Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1127  —  567. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis
kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Lagt er til að í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar og kjörgengis kvenna 19. júní 2015 verði forsætisnefnd Alþingis falið að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til að ræða hugmyndir sem unnið yrði að á hátíðarárinu. Fulltrúunum er ætlað að kjósa fimm manna framkvæmdanefnd sem annist frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015. Þá mun forsætisnefnd einnig sjá um að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins og annað starfslið eftir þörfum, sjá framkvæmdanefnd og framkvæmdastjóra fyrir starfsaðstöðu og undirbúa tillögur um fjárframlög til verkefnisins 2013–2015.
    Fram kemur í greinargerð tillögunnar að 31. mars 2012 hafi forseti Alþingis boðað fulltrúa kvenna- og jafnréttissamtaka á Íslandi til fundar til að reifa hugmyndir um hvernig væri viðeigandi að halda upp á þessi merku tímamót í sögu landsins. Á fundinum kom fram mikill áhugi á því að minnast tímamótanna með veglegum hætti. Með hliðsjón af framansögðu vísar nefndin til hátíðarhalda sem haldin voru árið 2011 til að minnast 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar. Þar veitti Alþingi 94,8 millj. kr. í verkefnið árin 2008–2011. Nefndin áréttar þó að umfang hátíðarhalda og fjöldi viðburða muni ráðast af því fjármagni sem Alþingi samþykkir að veitt verði til verkefnisins í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Fyrirvari Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Birgittu Jónsdóttur lýtur að fjármögnun verkefnisins.
    Sigmundur Ernir Rúnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,      með fyrirvara.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir,


með fyrirvara.