Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1101  —  530. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um aðgerðir gegn mansali .


     1.      Hvaða aðili eða aðilar bera ábyrgð á því að fórnarlömb mansals fái þá aðstoð hér á landi sem þeim ber samkvæmt alþjóðasamningum?
    Aðgerðir gegn mansali verða stöðugt mikilvægari þáttur í alþjóðlegu samstarfi og er ástæðan sú að mansal ógnar mannréttindum og grundvallargildum í lýðræðisþjóðfélögum. Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. nóvember árið 2000 auk bókana við hann, þar á meðal bókunar til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Eftir breytingar á almennum hegningarlögum árið 2003 þar sem mansal var lýst refsivert samþykkti Alþingi fullgildingu samningsins og bókana við hann 28. maí 2008.
    Ísland á einnig aðild að Evrópuráðssamningi um aðgerðir gegn mansali og var samningurinn fullgiltur 1. júní 2012. Samkvæmt 12. gr. samningsins skulu stjórnvöld styðja við fórnarlömb mansals með því að bjóða þeim líkamlega, sálræna og félagslega aðstoð. Aðstoðin skal fela í sér öruggt húsnæði, sálræna og efnislega aðstoð, aðgang að nauðsynlegri læknisaðstoð, túlkaþjónustu og að réttinda fórnarlamba sé gætt á öllum stigum málsmeðferðar hjá lögreglu og í réttarkerfinu.
    Áætlun um aðgerðir gegn mansali á tímabilinu 2013–2016, sem samþykkt var af þáverandi ríkisstjórn 26. apríl 2013, tekur mið af því alþjóðasamstarfi sem Ísland er aðili að. Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar eru annars vegar að efla réttarvörslukerfið til þess að sporna gegn mansali og hins vegar að veita fórnarlömbum mansals stuðning. Í fyrsta lagi eru skilgreindar aðgerðir til þess að stuðla að auknum forvörnum og fræðslu, í öðru lagi til þess að veita fórnarlömbum mansals stuðning og vernd, í þriðja lagi að samhæfa verklag og samráð lögreglu, félagsþjónustu, mannréttindasamtaka og fleiri aðila og í fjórða lagi að efla skilvirkari framgang rannsókna og saksókna í mansalsmálum.
    Innanríkisráðuneytið hefur yfirumsjón með framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, stuðlar að samvinnu við þau stjórnvöld er bera lögum samkvæmt ábyrgð á þeim sviðum er varða framkvæmd áætlunarinnar og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þá er ráðuneytið ábyrgðaraðili þátta sem lúta að réttarvörslukerfinu og lagasetningu, þ.e. að réttinda fórnarlamba mansals sé gætt á öllum stigum málsmeðferðar hjá lögreglu og í réttarkerfinu.
    Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á að tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð, óháð lögheimilisskráningu og hvort sem viðkomandi er í lögmætri eða ólögmætri dvöl hérlendis. Fjórði kafli gildandi mansalsáætlunar fjallar um aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb mansals.
    Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir þolendum ofbeldis ráðgjöf, sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Mögulegum fórnarlömbum er vísað til félagsþjónustunnar sem veitir viðeigandi úrræði, þar með talið öruggt húsnæði og annan stuðning. Velferðarráðuneytið endurgreiðir sveitarfélögum útlagðan kostnað vegna aðstoðar. Heilsugæslan kemur að heilbrigðisþjónustu við möguleg fórnarlömb en býður almennt ekki upp á sértæka þjónustu. Landspítali veitir þolendum sálgæslu og byggir á aðferðum sem beitt er við áfallastreituröskun.

     2.      Eru gerðar ráðstafanir hér á landi til að grennslast fyrir um það hvort mansal viðgangist á landinu og hvort hér sé fólk sem selt hefur verið mansali hingað? Ef svo er, í hverju eru þær ráðstafanir fólgnar?
    Á árinu 2013 vann greiningardeild ríkislögreglustjóra, að beiðni innanríkisráðuneytisins, áhættumat vegna mansals. Áhættumatið staðfesti að þörf er á bættri vinnslu tölfræðigagna um mansal og mun ríkislögreglustjóri standa fyrir átaki á því sviði.
    Árið 2010 gaf ríkislögreglustjóri út upplýsingar og leiðbeiningar um verklag fyrir lögreglu í mansalsmálum. Leiðbeiningarnar eru að stórum hluta byggðar á handbók norsku lögreglunnar. Í leiðbeiningunum er m.a. fjallað um hvað mansal er, hverjir eru þolendur, muninn á mansali og smygli á fólki, ranghugmyndir og misskilning um mansal, hvernig kennsl eru borin á þolanda, vísbendingar um mansal og margt fleira. Unnið er að endurskoðun þessara leiðbeininga.
