Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 431  —  396. mál.
Leiðréttur texti.




Skýrsla


forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2021.


    Skýrsla þessi er lögð fram í samræmi við fyrirmæli 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Markmið hennar er að veita Alþingi yfirsýn yfir eftirfylgni framkvæmdarvaldsins með ályktunum þingsins. Til umfjöllunar er framkvæmd þeirra ályktana Alþingis frá árinu 2021 sem kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar og meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra á því ári. Þá er hér einnig að finna yfirlit um sömu atriði frá árunum 2018–2020. Undanskilin eru þau málefni þar sem lög kveða á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt.
    Umræddar þingsályktanir á árunum 2018–2021 voru samtals 146, þar af 56 vegna staðfestinga ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ályktanir eru reglubundinn þáttur í þinglegri meðferð EES-mála og fela í sér afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sem kallar á lagabreytingar á Íslandi. Þær hafa því nokkra sérstöðu miðað við aðrar ályktanir. Þá vísuðu þingnefndir 19 málum til ríkisstjórnarinnar. Í skýrslu þessari er þannig fjallað um samtals 165 þingmál, sem sum hver varða fleiri en eitt ráðuneyti.
    Fjöldi þingsályktana á hverju ári sem kallar á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar, auk málefna sem þingið vísar þangað í nefndaráliti, sveiflast talsvert eftir árum. Á árinu 2021 eru þetta samtals 30 þingmál, 22 þingsályktanir en 8 nefndarálit, sem með frávísunartillögum þingnefnda var vísað til ráðherra eða ríkisstjórnar eftir atvikum. Á árinu 2020 voru þingmálin 36 talsins, bróðurparturinn þingsályktanir, 35 talsins, og 1 nefndarálit. Á árinu 2019 voru þingmálin 63 talsins, 56 þingsályktanir en 7 nefndarálit. Að lokum voru þingmálin 36 árið 2018, 33 þingsályktanir en 3 nefndarálit.

Staða framkvæmdar Framkvæmd lokið Framkvæmd hafin Framkvæmd ekki hafin Samtals
2021 7 19 4 30
2020 26 8 2 36
2019 49 10 4 63
2018 31 5 0 36
Samtals 113 42 10 165
     Tafla 1. Yfirlit fjölda mála og stöðu framkvæmdar 2018–2021.

    Jafnframt er nokkur munur á fjölda þingmála eftir ráðuneytum. Utanríkisráðuneytið hefur á sinni könnu langflest málin, um eða yfir helming þeirra. Það skýrist af því að stór hluti málanna eru staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem gerðar eru í formi þingsályktana. Öll ráðuneytin koma í einhverjum mæli að framkvæmd þingsályktana þótt ekki sé víst að þau séu með framkvæmd á hendi á hverju ári. Hér að neðan verður gerð grein fyrir tölfræði um þessi atriði, flokkað bæði eftir árum og eftir ráðuneytum, sbr. töflur 2–5.
    Þingmálin sem hér eru til umfjöllunar eru flokkuð eftir stöðu hvers verkefnis. Greint er á milli verkefna þar sem framkvæmd er lokið, verkefna þar sem framkvæmd er hafin og svo verkefna þar sem framkvæmd er ekki hafin. Þetta eru skýrar línur í tilfellum þeirra verkefna sem annaðhvort er búið að ljúka framkvæmd við eða framkvæmd ekki hafin. Í öðrum tilfellum, þar sem framkvæmd er hafin en ekki lokið, geta verkefnin verið á öllum stigum vinnslu. Í greinargerð með hverju verkefni hér aftar í skýrslunni er gerð nánari grein fyrir stöðu hvers verkefnis.

2021 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum Framkvæmd lokið Framkvæmd hafin Framkvæmd ekki hafin Samtals
FOR 0 1 0 1
DMR 0 0 0 0
FRN 0 1 0 1
FJR 2 0 3 5
HVIN 0 0 1 1
HRN 0 1 0 1
IRN 1 2 0 3
MAR 0 0 0 0
MVF 0 1 0 1
MRN 0 4 0 4
URN 0 4 0 4
UTN 4 5 0 9
Samtals 7 19 4 30
     Tafla 2. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2021.

2020 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum Framkvæmd lokið Framkvæmd hafin Framkvæmd ekki hafin Samtals
FOR 1 0 0 0
DMR 0 1 0 1
FRN 0 1 0 1
FJR 4 0 0 4
HVIN 1 0 0 1
HRN 1 1 0 2
IRN 0 3 0 3
MAR 0 0 0 0
MVF 1 0 0 1
MRN 0 0 0 0
URN 0 2 0 2
UTN 18 0 2 20
Samtals 26 8 2 35
     Tafla 3. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2020.

2019 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum Framkvæmd lokið Framkvæmd hafin Framkvæmd ekki hafin Samtals
FOR 4 1 0 5
DMR 1 1 0 2
FRN 2 1 1 4
FJR 2 0 1 3
HVIN 1 0 0 1
HRN 5 0 0 5
IRN 3 1 0 4
MAR 1 1 0 2
MVF 1 0 1 2
MRN 0 2 1 3
URN 1 1 0 2
UTN 28 2 0 30
Samtals 49 10 4 63
     Tafla 4. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2019.

2018 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum Framkvæmd lokið Framkvæmd hafin Framkvæmd ekki hafin Samtals
FOR 2 3 0 5
DMR 0 0 0 0
FRN 1 0 0 1
FJR 6 1 0 7
HVIN 1 0 0 1
HRN 0 0 0 0
IRN 1 0 0 1
MAR 0 0 0 0
MVF 2 0 0 2
MRN 2 0 0 2
URN 2 1 0 3
UTN 4 0 0 14
Samtals 21 5 0 36
     Tafla 5. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2018.

    Ef utanríkisráðuneytið er skoðað sérstaklega á árunum fjórum sem eru til skoðunar, 2018–2021, sést að iðulega er aðeins um fimmtungur ályktananna af öðrum toga en þingsályktanir til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, eða 21 ályktun af alls 101.

Þingsályktanir til staðfestingar vegna EES Aðrar þingsályktanir Samtals
2021 5 4 9
2020 17 3 20
2019 22 8 30
2018 12 2 14
Samtals 56 17 73
Tafla 6. Hlutfall staðfestingarmála hjá utanríkisráðuneytinu 2018–2021.

    Nánari grein er hér á eftir gerð fyrir framgangi einstakra mála eftir árum annars vegar og ráðuneytum hins vegar. Forsætisráðuneytið aflaði upplýsinga um framangreint frá viðkomandi ráðuneytum í október 2021 og svör þeirra fara hér á eftir.

Framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2021.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 21/151 um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

