgr. 22. gr. virðisaukaskattslaga.
    Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir stuðningi við tillögu skattyfirvalda og lagt áherslu á hraða úrlausn málsins.
    Meiri hlutinn fellst á framangreind sjónarmið skattyfirvalda og telur að tillaga ráðuneytisins eigi ekki að leiða til tjóns fyrir hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki þar sem í öllum tilvikum sé um að ræða fjármuni sem þau hafa innheimt af viðskiptavinum sínum og borið að standa skil á í ríkissjóð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Magnús Orri Schram.


Skúli Helgason.


Lilja Mósesdóttir.