Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 421  —  309. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2016.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var annars vegar farið yfir þann mikla fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 27 talsins og taka til 38 ríkja. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við níu ríki, þar á meðal Indland, Indónesíu, Víetnam og Malasíu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Filippseyjar og Víetnam á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál.
    Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, kom ítrekað til umfjöllunar á árinu, bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi 23. júní 2016. Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB, og þar með EES, er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA en Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. EFTA-ríkin fylgjast grannt með þróun mála og því hvernig breska stjórnin mun leggja upp hugmyndir um framtíðartengsl við ESB þegar 50. gr. Lissabon-sáttmálans um útgöngu verður virkjuð.
    Þá var ítrekað fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) sem hófust í júlí 2013. Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Náist samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu staðla eða sameiginlega staðla mun það hafa áhrif á regluverk innri markaðarins og þar með EES/EFTA-ríkin. Þrír möguleikar blasa við EFTA ef TTIP verður að veruleika, í fyrsta lagi að fá eins konar aukaaðild að TTIP en ekki liggur fyrir hvort slíkt verður í boði, í öðru lagi að EFTA geri eigin fríverslunarsamning við Bandaríkin og loks óbreytt ástand. Engin samræmd stefna liggur fyrir hjá EFTA-ríkjunum gagnvart TTIP en saman fylgjast þau grannt með gangi mála með reglubundnu samráði við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn ESB. Þá er enn óljóst hvaða stefnu ný stjórn Bandaríkjanna mun marka sér varðandi TTIP-viðræðurnar
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna viðskiptastefnu ESB og fríverslunarsamningagerð sambandsins, stefnu til eflingar innri markaða ESB, þvingunaraðgerðir ESB gagnvart Rússlandi og gagnaðgerðir Rússa, fólksflutninga innan ESB og deilihagkerfið.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð, í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB, leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES var þannig skipuð í upphafi árs 2016: Aðalmenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu tók Guðlaugur Þór Þórðarson að sér starf framsögumanns (rapporteur) skýrslu þingmannanefndar EES um stefnu ESB til eflingar innri markaðarins. Meðframsögumaður hans af hálfu Evrópuþingsins var Daniel Dalton og var skýrslan kynnt á fundi nefndarinnar í Vaduz í Liechtenstein.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2016.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2016. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar fjórum sinnum, þar af þrisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Manila og Hanoi um fríverslunarmál.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Þrjár skýrslur voru
teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli
þeirra.
    Þá hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB einn fund á árinu.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð auk fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

10. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í Reykjavík 9. febrúar 2016.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson. Fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn þingmennirnir Jørn Dohrmann, formaður, og Catherine Stihler.
    Fundinum stýrðu Guðlaugur Þór Þórðarson og Jørn Dohrmann. Helstu dagskrármál voru samskipti Íslands og ESB, Schengen og flóttamannastraumurinn, viðbrögð við fjármálakreppu, þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, og fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna. Í upphafsávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi samstarfs Alþingis og Evrópuþingsins sem staðið hefur frá árinu 1987 og nauðsyn þess að þingmenn hefðu vettvang þar sem þeir gætu rætt hagsmunamál í sínum hópi jafnt sem við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórn ESB.
    Að vanda var fyrsti dagskrárliður fundarins um samskipti Íslands og ESB og hófst hann með ávörpum fulltrúa stofnana ESB og íslenskra stjórnvalda, Claude Maerten frá utanríkisþjónustu ESB og Stefáns Hauks Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. Fram kom að Ísland væri samkvæmt mælingu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) með mestan innleiðingarhalla allra ríkja EES en hann mælir hve hratt ríkin innleiða regluverk innri markaðarins sem tekið hefur verið upp í EES-samninginn. Ísland væri þó að bæta sig og búist væri við minni halla í næstu mælingu ESA. Þá var rætt um hið nána viðskiptasamband en yfir 70% útflutnings Íslands fer til ESB. Sambandið er langstærsti kaupandi áls frá Íslandi og stærsti kaupandi sjávarfangs auk þess sem meiri hluti erlendra ferðamanna á Íslandi koma frá ESB. Kallað var eftir því að eftirstandandi tollar á sjávarafurðir á milli Íslands og ESB yrðu lækkaðir eða afnumdir. Vissulega væri búið að afnema tolla á flestar fisktegundir en mikilvægar undantekningar væru þó á því. Enn fremur var rætt um samstarf Íslands og ESB á sviði norðurslóðamála, alþjóða- og öryggismála og flóttamannamála svo nokkur svið séu nefnd. Birgitta Jónsdóttir og Óttarr Proppé spurðust fyrir um hvað gerðist ef ný ríkisstjórn vildi taka upp aðildarviðræður við ESB að nýju, hvort ferlið þyrfti að hefjast á byrjunarreit eða hvort haldið yrði áfram þar sem frá var horfið árið 2013. Ekki fengust svör við þeirri spurningu. Hanna Birna Kristjánsdóttir greindi frá skýrslu stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins frá desember 2015 þar sem fram koma ýmsar tillögur til að gera þátttöku Íslands í EES-samstarfinu skilvirkari. Þá hefði verið stofnaður vinnuhópur innan utanríkismálanefndar Alþingis til að gera tillögur um endurskoðun reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Talsverð umræða skapaðist um stöðu Schengen-samstarfsins og flóttamannavandann í Evrópu. Jørn Dohrmann rakti þær áskoranir sem Schengen stæði frammi fyrir og minntist sérstaklega á þær tímabundnu aðgerðir sem viss Schengen-ríki hefðu beitt til að sporna við flóttamannastraumnum, m.a. með því að taka upp landamæraeftirlit. Dohrmann áréttaði í því samhengi mikilvægi samstarfsins og samstöðu meðal Schengen-ríkjanna. Hanna Birna Kristjánsdóttir ítrekaði að Íslandi teldi marga kosti felast í Schengen-samstarfinu en lýsti jafnframt yfir áhyggjum af stöðu mála. Þá fór Hanna Birna yfir aðgerðir Íslands hvað varðaði móttöku flóttamanna og hve umsóknum hælisleitenda á Íslandi hefði fjölgað hlutfallslega mikið. Óttarr Proppé gerði grein fyrir þeirri pólitísku samstöðu sem ríkt hefur um mikilvægi þess að vel sé staðið að móttöku flóttamanna og minntist í því samhengi á skipun þverpólitískrar þingmannanefndar um heildarendurskoðun á löggjöf um málefni útlendinga. Árni Páll Árnason taldi mikilvægt að gera enn betur í móttöku flóttamanna og ítrekaði mikilvægi pólitískrar samstöðu.