11. maí 2021 – þskj. 1402 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin felur í sér nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hún er nú ávallt lögð til grundvallar í störfum stjórnvalda. Með þingsályktuninni samþykkti Alþingi hina nýju þýðingu og mun hún vera notuð þegar samningurinn er lögfestur. Þá hefur hin nýja þýðing verið birt í Stjórnartíðindum og á vef Stjórnarráðsins.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Þingsályktun 34/151 um hagsmunafulltrúa eldra fólks.
13. júní 2021 – þskj. 1826 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Mælt var fyrir þingsályktunartillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra á 151. löggjafarþingi, 109. mál, þskj. 110, 26. nóvember 2020. Inga Sæland formaður og Guðmundur Ingi Kristinsson varaformaður Flokks fólksins fluttu tillöguna. Efni tillögunnar var að Alþingi fæli félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra fyrir árslok 2021. Tilefni þingsályktunartillögunnar var að aldraðir væru fjölmennur og fjölbreyttur hópur og misjafnlega færir um að gæta að eigin réttindum og hagsmunum. Því væri rík þörf á málsvara fyrir þennan hóp.
    Velferðarnefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu sem var samþykkt 13. júní 2021. Heiti tillögunnar var breytt í „Tillaga til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa eldra fólks.“ Samkvæmt þingsályktuninni er félags- og barnamálaráðherra falið að stofna starfshóp með hagsmunaaðilum og starfsfólki ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Verkefni starfshópsins er m.a. að meta hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess ætti að vera.
    Skipun starfshópsins tafðist en félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði hann í apríl 2022. Í starfshópnum eru fulltrúar Landssambands eldri borgara, Alzheimersamtakanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Ráðgert er að starfshópurinn skili drögum að frumvarpi til ráðherra í janúar 2023.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Þingsályktun 25/151 um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026.
31. maí 2021 – þskj. 1559 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin byggist á 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem kveður á um að ráðherra skuli ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta.
    Í fjárlögum og fjármálaáætlun er að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig athugasemdir sem umræddum skjölum fylgja.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign (lágmarkstryggingavernd o.fl.).
12. júní 2021 – þskj. 1751 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Í frávísunartillögu efnahags- og viðskiptanefndar var lagt til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sætti töluverðri gagnrýni við umfjöllun nefndarinnar. Nefndin lagði til að málið yrði rýnt með tilliti til þeirra ábendinga sem fram höfðu komið í umsögnum til nefndarinnar og að samráð yrði haft við hagaðila um breytingar. Eftir frekari rýni ráðuneytisins og samráð við hagaðila var frumvarp sama efnis lagt fram á Alþingi vorið 2022. Óbreytt frumvarp varð að lögum það sama vor.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa).
12. júní 2021 – þskj. 1755 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið fól í sér að við mat ráðherra á áhrifum stjórnarfrumvarpa yrði sérstaklega litið til tveggja meginþátta til viðbótar við mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpa, þ.e. til mats á loftslagsáhrifum auk þess sem jafnréttismat það sem framkvæmt hefur verið á hluta frumvarpa verði gert að almennri reglu. Í álitinu er lagt til að fjármála- og efnahagsráðuneytið taki tillögur frumvarpsins til athugunar þegar farið verður í heildarendurskoðun laga nr. 123/2015.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (sjóðir um sameiginlega fjárfestingu).
12. júní 2021 – þskj. 1748 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Í frávísunartillögunni kom fram að efnahags- og viðskiptanefnd styddi þau markmið sem frumvarp þingmanns fól í sér en taldi nauðsynlegt að vinna það nánar í samráði við hagaðila. Nefndin benti á að ákvæði sama efnis og frumvarp þingmannsins innihélt hefði verið lögfest með lögum nr. 37/2020. Við meðferð þeirra laga hefðu komið fram sjónarmið frá Landssamtökum lífeyrissjóða sem voru mjög í samræmi við frumvarp þingmannsins. Með vísan til þessa lagði nefndin til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnar.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda).
12. júní 2021 – þskj. 1750 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið fól í sér annars vegar að hámarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda yrði 25 ár og hins vegar að lágmarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda yrði tíu ár í stað fimm ára. Í frávísunartillögu efnahags- og viðskiptanefndar var lagt til að frumvarpinu væri vísað til ríkisstjórnarinnar til skoðunar í ljósi athugasemda í umsögnum við þinglega meðferð þess.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.


Þingsályktun 20/151 um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

6. maí 2021 – þskj. 1384 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Tillaga til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu var lögð fram af hálfu alþingismanna á 151. löggjafarþingi. Í tillögunni var lagt til að Alþingi ályktaði að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á fót nefnd sem ynni að opinberri iðnaðarstefnu. Tillagan var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Þá var sambærileg tillaga lögð fram á 115. löggjafarþingi. Flutningsmenn tillögunnar töldu nauðsynlegt að í iðnaðarstefnu yrði að líta til langs tíma og í henni yrði sett fram skýr framtíðarsýn með mælanlegum viðmiðum. Áhersla skyldi lögð á að benda á mikilvægi þess að iðnaðarstefnan tæki ekki eingöngu tillit til efnahags þjóðarinnar heldur tæki einnig mið af líffræðilegum fjölbreytileika Íslands og hamfarahlýnun jarðar.

Heilbrigðisráðuneyti.


Þingsályktun 29/151 um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

12. júní 2021 – þskj. 1759 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um lýðheilsustefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 12. júní 2021. Tillögunni er ætlað að styrkja stefnumótun á sviðinu og felur það í sér að leiðarljós lýðheilsustefnu til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir sem hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi feli þannig í sér að lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist m.a. af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu með áherslu á heilsueflingu og forvarnir. Þá verði lýðheilsustarf metið með því að mæla gæði, öryggi, aðgengi og kostnað sem og kostnaðarhagkvæmni. Til þess að framtíðarsýn þessi verði að veruleika er lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni til þess að styrkja stoðir lýðheilsustarfs hér á landi: 1. Forysta til árangurs, 2. Rétt þjónusta á réttum stað, 3. Fólkið í forgrunni, 4. Virkir notendur, 5. Skilvirk þjónustukaup, 6. Gæði í fyrirrúmi og 7. Hugsað til framtíðar.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 14/151 um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.
23. febrúar 2021 – þskj. 933 á 151. lögþ. (sameiginleg með heilbrigðisráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Alþingi samþykkti 23. febrúar 2021 þingsályktun um að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda á fasteignum.
    Með þingsályktuninni fól Alþingi félags- og barnamálaráðherra að grípa til aðgerða sem stuðla að því að draga úr líkum á tjóni vegna rakaskemmda í fasteignum, greiða fyrir nauðsynlegum viðgerðum vegna rakaskemmda og efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim. Félags- og barnamálaráðherra greip til ýmissa aðgerða í þessa átt en málaflokkurinn mannvirkjamál var fluttur til innviðaráðuneytis, sbr. forsetaúrskurð 28. nóvember 2021, og hefur starfinu verið haldið áfram í innviðaráðuneyti.
    Upplýsinga hefur verið aflað um hvernig tryggingavernd varðandi raka- og mygluskemmdir er háttað í nágrannaríkjunum og unnið er að stöðuskýrslu um mögulegar breytingar á tryggingavernd hvað varðar byggingargalla í íbúðarhúsnæði hér á landi. Markmið ráðuneytisins er að tryggingavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda á íbúðarhúsnæði verði aukin og tryggingafélög hvött til að tryggja slíkt tjón.
    Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim. Síðastliðin tvö ár hafa verið gefin út þrjú leiðbeiningablöð til fagaðila um málefnið, aðgengileg á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Askur – mannvirkjarannsóknarsjóður var settur á stofn árið 2021 og veitir sjóðurinn styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Árið 2021 hlutu fjögur rannsóknarverkefni tengd raka og myglu í byggingum styrki, samtals að upphæð 14,5 m.kr. og munu niðurstöður rannsóknanna liggja fyrir á næstu mánuðum. Eitt verkefnanna fjallar um rakaástand bygginga, úttektir og mat á óhollustu og myglu og annað verkefni hefur að markmiði að útbúa námsgögn og framkvæma kennslu í iðnnámi um rakaöryggi bygginga og myglu.
    Verkefni sem varða rafræna skráningu fasteigna hafa verið flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem nú hefur sett upp rafræna Mannvirkjaskrá. Stefnt er að því að þar verði vistuð öll hönnunargögn bygginga sem fá byggingarleyfi, að lögbundnar úttektir fari fram samkvæmt skoðunarhandbókum HMS og að niðurstöður úttekta verði vistaðar rafrænt í skránni, með það fyrir augum að auðvelda sönnunarbyrði eiganda húsnæðis þegar byggingargalli kemur í ljós, oft mörgum árum eftir eigendaskipti. Ætlunin er að í hinni rafrænu skrá sé einnig hægt að vista gögn um fyrri byggingargalla og viðgerðir sem farið hafa fram. Reiknað er með að lokið verði við skýrslu vegna ofangreindrar þingsályktunar á árinu 2022 og að skýrslan verði lögð fram á Alþingi á árinu 2023.

Þingsályktun 13/151 um orkuskipti í flugi á Íslandi.
3. febrúar 2021 – þskj. 849 á 151. lögþ. (sameiginleg með heilbrigðisráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis ályktaði að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að setja á fót starfshóp sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi.
    Starfshópurinn átti að gera tillögur um hvernig Ísland gæti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi, hvernig styðja mætti við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi, hve fýsilegt landið væri með tilliti til veðurfars og innviða sem þyrftu að vera til staðar hér á landi vegna orkuskipta í flugi, m.a. í tengslum við nýsköpun, umhverfisvæna orkugjafa og þátttöku í prófunum og alþjóðlegri þróun orkuskipta í flugi og þess að sett yrðu markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og hvernig áætlun um það samrýmdist öðrum áætlunum ríkisins í orkuskiptum, nýsköpun og loftslagsmálum.
    Unnið er að tillögum um úrbætur. Árið 2022 var gerð skýrsla um efnið sem sett var í samráð. Reiknað er með að skýrslan verði lögð fram á Alþingi á árinu 2023.

