Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 717. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1152  —  717. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að undirbúa heildstæða aðgerðaráætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir, auk allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Aðgerðaráætlunin liggi fyrir svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2012.
    Jafnframt ályktar Alþingi að fela fjármálaráðherra að tryggja að í frumvarpi til fjáraukalaga yfirstandandi árs verði gert ráð fyrir 50 millj. kr. fjárveitingu til starfa rannsóknar- og aðgerðarteymis lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem hafi samvinnu við lögreglulið um allt land.

Greinargerð.


    Skipulögð brotastarfsemi hefur aukist á Íslandi á síðustu árum og færst hefur í vöxt að hérlendir glæpahópar séu í tengslum við alþjóðleg glæpasamtök sem stunda skipulagða brotastarfsemi víða um heim. Skipulögð brotasamtök eru skilgreind í 175. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Fyrirmynd þess ákvæðis er samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (Palermó-samningur). Þar segir: „Með skipulögðum brotasamtökum er átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.“ Skipulögð brotasamtök stunda margvíslega glæpi. Hér á landi hafa þau einkum verið tengd við stórtæk fíkniefnabrot, gróft ofbeldi, fjárkúganir, hótanir, frelsissviptingar, bótasvik, vopnalagabrot og svokallaða handrukkun auk þess sem vaxandi vísbendingar eru um að brotasamtök hafi aðkomu að mansali og vændi.
    Glæpasamtökin starfa með þeim hætti að þau sækjast eftir ungum piltum, sem eru veikir fyrir og hafa jafnvel þegar tekið þátt í afbrotum. Stærstu samtökin starfrækja stuðningshópa sem framkvæma brot fyrir aðalmeðlimi. Vegna þessa getur reynst erfiðara að koma lögum yfir höfuðpaura afbrota með hefðbundnum lögreglurannsóknum og krefst viðfangsefnið því sértækra aðgerða. Heimildir eru fyrir því að reynt sé að fjölga stuðningsklúbbum utan höfuðborgarsvæðisins.
    Hinn 4. mars 2011 samþykkti ríkisstjórnin tillögu innanríkisráðherra um að veita 47 millj. kr. til tólf mánaða í átaksverkefni lögreglu til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Sú fjárhæð kom til endurgreiðslu með samþykkt Alþingis á fjáraukalögum ársins 2011. Komið var á laggirnar sérstöku rannsóknarteymi ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum sem var gert að kortleggja brotasamtökin með sérstakri áherslu á starfsemi mótorhjólagengja. Var það gert vegna alþjóðlegra tenginga tveggja slíkra hópa. Hópurinn hefur unnið í nánu samstarfi við stofnanir innan lands, m.a. embætti tollstjóra, en einnig við löggæsluyfirvöld í öðrum ríkjum, einkum annars staðar á Norðurlöndum og við Europol.
    Fjórir rannsóknarlögreglumenn hafa alfarið helgað sig þessu verkefni og hefur afraksturinn verið meiri en vonir stóðu til. Almenn þekking á skipulagðri brotastarfsemi hefur aukist og færni lögreglu og annarra yfirvalda til að glíma við þessa hópa er umtalsvert meiri en fyrir ári. Þannig hefur verið spornað við útbreiðslu glæpanna hér á landi. Erlendum forsprökkum hefur verið vísað frá á landamærum, lögregla hefur lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna og dregið hefur verið úr bótasvikum. Þetta hefur orðið til þess að veikja fjárhagslegan grundvöll brotasamtakana en ríflegur ágóði er forsenda starfseminnar.
    Frá árinu 2008 hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra fylgst náið með þróun skipulagðra glæpasamtaka á Íslandi. Umsvif erlendra glæpahópa hafa aukist til muna, meiri harka er í íslenskum undirheimum en áður, ofbeldi verður sífellt grófara og vopnasmygl og vopnaburður eru tíðari. Aðgerðir lögreglu hafa dregið úr og hægt á þessari þróun en það er mat löggæsluyfirvalda að óhjákvæmilegt sé að halda áfram þessu átaksverkefni gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem stofnað var til á síðasta ári.
    Innanríkisráðherra og fulltrúar lögreglu greindu allsherjar- og menntamálanefnd frá framangreindu átaksverkefni á fundi 1. mars 2012. Greint var frá árangri af starfi rannsóknarteymisins og var samhljómur um að styðja við frekari aðgerðir lögreglu í samvinnu við viðeigandi stofnanir. Nauðsynlegt þykir að útvíkka starfsvið teymisins. Beina þarf sjónum að fleiri glæpahópum sem upplýsingar eru um og einnig að auka rannsóknir á mansali og eftir atvikum vændi, sem eru alvarlegar birtingarmyndir skipulagðar glæpastarfsemi, bæði hérlendis og á heimsvísu. Þá þarf að auka fræðslu við lögregluyfirvöld á landsbyggðinni til að sporna enn frekar gegn útbreiðslu glæpastarfsemi þar.
    Með samhæfðum viðbrögðum íslenskrar stjórnsýslu, Alþingis, lögreglu og annarra stofnana og samfélagsins í heild er hægt að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og vernda þannig íslenskt samfélag. Innanríkisráðuneyti hefur veitt þessu starfi forystu og mun gera það áfram. Nauðsynlegt er að viðhalda starfi lögreglu og efla það enn frekar. Er því lagt til að veita að nýju 50 millj. kr. til rannsóknarteymisins. Þeim fjármunum verður varið til áframhaldandi rannsóknar á skipulögðum glæpasamtökum. Að tillögu innanríkisráðherra verður verksvið teymisins hins vegar víkkað út þannig að rannsóknir nái til fleiri hópa en mótorhjólagengja og sérstaklega verður sjónum beint að mögulegu mansali og vændi í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi.