Ferill 391. máls. Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1416  —  391. og 392. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um Haf- og vatna­rannsóknir og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.


Frá minni hluta atvinnuveganefndar.



    Minni hlutinn telur brýnt að mun betur verði hugað að málefnum starfsmanna verði frumvarpið að lögum. Í frumvarpinu er kveðið á um að öllum starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar verði sagt upp en þeir svo endurráðnir til hinnar nýju stofnunar.
    Við umfjöllun um málið var fullyrt að ekki hefði verið haft fullnægjandi samráð við starfsmenn og stéttarfélög þeirra til að tryggja að kjör starfsmanna skerðist ekki. Minni hlutinn telur miður að þetta sé raunin enda ljóst að starfsmenn eru áhyggjufullir um stöðu sína og hafa lagt áherslu á að beitt verði ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002.
    Aðdragandi málsins var gagnrýndur af ýmsum sem komu fyrir nefndina, m.a. vegna framangreinds og vegna þess að ekki liggur fyrir úttekt á faglegum ávinningi sameiningar.
Þá var við umfjöllun um málið vísað til eftirfarandi orða í skýrslu fjármálaráðuneytisins frá desember 2008 um sameiningu ríkisstofnana og tengdar breytingar en þar segir orðrétt: „Sé gengið út frá því að ætlunin sé að byggja nýja stofnun á mannauði þeirra stofnana sem verða sameinaðar, þarf að hugleiða vandlega á öllum stigum ferlisins hvaða áhrif sameiningin hefur á starfsmenn og hvað þeir bera úr býtum. Ekki er nóg að skoða ein­göngu hverju breytingarnar skila hlutaðeigandi stofnun, ríkissjóði, notendum þjónustunnar eða þeim sem standa fyrir þeim.“
    Minni hlutinn tekur undir framangreint og ítrekar mikilvægi þess að tryggja að kjör starfsmanna skerðist ekki verði frumvarpið að lögum enda eru áform um sameiningu ekki að undirlagi starfsmanna. Í einni umsagna um málið kemur fram að uppsagnir og fyrirheit um endurráðningu á óljósum kjörum skapi óróa meðal starfsmanna og væri líklegt til að valda deilum um kjaramál. Bent var á að hyggilegra væri að stefna að sátt um kjaramál til að tryggja samfellu í þeim rannsóknum sem umræddar stofnanir sinna.
    Minni hlutinn bendir á mikilvægi þess að endurskoðun og samræming eigi sér stað á samningum við sameiningu stofnana í því skyni að jafna kjör starfsfólks milli stofnana. Samkvæmt upplýsingum minni hlutans hefur þetta oft dregist og ekki alltaf verið staðið að samræmingu með faglegum hætti enda fylgir oft ekki fjármagn með sameiningum. Minni hlutinn telur að þar sem kjör starfsmanna geta verið misjöfn sé afar mikilvægt að þannig sé búið um hnútana að sameiningu verði fylgt eftir með endurskoðun réttinda starfsmanna með það að markmiði að samræma þau og aðlaga að nýrri stofnun og þá auðvitað með aðkomu stéttarfélaga. Brýnt er að kjör og réttindi starfsmanna sem bundin eru í aðalkjarasamningi sem og stofnanasamningi milli aðila verði ekki skert við sameiningu.
    Fram kemur í umsögn skrifstofu opinberra fjármála um málið að erfitt sé að meta hver hagræðing kunni að verða við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Þá er því slegið föstu að einskiptiskostn­aður vegna sameiningar geti verið nokkur og jafnvel umtalsverður sem geti t.d. falist í biðlaunum, undirbúningsvinnu, húsnæðisbreytingum, breytingum á upplýsinga- og fjarskiptavinnu og flutningum á milli staða. Minni hlutinn telur engan veginn tryggt að kostn­aður við sameininguna komi ekki niður á rekstrarfé stofnananna.
    Minni hlutinn telur breytingartillögu meiri hlutans til bóta en hins vegar er ekki tryggt að laun hækki í takt við starfsreynslu og er þá vísað til þess að í stofnanasamningum er mælt fyrir um hækkun launa á grundvelli starfsreynslu.
    Að lokum bendir minni hlutinn á að Hafrannsóknastofnun hefur búið við mikinn niðurskurð undanfarin ár. Fram kom við umfjöllun um málið að líkur séu á að margir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hverfi frá störfum við sameininguna vegna mögulegs biðlaunaréttar en við það glatast mikil og dýrmæt þekking. Veiðimálastofnun er mun minni stofnun sem er nú í góðri aðstöðu.
    Minni hlutinn telur nógu mikla áskorun felast í því að koma hinni nýju stofnun á laggirnar þannig að faglegur ávinningur verði tryggður og að ekki sé skynsamlegt að raska því ferli með deilum um kjaramál.

Alþingi, 8. júní 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.