    Í umfjöllun um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi sem Ísland er aðili að og gagnaðgerðir Rússa var Guðlaugur Þór Þórðarson framsögumaður. Hann lagði áherslu á að þvingunaraðgerðirnar væru sameiginlegar aðgerðir yfir 40 vestrænna ríkja gegn yfirgangi Rússa á Krímskaga og í austanverðri Úkraínu. Gagnaðgerðir Rússa með banni á matvælainnflutning hefðu valdið miklum búsifjum fyrir íslenskan sjávarútveg. Um 5% íslensks útflutnings fór til Rússlands árið 2014 eða sem svaraði til 1,5% af VLF. Hvatti Guðlaugur Þór til samstöðu þeirra ríkja sem standa að þvingunaraðgerðunum þannig að þau lækkuðu tolla og opnuðu markaði sína fyrir vöruflokkum sem yrðu fyrir barðinu á gagnaðgerðum Rússa. Það væru mikilvæg skilaboð til þeirra landa sem gagnaðgerðir Rússa kæmu verst niður á og ekki síður til Pútíns um að Vesturlönd stæðu þétt saman. Jørn Dohrmann tók undir að hvetja ætti aðildarríkin til að ræða þessi mál sín á milli og kanna leiðir til að takmarka efnahagslegt tjón af gagnaðgerðunum.
    Við umfjöllun um efnahagsmál flutti Bjarni Benediktsson fjármálaráherra ávarp og fór yfir hagþróun á Íslandi eftir efnahagshrunið 2008. Lagði hann áherslu á góða stöðu ríkisfjármála og öflugan hagvöxt sem hefði verið hærri hérlendis en í ESB síðustu ár. Þá gerði hann grein fyrir áætlun um losun fjármagnshafta. Vilhjálmur Bjarnason flutti framsögu þingmanna og ræddi orsakir efnahagshrunsins sem hann taldi felast í stofnanalegu siðrofi. Slíkt ástand getur skapast við hraðar þjóðfélagsbreytingar og felur í sér að lög og siðareglur eru ekki virtar og upplausn skapast eins og gerðist í aðdraganda falls íslensku bankanna.
    Fjallað var um samvinnu Íslands og ESB á sviði sjávarútvegsmála en ekki voru í gildi samningar fyrir fjóra deilistofna, norsk-íslensku síldina, kolmunna, makríl og úthafskarfa. Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ávarpaði fundinn og Óttarr Proppé flutti framsögu þingmanna. Fram kom m.a. að ósamkomulag um nýtingu fyrrnefndra stofna hefði leitt til ofveiði og stefnt þeim í hættu og það væri ekki sæmandi fiskveiðiþjóðum við Norður-Atlantshaf að geta ekki komið sér saman um sjálfbæra og skynsamlega nýtingu. Aðilar þyrftu að koma sér saman um nýja nálgun til að brjótast út úr þessari stöðu, t.d. með því að breyta fyrirkomulagi samningaviðræðna, slá öllum stofnum saman og e.t.v. fleiri hagsmunaþáttum og leita að lausn sem allir hefðu einhvern ávinning af. Hvatt var til viðræðna á þessum nótum þar sem öll spil yrðu lögð á borðið, þ.m.t. aðgangur að lögsögum og jafnvel viðskiptakjör.
    Þá var fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP). Katrín Jakobsdóttir var framsögumaður og lagði áherslu á að samræming regluverks og gagnkvæm viðurkenning staðla í TTIP mundi hafa mikil áhrif á EES/EFTA-ríkin í krafti aðildar þeirra að innri markaði Evrópu. Íslensk stjórnvöld fylgdust grannt með viðræðunum og óskuðu þess að samningurinn yrði opinn svo að Ísland ætti möguleika á að gerast aðili að honum. Hvort sótt yrði um aðild væri svo sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda eftir að hafa grannskoðað samninginn og framkvæmt nákvæmt hagsmunamat. Katrín lýsti áhyggjum út frá grænum sjónarhóli af því ef gengið yrði langt í afnámi tolla á landbúnaðarafurðir í TTIP. Lagði hún áherslu á kosti svæðisbundinnar matvælaframleiðslu bæði út frá neytendasjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum. Erfitt væri að sjá að stóraukin viðskipti yfir Atlantshafið væru í takt við áherslur í loftslagsmálum þar sem vistspor vöru stækkar eftir því sem flytja þarf hana lengri veg.
    Í lok fundar var fjallað um starfsreglur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB og ákveðið að leggja til við forsætisnefnd Alþingis og framkvæmdastjórn ESB að breyta 2. gr. þeirra þannig að tilvísun í aðildarviðræður Íslands og ESB yrði tekin út.

Fundur þingmannannefndar EFTA í Brussel 23. febrúar 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fundurinn var helgaður viðskiptastefnu ESB og var tilgangur hans að veita þingmönnum EFTA innsýn í fríverslunarsamningagerð ESB með viðræðum við framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþingmenn sem sæti eiga í viðskiptanefnd þingsins. Þá var í lok fundar fjallað um stöðu Bretlands í ESB í ljósi boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landsins innan sambandsins 23. júní 2016. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingmannanefndar EFTA, stjórnaði fundinum.
    Cecilia Malmström, viðskiptastjóri ESB (e. EU Trade Commissioner), fór yfir viðskiptastefnu sambandsins sem kynnt var í október 2015 og lagði áherslu á að utanríkisviðskipti og -fjárfestingar sambandsins ykju hagvöxt og atvinnusköpun. Helstu þættir stefnunnar eru í fyrsta lagi að viðhalda og þróa alþjóðakerfi opinna viðskipta á vettvangi alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Í öðru lagi að nýta tvíhliða eða svæðisbundna fríverslunarsamninga til þess að styrkja viðskiptasamband ESB við samstarfsríki. Í þriðja lagi er lögð áhersla á gagnsæi í viðskiptastefnu og við gerð fríverslunarsamninga og að þeir byggist á evrópskum gildum um sjálfbæra þróun, mannréttindi, sanngjörn viðskipti og baráttu gegn spillingu. Stærstu verkefnin í viðskiptastefnu ESB eru samningaviðræður á vettvangi WTO, fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) og viðræður við Japan um fríverslun og Kína um fjárfestingasamning. Þá standa m.a. yfir fríverslunarviðræður við sjö ríki ASEAN (Samtök Suðaustur-Asíuríkja). Stefnt var að því að hefja viðræður við Ástralíu og Nýja-Sjáland auk þess sem unnið var að uppfærslu fríverslunarsamninga við Mexíkó, Síle og Tyrkland. Í umræðum eftir erindi Malmström var einkum rætt um áhrif mögulegs TTIP-samnings á EFTA-ríkin og möguleika á að þau gætu orðið aðilar að samningnum ef af honum yrði. Malmström undirstrikaði að framkvæmdastjórn ESB hefði ekki mótað sér opinbera stefnu varðandi mögulega aðild annarra ríkja að TTIP en sagði þó að eðlilegt væri að nánum samstarfsríkjum gæfist kostur á aðild. Auk þess var rætt um gerðardóma í deilum milli ríkja og fjárfesta (e. Investor-State Dispute Settlement) en hugmyndir um slíka dóma í TTIP hafa verið afar umdeildar á meðal almennings í ESB-ríkjum á borð við Þýskaland og Austurríki. Malmström lagði áherslu á að slíkir gerðardómar væru alls ekki nýir af nálinni og að framkvæmdastjórnin hefði lagt fram tillögu um alþjóðlegan viðskiptadómstól til að taka á deilum af þessu tagi.