Þingsályktun 27/151 um breytingu á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024.
31. maí 2021 – þskj. 1561 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Hér er um að ræða þingsályktunartillögu til að tryggja fulla fjármögnun á þeim fjárfestingum í samgönguinnviðum sem ríkið réðst í árið 2020 til að sporna við áhrifum Covid-19. Unnið er í samræmi við ályktunina þó sumum verkum sem hún tekur til sé ekki lokið.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti.


Þingsályktun 23/151 um ástandsskýrslur fasteigna.
18. maí 2021 – þskj. 1461 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Búið er að skipa starfshóp sem falið er að fylgja eftir þingsályktuninni. Starfslok hópsins eru áætluð haust 2023.

Mennta- og barnamálaráðuneyti.


Þingsályktun 28/151 um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
10. júní 2021 – þskj. 1702 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
     Þingsályktun nr. 28/151, um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, var samþykkt á Alþingi í júní 2021. Þingsályktunartillagan var lögð fram af þáverandi félags- og barnamálaráðherra. Þar er að finna tímasetta og fjármagnaða stefnu og aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2021–2024. Helsta markmið stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar er að uppfylla kröfur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og skyldur stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum. Með stefnunni er lögfestingu sáttmálans fylgt eftir með markvissum hætti og tryggt að sáttmálinn sé rauður þráður í stefnumótun og aðgerðum stjórnvalda. Markmið stefnunnar er enn fremur að tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, auka samstarf milli opinberra aðila með velferð og réttindi barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna og auka þekkingu á réttindum barna innan samfélagsins. Helstu atriði stefnunnar eru m.a.:
     Þróun þátttökuvettvangs stjórnvalda við börn og ungmenni á landsvísu.
     Formleg úttekt á möguleikum og upplifunum barna og ungmenna af þátttöku og samráði við opinbera aðila, í samstarfi við Evrópuráðið.
     Þróun mælaborðs sem heldur utan um víðtækt tölfræðilegt yfirlit yfir velferð, líðan og réttindi barna.
     Mótun og innleiðing hagsmunamats út frá réttindum barna, sem verður hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana í málum einstakra barna.
     Aukin réttindagæsla fyrir börn hjá embætti umboðsmanns barna.
     Fullgilding þriðju valkvæðu bókunarinnar við Barnasáttmálann, um sjálfstæða kæruleið til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
     Endurskoðun og samræming lagaákvæða við Barnasáttmálann.
     Fullgilding Haag-samningsins í Barnavernd.
     Markviss stuðningur við innleiðingu Barnasáttmálans inn í skóla og frístundastarf. Áframhaldandi stuðningur við sveitarfélög um innleiðingu Barnasáttmálans undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög.
     Greining á menntun fagaðila sem vinna með og fyrir börn, á þekkingu þeirra á réttindum barna. Markviss eftirfylgd hjá stjórnvöldum með niðurstöðum Barnaþings, sem haldið er af umboðsmanni barna á tveggja ára fresti.
     Mótun fræðsluáætlunar um réttindi barna fyrir börn og fagaðila sem vinna með og fyrir börn.
     Efling dags mannréttinda barna 20. nóvember ár hvert.
    Í ályktuninni er enn fremur kveðið á um að móta skuli heildstæða stefnu í málefnum barna og ungmenna á landsvísu í samræmi við almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar. Stefnan verður lögð fram árið 2023. Einnig má geta þess að í júní 2021 var samþykkt ný heildstæð löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar er kveðið á um sérstakan samráðsvettvang sem hefur m.a. það lögbundna verkefni að undirbúa stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn.

Þingsályktun 16/151 um menntastefnu fyrir árin 2021–2030.
24. mars 2021 – þskj. 1111 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan var lögð fram af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra eftir víðtækt samráð við hagaðila og ráðleggingar sérfræðinga, bæði innlendra og frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Í þingsályktuninni er kveðið á um að leggja skuli fram aðgerðaáætlun innan sex mánaða frá samþykkt hennar. Sumarið 2021 vann hópur hagaðila og starfsmanna ráðuneytisins að því að afmarka aðgerðir fyrir fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnu fyrir árin 2021–2024. Áætlunin felur í sér 9 aðgerðir sem skipt er upp í verkþætti og var hún kynnt innan tilskilins frests í september sama ár. Unnið er að framangreindum aðgerðum.

Þingsályktun 33/151 um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.
13. júní 2021 – þskj. 1825 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan kom frá Alþingi. Í júlí 2021 skipaði ráðherra starfshóp um stefnu í íþróttamálum og mun hann fylgja eftir núgildandi stefnu til ársins 2030 og undirbúa endurskoðun hennar. Málefni afreksfólks í íþróttum er til skoðunar þar. Jafnframt er verið að skipa sérstakan starfshóp um afreksíþróttafólk með þátttöku hagaðila sem mun fjalla um þessi atriði.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti).
12. júní 2021 – þskj. 1752 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Tillagan sem kom frá Alþingi felur í sér að mennta- og menningarmálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra. Samhliða tillögu þessari fjallaði allsherjar og menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, sbr. 81. mál á yfirstandandi þingi. Málin eru efnislega sambærileg og því telur nefndin fullt tilefni til að þau verði unnin í sameiningu innan ráðuneytisins.
    Starfshópur um stefnu í íþróttamálum var skipaður í júlí 2021 til að fylgja eftir núgildandi stefnu sem sett var árið 2019 með gildistíma til ársins 2030. Stefnuna á að endurskoða árið 2024. Hópurinn hefur fjallað um stöðu afreksíþróttafólks og möguleika til stuðnings við það og tryggingu framfærslu og lýðréttinda einnig. Jafnframt er verið að skipa starfshóp um afreksíþróttafólk sem mun fjalla sérstaklega um þessi atriði.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 (bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis).

12. júní 2021 – þskj. 1788 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingmannafrumvarpi var lagt til að felld yrðu brott lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, og að með því yrði leit og vinnsla jarðefnaeldsneytis bönnuð hér á landi. Í ákvæði til bráðabirgða var lagt til að ráðherra gerði tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru í kjölfar samþykktar frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar taldi betur fara á því, ef vilji væri til að setja bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis, að málið yrði skoðað heildstætt og frumvarp lagt fram sem feli í sér allar nauðsynlegar breytingar á lögum. Meiri hluti atvinnuveganefndar vísaði frumvarpinu því til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og vinnslu.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst leggja fram á 153. löggjafarþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni (bann við olíuleit). Frumvarpið samræmist efni frumvarpsins sem vísað var til ríkisstjórnar af atvinnuveganefnd auk þess sem þar er gerð tillaga til breytinga á öðrum lögum sem þörf er á til samræmis við breytinguna. Kemur frumvarpið þannig til móts við sjónarmið í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar.