    Fræðsluhópur innan stýrihóps innanríkisráðuneytisins um framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn mansali hefur staðið fyrir sameiginlegum fræðslufundum lögreglu, félagsþjónustu og sveitarstjórna um lagalega þætti mansals, einkenni hugsanlegra fórnarlamba og möguleg úrræði sem standa til boða. Fundina sækja starfsmenn lögreglunnar í viðkomandi umdæmi auk starfsmanna heilbrigðisstofnana, stéttarfélaga og félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Samkvæmt upplýsingum frá embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum vinnur lögreglan að eftirliti, m.a. með því að fara í eftirlitsferðir á veitingastaði og aðra vinnustaði. Hún hefur aftur á móti ekki á að skipa sérhæfðri deild sem vinnur að rannsóknum á mansali. Innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er deild R2 sem rannsakar fíkniefnabrot, skipulagða brotastarfsemi og hefur hún einnig unnið að rannsókn mansalsmála. Deildin aðstoðar lögreglu annarra umdæma við rannsókn slíkra mála.
    Lögreglan á Suðurnesjum hefur verulega reynslu af rannsókn mansalsmála en Keflavíkurflugvöllur heyrir undir umdæmi hennar. Hún vinnur í nánu samstarfi við deild R2 um fíkniefnabrot og skipulagða brotastarfsemi m.a. með vikulegum fundum til að samræma aðgerðir. Í þeim lögregluumdæmum sem lögreglan er líklegri til að finna möguleg fórnarlömb mansals hafa starfsmenn hlotið sérstaka þjálfun. Í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum hafa rannsakendur hlotið þjálfun í að bera kennsl á fórnarlömb og rannsaka mansalsmál. Það hefur verið gert í samvinnu við samtök evrópskra lögreglumenntastofnana (CEPOL), norrænu ráðherranefndina, Frontex og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE). Árið 2012 var haldinn starfsdagur fyrir alla starfsmenn Keflavíkurflugvallar til að þjálfa þá til þess að greina möguleg fórnarlömb.
    Þá er lögreglan í nánu samstarfi við aðrar stofnanir, þar á meðal Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun og félagasamtök, með það að markmiði að hvetja til virkrar þátttöku í eftirliti með hugsanlegu mansali og smygli á vinnuafli. Vinnumálastofnun er í samstarfi við ríkisskattstjóra, lögregluna og Útlendingastofnun komi upp grunsemdir. Útlendingastofnun er einnig í góðu samstarfi við lögregluna vakni grunur um mansal.
     3.      Hafa stjórnvöld samvinnu og samráð um mansalsmál við félagasamtök sem gæta velferðar og réttinda einstaklinga, svo sem mannúðarsamtök á borð við Rauða krossinn og Stígamót, verkalýðsfélög og mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Mannréttindaskrifstofu Íslands? Ef svo er, í hverju felst samvinnan? Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
    Komið hefur verið á laggirnar stýrihóp, m.a. til þess að hafa yfirsýn yfir framgang aðgerðaáætlunarinnar og forgangsröðun aðgerða. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóra, lögreglunni á Suðurnesjum, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Starfsgreinasambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Er stýrihópnum ætlað að hafa yfirsýn yfir framkvæmd gildandi aðgerðaáætlunar, tryggja samráð og forgangsraða verkefnum, koma þeim í framkvæmd í samráði við hlutaðeigandi aðila, kalla til samráðs þá sem bera lögbundna ábyrgð, hafa þekkingu og aðkomu að mismunandi aðgerðum, miðla þekkingu og halda utan um tölfræði.
    Sérstakt fræðsluteymi innan stýrihópsins hefur haldið um 20 fræðslufundi í samstarfi við lögreglu, félagsþjónustu, verkalýðsfélög og heilsugæslu með góðum árangri og áætlað er að um 600 manns, m.a. fulltrúar fyrrnefndra aðila, hafi sótt fræðsluna. Sjá nánar um teymið í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Til hvaða ráðstafana hafa íslensk stjórnvöld gripið til að tryggja að hérlendis sé starfað í samræmi við markmið samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem tók gildi 1. júní 2012?