    Evrópuþingmaðurinn Artis Pabrikas, sem er framsögumaður fyrir fríverslunarsamning ESB og Kanada í viðskiptanefnd Evrópuþingsins, fjallaði um samninginn. Pabrikas lagði áherslu á að þótt algengast væri að fjalla um viðskiptastefnu einungis út frá efnahagslegum eða tæknilegum forsendum væri ekki hægt að líta fram hjá geópólitískri þýðingu þess að ESB styrkti tengslin yfir Atlantshafið í ljósi átakanna í Úkraínu og framferðis Rússlands á undanförnum misserum. Pabrikas sagði Kanada líklega það ríki utan Evrópu sem deildi gildum álfunnar hvað mest, hagkerfið væri stórt og viðskipti mikil og að auki væri Kanada í NATO.
    Evrópuþingmaðurinn Christofer Fjellner, sem sæti á í viðskiptanefnd Evrópuþingsins, flutti framsögu um aðkomu og vinnu Evrópuþingsins með fríverslunarsamninga. Samkvæmt sáttmálum ESB er hlutverk Evrópuþingsins einfaldlega að samþykkja eða synja fríverslunarsamningum. Samningsumboð er samið af framkvæmdastjórn ESB og samþykkt af ráði sambandsins en eftir það eru samningaviðræður á borði framkvæmdastjórnarinnar. Í reynd er aðkoma Evrópuþingsins mun meiri. Þegar samningaviðræður hefjast tekur viðskiptanefnd þingsins saman skýrslu um hvaða árangurs hún væntir í samningsferlinu. Fjellner sagði að í raun væri um tvöfalt samningsumboð að ræða fyrir fríverslunarviðræður, framkvæmdastjórnin þyrfti annars vegar að taka tillit til skýrslu Evrópuþingsins og hins vegar til hins eiginlega samningsumboðs. Vinnuhópi er komið á fót innan viðskiptanefndarinnar fyrir hvert samningsferli og kemur aðalsamningamaður framkvæmdastjórnarinnar reglulega á fund hópsins og gerir grein fyrir gangi samningaviðræðna. Þá liggja öll gögn vegna viðræðna við einstök ríki frammi í sérstöku lestrarherbergi þingmanna, þar á meðal trúnaðargögn. Þá getur viðskiptanefnd þingsins ákveðið að gera eins konar milliúttekt á stöðu fríverslunarviðræðna við einstök ríki eða ríkjahópa. Loks kemur Cecilia Malmström, viðskiptastjóri ESB, á fund viðskiptanefndarinnar mánaðarlega og ræðir stöðu og þróun viðskiptastefnu sambandsins.
    Guðlaugur Þór Þórðarson tók þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússum sérstaklega upp á fundinum við Ceciliu Malmström, viðskiptastjóra ESB, og Evrópuþingmanninn Christofer Fjellner. EES/EFTA-ríkin eru aðilar að þvingunaraðgerðum ESB og hafa gagnaðgerðir Rússa með banni á matvælainnflutning komið illa niður á þeim. Hvatti Guðlaugur Þór til samstöðu þeirra ríkja sem standa að þvingunaraðgerðunum þannig að þau lækkuðu tolla og opnuðu markaði sína fyrir vöruflokkum sem verða fyrir barðinu á gagnaðgerðum Rússa. Í tilfelli Íslands væru það sjávarafurðir og hvatti hann til þess að ESB opnaði markað sinn fyrir þeim tegundum sem áður fóru á Rússlandsmarkað. Það væru mikilvæg skilaboð til þeirra landa sem gagnaðgerðir Rússa koma verst niður á og ekki síður til Pútíns um að Vesturlönd stæðu þétt saman.
    Evrópuþingmaðurinn Viviane Reding, sem er framsögumaður fyrir samningaviðræður um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum (e. Trade in Services Agreement, TiSA) í viðskiptanefnd Evrópuþingsins, kom á fundinn og fjallaði um stöðu TiSA og ályktun Evrópuþingsins frá 3. febrúar sl. Fimmtíu ríki taka þátt í viðræðunum en markmið þeirra er að auðvelda milliríkjaviðskipti með þjónustu og auka gegnsæi í slíkum viðskiptum. Reding undirstrikaði breytt vinnulag framkvæmdastjórnar ESB í fríverslunarviðræðum eins og TiSA eftir árið 2014 en síðan þá hefur gagnsæi og upplýsingagjöf verið mun meiri en áður. Það voru viðbrögð við auknum ótta og tortryggni almennings gagnvart fríverslun. ESB er tiltölulega opinn markaður fyrir þjónustuviðskipti og megináhersla ESB í TiSA-viðræðunum er að opna þjónustumarkaði annars staðar að sama skapi þar sem fyrirtæki ESB mæta ýmiss konar tæknilegum viðskiptahindrunum. Með því væri tryggð aukin opnun, gagnkvæmni og fyrirsjáanleiki í þjónustuviðskiptum sem byggjast á alþjóðlegum reglum sem mundu síðan auka viðskipti, hagvöxt og atvinnusköpun.
    Loks komu á fundinn breski Evrópuþingmaðurinn David Campbell Bannerman og Fabian Zuleeg frá hugveitunni European Policy Centre og fjölluðu um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í ESB sem fram fór 23. júní 2016. Fóru þeir stuttlega yfir niðurstöðu samningaviðræðna Breta við ESB um breytt fyrirkomuleg aðildar Bretlands að ESB og ræddu hugsanleg áhrif þess ef Bretar kysu að ganga úr ESB.

