Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 4  —  4. mál.
    


Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir,
nr. 46 13. maí 2005 (EES-reglur, innleiðing) .

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðin „Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins“, „Þróunarbanki Mið-Ameríkuríkja“ og „Fjárfestingarlánastofnun Ameríkuríkja“ í 2. tölul. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „og Fjárfestingarbanki Evrópu“ í 2. tölul. kemur: Fjárfestingarbanki Evrópu, Fjárfestingarsjóður Evrópu, Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin, Alþjóðlegi ónæmisaðgerðasjóðurinn, Íslamski þróunarbankinn og Þróunarbanki Evrópuráðsins.
     c.      B–d-liður 3. tölul. orðast svo:
        b.    vátryggingafélög og líftryggingafélög, sbr. lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi,
        c.    verðbréfasjóðir, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði,
        d.    lánastofnun, fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengd fjármálasviði, vátryggingafélög, líftryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: Fjármálagerningur: Hlutabréf í félögum og önnur verðbréf, sem jafngilda hlutabréfum í félögum, og skuldabréf og skuldagerningar í öðru formi, ef unnt er að versla með þau á fjármagnsmarkaði, og önnur verðbréf, sem venja er að höndla með og veita rétt til kaupa á slíkum hlutabréfum, skuldabréfum eða öðrum verðbréfum, með áskrift, kaupum eða skiptum, eða bréf sem eru gerð upp í reiðufé (að undanskildum greiðsluskjölum), þ.m.t. hlutdeildarskírteini í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, peningamarkaðsgerningar og kröfur í tengslum við eða réttindi í eða viðkomandi einhverju af framangreindu, að undanskildum eigin hlutabréfum tryggingarveitanda, hlutabréfum hans í móðurfélagi eða dótturfélagi og óskráðum hlutabréfum hans í félögum sem eingöngu er ætlað að eiga fasteignir.
     b.      6. og 7. tölul. orðast svo:
        6.      Samningur um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu: Samningur, þ.m.t. endurhverf verðbréfamarkaðsviðskipti, um að eigandi fjárhagslegrar tryggingar framselji öll eignarréttindi sín, eða rétt til að eignast trygginguna, til framsalshafa til tryggingar á efndum á fjárhagslegum skuldbindingum.
        7.      Samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu: Samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu þar sem veðþoli veitir veðhafa veðréttindi til tryggingar á efndum á fjárhagslegum skuldbindingum án þess að framselja hinn beina eða fullgilda eignarrétt eða rétt til að eignast fjárhagslegu trygginguna.
     c.      Á eftir 12. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Skuldakrafa: Fjárhagsleg krafa sem hefur orðið til á grundvelli samnings þegar lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns. Neytendalán, sbr. lög nr. 33/2013, um neytendalán, að undanskildum fasteignalánum og lánum að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, falla ekki undir skuldakröfur nema þegar tryggingarhafi eða tryggingarveitandi eru ein þeirra stofnana sem taldar eru upp í 2. tölul. 1. gr.

3. gr.

    Í stað orðanna „reiðufé eða fjármálagerningur“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: reiðufé, fjármálagerningur eða skuldakröfur.

4. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæðið á ekki við um skuldakröfur.

5. gr.

    1.–3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     1.      verðgildi reiðufjár eða skuldakrafna sé jafnað á móti fjárskuldbindingum og gert upp,
     2.      fjármálagerningar eða skuldakröfur séu seldar,
     3.      tryggingarhafi taki fjármálagerninga eða skuldakröfur til eignar, enda sé samið um aðferð við verðmat á fjármálagerningunum eða skuldakröfunum í samningnum.

6. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37, fela lög þessi í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009, um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluöryggiskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem stofnað er til eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Breytingarnar felast í innleiðingu á efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB, frá 6. maí 2009, m.a. um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Þýðingarmesta breytingin á lögunum er sú að reglur um svokallaðar skuldakröfur (e. credit claims) eru felldar inn í lögin.
    Með tilskipun 2009/44/EB voru gerðar breytingar á ákvæðum tveggja tilskipana sem innleiddar hafa verið á Íslandi, í tveimur ólíkum lagabálkum. Annars vegar er um að ræða löggjöf sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneyti, lög nr. 90/1999, um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum (sbr. tilskipun 98/26/EB). Í þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fór fram vinna við endurskoðun á lögum nr. 90/1999, sbr. tilskipun 2009/44/EB, og var þeim breytt með lögum nr. 159/2012 28. desember 2012, um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi). Hins vegar er um að ræða löggjöf sem heyrir undir innanríkisráðuneytið, lög nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (sbr. tilskipun 2002/47/ EB). Með þessu lagafrumvarpi er leitast við að breyta þeim í samræmi við tilskipunina.
    Frumvarpið var lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki afgreitt. Vegna athugasemda efnahags- og viðskiptanefndar og umsagnar Seðlabanka Íslands (erindi nr. Þ 143/1658) við meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd hafa smávægilegar lagfæringar verið gerðar á frumvarpinu til samræmis við athugasemdirnar, þ.e. hugtakið lánastofnun tekið upp í c-lið 1. gr. frumvarpsins og skýrt tekið fram í c-lið 2. gr. frumvarpsins að undanþágan samkvæmt ákvæðinu eigi við nema þegar tryggingarhafi eða tryggingarveitandi eru ein þeirra stofnana sem taldar eru upp í 2. tölul. 1. gr. Að auki hafa frekari skýringar og leiðréttingar verið færðar inn í athugasemdir við frumvarpið. Nú kemur skýrt fram að óframseljanlegar afleiður falli ekki undir skilgreiningu á hugtakinu fjármálagerningur heldur aðeins framseljanlegar afleiður. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins þar sem vísað er til fjármálafyrirtækja sem hafa fengið starfsleyfi var m.a. vísað til rafeyrisfyrirtækja, en frá gildistöku 47. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris hafa rafeyrisfyrirtæki ekki talist starfsleyfisskyld í skilningi 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki og hefur tilvísun til þeirra verið fjarlægð. Þá er gerð grein fyrir mati Seðlabankans á áhrifum lagabreytingarinnar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar.
    Tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir var liður í aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna frá 11. maí 1999 um þróun fjármálaþjónustu og fjármagnsmarkaða innan Evrópusambandsins. Með tilskipuninni var skapað samræmt lagaumhverfi fyrir notkun fjárhagslegra tryggingarráðstafana (e. financial collateral arrangements) yfir landamæri og flest formskilyrði sem venjulega fylgdu tryggingarráðstöfunum voru afnumin. Markmiðið var að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu eða framsal verðbréfa eða reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Gert er ráð fyrir því að aðilar að slíkum samningum séu einkum stofnanir á fjármálamarkaði.
    Sú breyting sem gerð var með tilskipun 2009/44/EB er fyrst og fremst sú að tryggingarráðstafanir samkvæmt tilskipuninni ná nú einnig yfir skuldakröfur (e. credit claims). Í tilskipuninni er skuldakrafa skilgreind sem peningakrafa á grundvelli samnings þar sem lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns.