Þingsályktun 15/151 um mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.
16. mars 2021 – þskj. 1048 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 4. maí 2021 starfshóp sem falið var að meta þörf á frekari rannsóknum, vöktun og viðbrögðum við náttúruvá er nýtist til að efla hættumat og vöktun vegna náttúruvár á Íslandi með vísan í ofangreinda tillögu til þingsályktunar og þau verkefni sem þar eru talin upp.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fer fyrir starfshópnum en auk fulltrúa frá því ráðuneyti eru fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskum orkurannsóknum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og innviðaráðuneytinu.
    Starfshópnum var ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. júní 2022 en vinnan hefur tafist og er nú gert ráð fyrir skilum í byrjun nóvember.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.
9. júní 2021 – þskj. 1682 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Um atvinnustarfsemi í nýjum þjóðgarði fer samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem eru í samræmi við meginreglur nýrra laga um atvinnustarfsemi í landi ríkisins.“ Til undirbúnings þessa verkefnis og með hliðsjón af nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð var starfshópur skipaður 6. maí 2022 sem var falið það hlutverk að vinna skýrslu um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Starfshópurinn mun skila skýrslu sinni til ráðherra 31. október 2022. Þegar niðurstaða starfshópsins liggur fyrir verður metið hvaða næstu skref er nauðsynlegt að stíga í átt að stofnun Hálendisþjóðgarðs.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um græna atvinnubyltingu.
12. júní 2021 – þskj. 1753 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísaði málinu til ríkisstjórnarinnar. Í áliti nefndarinnar kemur fram að í tillögunni eru lögð til mikilvæg atriði er varða atvinnustefnu til framtíðar og græna hagkerfið. Umfang málsins sé hins vegar mikið og lagðar til aðgerðir sem fela sér töluverð fjárútlát af hálfu hins opinbera sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í framhaldinu var þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra falið að taka tillöguna til skoðunar og meðferðar í samráði við viðkomandi ráðherra. Tillagan er til skoðunar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 26/151 um aukið samstarf Grænlands og Íslands. 31. maí 2021 – þskj. 1560 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands sem samþykkt var í maí 2021. Nefnd um gerð tillagna um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum var skipuð í apríl 2019 og skilaði ítarlegri skýrslu með tillögum um aukið samstarf landanna. Að baki tillögum nefndarinnar var umfangsmesta og ítarlegasta greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna sem gerð hafði verið. Skýrslan ber heitið „Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum“. Í henni forgangsraðar nefndin tíu tillögum til stefnumörkunar. Samtals eru tillögur nefndarinnar 99 talsins og fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar. Þingsályktunartillagan var lögð fram í framhaldi af skýrslunni. Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands var undirrituð þann 14. október 2022. Í henni er gert ráð fyrir auknu samstarfi á sviði viðskipta, fiskveiða, efnahagssamstarfs þ.m.t. á sviði landbúnaðar, orku, ferðaþjónustu, flugsamgangna og byggingariðnaðar, loftslagsmála og líffræðilegs fjölbreytileika, jafnréttismála, menningar, menntunar og rannsókna. Í vinnslu er framkvæmdaáætlun sem nær til þessara samstarfssviða og mun hún fléttast saman við áform um framkvæmd tillagna í Grænlandsskýrslu utanríkisráðherra frá janúar 2021, en utanríkisráðuneyti hefur unnið drög að framkvæmdaáætlun og eftirfylgd Grænlandsskýrslunnar frá janúar 2022 í samstarfi við grænlensk stjórnvöld. Haldnir hafa verið tveir formlegir fundir með grænlenskum stjórnvöldum um samstarfið það sem af er ársins.

Þingsályktun 19/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta).

4. maí 2021 – þskj. 1348 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Stefnt er að tilkynningu um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins í desember 2022.

Þingsályktun 18/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2020 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

4. maí 2021 – þskj. 1347 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins 30. ágúst 2021 og ákvörðunin gekk í gildi 1. október 2021.

Þingsályktun 17/151 um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

27. apríl 2021 – þskj. 1297 á 151. lögþ. (sameiginleg með félags- og vinnumarkaðsráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan var lögð fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og var hún samþykkt á Alþingi 27. apríl 2021. Með þingsályktuninni skorar Alþingi á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020, um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna (nr. 1/2020), um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða (nr. 2/2020) og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (nr. 3/2020).
    Utanríkisráðuneytið hefur umsýslu með framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins með því að safna upplýsingum um gang mála hjá fagráðuneytum sem að málinu koma og upplýsa Vestnorræna ráðið um hvort og hvað hefur verið gert vegna þeirra. Í þessu tilviki um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlanda, um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Áfram verður unnið að málunum.

Þingsályktun 24/151 um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

19. maí 2021 – þskj. 1478 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Ályktunin byggði á tillögum þingmannanefndar sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði til að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, en fyrri stefna var komin til ára sinna (samþykkt 2011). Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka á þingi og skilaði nefndin tillögum sínum 19. mars 2021, en þær urðu grundvöllur þingsályktunartillögu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sem var samþykkt einróma. Þingsályktunin felur ríkisstjórninni að fylgja nítján áhersluþáttum sem spanna allt frá alþjóðlegri samvinnu, sjálfbærri þróun, efnahagslegum tækifærum og vísindarannsóknum til öryggismála og norðurslóðamiðstöðva í Reykjavík og á Akureyri. Ráðherra utanríkismála er ennfremur falið að móta framkvæmdaáætlun með norðurslóðastefnunni í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra. Vinna við gerð framkvæmdaáætlunarinnar hófst með opnum fundi í Háskólanum á Akureyri, 31. mars 2022, sem jafnframt var fjarfundur. Á fundinum var stefnan kynnt og verkáætlun við mótun framkvæmdaáætlunar fyrir hana. Hinum nítján áhersluþáttum stefnunnar var skipt niður á fimm þemahópa sem safna skyldu tillögum að framkvæmdaþáttum og um hundrað þátttakendur skráðu sig í hópana. Samráð þemahópanna fór að öllu leyti fram með fjarfundum. Hóparnir skiluðu tillögum sínum, alls 75 talsins, 15. september 2022 og var haldinn annar opinn fundur með sama sniði þar sem tillögurnar voru kynntar og ræddar 28. september 2022. Í hönd fer starf við forgangsröðun, frágang og framsetningu áður en framkvæmdaáætlun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða verður kynnt í árslok 2022 eða snemma árs 2023.

Þingsályktun 3/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

28. desember 2021 – þskj. 276 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins 30. desember 2021 og ákvörðunin gekk í gildi 31.desember 2021.

Þingsályktun 2/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 371/2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (dýralyf).

28. desember 2021 – þskj. 275 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins 24. janúar 2022 og ákvörðunin gekk í gildi 22. júní 2022.

Þingsályktun 1/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 384/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (endurbótalýsing verðbréfa).

28. desember 2021 – þskj. 274 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins 17. mars 2022 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2022.

Þingsályktun 4/152 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022.

28. desember 2021 – þskj. 277 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Samningurinn var staðfestur af forseta Íslands 29. desember 2021. Hann gildir samkvæmt efni sínu um fiskveiðar á árinu 2022.

Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2020.


Dómsmálaráðuneyti.