46. fundur þingmannanefndar EES í Vaduz 19. maí 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Evrópuþingmaðurinn Jørn Dohrmann og Guðlaugur Þór Þórðarson stýrðu fundinum. Helstu dagskrármál hans voru staða EES-samstarfsins, stefna ESB til eflingar innri markaðarins, fólksflutningar innan ESB og deilihagkerfið.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu, Anne E. Luwema fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Claude Maerten fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni og Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Í umfjöllun þeirra komu fram áhyggjur af töfum á innleiðingu EES-gerða í EFTA/EES-ríkjunum og lutu þær að tvennu, annars vegar töfum á upptöku gerða í EES-samninginn og hins vegar töfum á innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum eftir að þær hafa verið teknar upp í samninginn. Slíkar tafir koma í veg fyrir að lagalegt samræmi, sem er forsenda innri markaðarins, sé á milli ESB-ríkjanna og EES/EFTA-ríkjanna. Fram kom að öll EES/EFTA-ríkin höfðu bætt sig í innleiðingu gerða samkvæmt tölfræði ESA en Ísland væri þó enn með mestan innleiðingarhalla allra ríkja EES.
    Sérstaklega var fjallað um upptöku gerða ESB um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði en af yfir 400 gerðum sem biðu upptöku í EES-samninginn voru a.m.k. 180 á sviði fjármálamarkaða. Samkomulag fjármálaráðherra EES/EFTA-ríkjanna og ESB frá október 2014 felur í sér að allar bindandi ákvarðanir á fjármálamarkaði gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Fram kom á fundinum að þjóðþing Liechtenstein hefði þegar gefið fyrirframsamþykki fyrir upptöku gerðanna í EES-samninginn og að norska þingið hefði vænst þess sama áður en þingið færi í sumarleyfi 16. júní. Ályktunartillaga sama efnis lægi fyrir Alþingi og kvaðst Vilhjálmur Bjarnason vona að hún yrði samþykkt þegar þing kæmi saman í ágúst 2016.
    Lögð var fram skýrsla um stefnu ESB til eflingar innri markaðarins (e. Single Market Strategy) og var Guðlaugur Þór Þórðarson framsögumaður hennar ásamt Evrópuþingmanninum Daniel Dalton. Í framsögu sinni kvaðst Guðlaugur Þór styðja öll góð skref til þess að ryðja hindrunum úr vegi og efla virkni innri markaðarins enda gæti hann drifið áfram hagvöxt og atvinnusköpun í Evrópu og gagnaðist að því leyti jafnt ESB og EFTA. Hins vegar hræddu sporin því stefnan væri langt í frá fyrsta aðgerðaráætlun framkvæmdastjórnar ESB í þá veru. Innri markaðurinn hefði á síðustu 15 árum valdið vonbrigðum sem drifkraftur vaxtar í álfunni enda hefði hagvöxtur einungis mælst 1,4% að meðaltali og stæði Evrópa þar langt að baki hávaxtarsvæðum heimsins og einnig öðrum þróuðum iðnríkjum eins og Bandaríkjunum. Þá gagnrýndi Guðlaugur Þór að í umræðu um þróun innri markaðarins væri líkt og menn væru í afneitun gagnvart komandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um útgöngu Bretlands úr ESB, Brexit. Yrði Brexit að veruleika yrði það mikið áfall fyrir innri markaðinn, ekki einungis vegna stærðar breska hagkerfisins, sem er hið fimmta stærsta í heimi, heldur einnig vegna þess að Bretar hafa verið sterkir talsmenn frjálsra viðskipta innan ESB.
    Þá var fjallað um fólksflutninga innan ESB samkvæmt réttinum um frjálsa för fólks sem gerir borgurum ESB kleift að setjast að í hvaða ríki sem er innan sambandsins. Christian Frommelt frá Liechtenstein-stofnuninni (e. Lichtenstein Institute) flutti framsögu. Frjáls för vinnuafls var og er einn hornsteina innri markaðarins. Frjálsri för fólks er ætlað að jafna atvinnustig innan ESB þannig að fólk frá svæðum þar sem atvinnuleysi ríkir sæki til svæða þar sem meiri atvinna er í boði. Þá er innflutt vinnuafl mikilvægt fyrir gistiríki til að ráða í laus störf og flytja inn fagþekkingu sem skortur er á. Samkeppnishæfni og hagkerfi gistiríkis nýtur góðs af og sama gerir velferðarkerfi í upprunalandi sem þarf ekki lengur að styðja atvinnufært fólk sem ekki fær vinnu. Lítið er um fólksflutninga innan ESB þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni ítrekað að stór hluti almennings víða í álfunni telji þá mikla og að sér standi jafnvel ógn af þeim. Tæplega 8 milljónir borgara ESB búa og starfa í öðru landi en heimalandi sínu en það er einungis 3,6% af heildarvinnuafli sambandsins. Að auki sækja yfir milljón borgara daglega vinnu yfir landamæri og önnur milljón býr tímabundið í öðru landi en heimalandi sínu við vinnu við afmörkuð tímabundin verkefni. Flestir ESB-borgarar sem flytja innan sambandsins koma enn frá Mið- og Austur-Evrópu eins og verið hefur frá stækkun ESB til austurs árin 2004 og 2007. Flestir þeirra sem flytja milli ESB-ríkja vegna atvinnu eru ungir og vel menntaðir einstaklingar. Tölfræði sýnir að innflytjendur innan ESB eru nettógreiðendur til velferðarkerfa gistiríkjanna og leggja meira til samneyslunnar en þeir taka út. Ástæður þess að fólksflutningar innan ESB eru ekki meiri en raun ber vitni eru mögulega hindranir á borð við tungumál, menningarlegan mun og ólík menntakerfi. Skoðanakannanir Eurobarometer frá 2015 sýna að almenningur innan ESB lítur fólksflutninga innan ESB jákvæðum augum (55% jákvæðir en 38% neikvæðir) viðhorfið snýst við þegar spurt er um fólksflutninga frá ríkjum utan ESB (59% neikvæðir en 34% jákvæðir).
    Þingmannanefnd EES samþykkti tvær ályktanir á 46. fundi sínum, annars vegar um stefnu ESB til eflingar innri markaðarins og hins vegar um deilihagkerfið (sjá 5. kafla).

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Bern 27. júní 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Árni Páll Árnason og Vilhjálmur Bjarnason, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í Bern var haldinn hefðbundinn sumarfundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund.
