Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Nr. 17/140.

Þingskjal 1032  —  12. mál.


Þingsályktun

um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Nefndin skoði verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og geri tillögur um breytingar ef þörf krefur. Tillögur nefndarinnar miði að því að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda. Við tillögugerðina hafi nefndin hliðsjón af stöðu neytenda samkvæmt reglum Evrópusambandsins og líti til framkvæmdar neytendaverndarmála annars staðar á Norðurlöndum.
    Forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar án tilnefningar, en efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra, velferðarráðherra, Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna tilnefni hvert sinn fulltrúa í nefndina. Nefndin hafi í starfi sínu gott samstarf við Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann skuldara, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök lánþega og Samkeppniseftirlitið auk samtaka launþega á borð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
    Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en 15. janúar 2013.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 2012.