Þingsályktun 23/150 um meðferðar- og endurhæfingarstefnu í málefnum fanga.
29. janúar 2020 – þskj. 892 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin felur í sér að dómsmálaráðherra í samráði við félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra setji á fót starfshóp um mótun heildstæðrar meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu, þ.m.t. að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og greina fjárþörf í því skyni að allir fangar fái einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2020. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
    Dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra skipuðu 29. maí 2020 sameiginlega stýrihóp um málefni fanga en hlutverk hópsins var í samræmi við ályktun Alþingis þar um. Formaður hópsins var fulltrúi félags- og barnamálaráðherra og varaformaður hópsins var fulltrúi Fangelsismálastofnunar. Auk þess áttu sæti í hópnum fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Þá var forstöðumaður Batahúss ráðgjafi hópsins og starfsmenn hans voru tveir sérfræðingar á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. Stýrihópurinn fundaði reglubundið frá 29. maí 2020 til 28. apríl 2021 og á fundi hópsins voru kallaðir hagaðilar sem tengjast málefnum fanga til að veita upplýsingar og miðla af þekkingu sinni og reynslu.
    Skýrslan var afhent ráðherrum 15. september 2021 og í henni eru lagðar til breytingar á málaflokknum. Gerðar eru tillögur um húsnæðismál, t.d. um endurbætur og langtímastefnumótun og lagðar til umbætur á flestum fangelsum landsins. Þá eru gerðar tillögur um heildstæða meðferðarstefnu þannig að aukið verði aðgengi fanga að skimun fyrir geðrænum erfiðleikum þegar dómur fellur, stöðugildum sérfræðinga á meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar verði fjölgað sem og stöðugildum í geðheilsuteymi fanga og að boðið verði upp á eftirfylgd geðheilsuteymisins í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur fyrir þá sem þurfa. Gerð var tillaga um menntun og virkni, atvinnu, hæfingu og félagslegan stuðning að lokinni afplánun, framfærslu og virknigreiðslur og tillögur um aukinn félagslegan stuðning að lokinni afplánun. Þá benti stýrihópurinn á að föngum á bataleið þurfi að standa til boða fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú gefst kostur á við hefðbundna afplánun.
    Frá því að skýrslan kom út hafa tillögur hennar verið til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og hefur ráðuneytið átt samtal og samstarf við önnur ráðuneyti sem að málefnum fanga koma. Unnið er að því að greina tillögurnar og hefur vinna að framkvæmd sumra tillagnanna þegar hafist.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Þingsályktun 43/150 um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.
30. júní 2020 – þskj. 1972 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktuninni fól Alþingi félags- og barnamálaráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra að móta stefnu fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna sem hafi það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.
    Undirbúningur að mótun stefnu í samræmi við ályktun Alþingis nr. 43/150 hefur farið fram samhliða vinnu vegna framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda til næstu fjögurra ára í samræmi við 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, en þingsályktun nr. 29/152, um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025 var samþykkt á Alþingi 16. júní 2022. Í lið 1.1 í framkvæmdaáætluninni er kveðið á um mótun stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar. Við þá stefnumótun skuli litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þingsályktunar nr. 43/150. Í lið 1.1.2. í framkvæmdaáætluninni er kveðið á um að settur verði á fót starfshópur sem verði falið að taka saman grænbók sem hluta af stefnumótunarferli stjórnvalda. Að loknu samráði um grænbók verði mótuð hvítbók þar sem fjallað verði um niðurstöður samráðs, framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, markmið og aðgerðir sem stjórnvöld áforma að kynna í nýrri stefnu. Ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks fjallaði um málið þann 23. ágúst sl. þar sem samþykkt var tillaga félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipaður verði stýrihópur til að vinna að stefnumótun í málaflokknum. Undirbúningur að skipun stýrihópsins er hafinn og hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið óskað eftir tilnefningum í hópinn. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið mun leiða stýrihópinn en í honum verða einnig fulltrúar frá fimm öðrum ráðuneytum, samtökum aðila vinnumarkaðarins, félagasamtökum, háskólasamfélaginu og fleirum. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn feli undirhópum að fjalla um tiltekin atriði, svo sem samfélags-, fjölskyldu-, menntunar- og vinnumarkaðsmál sem og málefni flóttafólks, í samræmi við skiptingu málefna innflytjenda í framkvæmdaáætlun um innflytjendur. Jafnframt er gert ráð fyrir að fulltrúar í undirhópum komi úr stýrihópnum og eftir atvikum frá ráðuneytum og stofnunum sem fara með málefni innflytjenda og útlendinga sem og hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, hinsegin fólks, innflytjenda og um kynjajafnrétti.

Heilbrigðisráðuneyti.


Þingsályktun 38/150 um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.
9. júní 2020 – þskj. 1659 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með samþykkt heilbrigðisstefnu til 2030 ákvað Alþingi eftirfarandi markmið: „Almenn sátt ríki um þær siðferðilegu meginreglur sem liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu og stöðug umræða verði um siðferðileg leiðarljós.“ Í kjölfar samþykktar á heilbrigðisstefnu var ákveðið samkvæmt fimm ára aðgerðaáætlun að ná þessu markmiði innan þriggja ára. Heilbrigðisráðherra mælti fyrir þingsályktuninni og er hún liður í því að ná þessu markmiði. Hún er enn fremur liður í að skapa umræðu um siðferðileg gildi þegar kemur að forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Þau gildi sem höfð skuli að leiðarljósi eru í fyrsta lagi mannhelgi, í öðru lagi þörf og samstaða og í þriðja lagi hagkvæmni og skilvirkni.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 21/150 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023.
29. janúar 2020 – þskj. 890 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Vel gengur að framkvæma stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2020. Stjórnartillagan var sett fram eftir víðtækt samráð um allt land og er áhersla einkum lögð á tvö meginmarkmið. Fyrra markmiðið snýr að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og seinna markmiðið lýtur að sjálfstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru áherslur við hvort meginmarkmið um sig sem geta leitt til skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.
    Alls felur tillagan í sér 11 aðgerðir. Flestar aðgerðirnar eru komnar vel á veg. Hafist hefur verið handa við stefnumótun næstu stefnu og aðgerðaáætlunar í málefnum sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að grænbók verði kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun nóvember.
    Eftirfarandi aðgerðir eru komnar vel á veg:
     Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Alþingi hefur samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem innleiða aðgerðina. Rafrænn rammi að álitsgerð um sjálfbærni, sem sveitarfélögum með færri en 250 íbúa verður gert að skila frá sveitarstjórnarkosningum 2022 og sveitarfélögum með færri en 1.000 íbúa verður gert að skila frá sveitarstjórnarkosningum 2026, hefur verið unninn, kynntur og sendur sveitarfélögunum. Þróað hefur verið vefsvæði með leiðbeiningum og upplýsingum um sameiningar sveitarfélaga.
     Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar. Nýjar reglur hafa tekið gildi og eru þær til viðmiðunar fyrir þau sveitarfélög sem hyggjast vinna að sameiningu.
     Tekjustofnar sveitarfélaga. Nefnd um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga er að ljúka störfum.
     Fjármál og skuldaviðmið. Starfshópur um fjármálareglur fyrir sveitarfélög hefur skilað niðurstöðuskýrslu. Áfram verður unnið með niðurstöður nefndarinnar við endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga.
     Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa kynnti niðurstöður sínar á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í lok september. Niðurstöðuskýrsla hennar verður formlega kynnt ráðherra á allra næstu vikum.
     Rafræn stjórnsýsla sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa byggt upp miðlægt samstarf og sett hefur verið á fót samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna umbreytingu undir Jónsmessunefnd. Áhersla er lögð á hagnýtingu upplýsingatækniinnviða sem byggðir hafa verið upp og þekkingu á rafrænum lausnum hins opinbera. Ríkið hefur veitt 100 millj. kr. í átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga og hefur sambandið yfirumsjón með framkvæmdinni.
    Eftirfarandi aðgerðir eru skemmra á veg komnar:
     Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Samkomulag hefur orðið um að hefja ekki vinnu við aðgerðaáætlun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrr en búið er að leysa úr helstu ágreiningsmálum ríkis og sveitarfélaga á sviði fjármála.
     Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga. Fyrir liggur skýrsla nefndar um landshlutasamtök sveitarfélaga. Þá liggur fyrir úttekt á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á öllum samstarfssamningum sveitarfélaga. Unnið er að því að greina nánar þau atriði hvað þessar tvær úttektir varðar sem eiga erindi í boðaða endurskoðun sveitarstjórnarlaga.
     Lýðræðislegur vettvangur. Nýlega lauk á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga tilrauna- og þróunarverkefni sem hafði það markmið að byggja upp þekkingu á því hvernig hægt sé að beita þeim samráðsaðferðum sem kynntar eru í handbók sambandsins frá 2017. Framhald aðgerðarinnar er til skoðunar.
     Samskipti ríkis og sveitarfélaga. Athugun hefur leitt í ljós að reynsla annarra norræna þjóða af gerðardómi af þessu tagi sé ekki endilega góð. Í framhaldi af því hefur verið tekin ákvörðun um að hefjast ekki handa við aðgerðina að sinni.
     Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Stjórnvöld hafa ákveðið að öll störf verði auglýst án staðsetningar nema eðli þeirra krefjist annars og markmið verði sett um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Verkefninu er fylgt eftir innan byggðaáætlunar.

Þingsályktun 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024.
29. júní 2020 – þskj. 1943 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Samkvæmt lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008, skal ráðherra leggja á að minnsta kosti þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Jafnframt skal m.a. meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur. Þá skal einnig gera aðgerðaáætlun fyrir fyrsta fimm ára tímabil hverrar samgönguáætlunar. Í aðgerðaáætlun skal vera áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir ráðuneytið.
    Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020–2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020–2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi 29. júní 2020. Um var að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019. Nýsamþykkt samgönguáætlun er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum, höfnum og flugvöllum um land allt.
    Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili áætlunarinnar. Þá var sérstök 6,5 milljarða aukafjárveiting fyrir samgönguframkvæmdir árið 2020 úr fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 felld inn í áætlunina.