    Fundirnir fóru fram fjórum dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi 23. júní 2016 þar sem meiri hluti kjósenda studdi útgöngu Bretlands úr ESB, svokallað Brexit. Báru umræður á fundunum þess merki en mikið var fjallað um tengsl EFTA og Bretlands við væntanlegt brotthvarf þess síðarnefnda úr Evrópusambandinu.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var að venju annars vegar fjallað um fríverslunarmál og hins vegar um EES. Johann N. Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, fór yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA sem hefur 27 gilda fríverslunarsamninga sem taka til 38 ríkja. Fyrri hluta árs 2016 var fríverslunarsamningur undirritaður við Filippseyjar og á fundinum í Bern var samningur við Georgíu einnig undirritaður. Miklum krafti hefur verið veitt í að byggja upp fríverslunarnet EFTA í Asíu og eiga samtökin nú í viðræðum við Indland, Indónesíu, Malasíu og Víetnam. Eftir hlé í kjölfar kosninga á Indlandi árið 2014 stóðu vonir til þess að viðræður hæfust brátt að nýju. Viðræður lágu niðri eftir kosningar í Indónesíu sama ár en var fram haldið í maí 2016. Þá hefði verið góður gangur í viðræðum við Malasíu. Hvað aðra heimshluta snerti lægju fríverslunarviðræður niðri við tollabandalag Rússlands, Kasakstans og Hvíta-Rússlands vegna átakanna í Úkraínu. Ákveðið var á fundinum í Bern að hefja viðræður við Ekvador. Þá var fjallað um uppfærslu á eldri fríverslunarsamningum en slíkar uppfærslur snúa einkum að því að samningar sem áður tóku einungis til vöruviðskipta nái einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Slíkar viðræður fara nú fram við Mexíkó og til skoðunar er að hefja viðræður við Kanada.
    Á fundi þingmanna og ráðherra kom fram að leita þarf nýrra lausna á viðskiptum EFTA við Bretland þegar landið gengur úr ESB þar sem núverandi viðskiptasamband aðilanna grundvallast á EES-samningnum. Bretland er sérlega mikilvægt viðskiptaland EFTA-ríkjanna og er til að mynda stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan ESB. Það er því forgangsmál að halda góðu viðskiptasambandi við Bretland og verður unnið að því samhliða viðræðum Bretlands og ESB um útgönguskilmála úr sambandinu svo að ekki myndist tómarúm þegar útganga Bretlands verður að veruleika. Það er nauðsynlegt til að EFTA-ríkin haldi samkeppnishæfni sinni. Þá var nokkuð rætt um ólíkar sviðsmyndir útgöngu Bretlands úr ESB, m.a. möguleika á einhvers konar samstarfi og jafnvel aðild Bretlands að EFTA.
    Þegar kom að umræðu um málefni EES á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var einkum fjallað um upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn. Samkomulag náðist á fundi fjármálaráðherra EES/EFTA-ríkjanna og ESB í október 2014 sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA og að hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir það ferli sem bíður Bretlands í kjölfar ákvörðunar um Brexit og flutti Cenni Najy frá Genfarháskóla framsögu. Frá því að Bretland virkjar 50. gr. Lissabon-sáttmálans hafa Bretland og ESB 24 mánuði til þess að koma sér saman um útgönguskilmála Bretlands, þ.e. hvernig samskiptum Bretlands og ESB verður háttað eftir útgöngu. Náist ekki samkomulag gilda reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um viðskipti aðilanna. Mögulegt er að framlengja 24 mánaða frestinn en einungis með samþykki beggja samningsaðila. Ef annað verður ekki ákveðið verður útgöngusamningurinn svokallaður blandaður samningur (e. mixed agreement) sem kallar á að hvert og eitt aðildarríki ESB verður að samþykkja hann. Bretland verður meðhöndlað af ESB eins og ríki utan sambandsins meðan á viðræðunum stendur. Ríki sem yfirgefur ESB gengur jafnframt út úr sameiginlegu viðskiptastefnu sambandsins og þar með neti fríverslunarsamninga ESB sem nær til rúmlega 50 ríkja. Viðskiptastefna Bretlands fer því á byrjunarreit og semja þarf um viðskiptakjör við fjölda ríkja og ríkjahópa til að varðveita samkeppnishæfni Bretlands. Najy taldi þrjá meginmöguleika vera fyrir hendi fyrir framtíðarskipan sambands Bretlands við ESB, í fyrsta lagi á grunni WTO-reglna eins og vísað var til að framan, í öðru lagi aðild að EES og í þriðja lagi tvíhliða samning við ESB á svipuðum nótum og Sviss. Najy taldi EFTA/EES-aðild fjarlægan kost en jafnframt að samningur um aðgang einstakra atvinnugreina að innri markaðnum eins og gilti um Sviss yrði erfiður í framkvæmd. Þá væri það skýrt af hálfu ESB að aðgangur fengist ekki að innri markaðnum nema gegn frjálsri för vinnuafls en ESB og Sviss eiga einmitt í deilum um frjálsa för fólks eftir að ákveðið var í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss árið 2014 að takmarka aðflutning erlendra borgara þvert á samkomulag við ESB. Þegar öllu væri á botninn hvolft mundi slæmur útgöngusamningur skilja Bretland eftir einangrað í Evrópu en góður samningur gæti haft dómínóáhrif á önnur ríki ESB þar sem aukins óþols gætir gagnvart sambandinu.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var fjallað um svæðisbundna hagfræði og stjórnmál viðskipta (e. Geo-Economics and Geo-Politics of Trade) og flutti Koen Berden framsögu. Á síðustu áratugum hefur sú grundvallarbreyting orðið að flóknar hátæknivörur eru ekki lengur framleiddar í einstökum ríkjum heldur settar saman úr hlutum sem framleiddir eru í mörgum ríkjum. Um 80% heimsviðskipta er þannig ófullbúin vara eða vöruhlutar. Sem dæmi má taka að íhlutir venjulegrar Boeingþotu koma frá fjölda fyrirtækja frá fjórum heimsálfum. Samhliða þessari þróun og stöðnun hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni hefur mikil aukning orðið í gerð fríverslunarsamninga frá árinu 1990. Mikilvæg breyting á síðustu árum eru víðtækir samningar margra ríkja í stað eldri hefðbundinna tvíhliða samninga. TPP-samningur 12 ríkja yfir Kyrrahafið sem undirritaður var í október 2015 er þekktastur auk yfirstandandi fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna, TTIP, og viðræðna þróaðra iðnríkja um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum, TiSA. Aðrir áberandi ferlar eru CETA-samningur ESB og Kanada, fríverslunarviðræður ESB og Japan og svokallaðar RCEP-viðræður ríkja Austur-Asíu, Suðaustur-Asíu og Eyjaálfu. Bandaríkin, ESB, Japan og Kanada eiga oftast aðild að þessum risasamningum en Rússland, Kína og EFTA standa utan þeirra. Víðtækir marghliða viðskiptasamningar geta sett fordæmi og reglur fyrir framtíðarþróun í viðskiptum sem hugsanlega yrðu teknar upp af WTO síðar. EFTA-ríkin taka þátt í TiSA-viðræðunum um þjónustuviðskipti og fylgjast grannt með TTIP-viðræðum ESB og Bandaríkjanna án þess að vera þátttakendur eða hafa þar bein áhrif. Hvort umfangsmiklir marghliða viðskiptasamningar verði opnir utanaðkomandi ríkjum er því ekki á hendi EFTA en ef slík opnun býðst þurfa EFTA-ríkin að meta hvort slík aðild þjónar hagsmunum þeirra.