    Seðlabanki Evrópu tók þá ákvörðun 1. janúar 2007 að kynna skuldakröfur sem ákjósanlega tryggingarráðstöfun fyrir lánastarfsemi á evrusvæðinu. Bankinn mælti auk þess með því að víkka gildissvið tilskipunar 2002/47/EB til þess að hámarka efnahagsleg áhrif skuldakrafna. Í matsskýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 20. desember 2006 um tilskipun 2002/47/ EB um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir var fjallað um málið og fallist á álit Seðlabanka Evrópu. Talið er að notkun á skuldakröfum muni fjölga tiltækum tryggingum og að meiri samhæfing á þessu sviði muni leiða til jafnra samkeppnisskilyrða lánastofnana í öllum aðildarríkjunum. Jafnframt er tekið fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar að neytendur og lánþegar mundu hagnast á því að notkun skuldakrafna yrði auðvelduð þar sem það gæti að lokum leitt til meiri samkeppni og greiðari aðgangs að lánsfé.
    Til að auðvelda notkun skuldakrafna þykir mikilvægt að ekki séu í gildi neinar reglur sem geri notkun skuldakrafna óraunhæfa. Til að standa vörð um stöðu tryggingartaka og til þess að greiða fyrir notkun skuldakrafna sem tryggingar eiga lánþegar að geta fallið frá rétti sínum til skuldajöfnunar gagnvart lánveitendum með gildum hætti. Það gæti einnig verið nauðsynlegt að kynna þann möguleika fyrir lánþega að segja sig undan reglum um bankaleynd svo að tryggingartaki geti fengið fullnægjandi upplýsingar til að meta skuldakröfu. Þessi skilyrði eru sett með fyrirvara um tilskipun 2008/48/EB, um neytendalán, og reglur samningaréttar um ósanngjarna og óheimila samningsskilmála.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir til innleiðingar á tilskipun 2009/44/EB auk þess sem breyta þarf lagatilvísunum til samræmis við lagabreytingar sem gerðar hafa verið síðan lögin voru sett. Meginmarkmið þessa frumvarps er að innleiða reglur um skuldakröfur.
    Lagt er til að skilgreiningu á hugtakinu fjármálagerningur verði breytt til samræmis við tilskipunina. Í núgildandi lögum er vísað til skilgreiningar eldri laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, en þau voru felld úr gildi árið 2007 með nýjum lögum um verðbréfaviðskipti og skilgreiningu á fjármálagerningi breytt umtalsvert. Því er lagt til að skilgreining tilskipunar 2002/47/EB verði tekin upp í lögin. Með þessari breytingu verður skilgreiningin þrengri en í gildandi lögum, en mestu skiptir að óframseljanlegar afleiður verða þá ekki sérstaklega tilgreindar sem fjármálagerningar.
    Þá er lagt til að skilgreiningar á samningi um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu og samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu verði víkkaðar út til samræmis við efni tilskipunarinnar.
    Þar sem frumvarpið leggur til að skuldakröfur bætist við sem tryggingarráðstafanir samkvæmt lögunum þarf að skilgreina skuldakröfur og bæta þeim við sem andlagi fjárhagslegra trygginga jafnframt því sem auka þarf við ákvæðið um fullnustuaðferðir svo að þær taki einnig til skuldakrafna.
    Í d-lið 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/44/EB er veitt heimild til þess að takmarka skilgreininguna á skuldakröfum og undanþiggja tilteknar skuldakröfur. Lagt er til að nýta þessa heimild og undanþiggja neytendalán sem skuldakröfur samkvæmt lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, að undanskildum fasteignalánum og lánum að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Frumvarp þetta er lagt fram til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Tilskipun 2009/44/EB var birt í Stjórnartíðindum EB 10. júní 2010 nr. 37 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 frá 30. apríl 2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn. Innleiðingu átti að vera lokið 30. desember 2011. Þar sem talið var að innleiðing á ákvæðum tilskipunarinnar kallaði á lagabreytingu var stjórnskipulegur fyrirvari gerður við nefnda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 103. gr. EES-samningsins. Með þingsályktun samþykkti Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna ákvörðunarinnar (þskj. 1960 á 139. löggjafarþingi). Verði frumvarpið að lögum mun íslenska ríkið hafa staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt framangreindu.

V. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Seðlabanka Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Fjármálaeftirlitið. Þá barst umsögn frá Seðlabanka Íslands við umfjöllun um frumvarpið í efnahags- og viðskiptanefnd á 143. löggjafarþingi. Tekið var tillit til þeirra athugasemda sem bárust og er efni frumvarpsins í samræmi við þær.

VI. Mat á áhrifum.
    Með breytingu á skilgreiningu fjármálagerninga í lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir verður merking hugtaksins þrengri en í núgildandi lögum. Mestu mun muna um að óframseljanlegar afleiður verða þá ekki tilgreindar sem fjármálagerningar samkvæmt lögunum og því munu lögin takmarka hvers konar fjármálagerningar geta orðið andlag fjárhagslegrar tryggingar. Nú verður því skýrt tekið á því hvaða fjármálagerningar geta orðið andlag fjárhagslegrar tryggingar samkvæmt lögunum til samræmis við tilskipun 2002/47/EB og því fækkar tiltækum tryggingum samkvæmt því. Þó er skuldakröfum bætt við sem mögulegum tryggingarráðstöfunum samkvæmt lögunum. Þetta fjölgar tiltækum tryggingum og talið er að meiri samhæfing á þessu sviði muni leiða til jafnra samkeppnisskilyrða lánastofnana í öllum aðildarríkjum EES. Jafnframt er tekið fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar sem stefnt er á að innleiða með þessu frumvarpi að neytendur og lánþegar mundu hagnast á því að notkun skuldakrafna yrði auðvelduð þar sem það gæti að lokum leitt til meiri samkeppni og greiðari aðgangs að lánsfé.
    Fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptanefndar á 143. löggjafarþingi (erindi nr. Þ 143/1658) að bankinn telji ekki þörf á því að setja frekari skorður við notkun fjárhagslegra trygginga en gert er í frumvarpinu, enda verði væntanlega tekið á áhættu sem henni fylgir með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og einnig í kröfum Fjármálaeftirlitsins um eigið fé. Þó þyki Seðlabankanum vert að benda á að endurnýting trygginga, sem 5. gr. núgildandi laga nr. 46/2005 kveður á um og er í samræmi við tilskipunina, geti aukið kerfisáhættu, enda geti hún haft áhrif á peningamagn í umferð, eins og bæði innlend og erlend reynsla sanni. Eftirlitsaðilar þurfi því sem fyrr að fylgjast náið með umfangi endurnýtingar fjárhagslegra trygginga í kerfinu. Seðlabankinn leggur áherslu á að endurnýting trygginga sé gagnsæ og með vitund eiganda trygginga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir er fjallað um gildissvið laganna. Þar er kveðið á um að lögin gildi um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir þar sem bæði tryggingarveitandi og tryggingarhafi eru tilteknir aðilar skv. 1.–6. tölul. Þær breytingar sem gerðar eru á 2. tölul. 1. gr. eru í samræmi við þær breytingar sem voru gerðar með tilskipun 2009/44/EB á tilskipun 2002/47/EB og uppfæra listann yfir tryggingarveitendur og tryggingarhafa samkvæmt ákvæðinu.
    Í 3. tölul. 1. gr. laganna eru taldar upp stofnanir sem eru háðar opinberu eftirliti. Í núgildandi b-lið er vísað til laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, varðandi skilgreiningu á vátryggingafélögum, en þau lög hafa verið felld úr gildi, sbr. lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og tekur breytingin mið af því. Í núgildandi c-lið er vísað til laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en þau lög hafa verið felld úr gildi, sbr. lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, og tekur breytingin mið af því.
    Gerðar eru breytingar á upptalningu í d-lið 3. tölul. 1. gr. svo að samræma megi hugtök í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Þar eru m.a. taldar upp lánastofnanir, fjárfestingarfyrirtæki, fyrirtæki tengd fjármálasviði og vátryggingafélög. Í athugasemdum við d-lið 3. tölul. 1. gr. í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, kemur fram að framangreind hugtök séu skilgreind í samræmi við ákveðnar tilskipanir ESB. Með tilskipun 2009/44/EB uppfærast þessar hugtakaskilgreiningar í samræmi við nýrri tilskipanir ESB.
     a.      Lánastofnun (e. credit institution), eins og það hugtak er skilgreint í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB ásamt stofnunum sem tilgreindar eru í 2. gr. sömu tilskipunar.
     b.      Fjárfestingarfyrirtæki (e. investment firm), eins og það hugtak er skilgreint í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB.
     c.      Fyrirtæki tengd fjármálasviði (e. financial institution), eins og það hugtak er skilgreint í 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
     d.      Vátryggingafélag (e. insurance undertaking), eins og það hugtak er skilgreint í a-lið 1. gr. tilskipunar 92/49/EBE, og Líftryggingafélag (e. life assurance undertaking), eins og það hugtak er skilgreint í a-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/83/EB.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. laganna er að finna orðskýringar þar sem helstu hugtök sem koma fram í lögunum eru skilgreind. Með þessu frumvarpi eru nokkrar breytingar gerðar á ákvæðinu í samræmi við tilskipun 2009/44/EB.
    Í núgildandi lögum er hugtakið fjármálagerningur skilgreint í samræmi við e-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir og lög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003. Lög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, voru felld úr gildi með lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Skilgreiningin á hugtakinu fjármálagerningur breyttist með nýjum lögum um verðbréfaviðskipti og byggðust breytingarnar á MiFID tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB og vörðuðu einkum þær afleiður sem falla undir hugtakið.