Þingsályktun 41/150 um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034.
29. júní 2020 – þskj. 1944 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Um framkvæmd samgönguáætlunar fyrir árin 2020–2034 er vísað í texta um framkvæmd fimm ára samgönguáætlunar 2020–2024.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 8/151 um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.
8. desember 2020 – þskj. 525 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með tillögunni er lagt til að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Þá er lagt til að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2021.
    Í nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillöguna er bent á að innan ESB tekur á árinu 2021 gildi ný tilskipun um endurnýjanlegt eldsneyti 2018/2001/EB (RED II) sem tekur við af tilskipun 2009/28/EB (RED I). Í tilskipuninni eru m.a. hertar þær kröfur sem gerðar eru til endurnýjanlegs eldsneytis sem unnið er úr fóðurplöntum og stefnt að því að draga markvisst úr notkun slíks eldsneytis fram til ársins 2030. Jafnframt er þar gert ráð fyrir að dregið verði úr notkun pálmaolíu frá árinu 2023 uns notkun hennar verði hætt árið 2030. Tilskipunin er hluti af svokölluðum hreinorkupakka ESB og samkvæmt tilskipuninni skulu ríki ESB hafa lokið við að lögleiða hana á árinu 2021. Tilskipunin er enn til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum og ekki liggur fyrir hvenær hún verður tekin upp í EES-samninginn en það verður í fyrsta lagi árið 2023.

Þingsályktun 44/150 um náttúrustofur.
30. júní 2020 – þskj. 1973 á 150. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Í ályktuninni er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum. Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd. Starfshópurinn ljúki störfum og skili tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2020.
    Starfshópur hefur ekki verið stofnaður í samræmi við tillöguna. Hins vegar hafa náttúrustofur fengið aukið hlutverk við vöktun náttúruverndarsvæða sem hrint var af stað af ríkisstjórninni árið 2020 með sérstakri fjárveitingu. Þá hafa náttúrustofurnar fengið aukið hlutverk í vöktun fuglategunda. Verkefnin eru skilgreind í samningum Náttúrufræðistofnunar Íslands við hverja náttúrustofu og eru jafnframt unnin í samstarfi við Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð. Einnig fela verkefnin í sér samræmingu gagna sem aflað er í vöktun en nokkuð hefur vantað upp á að svo sé. Þessi verkefni hafa styrkt náttúrustofurnar sem nú eru allar þátttakendur í þessu sameiginlega verkefni og jafnframt styrkt tengsl við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og stofnanir þess. Þessu til viðbótar hefur verið gerður tímabundinn samningur við Náttúrustofu Vesturlands þar sem stofunni var falið að vinna að verkefninu „Forsendugreining fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun.“ Því má líta svo á að framkvæmd þingsályktunarinnar sé hafin þó starfshópi hafi ekki verið komið á fót.

Þingsályktun 24/150 um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.
25. febrúar 2020 – þskj. 1012 á 150 lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Tillaga þessi var lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk.
    Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti hefur ekki hafið vinnu við að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 30/150 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019 og nr. 305/2019 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
11. maí 2020 – þskj. 1375 á 150. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar 305/2019 hinn 12. maí 2021 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2021. Hvað varðar ákvörðun 237/2019 tilkynnti Ísland um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins og ákvörðunin gekk í gildi 1. september 2022.

Þingsályktun 1/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
25. nóvember 2020 – þskj. 405 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins 2. september 2022 og ákvörðunin gekk í gildi 1. nóvember 2022.

Þingsályktun 10/151 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021.
16. desember 2020 – þskj. 634 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem einungis var til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 23. nóvember 2020.

Þingsályktanir frá 2020 þar sem framkvæmd telst lokið og umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.


Forsætisráðuneyti.
     Þingsályktun 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, 3. júní 2020 – þskj. 1609.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Þingsályktun 22/150 um tæknilega innviði Stjórnarráðsins og rafræna þjónustu hins opinbera, 29. janúar 2020 – þskj. 891.
     Þingsályktun 28/150 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, 30. mars 2020 – þskj. 1203.
     Þingsályktun 45/150 um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 3. september 2020 – þskj. 2095.
     Þingsályktun 11/151 um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025, 17. desember 2020 – þskj. 675.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti)
     Þingsályktun 27/150 um mótun klasastefnu, 12. mars. 2020 – þskj. 1113.
Heilbrigðisráðuneyti.
     Þingsályktun 42/150 um ráðstafanir til að lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og meðferðar við öðrum langvinnum og lífshættulegum sjúkdómum, 30. júní 2020 – þskj. 1971.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti. (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti)
     Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla, 23. júní 2020 – þskj. 1799 á 150. lögþ.
Utanríkisráðuneyti
     Þingsályktun 26/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn (sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030), 5. mars. 2020 – þskj. 1080.
     Þingsályktun 29/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2020 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1374.
     Þingsályktun 31/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 259/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1376.
     Þingsályktun 32/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1377.
     Þingsályktun 33/150 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 288/2019 og nr. 301/2019 um breytingar á I. viðauka (heilbrigði dýra og plantna) og II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1378.
     Þingsályktun 34/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 260/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1461.
     Þingsályktun 35/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 um breytingu á V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1462.
     Þingsályktun 36/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1463.
     Þingsályktun 2/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 406.
     Þingsályktun 3/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 407.
     Þingsályktun 4/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 408.
     Þingsályktun 5/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 409.
     Þingsályktun 6/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 410.
     Þingsályktun 7/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 7. desember 2020 – þskj. 513.
     Þingsályktun 9/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 8. desember 2020 – þskj. 527.

Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2019.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 33/149 um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

3. júní 2019 – þskj. 1690 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar þann 1. júlí síðastliðinn hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra skipað verkefnastjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í verkefnastjórn sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalags Íslands, Geðhjálpar og Þroskahjálpar. Formaður verkefnastjórnar er fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðherra.
    Undirbúningur lagafrumvarps um lögfestingu samningsins verður jafnframt á ábyrgð verkefnastjórnar og unnið samhliða gerð landsáætlunar. Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður meginverkfæri stjórnvalda í heildstæðri stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og mun ná til allra þeirra málefnaasviða sem falla undir samninginn. Landsáætlun er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, val og skilgreiningu á meginmarkmiðum sem stefnt skuli að og framsetningu aðgerða til að innleiða samninginn. Byggt verður meðal annars á kortlagningu á fjárhagslegri og faglegri stöðu málaflokksins og skoðun kosta í framþróun þjónustunnar, en undanfarin misseri hefur átt sér stað vinna við fyrsta áfanga endurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Markmiðin sem skilgreind verða í landsáætlun munu byggja á greinum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þeim fylgja síðan áætlun um aðgerðir. Stefnumótunin verður samþætt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og myndar þannig eina heild með markmiðum samningsins. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og viðmið þannig að hægt verði að meta hvort markmiðum áætlunarinnar verði náð. Framvindan verður metin á árlegu samráðsþingi.
    Gert er ráð fyrir því að stefnumótun og gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins verði skipt upp í tvo áfanga, þ.e. fyrsti áfangi taki til tímabilsins 2022 – 2025 og sá síðari frá 2026 til ársins 2030. Stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu um landsáætlunina á Alþingi haustið 2023.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

