Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 471. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1122  —  471. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um endurbætur björgunarskipa.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá ISAVIA ohf., Landhelgisgæslu Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörg um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021. Þá er einnig lagt til að ráðherra verði falið að kanna þörf og möguleika á að fá enn öflugri skip á tiltekna staði á landinu. Flutningsmenn tillögunnar telja eðlilegt að slíkt samkomulag feli m.a. í sér fjárframlag af hálfu ríkissjóðs að fjárhæð 30 millj. kr. hvert samkomulagsár miðað við verðlag ársins 2012.
    Nefndin telur einsýnt að þörfin fyrir björgunarskip er mikil og fer hún vaxandi. Milli 70 og 80 útköll eru skráð á skip þessi á hverju ári á landsvísu, en þar er eingöngu um að ræða útköll þar sem talin er vera bráð hætta fyrir hendi. Nefndin bendir á að björgunarskipin sinna einnig ótal öðrum verkefnum, t.d. æfingum og öðrum verkefnum í þágu bæði opinberra aðila og einkaaðila. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni að tryggja verði að Slysavarnafélagið Landsbjörg fái staðið fyrir eðlilegri og nauðsynlegri endurnýjun björgunarskipaflotans. Mikilvægt er að hægt sé að leita til vel búinna björgunarskipa enda er brýnt að allur útbúnaður til björgunar og slysavarna sé ávallt í fullkomnu ásigkomulagi enda réttur tækjabúnaður nauðsynlegur hluti hverrar björgunaraðgerðar. Nefndin áréttar að björgunarskip eru órjúfanlegur hluti af öryggiskerfi landsins vegna sjófarenda og loftfara á leitar- og björgunarsvæði Íslands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Ernir Rúnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.