    Ljóst er að í hvorri tilskipun fyrir sig, MiFID og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, er hugtakið fjármálagerningur skilgreint með tilteknum hætti og þykir heppilegast að líta á skilgreiningar í hvorri EES-gerð um sig sem sjálfstæðar. Þar sem skilgreining laga um verðbréfaviðskipti á hugtakinu fjármálagerningur er nú afar víðtæk er lagt til að horfið verði frá tilvísun til laga um verðbréfaviðskipti í lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir og tekin verði upp skilgreining á hugtakinu skv. e-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir og heimild b-liðar 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar nýtt til að undanskilja eigin hlutabréf tryggingarveitanda, hlutabréf hans í móðurfélagi eða dótturfélagi og óskráð hlutabréf hans í félögum sem eingöngu er ætlað að eiga fasteignir eins og gert er í núgildandi lögum. Samkvæmt skilgreiningu e-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/47/EB falla eingöngu fjármálagerningar sem taldir eru upp í liðum 1–3 í C-þætti 1. viðauka við MiFID undir skilgreiningu á fjármálagerningi samkvæmt henni, þ.e. framseljanleg verðbréf, peningamarkaðsskjöl og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða. Öðrum liðum í C-þætti 1. viðauka við MiFID, þ.e. liðum 4–10, er sérstaklega sleppt.
    Með breytingu á skilgreiningunni verður merking hugtaksins þrengri en í núgildandi lögum. Mestu munar um að óframseljanlegar afleiður eru ekki sérstaklega tilgreindar sem fjármálagerningar. Með breytingunni munu lögin takmarka hvers konar fjármálagerningar geti talist andlag fjárhagslegrar tryggingar. Til þess að eyða óvissu vegna breytingarinnar er kveðið á um það í 7. gr. þessa frumvarps að breytt lög taki til samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem stofnað er til eftir gildistöku breytingalaganna.
    Við 13. tölul. bætist skilgreining á skuldakröfum í samræmi við tilskipun 2009/44/EB. Hugtakið skuldakrafa er skilgreint sem fjárhagsleg krafa sem hefur orðið til á grundvelli samnings, þegar lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns.
    Lánastofnun ber hér að túlka í samræmi við 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, líkt og kemur fram í athugasemdum við 1. gr. þessa frumvarps, og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, þ.e. viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki telst vera lánastofnun í skilningi laganna.
    Samkvæmt d-lið 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/44/EB, sem breytir 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/47/EB, geta aðildarríki ákveðið að skuldakröfur falli ekki undir gildissvið tilskipunarinnar ef skuldarinn er neytandi eins og hann er skilgreindur í a-lið 3. gr. tilskipunar 2008/ 48/EB um lánssamninga fyrir neytendur, eða örfyrirtæki eða lítið fyrirtæki, nema tryggingarhafi eða tryggingarveitandi slíkra skuldakrafna sé ein þeirra stofnana sem um getur í b-lið 2. mgr 1. gr. tilskipunar 2002/47/EB. Með þessu frumvarpi er lagt til að við innleiðingu tilskipunarinnar verði undanþáguheimild d-liðar 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/44/EB nýtt er varðar neytendur. Mikilvægt er að þær skuldakröfur sem falla undir hugtakið teljist vera traustar tryggingar þar sem ætla má að þær megi selja eða nýta til að takmarka áhættu seðlabanka og fjármálafyrirtækja af eigin áhættuskuldbindingum. Undanþágan að því er varðar skuldara sem eru neytendur er því nýtt með vísan til varfærnissjónarmiða. Hins vegar þykir ekki ástæða til þess að nýta undanþáguheimildina hvað varðar örfyrirtæki eða lítil fyrirtæki enda eru slík fyrirtæki ekki skilgreind í íslenskri löggjöf. Miðað við þá skilgreiningu sem Hagstofan hefur notað, sbr. viðauka við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, er stórt hlutfall íslenskra fyrirtækja örfyrirtæki eða lítil fyrirtæki.
    Tilskipun 2008/48/EB um lánssamninga fyrir neytendur var innleidd í íslenskan rétt með lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Skv. l-lið 1. mgr. 5. gr. laga um neytendalán er neytandi einstaklingur sem á lánaviðskipti sem lögin ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um neytendalán kemur fram að frumvarpið fylgir gildissviði tilskipunar 2008/48/EB að mestu leyti, en þó eru fasteignalán og lán að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum ekki undanskilin gildissviði frumvarpsins líkt og tilskipunin gerir ráð fyrir. Aðildarríkjum er frjálst að fella fleiri tegundir lánssamninga undir gildissvið landslaga er innleiða tilskipun 2008/48/EB um lánssamninga fyrir neytendur. Þar sem skuldakröfum, öðrum en þeim sem nefndar eru í tilskipun um lánssamninga fyrir neytendur, er ætlað að teljast skuldakröfur samkvæmt tilskipun 2002/ 47/EB teljast neytendalán, að undanskildum fasteignalánum og lánum að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, ekki vera skuldakröfur samkvæmt þessu frumvarpi.
    Þær breytingar sem gerðar eru á 6. og 7. tölul. 2. gr. laganna víkka út skilgreininguna á hugtökunum í samræmi við breytingar sem gerðar eru með tilskipun 2009/44/EB. Lagt er til að samningur um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu (e. title transfer financial collateral arrangement) og samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu (e. security financial collateral arrangement) taki ekki eingöngu til beinna eignarréttinda yfir fjárhagslegu tryggingunni eins og í núgildandi lögum, heldur einnig til réttar til að eignast fjárhagslegu trygginguna (e. full entitlement to financial collateral). Með rétti til að eignast fjárhagslega tryggingu í þessu frumvarpi er átt við veðrétt/fullnusturétt. Tilgangurinn með breytingunni er að tryggja að tryggingin virki, þ.e. að hægt sé að ganga að veði.