27. maí 2019 – þskj. 1644 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunartillagan barst frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Í henni var lagt til að Alþingi ályktaði að fela forsætisráðherra að skipa ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar og annarra aðila á þessu sviði. Í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var lagt til að málinu yrði vísað til forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni um ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda kom fram að ráðgjafarnefndin væri að finnskri fyrirmynd. Enda þótt ekki hafi verið staðið að skipan slíkrar nefndar með formlegum hætti hefur fulltrúi Íslands í Norræna stjórnsýsluráðinu upplýst að fulltrúar í ráðinu hafi komið sér upp ráðgjafarnefndum, sambærilegum þeirri finnsku, til að samhæfa betur starf þeirra innlendu aðila sem vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana og styrkja stöðu fulltrúa landa sinna ráðinu. Á Íslandi gengur hún undir heitinu ráðgjafarhópur Norræna stjórnsýsluhindranaráðsins. Líkt og áður segir starfar íslenski ráðgjafarhópurinn að finnskri fyrirmynd.
    Til funda í ráðgjafahópi Norræna stjórnsýsluhindranaráðsins á Íslandi hafa verið boðaðir eftirtaldir aðilar: þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, ritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fulltrúi Íslands í norrænu embættismannanefndinni sem starfar fyrir samstarfsráðherrana (NSK), formaður Norræna félagsins á Íslandi, framkvæmdastjóri Norræna félagsins á Íslandi og starfsmaður Info Norden á Íslandi, upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar á Íslandi. Til að komast hjá tvíverknaði hefur vinnan við afnám stjórnsýsluhindrana stundum verið tekin upp á einstaka fundum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í stað þess að funda í ráðgjafarhópnum sérstaklega. Hefur það þótt ákjósanlegur vettvangur þar sem fulltrúar í ráðgjafarhópnum eru viðstaddir þá fundi einnig. Þá hafa fulltrúar í Norræna stjórnsýsluhindranaráðinu, þ.m.t. Íslandi, komið sér upp tengiliðum í ráðuneytum sem leitað er til eftir þörfum.
    Að lokum skal tekið fram að þó nokkurt samstarf er milli ráðuneyta á Norðurlöndum þar sem stefnt er að samræmdum reglum og að ekki verði misræmi í löggjöf milli landanna. Í norræna stjórnsýsluhindranaráðinu, þar sem Ísland á fulltrúa, eru einstök tilfelli stjórnsýsluhindrana tekin til skoðunar og úrbóta. Þá er starfandi ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sem heyrir nú undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Loks má nefna að í eyðublaði um mat á áhrifum lagasetningar, sbr. 1. og 10. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna frá 10. mars 2017, er gert ráð fyrir að lagt sé mat á áhrif á möguleika einstaklinga og fyrirtækja til að eiga samskipti þvert á norræn landamæri. Unnið verður áfram að því að efla og samþætta vinnu á vegum ráðuneytanna og í samstarfi við önnur Norðurlönd og að einfalda regluverk eins og kostur er.

Dómsmálaráðuneyti.


Þingsályktun 41/149 um endurskoðun lögræðislaga.

19. júní 2019 – þskj. 1925 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin felur í sér að sérstök nefnd þingmanna geri heildarendurskoðun á lögræðislögum, nr. 71/1997, í samráði við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti). Dómsmálaráðuneytið hefur sent nefndinni upplýsingar um æskilegar breytingar á lögræðislögum og tilnefnt tengiliði til þess að veita nefndinni ráðgjöf.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma).

29. apríl 2019 – þskj. 1428 á 149. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið var lagt fram af þingmönnum Pírata. Með frumvarpinu er lagt til að vinnutími, sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, verði styttur úr 40 dagvinnutímum í 35 dagvinnutíma. Er þannig gert ráð fyrir að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna beri á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar sjö klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.
    Í nefndaráliti kemur meðal annars fram að nefndin styðji meginmarkmið frumvarpsins þess efnis að auka framleiðni og lífsgæði launafólks á Íslandi og því sé tímabært að stjórnvöld í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins vinni að því að koma til móts við kröfur um breytt fyrirkomulag á vinnu. Þar sem svo víðtækt samráð hafi ekki verið haft geti nefndin þó ekki mælt með samþykkt frumvarpsins en beini því til félags- og barnamálaráðherra að vinna markvisst að endurskoðun vinnumarkaðslöggjafarinnar með það að markmiði að auka möguleika fólks á því að koma á jafnvægi milli atvinnu- og fjölskyldulífs.

Þingsályktun 34/149 um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

3. júní 2019 – þskj. 1695 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni fól Alþingi félags- og barnamálaráðherra að vinna áætlun um stofnun ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur sem verði samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis og sveitarfélaga. Hlutverk ráðgjafarstofu væri að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur.
    Reynsluverkefni um Ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur var sett á fót í febrúar 2021 með það að markmiði að mæta aukinni þörf fyrir ráðgjöf og þjónustu vegna áhrifa COVID-19. Hjá Ráðgjafarstofunni geta innflytjendur fengið upplýsingar um allt sem viðkemur réttindum þeirra og skyldum og stendur öllum til boða þeim að kostnaðarlausu. Verkefnastjórn var yfir Ráðgjafarstofunni sem hafði það hlutverk að fylgja verkefninu eftir á reynslutímabilinu og meta árangur þess. Í verkefnastjórninni voru fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, innflytjendaráði, Fjölmenningarsetri, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Vinnumálastofnun og Reykjavíkurborg auk félagsmálaráðuneytisins. Byggt á niðurstöðum úttektar og mati á reynsluverkefninu stóð til að tekin yrði ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag á ráðgjafaþjónustu til innflytjenda.
    Reynslan af verkefninu hefur sýnt að nokkur þörf hefur verið fyrir þá þjónustu sem Ráðgjafarstofan hefur veitt innflytjendum. Það hefur hins vegar þótt standa í vegi fyrir áframhaldandi þróun verkefnisins hve óljóst hefur verið um framtíðarfyrirkomulag Ráðgjafarstofunnar auk þess sem eininguna hefur þótt skorta sterka innviði til að styðja við starfsemina. Þá er ljóst að verkefni Ráðgjafastofnunnar og Fjölmenningarseturs skarast að einhverju leyti. Upphaflega var gert ráð fyrir að tiltekin verkefnisstjórn, sem sett var á fót í því skyni að fylgja verkefninu eftir á reynslutímabilinu, myndi meta árangur verkefnisins og að framtíðarfyrirkomulag hvað varðar ráðgjafarþjónustu við innflytjendur myndi byggja á því mati. Verkefnastjórnin var ekki virk og matið fór ekki fram. Því var ákveðið að sameina starfsemi Ráðgjafarstofunnar og Fjölmenningarseturs frá og með 1. september 2022 einkum vegna samlegðaráhrifa en einnig þar sem starfsemin er í sama húsnæði. Var það gert í því skyni að efla enn frekar þá þjónustu sem Ráðgjafarstofan hefur haft með höndum og til að tryggja áframhaldandi einstaklingsráðgjöf til innflytjenda, ekki síst í ljósi mikillar fjölgunar innflytjenda á undanförnum misserum. Í því sambandi þótti jafnframt mikilvægt að tryggja áframhaldandi ráðningu þeirra starfsmanna sem starfað hafa hjá Ráðgjafarstofunni en þeir höfðu verið ráðnir tímabundinni ráðningu til og með 31. ágúst 2022. Hafa þeir allir verið endurráðnir hjá Fjölmenningarsetri þannig að þekking þeirra og reynsla nýtist áfram í tengslum við ráðgjafarþjónustu við innflytjendur.

Þingsályktun 35/149 um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

7. júní 2019 – þskj. 1749 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillaga um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess var lögð fram af félags- og barnamálaráðherra en að henni stóðu, auk félagsmálaráðuneytisins (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), ráðuneyti dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála (nú mennta- og barnamálaráðuneyti). Aðgerðaáætlunin tekur til ofbeldis í margþættri mynd, þ.m.t. líkamlegt, kynferðislegt, andlegt og ekki síst kynbundið ofbeldi. Hún byggist á þremur meginþáttum: Vakningu, sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum, sem eru verklag og málsmeðferð, og valdeflingu, sem er styrking í kjölfar ofbeldis. Áætlunin tekur einnig mið af þeirri vakningu sem orðið hefur í allri umræðu um ofbeldismál, einkum í kjölfar #metoo-byltingarinnar.
    Margar aðgerðanna eru komnar til framkvæmda en ráðuneytin fjögur deila ábyrgð á eftirfylgd þeirra. Í upphafi heimsfaraldurs skipuðu félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra tímabundið aðgerðateymi gegn ofbeldi þar sem viðbúið var að ofbeldi gæti aukist á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Aðgerðateyminu var meðal annars falið að horfa til aðgerða í þingsályktuninni og var mörgum verkefnum sem styðja við þær aðgerðir hrint í framkvæmd. Þá eru í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021–2025 ákveðnar aðgerðir, sem lúta einkum að forvörnum og fræðslu, sem vinna að sömu markmiðum.
    Tímabili þingsályktunarinnar er nú að ljúka og verður unnin skýrsla um framkvæmd hennar og mat lagt á árangur. Ráðuneytin sem aðild eiga að þingsályktuninni bera ábyrgð á endurskoðun hennar en þar kemur fram að endurskoðaða aðgerðaáætlun skuli leggja fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi árið 2022. Ljóst er að mörg verkefni núgildandi áætlunar munu halda áfram árið 2023 og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið væntir þess að hægt verði að leggja fram nýja aðgerðaáætlun á næstu misserum þar sem meðal annars verði tekið mið af niðurstöðum vinnu starfshóps á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem falið er að skoða hvernig hátta megi laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis, þar með talið í samræmi við ákvæði Istanbúl samningsins og mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig er gert ráð fyrir að fyrirhugaður landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi sem fram fer í nóvember nk. muni varpa ljósi á brýn viðfangsefni, sem æskilegt er að litið verði til við undirbúning nýrrar aðgerðaáætlunar.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (hækkun starfslokaaldurs).