    Markmið samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem tók gildi 1. júní 2012 eru í fyrsta lagi að koma í veg fyrir mansal og berjast gegn því og tryggja jafnframt jafnrétti kynjanna, í öðru lagi að standa vörð um mannréttindi fórnarlamba, koma á heildstæðu fyrirkomulagi til verndar og aðstoðar fórnarlömbum og vitnum og tryggja skilvirka rannsókn og saksókn og loks í þriðja lagi að stuðla að alþjóðlegu samstarfi.
    Vægi og nýbreytni samningsins felst í fyrsta lagi í staðfestingu þess að mansal er brot á mannréttindum og ógn við mannlega reisn og að aukinnar lagalegrar verndar sé þörf fyrir fórnarlömb. Í öðru lagi nær hann til mansals innan lands og milli landa, hvort sem mansal tengist skipulagðri glæpastarfsemi eða ekki, og tekur til hvers konar misnotkunar, svo sem kynlífsþrælkunar, nauðungarvinnu o.s.frv. Í þriðja lagi er með samningnum komið á fót eftirlitskerfi til að tryggja að aðilar samningsins framfylgi ákvæðum hans. Í fjórða lagi er í samningnum lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna sé ætíð haft í fyrirrúmi.
    Árið 2013 var sem fyrr segir stofnaður samráðshópur þeirra sem koma að rannsókn og saksókn mansalsmála í samræmi við aðgerð nr. 22 í núgildandi aðgerðaáætlun. Markmið samráðshópsins var að móta nánari útfærslu þeirra aðgerða sem fram koma í 6. kafla aðgerðaáætlunarinnar um samstarf og samráð og skiptast á þekkingu og reynslu. Eftirfarandi stofnanir skipuðu fulltrúa í samráðshópinn: Ríkislögreglustjóri, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, Útlendingastofnun, ríkissaksóknari og innanríkisráðuneytið. Hópurinn hittist reglulega árið 2013 og fram á vor 2014 þegar sérstakur stýrihópur, sem áður er vikið að, tók til starfa. Stýrihópurinn fylgir eftir innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar. Markmið hópsins er að tryggja nauðsynlega forgangsröðun aðgerða og leita nýrra leiða til að tryggja innleiðingu þeirra.
    Samdóma álit stýrihópsins var að byrja þyrfti á fræðslu um mansal og að nýta þekkingu innan stofnana og samtaka. Var því sett á fót sérstakt fræðsluteymi innan stýrihópsins. Ákveðið var að skipta fræðslunni niður á landsvæði þar sem mismunandi aðilar eru leiddir saman í fræðslu og spjall. Á fræðslufundunum er farið yfir helstu einkenni mansals, sagt frá ýmsum dæmum og mögulegum úrræðum.
    Hinn 5. febrúar 2015 hafði hópurinn haldið yfir 20 fræðslufundi fyrir fagfólk sem vinnur með fórnarlömbum mansals, fulltrúa réttarvörslukerfisins og formenn verkalýðsfélaga. Á fundunum er lögð áhersla á fræðslu um lagalega þætti mansals og greiningu (e. identification) fórnarlamba, þ.e. farið yfir helstu einkenni hugsanlegra fórnarlamba og möguleg úrræði. Tilgangur fræðslufundanna er að efla þekkingu í nærsamfélaginu með samrýmdum leiðbeiningum og greiningartækjum þannig að aðilar sem þá sækja búi til sitt viðbragðsteymi sem hægt er að leita til ef mansalsmál koma upp á svæðinu. Áætlað er að fræðslufundur fyrir dómara og saksóknara verði haldinn á komandi hausti. Þá hefur einnig verið komið upp greinargóðu fræðslusvæði á vef innanríkisráðuneytisins, sjá:
www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/Mansal/handbaekur/
    Árið 2013 skilaði hópur á vegum Útlendingastofnunar og ríkissaksóknara tillögum til ríkislögreglustjóra um þróun verkferla og lausna varðandi vernd vitna í mansalsmálum. Úrvinnsla tillaganna er umfangsmikið verk og er ekki lokið.
    Í velferðarráðuneytinu er í undirbúningi stofnun samráðsteymis með fulltrúum Velferðarsviðs og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfs, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Útlendingastofnunar, auk fulltrúa innanríkisráðuneytis. Teymið á jöfnum höndum að vera til þjónustu og renna stoðum undir samhæfða þjónustu og aðstoð við möguleg fórnarlömb.
