Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 36/149.

Þingskjal 1750  —  443. mál.


Þingsályktun

um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.


    Alþingi ályktar að efla skuli íslensku sem opinbert mál og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Aðgerðaáætlun til þriggja ára á því sviði verði útfærð í víðtæku samstarfi. Allir sem búsettir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi. Þeir skulu eiga rétt á að nota íslensku í öllum samskiptum við opinberar stofnanir og fyrirtæki sem veita eða selja almenningi þjónustu, sbr. lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál, nr. 61/2011.

I. HELSTU MARKMIÐ

     *      Íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins.
     *      Íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara.
     *      Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN 2019–2021

Vitundarvakning um íslenska tungu.
    Stuðlað verði að vitundarvakningu um mikilvægi íslenskrar tungu, gildi hennar og sérstöðu, sbr. verkefnið Áfram íslenska. Áhersla verði lögð á mikilvægi þess að íslenska sé lifandi tungumál í stöðugri þróun og helsta samskiptamál samfélagsins.

Menntun og skólastarf.
Mikilvægi læsis.
    Læsi er lykill að lífsgæðum og því verði áfram unnið í skólasamfélaginu að verkefnum sem tengjast Þjóðarsáttmála um læsi og leitast við að tryggja virka aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla að því verkefni.

Íslenska sem annað mál.
    Þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Skipaður verði verkefnahópur sem ætlað er að marka heildarstefnu í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku.

Kennaramenntun.
    Vægi íslensku verði aukið í almennu kennaranámi og áhersla lögð á að örva áhuga verðandi kennara á tungumálinu. Stuðlað verði að því að efla málkunnáttu þeirra og sköpunargleði til að byggja upp hæfni nemenda og stuðla að jákvæðu viðhorfi til íslenskunnar á öllum skólastigum.

Starfsþróun kennara.
    Stutt verði við starfsþróun og símenntun kennara í þeim tilgangi að efla lærdómssamfélag skólanna. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kennara í íslensku og að þeir hafi tök á fjölbreyttum kennsluháttum til að kenna íslensku bæði sem móðurmál og sem annað mál.

Háskólakennsla og rannsóknir.
    Haldið verði uppi öflugri háskólakennslu og rannsóknarstarfsemi í íslensku og íslenskum fræðum, bæði grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.

Kennsla á íslensku.
    Kennsla í menntakerfinu á 1.–6. þrepi hæfniramma fari fram á íslensku eða íslensku táknmáli, þar sem það á við.

Námsefnisútgáfa.
    Stuðlað verði að góðu aðgengi nemenda á öllum skólastigum að fjölbreyttu og vönduðu námsefni á íslensku á sem flestum námssviðum.

Íslenskunám fullorðinna innflytjenda.
    Settur verði hæfnirammi um íslenskunám innflytjenda og viðeigandi námsleiðir þróaðar með auknu og fjölbreyttara framboði námskeiða og námsefnis á öllum stigum og fyrir ólíka miðla. Samhliða verði útbúið rafrænt matskerfi til að meta hæfni fullorðinna innflytjenda í íslensku.

Íslenskukennsla erlendis.
    Styrkja skal stoðir íslenskukennslu á erlendri grundu. Nýta skal nýjustu tækni til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.

Menning og listir.
Fjölmiðlun og innlend dagskrárgerð.
    Innlend dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og vef verði efld og aðgengi tryggt að fjölbreyttu efni á íslensku með íslensku táknmáli eða texta. Stutt verði við starfsemi einkarekinna fjölmiðla vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis á íslensku.

Bókmenning.
    Sköpuð verði skilyrði fyrir fjölbreytta útgáfu bóka svo að tryggt sé að fólk á öllum aldri geti áfram lært, lesið og skapað á íslensku. Sérstök áhersla verði lögð á efni fyrir yngri lesendur, m.a. með nýjum styrktarsjóði fyrir barna- og ungmennabækur. Hugað verði að hlutverki og mikilvægi þýðinga fyrir þróun íslensks máls og styrkir til þýðinga auknir og hugað að þeim á fleiri sviðum, svo sem í upplýsingatækni, vefefni, hugbúnaði og tæknibúnaði.

Bókasöfn.
    Starfsemi skólabókasafna og almenningsbókasafna verði efld og þjónusta við nemendur og almenning bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjölbreyttu efni á íslensku.

Tónlist.
    Stuðlað verði að aukinni frumsköpun í tónlist og textasmíð á íslensku.

Myndlist.
    Stuðlað verði að aukinni meðvitund um mikilvægi íslensks máls þegar fjallað er um myndlist, hún greind og henni miðlað.

Sviðslistir.
    Keppt verði að því að íslenskt mál verði notað sem víðast og á fjölbreyttan hátt í sviðslistum hér á landi.

Kvikmyndir og sjónvarpsefni.
    Áfram verði dyggilega stutt við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku og hugað sérstaklega að efni fyrir yngri áhorfendur. Stuðningur verði aukinn við þýðingar, textun og talsetningu slíks efnis.

Tækniþróun, aðgengi og nýsköpun.
Máltækni – stafræn framtíð tungunnar.
    Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Unnið verði samkvæmt verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018–2022. Verkefnið endurspeglist í fjármálaáætlun og brautargengi þess verði tryggt til framtíðar.

Orðasöfn og orðanefndir.
    Stuðlað verði að opnu aðgengi almennings að upplýsingaveitum um íslenskt mál, svo sem orðabókum, orðasöfnum og málfarssöfnum. Einnig verði stutt við starf orðanefnda til að tryggja að íslenskur fræðiorðaforði og íðorðastarf eflist.

Stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf.
Viðmið um málnotkun.
    Sett verði viðmið um notkun íslensku, íslensks táknmáls og annarra tungumála í upplýsinga- og kynningarefni á vegum stjórnvalda og atvinnulífs.

Málstefna um íslenskt táknmál.
    Gerð verði málstefna um íslenskt táknmál og skal hún liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2021. Málnefnd um íslenskt táknmál hafi umsjón með því verkefni.

Íslensk málstefna.
    Íslensk málstefna – Íslenska til alls – verði endurskoðuð til samræmis við breytta tíma og byggt verði á mati á núverandi málstefnu. Ný málstefna skal liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2020. Íslensk málnefnd hafi umsjón með því lögbundna verkefni. Hvatt sé til þess að sem flestar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök marki sér málstefnu.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2019.