Um 3. gr.

    Um er að ræða lagfæringu til samræmis við tilskipunina varðandi skuldakröfur. Skuldakrafa getur því nú verið andlag frjáhagslegrar tryggingar líkt og reiðufé og fjármálagerningar.

Um 4. gr.

    Í 5. gr. laganna er fjallað um notkunarrétt á veðsettri fjárhagslegri tryggingu. Samkvæmt tilskipuninni á ákvæðið ekki við um skuldakröfur.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna hafa aðilar samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun frelsi til að semja um hvernig ganga skuli að tryggingunni til fullnustu vanefndra fjárskuldbindinga. Sú krafa var gerð með tilskipun 2002/47/EB að viðurkennd væri heimild aðila til að semja um fullnustu með tilteknum hætti og voru þær fullnustuaðferðir tilgreindar í 1. mgr. ákvæðisins. Með tilkomu reglna um skuldakröfur hefur því verið aukið við 1.–3. tölul. 1. mgr. að þær fullnustuaðgerðir taki að auki til skuldakrafna.

Um 6. gr.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009, um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluöryggiskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37.

Um 7. gr.

    Breytt lög taka til samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem stofnað er til eftir gildistöku laganna.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjárhagslegar
tryggingarráðstafanir, nr. 46 13. maí 2005 (EES-reglur, innleiðing).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslensk lög tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB, sem felur í sér breytingu á eldri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. 2002/47/EB og varðar samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
    Frumvarpið miðar að því að reglur um svokallaðar skuldakröfur (e. credit claims) verði felldar inn í lögin. Í því felst m.a. að skilgreiningar á samningi um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu og samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu verði víkkaðar út til samræmis við efni tilskipunarinnar. Þá eru skuldakröfur skilgreindar og þeim bætt við sem andlagi fjárhagslegra trygginga auk þess sem aukið er við ákvæðið um fullnustuaðferðir svo að þær taki einnig til skuldakrafna. Í tilskipun 2009/44/EB er ákvæði sem gefur heimild til að takmarka skilgreiningu á skuldakröfum og er hún nýtt þannig að öll neytendalán verða undanþegin skilgreiningunni, að undanskildum fasteignalánum og lánum undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum, nema þegar tryggingarhafi eða tryggingarveitandi er ein þeirra stofnana sem taldar eru upp í 2. tölul. 1. gr., t.d. seðlabankar eða þróunarbankar. Þar að auki er lagt til að skilgreiningu á hugtakinu fjármálagerningur verði breytt til samræmis við tilskipun 2002/47/EB og verði þrengri en í gildandi lögum. Mestu skiptir í því sambandi að afleiður verða þá ekki sérstaklega tilgreindar sem fjármálagerningar. Að auki eru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum um þá aðila sem teljast til tryggingarveitenda og tryggingarhafa samkvæmt lögunum.
    Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.