    Hinn 19. desember 2014 gerðu velferðarráðuneytið og Samtök um kvennaathvarf með sér samning sem tryggir konum sem sætt hafa mansali eða grunur leikur á að séu fórnarlömb örugga neyðarvistun í Kvennaathvarfinu. Samningurinn er gerður á grundvelli áætlunar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali. Samningurinn við Kvennaathvarfið gerir lögreglu, félagsþjónustu sveitarfélaga og öðrum viðurkenndum samstarfsaðilum kleift að bjóða meintum fórnarlömbum skjól á meðan unnið er að rannsókn máls og sérfræðingar í velferðarþjónustu geta veitt ráðgjöf og stuðning. Meðan á neyðarvistun stendur mun sérfræðiteymi fjalla um mál þeirrar konu sem í hlut á og tryggja að hún fái aðstoð, öryggi og vernd eftir að dvöl í Kvennaathvarfinu lýkur.

     5.      Hvaða verkferlar eru í gildi varðandi viðbrögð við grun um mansal og rannsókn mansalsmála hér á landi? Hvaða stofnanir eru þátttakendur í mansalsrannsóknum og viðbrögðum við grun um mansal? Hvernig er tryggt að öllum sem hlut eiga að máli sé kunnugt um skyldur sínar í þessum efnum og þekki til þeirra aðgerða sem ber að grípa til við grun um mansal?
    Þessu hefur að nokkru verið svarað hér að framan. Því er við að bæta að á næstu mánuðum hyggst stýrihópurinn vinna að leiðbeiningum um samræmda verkferla. Fyrirmyndin er fengin úr leiðbeiningum sem unnar voru í tengslum við verkefnið ,,Development of Common Guidelines and Procedures on Identification of Victims of Human Trafficking“. Nokkur ríki tóku þátt í verkefninu, auk Evrópuráðsins, Alþjóðaskrifstofu um þróun málefna innflytjenda (e. International Centre for Migration Policy Development), Alþjóða vinnumálastofnunarinnar og fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Leiðbeiningarnar eru í fjórum bæklingum og eru aðgengilegar á fjölda tungumála á vef innanríkisráðuneytisins:
www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/Mansal/handbaekur/
    Að öðru leyti vísast til c-liðar 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, um að lögreglu beri að rannsaka og upplýsa brot í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum.

     6.      Hversu oft hefur vaknað grunur um mansal á síðustu fimm árum hjá þeim aðilum sem ber að fylgjast með á þessu sviði? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið vegna gruns um mansal? Hversu margir einstaklingar hafa verið skráðir sem möguleg fórnarlömb mansals, sundurliðað eftir kynjum?
    Nákvæm tölfræði um fjölda mansalsmála er ekki til en það er eitt af þeim verkefnum sem stýrihópurinn hyggst koma í viðunandi horf á þessu ári og mun embætti ríkislögreglustjóra sjá um það. Í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra kemur fram að tiltækar upplýsingar geri greiningardeild ekki fært að leggja mat á mansal og mögulegt umfang þess hér á landi. Sökum skorts á gögnum teljist áhættustigið því óþekkt. Hins vegar sé ljóst að grunur leikur á að mansal kunni að fara fram hér á landi. Eigi það einkum við um höfuðborgarsvæðið og Suðurnes.
    Samkvæmt upplýsingum frá embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum má áætla að fjöldi mála þar sem rökstuddur grunur hefur vaknað um mansal sé um 30 á undanförnum þremur árum. Vakni rökstuddur grunur um mansal er málið rannsakað.
    Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Útlendingastofnun hefur grunur vaknað við vinnslu mála í 37 tilvikum frá árinu 2012, þar af varða fjögur mál karla og 32 mál konur en eitt málanna snertir óþekktan fjölda fólks. Útlendingastofnun skráir mál þegar grunur vaknar um mansal en aðgerðir stofnunarinnar velta á því hvers eðlis málið er. Í sumum tilfellum vísar hún málinu strax til lögreglu en í öðrum tilvikum fer fyrst fram viðtal. Enginn af þeim einstaklingum sem skráður er í tölfræði Útlendingastofnunar var skilgreindur sem fórnarlamb mansals og fékk dvalarleyfi á þeim grundvelli. Til þess að einstaklingur sé skilgreindur sem fórnarlamb og fái dvalarleyfi á þeim grunni þarf viðkomandi að segja frá því að hann hafi orðið fyrir mansali og óska eftir aðstoð/dvalarleyfi á þeim grunni. Útlendingastofnun leiðbeinir einstaklingum um hvaða réttindi þeir hafa sem hugsanleg fórnarlömb mansals og hvaða aðstoð þeir eiga rétt á. Þar sem einstaklingurinn þarf sjálfur að segja að hann óski eftir dvalarleyfi á þessum grunni er erfitt um vik og geta margar ástæður legið þar að baki, en eins og fyrr segir er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita dvalarleyfi nema beiðni viðkomandi sé lögð fram.
    Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar hefur einn einstaklingur, kona, fengið dvalarleyfi á þeirri forsendu að hún hafi verið fórnarlamb mansals en það var fyrir þann tíma sem hér um ræðir.

     7.      Hafa fallið dómar í mansalsmálum og þá a) hversu margir og hvenær, b) hversu margir þeirra hafa varðað konur og hversu margir karla?
    Samkvæmt upplýsingum frá embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum hafa þrír dómar fallið, tveir sýknudómar og einn sakfellingardómur. Dómarnir féllu allir á árunum 2009–2010. Kona var sakborningur í þeim málum sem sýknað var í en fimm karlmenn voru dæmdir.

     8.      Hversu miklu fé hefur verið varið til verkefna sem tengjast mansali í samræmi við gildandi mansalsáætlun hvert ár frá og með 2010?
    Á árinu 2010 var veitt 5 millj. kr. vegna aðgerðaáætlunar gegn mansali. Árin 2011 til 2014 var veitt 10 millj. kr. árlega. Á árinu 2015 eru veittar 10 millj. kr til mansalsmála. Innanríkisráðuneytið styrkti starfsemi Stígamóta um tæplega 7 millj. kr., m.a. vegna starfsemi Kristínarhúss.
    Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneyti greiddi ráðuneytið Kvennaathvarfi 2 millj. millj. kr. til að mæta auknum öryggiskröfum og þjálfa starfsfólk í samræmi við framangreindan samning ráðuneytisins og athvarfsins árið 2014. Enn fremur greiðir velferðarráðuneytið athvarfinu 200 þús. kr. árlegt framlag vegna þjónustu við fórnarlömb mansals sem skal endurskoðað ef fyrirsjáanlegt er að kostnaður verði meiri. Árið 2014 greiddi velferðarráðuneytið sveitarfélögum 1.376.951 kr. vegna framfærslu einstaklinga þar sem grunur var um mansal vegna þriggja einstaklinga. Kostnaðurinn er iðulega meiri, en ráðuneytið hefur ekki heildarsýn yfir hann. Á árabilinu 2011 til 2013 greiddi velferðarráðuneytið Stígamótum samtals 50 millj. kr. til rekstrar Kristínarhúss, sem átti að veita konum sem vildu losna úr vændi og fórnarlömbum mansals athvarf. Reynslan varð að Kristínarhús veitti fyrst og fremst fórnarlömbum mansals aðstoð.

     9.      Er tryggt að samstarf sé á milli þeirra aðila sem vinna gegn vændi og þeirra sem vinna gegn mansali, eins og gert er ráð fyrir í mansalsáætlun og alþjóðlegum samningum? Ef svo er, hvernig er samstarfinu háttað? Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
    Samkvæmt upplýsingum frá embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum er tryggt að samstarf er á milli þeirra aðila sem vinna gegn vændi og þeirra sem vinna gegn mansali. Gott samstarf er milli lögreglu, félagsþjónustu í sveitarfélögum og samtaka á borð við Stígamót og Kvennaathvarfið.

     10.      Hversu margir liðir í gildandi mansalsáætlun hafa komist til framkvæmda? Hversu margir liðir í aðgerðaáætlun gegn mansali hafa ekki komist til framkvæmda og hvaða skýringar eru á því? Er áformað að endurskoða eða uppfæra aðgerðaáætlun gegn mansali?
    Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. var komið á fót stýrihópi til að tryggja sem best innleiðingu mansalsáætlunarinnar með því að leggja mat á hvernig best sé að útfæra aðgerðir.     Þær aðgerðir sem komið hafa til framkvæmda og snúa að fræðslu og forvörnum eru eftirfarandi: Boðið hefur verið upp á þjálfun og fræðslu starfandi lögreglumanna, sérstaklega rannsóknarlögreglumanna og saksóknara í því skyni að auka skilning og þekkingu lykilaðila, sjá aðgerð nr. 7. Í stað þess að stofna fræðslusjóð eins og gert er ráð fyrir í aðgerðaáætluninni í aðgerð nr. 1 var sett á laggirnar fræðsluteymi, eins og vikið hefur verið að hér að framan, sem haldið hefur fræðslufundi vítt og breitt um landið. Þá hefur verið opnað fræðslusvæði um mansalsmál á vef innanríkisráðuneytisins þar sem eru m.a. leiðbeiningar og handbækur á mörgum tungumálum, sbr. aðgerðir nr. 2 og 5.