Fundur þingmannannefndar EFTA í Brussel 15. nóvember 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í Brussel fór fram fundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna, fundur þingmannanefndar og sveitarstjórnarvettvangs EFTA og eiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA. Umræður um Brexit voru áberandi á öllum fundunum. Þá kom framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA saman til fundar um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir árið 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingmannanefndar EFTA, stýrði fundunum.
    Í pallborðsumræðum á fundi þingmannanefndar EFTA um Brexit, væntanlega útgöngu Bretlands úr ESB, með fulltrúum hugveitna höfðu René Repasi, Guntram Wolff og Janis A. Emmanouilidis framsögu og svöruðu spurningum þingmanna. Í umræðunum var m.a. fjallað um ýmsa lagalega anga Brexit, ekki síst í ljósi niðurstöðu bresks dómstóls frá 3. nóvember 2016 um að breska ríkisstjórnin gæti ekki virkjað útgönguákvæði Lissabon-sáttmálans nema að undangengnu samþykki breska þingsins. Breska stjórnin hefur áfrýjað þessari niðurstöðu til hæstaréttar sem fjalla mun um málið í desember en dómsniðurstöðu er að vænta í janúar 2017. Fram kom í umræðunni að breska stjórnin hefði áformað að leggja útgöngusamning Bretlands úr ESB fyrir breska þingið en eftir virkjun útgönguákvæðis hafa Bretland og ESB 24 mánuði til að gera samkomulag um forsendur útgöngu. Jafnframt var bent á þann möguleika að ef ekki næst samkomulag milli ESB og Bretlands um útgöngusamning fyrir þau tímamörk munu tengsl Bretlands við ESB rofna án slíks samnings. Fjallað var um möguleika þess að Bretland gæti dregið virkjun útgönguákvæðisins til baka ef ekki næst samkomulag um útgöngusamning. Það sjónarmið kom fram að slíkt væri ekki einhliða á færi Breta og væntanlega þyrfti samþykki ráðs ESB til.
    Guðlaugur Þór Þórðarson gagnrýndi að einblínt væri á lagatæknilega nálgun á Brexit, það þýddi ekki að segja breskum almenningi að útgangan væri of flókin heldur yrði að virða lýðræðislegan vilja almennings og líta til þeirra tækifæra sem felast í útgöngunni. Útgöngusinnar sæju tækifæri í og hefðu skýra sýn á hnattræna fríverslun í stað þess að loka sig inni í íþyngjandi regluverki ESB. Bretland væri í góðri samningsstöðu gagnvart ESB þar sem ESB flytti mun meira út til Bretlands en inn. Það væru því mörg störf lögð að veði, t.d. í Þýskalandi, ef truflun yrði á viðskiptum milli Bretlands og ESB við útgöngu Breta. Jafnframt þyrfti EFTA að horfa til tækifæra við Brexit, t.d. til hugsanlegs samstarfs við Breta ef farið yrði í fríverslunarsamningagerð við bresku samveldislöndin.
    Rætt var um að með einföldun mætti segja að Bretland hefði einkum þrjá möguleika á að skipuleggja samband sitt við ESB eftir útgöngu. Í fyrsta lagi með EES-aðild en hún væri tæplega raunhæf því þá þyrftu Bretar eftir sem áður að innleiða regluverk ESB en nú án áhrifa auk þess sem frjáls för fólks væri hluti af EES. EFTA-aðild mundi þó styrkja fríverslunarnet og -stefnu Bretlands eftir útgöngu. Í öðru lagi svokallað „hart Brexit“ þar sem enginn sérstakur samningur næðist á milli Bretlands og ESB og reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) tækju við um viðskiptasamband Breta við meginlandið. Í þriðja lagi væri klæðskerasaumuð lausn, einhvers konar víðtækur fríverslunarsamningur á milli Bretlands og ESB í takt við þann samning sem ESB hefði gert við Kanada. Til þess að brúa hugsanlegt bil milli útgöngu Breta og gerð slíks samnings hefur þeirri hugmynd verið fleytt að síðasta ákvæði útgöngusamnings gæti verið á þá leið að hann tæki ekki gildi fyrr en fríverslunarsamningur aðilanna yrði tilbúinn.
    Í umfjöllun um afleiðingar útgöngu Bretlands úr ESB á breskan efnahag kom m.a. fram að jafnvel þótt um „hart Brexit“ yrði að ræða þar sem viðskiptatengsl við ESB mundu ráðast af reglum WTO með tilheyrandi rýrnun viðskiptakjara mundi gengislækkun pundsins vega þar upp á móti. Í Bretlandi sjálfu hefur veiking pundsins haft í för með sér aukna eftirspurn til innlendra framleiðenda og birgja. Þeir eru einkum utan stórborganna, gjarnan staðsettir á svæðum þar sem stuðningur við Brexit var hvað mestur, og hefur þessi þróun aukið efnahagsleg umsvif á þeim svæðum. Í London eru horfur á að störfum í fjármálageiranum fækki umtalsvert á næstu mánuðum en fjárfestingarbankar eru að færa mikið fé og starfsemi til meginlandsins.