    Að því er varðar aðgerðir er lúta að rannsókn og saksókn mansalsmála er nú unnið að endurskoðun leiðbeininga greiningardeildar ríkislögreglustjóra um verklag fyrir lögreglu í mansalsmálum frá 2010, sbr. aðgerð nr. 17. Árið 2013 skilaði hópur á vegum Útlendingastofnunar og ríkissaksóknara tillögum um þróun verkferla og lausna varðandi vernd vitna í mansalsmálum, sbr. aðgerð nr. 19, til ríkislögreglustjóra. Úrvinnslu á tillögunum er ekki lokið.
    Þær aðgerðir er lúta að samstarfi og samráði í gildandi mansalsáætlun og hafa komið til framkvæmda að hluta er stofnun stýrihóps sem getið er um hér að framan. Árið 2015 er fyrirhugað að koma upp skráningarkerfi um mansalsmál á Íslandi, sbr. aðgerðir nr. 21–23. Þá er endurskoðun núgildandi aðgerðaáætlunar gegn mansali hafin undir forustu stýrihóps.

     11.      Hver er staða svonefnds mansalsteymis sem komið var á fót þegar aðgerðaáætlun gegn mansali var samþykkt?
    Samkvæmt fyrri aðgerðaáætlun gegn mansali sem samþykkt var af þáverandi ríkisstjórn Íslands 17. mars 2009 var á sínum tíma stofnað sérfræði- og samhæfingarteymi sem hafði það hlutverk með höndum að fylgja eftir vísbendingum um mansal, bera kennsl á möguleg fórnarlömb samkvæmt viðurkenndum gátlistum sem teymið gaf út og veita þeim viðurkennda stöðu sem slíkum, tryggja þeim vernd og aðstoð, halda til haga upplýsingum og sinna fræðslu um mansalsmál. Jafnframt átti teymið að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í málaflokknum og hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunar. Í áætluninni kom skýrt fram að teymið væri tilraunaverkefni og yrði metið að þremur árum liðnum hvort það yrði fest í sessi með lögum. Verkefni þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar gegn mansali var að skilgreina umfang málaflokksins og stíga fyrstu skrefin til forvarna og nauðsynlegra viðbragða.
    Við gerð gildandi aðgerðaáætlunar gegn mansali sem samþykkt var af þáverandi ríkisstjórn 26. apríl 2013 var stefnt að því að byggja upp varanlegt og skilvirkt samstarfskerfi gegn mansali þvert á stofnanir stjórnsýslunnar. Samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun er ekki gert ráð fyrir óbreyttri starfsemi mansalsteymis. Í staðinn var komið á laggirnar stýrihópi stofnana réttarvörslukerfisins, Útlendingastofnunar, velferðarkerfisins, sem og félaga- og mannréttindasamtaka, sbr. svar við 3. og 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     12.      Hve mikið fé þarf til að unnt verði að framkvæma aðgerðaáætlun gegn mansali til fulls að mati ráðuneytisins? Mun ráðuneytið tryggja að sú upphæð renni til verkefnisins?

    Samkvæmt kostnaðarmati var í upphafi gert ráð fyrir að 8,3 millj. kr. þyrfti á tímabilinu til þess að fjármagna aðgerðir sem skilgreindar eru í áætluninni. Vegur þar þyngst 5 millj. kr. framlag vegna fræðslusjóðs og 1 millj. kr. framlag vegna vefsíðu með fræðsluefni fyrir almenning og fagfólk. Vegna aðhalds í ríkisfjármálum hefur stýrihópurinn leitað hagkvæmari leiða. Í stað vefsíðu hefur verið sett fræðsluefni um mansal á sérstakt svæði á vef innanríkisráðuneytisins. Þá hefur stýrihópurinn staðið fyrir fundum sérstaks fræðsluteymis með fagfólki, eins og komið hefur fram, í því skyni að auka þekkingu og færni fagfólks í nærsamfélaginu til þess að greina fórnarlömb mansals og starfa saman gegn mansali.
    Ráðuneytið mun leggja sitt af mörkum til að leita eftir fjármunum til framkvæmdar aðgerða sem miða að því að sporna gegn mansali.