    Á fundi þingmanna EFTA með utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna var venju samkvæmt rætt um niðurstöður fundar EES-ráðsins sem fram fór fyrr um daginn. Vik Aspaker, Evrópuráðherra Noregs, fór yfir niðurstöðuskjal fundarins þar sem m.a. er komið inn á nýlega upptöku fyrsta pakka regluverks á sviði evrópskra fjármálaeftirlitsstofnana í EES-samninginn, Parísarsamninginn um loftslagsmál og samstarf á sviði orku- og loftslagsmála honum tengt, fækkun gerða ESB sem lengi hafa beðið upptöku í EES-samninginn og viðskipti ESB við EES/EFTA-ríkin með landbúnaðarvörur. Þó fór mestur fundartími í að ræða Brexit og Guðlaugur Þór Þórðarson sagði mikil tækifæri felast í útgöngu Breta úr ESB fyrir EFTA og spurðist fyrir um undirbúningsvinnu fríverslunarsamtakanna. Sérstaklega spurði hann að því hvort EFTA-ríkin, sem ættu mikið undir viðskiptum við Bretland, ætluðu að standa saman að því að skoða mögulega framtíðarskipan viðskipta við Breta eða hvort þau mundu gera það hvert fyrir sig. Því var svarað til að höfuðborgir EFTA-ríkjanna fylgdust náið með gangi mála og réðu sínum ráðum. Bretland væri hins vegar enn ESB-ríki og bundið af viðskiptastefnu ESB og ekki væri tímabært að efna til samtals við Breta fyrr en búið væri að virkja útgönguákvæði Lissabon-sáttmálans og fyrir lægi í hvaða átt viðræður Bretlands og ESB um útgöngusamning þróuðust.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fjallar árlega um tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að fjárhagsáætlun komandi árs og skilar áliti sínu til nefndar aðildarríkjanna um ESA sem tekur endanlega ákvörðun um fjárframlög til stofnunarinnar. Á fundi framkvæmdastjórnarinnar kynntu forseti og aðrir stjórnarmenn ESA tillögu sína að fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og svöruðu spurningum nefndarmanna. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram drög að áliti sem voru samþykkt. Í álitinu er mælst til þess að hækkanir á fjárframlögum til ESA verði takmarkaðar við vísitölubundnar launa- og verðlagshækkanir auk þess sem ESA er hvatt til að leita leiða til hagræðingar svo að stofnunin þurfi ekki að fara fram á aukin fjárframlög í náinni framtíð.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Genf 21. nóvember 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson formaður og Vilhjálmur Bjarnason, auk Stígs Stefánssonar ritara. Auk fundar þingmanna og ráðherra EFTA hélt þingmannanefnd EFTA eigin fund í Genf. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingmannanefndar EFTA, stýrði fundunum.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA í Genf var fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Fríverslunarsamningar EFTA eru nú 27 talsins við 38 ríki og ná yfir 14,4% af vöruskiptum EFTA-ríkjanna. Í framsöguræðu sinni fór Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og formaður ráðherraráðs EFTA, yfir stöðu fríverslunarviðræðna en EFTA á m.a. í virkum viðræðum við Indónesíu, Malasíu, Víetnam og Indland. Vonir eru bundnar við það að viðræðum við Indland geti lokið á árinu 2017 en þær hófust að nýju í október 2016 eftir hlé í kjölfar indversku þingkosninganna vorið 2014. Vægi Indlands hefur vaxið mjög í hinu hnattræna hagkerfi á undanförnum árum og því eru góð viðskiptakjör við landið afar mikilvæg fyrir EFTA-ríkin. Einnig er stefnt að því að ljúka viðræðum við Indónesíu á árinu 2017. Viðræður við Víetnam og Malasíu eru skemmra á veg komnar. Hvað eldri fríverslunarsamninga EFTA varðar standa viðræður yfir um uppfærslu og breikkun samninga við Tyrkland frá árinu 1992 og Mexíkó frá árinu 2000. Þá hafa átt sér stað könnunarviðræður við Kanada um hvort grundvöllur sé fyrir uppfærslu á fríverslunarsamningi aðilanna frá 2008. Samningur ESB og Kanada frá 2014 er mun víðtækari en samningur Kanada við EFTA-ríkin svo uppfærsla er æskileg til að tryggja samkeppnisstöðu EFTA gagnvart ESB í viðskiptum við Kanada.
    EFTA-ríkin hafa á undanförnum misserum fylgst náið með fríverslunarviðræðum Bandaríkjanna og ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) og átt í formlegum samræðum við framkvæmdastjórn ESB og viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna í því skyni. Óvissa er uppi um afstöðu komandi stjórnar Trumps Bandaríkjaforseta til TTIP og kom fram á fundinum að EFTA mun eftir sem áður fylgjast grannt með þróun málsins enda ljóst að samningur aðilanna mundi einnig hafa mikil áhrif á EES/EFTA-ríkin.
    Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, var ennfremur til umræðu á fundi þingmanna og ráðherra EFTA. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra lagði áherslu á að ráðherrar EFTA fylgdust grannt með þróun mála, en of snemmt væri að skoða lausnir á framtíðarviðskiptasambandi við Bretland enda ekki ljóst hvort Bretar yrðu aðilar að innri markaði eða ef til vill í tollabandalagi við ESB eftir útgöngu. Þá undirstrikaði hún mikilvægi góðs viðskiptasambands við Bretland enda væri Bretland stærsti viðskiptaaðili Íslands. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði grein fyrir umræðum um Brexit á fundi þingmannanefndar EFTA 15. nóvember sl. og taldi skrifstofu EFTA ekki nógu virka í því að vinna úr ólíkum möguleikum og draga upp sviðsmyndir af væntanlegri útgöngu Bretlands. Breska stjórnin hefði lagt áherslu á að Bretland mundi við útgöngu beita sér fyrir aukinni fríverslun og þar fælust mikil tækifæri fyrir EFTA á samstarfi við Bretland, m.a. við gerð fríverslunarsamninga við þriðju ríki.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir skýrslu með mati á árangri fríverslunarsamninga EFTA, annarra en EES-samningsins. Fríverslunarsamningar EFTA við þriðju ríki náðu yfir 3% viðskipta EFTA-ríkjanna árið 2006 en 14,4% árið 2015, en margir nýir fríverslunarsamningar voru gerðir á þeim áratug. Almennt er þróunin sú að viðskipti EFTA við ríki sem þau hafa gert fríverslunarsamninga við vaxa mun hraðar en sem nemur meðalvexti viðskipta á milli þjóða. EFTA-ríkin eru opin og nútímaleg hagkerfi sem eru öðrum ríkjum háðari milliríkjaverslun. Á síðasta áratug hefur útflutningur EFTA-ríkjanna þannig aukist um 65% á meðan meðalaukning í milliríkjaviðskiptum hefur verið 36%.

47. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 14.–15. desember 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti Vilhjálmur Bjarnason fundinn auk Stígs Stefánssonar ritara. Fundurinn var haldinn í Evrópuþinginu í Strassborg. Evrópuþingmaðurinn Jørn Dohrmann og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen stýrðu fundinum. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, væntanleg útganga Bretlands úr ESB, löggæslusamstarf á vettvangi Europol og viðskipti með landbúnaðarvörur.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Bergdís Ellertsdóttir, fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni, Lubica Karvasová, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Vaclav Navratil, fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í umfjöllun þeirra komu fram áhyggjur annars vegar af töfum á upptöku gerða í EES-samninginn og hins vegar af töfum á innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum eftir að þær hafa verið teknar upp í samninginn. Slíkar tafir koma í veg fyrir að lagalegt samræmi, sem er forsenda innri markaðarins, sé á milli ESB-ríkjanna og EES/EFTA-ríkjanna. Alls biðu 522 gerðir upptöku sem væri um 20% aukning á hálfu ári. Rúmur þriðjungur gerða sem biðu upptöku í EES-samninginn væru á sviði fjármálastarfsemi og vonast væri til hraðari upptöku þeirra á vormánuðum 2017.
    Í umræðu um væntanlega útgöngu Bretlands úr ESB, Brexit, flutti David Campbell Bannerman, Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins, framsögu. Hann lagði áherslu á að endurheimt fullveldis og það að ráða eigin málum hefði verið afgerandi þáttur í hugum kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit í júní 2016. Sérlega mikilvægt væri að ná stjórn á innflytjendamálum en það fæli ekki í sér að verið væri að taka upp stefnu andsnúna innflytjendum. Þá yrði mögulegt að verja 12 milljörðum punda sem Bretland greiðir árlega í sjóði ESB til annarra verkefna. Efnahagslega væri mikilvægt að hafa frelsi til að gera fríverslunarsamninga og að Bretland væri ekki bundið fríverslunarstefnu ESB sem væri þunglamaleg. ESB ætti þannig í fríverslunarviðræðum við 13 ríki sem sæktust hægt. Vandræði hefðu verið með fríverslunarsamning við Kanada vegna andstöðu fylkisþings í Belgíu og líklegt væri að TTIP-fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna rynnu út í sandinn vegna andstöðu einstakra Evrópuríkja. Bretland stæði betur að vígi eitt og sér í samningaviðræðum en í samfloti 28 aðildarríkja ESB með tilheyrandi háu flækjustigi. Bretland ætti því að geta gert víðtæka fríverslunarsamninga hratt og örugglega eftir útgönguna úr ESB. Hvað framtíðarskipan viðskipta Bretlands við ESB varðar vonaðist Bannerman eftir því að sú skipan veitti Bretum sem mestan aðgang að innri markaðnum að undanskilinni frjálsri för fólks. Taldi hann þó líklegast að Bretland mundi gera fríverslunarsamning við ESB ekki ólíkan samningi ESB við Kanada. Ef það tækist ekki væri hægt að styðjast við reglur Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, WTO, í viðskiptum yfir Ermasundið. Þá taldi Bannerman ólíklegt að Brexit hefði áhrif á stuðning við sjálfstæði í Skotlandi og sagði stuðning hafa minnkað undanfarna mánuði. Óhugsandi væri að ESB semdi sérstaklega við Skotland enda mundu ríki innan ESB, líkt og Spánn, með svæði sem berjast fyrir sjálfstæði aldrei taka slíkt í mál.
    Í umræðu um löggæslusamstarf á vettvangi Europol var rætt um nauðsyn aukins samstarfs á þessu sviði í ljósi hryðjuverka og alþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi sem kalla á samræmdar aðgerðir lögregluyfirvalda þvert á landamæri. Evrópuþingið hefur í umfjöllun um löggæslusamstarfið þó lagt áherslu á mikilvægi þess að hafa með því eftirlit og að ekki verði farið út í stórfellt eftirlit með borgurum án gildrar ástæðu sem bryti á friðhelgi einkalífs þeirra. Vilhjálmur Bjarnason gerði grein fyrir samstarfi Íslands við Europol sem tekur til afbrota á borð við ólögleg fíkniefnaviðskipti, mansal og hryðjuverkastarfsemi. Hann sagði brotastarfsemi á Ísland líkjast sífellt meir brotastarfsemi í öðrum löndum Evrópu og að þátttaka íslenskra lögregluyfirvalda í Europol, auk samvinnu við aðildarlönd þess, væri enn mikilvægari en áður hefði verið. Samstarf við Europol væri einn af hornsteinum erlends lögreglusamstarfs en upplýsingaskipti væru meginþátturinn í því. Auk upplýsingaskipta hefði einnig verið leitast við að auka þátttöku Íslands í starfsemi Europol að öðru leyti. Þannig hefði þátttaka Íslands í verkefnahópum aukist verulega og tæki Ísland í dag virkan þátt í starfi 13 hópa af tæplega 30. Þátttakan í námskeiðum og fræðslu á vegum Europol hefði stóraukist, bæði með því að sækja slíkt erlendis og með því að fá sérfræðinga frá Europol til Íslands.
    Í umfjöllun um viðskipti EES/EFTA-ríkjanna og ESB með landbúnaðarvörur var sjónum einkum beint að yfirstandandi samningaviðræðum ESB og Noregs en ESB þrýstir á um aukið frjálsræði og opnun í slíkum viðskiptum. Vilhjálmur Bjarnason gerði stuttlega grein fyrir samningi Íslands og ESB á þessu sviði frá 2015 sem gert er ráð fyrir að taki gildi á miðju ári 2017. Samningurinn snýr að þremur þáttum, viðskiptum með óunnar landbúnaðarvörur, viðskiptum með unnar landbúnaðarvörur og gagnkvæmri vernd afurðaheita sem vísa til uppruna.
    Þingmannanefnd EES samþykkti eina ályktun á 47. fundi sínum, um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2015.

5. Ályktanir árið 2016.
Ályktanir þingmannanefndar EES:
          Ályktun um stefnu ESB til eflingar innri markaðarins, samþykkt í Vaduz 19. maí 2016.
          Ályktun um deilihagkerfið, samþykkt í Vaduz 19. maí 2016.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2015, samþykkt í Strassborg 15. desember 2016.

Alþingi, 20. mars 2017.

Hanna Katrín Friðriksson,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
varaform.
Páll Magnússon.
Smári McCarthy. Svandís Svavarsdóttir.