13. desember 2019 – þskj. 723 á 150. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Efnahags- og viðskiptanefnd vísaði því til ríkisstjórnar að framkvæma heildstæða endurskoðun á lögum og reglum um starfslokaaldur í samráði við bandalög opinberra starfsmanna auk fleiri aðila sem kunna að hafa hagsmuna að gæta í tengslum við málið. Eins og fram kemur í nefndarálitinu eru flestir umsagnaraðilar hlynntir því að endurskoða ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem fjalla um hámarksaldur starfsmanna ríkisins. Sjónarmið sem búa þar að baki og tillögur um breytingar eru aftur á móti af ólíkum meiði. Ekki hefur auðnast að hefja þessa vinnu. Tilefni kann að vera til að leggja mat á hvort endurskoða þurfi fleiri greinar laganna og jafnvel lögin í heild sinni.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.


Þingsályktun 32/149 um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033.

3. júní 2019 – þskj. 1688 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Málaflokkur 11.2 sem nefnist fjarskipti og stafræn þróun heyrir undir háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytið. Með gildistöku nýrra heildarlaga um fjarskipti 1. september 2022 eru þingsályktanir um stefnu í fjarskiptum til 15 ára og fjarskiptaáætlun til 5 ára ekki lengur lögboðnar áætlanir. Málaflokkurinn heyrði undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið á því tímabili sem hér er horft til. Stöðu þessara áætlana í september 2021 er einkum að finna í grænbók um fjarskipti frá 2021 og tölfræðiskýrslum sem Fjarskiptastofa gaf út vegna 2021. Samkvæmt helstu alþjóðlegum mælikvörðum um aðgengi að nútímalegum fjarskiptum árið 2021 mældist Ísland fremst eða meðal fremstu landa í heimi og hefur gert um nokkurra ára skeið.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 12/150 um óháða úttekt á Landeyjahöfn.

2. desember 2019 – þskj. 608 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í mars 2020 var óháð úttekt á Landeyjahöfn boðin út hjá Ríkiskaupum fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (nú innviðaráðuneyti). Lægstbjóðandi í verkið var verkfræðistofan Mannvit í samvinnu við Vatnaskil og LeoVanRijn-Sediment Consultancy. Ráðgjafarnir skiluðu skýrslu í október 2020 þar sem fram kom m.a. að til að ná markmiðum um stóraukna nýtingu Landeyjahafnar væri þörf á endurbótum á höfninni. Mótvægisaðgerðir hafi ekki dugað hingað til og ætla megi að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju. Í skýrslunni voru kynntar ráðleggingar fyrir mat á mögulegum endurbótum á höfninni og vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn sem geri ráð fyrir tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum. Ákveðið var í kjölfarið að fara í frekari greiningarvinnu sem leidd er af Vegagerðinni. Reiknað er með að niðurstöður liggi fyrir á árinu 2023.

Matvælaráðuneyti.


Þingsályktun 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

19. júní 2019 – þskj. 1924 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Með ályktuninni ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í 17 liðum sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þingsályktunartillagan var lögð fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Í þingsályktuninni kom fram að ráðherra skyldi flytja Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og kynna hana fyrir atvinnuveganefnd. Í byrjun nóvember 2019 var framangreind skýrsla lögð fram á Alþingi þar sem gerð var grein fyrir framgangi áætlunarinnar og stöðu einstakra aðgerða (þskj. 459 á 150. lögþ.). Sérfræðingar ráðuneytisins hafa komið á fund atvinnuveganefndar og gert grein fyrir stöðu aðgerða.
    Aðgerðum áætlunarinnar er ýmist lokið eða hefur verið hrundið af stað og teljast til lengri tíma verkefna.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.
16. desember 2019 – þskj. 756 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar vísaði tillögunni til ríkisstjórnarinnar. Tillagan tengdist þeirri vinnu sem þegar var hafin á þessu sviði vegna laga um landgræðslu, nr. 155/2018, sem samþykkt voru á Alþingi 14. desember 2018. Meiri hluti nefndarinnar óskaði þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (nú matvælaráðherra) og umhverfis- og auðlindaráðherra (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra) myndu hlutast til um skýrslugjöf um framgang verkefnisins til umhverfis- og samgöngunefndar og var umræddri skýrslu skilað til nefndarinnar í byrjun nóvember 2020. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti) setti drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu í samræmi við 11. gr. landgræðslulaganna í samráðsgátt stjórnvalda í september 2021. Við breytingar á skipulagi ráðuneyta voru verkefni landgræðslu færð í matvælaráðuneyti sem einnig fer með framkvæmd búvörusamninga. Innan ráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu og setningu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti). Í þeirri vinnu verður einnig unnið að samræmingu við reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með því markmiði að í regluverkinu verði að finna skýr viðmið um sjálfbæra landnýtingu, tryggð verði markviss meðferð fjármuna og skilvirk stjórnsýsla við framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti.


Þingsályktun 36/149 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.

7. júní 2019 – þskj. 1750 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktuninni fylgdi aðgerðaáætlun í 22 liðum en mörg verkefna innan þeirra aðgerða eru áfram sífelluverkefni. Aðgerðum var skipt í fimm flokka en verkefni þeirra skarast í einhverjum tilfellum. Flokkarnir voru vitundarvakning um íslenska tungu, menntun og skólastarf, menning, tækniþróun, aðgengi og nýsköpun og flokkurinn stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf.
    Stofnaður var vinnuhópur innan mennta- og menningarmálaráðuneytis (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) til þess að vinna að verkefnum sem féllu undir þingsályktunina, koma þeim í farveg og sjá til þess að þau séu unnin samkvæmt tímaáætlun heildarverkefnisins. Samantekt um framvindu aðgerða var tekin saman af menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Vitundarvakning um íslenska tungu.
     1.      Stuðlað hefur verið að vitundarvakningu um mikilvægi íslenskrar tungu, gildi hennar og sérstöðu, meðal annars í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rithöfundasamband Íslands, fjölmiðla og skólasamfélagið.
     2.      Viljayfirlýsing Kennarasambands Íslands, forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis (nú mennta- og barnamálaráðuneyti), Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtakanna Heimilis og skóla um vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls var undirrituð á skólamálaþingi 2018.
     3.      Ráðstefna um stöðu íslenskunnar í skólakerfinu. Fjölsótt ráðstefna var haldin árið 2019 um málefni íslenskrar tungu í skólakerfinu, með áherslu á grunn- og framhaldsskóla. Ráðstefnan tengdist útkomu bókar um efnið en þar er til umfjöllunar viðamikil rannsókn sem unnin var í samvinnu við starfandi kennara og stjórnendur í 15 grunn- og framhaldsskólum.
     4.      Ráðstefna „Ég er hér“, um menntun nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn var haldin 2020 í kjölfar útgáfu stefnudraga mennta- og menningarmálaráðuneytis (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) um málefnið.
     5.      Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, síðan árið 1996. Mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) hefur árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Hátíðadagskráin er nú samvinnuverkefni menningar- og viðskiptaráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
     6.      Tími til að lesa. Lestrarhvatning mennta- og menningarmálaráðuneytisins (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) árið 2020 var öllum opin og hafði það markmið að virkja keppnisskap þjóðarinnar og setja heimsmet í lestri í aprílmánuði – þrátt fyrir skert skólastarf og samkomubann vegna COVID-19. Átakið heppnaðist vel og fór þátttaka fram úr væntingum, þátttakendur skráðu alls 7,9 milljónir lestrarmínútna á tímabilinu.
Menntun og skólastarf.
     7.      Mikilvægi læsis: Markmið aðgerða er að efla málskilning, lesskilning, tjáningu, ritun og hlustun og námsorðaforða nemenda í leik- og grunnskólum. Menntamálastofnun var falið að vinna áfram að eflingu læsis til framtíðar með áherslum ráðherra í menntastefnu til ársins 2030 með sérstakri áherslu á leikskólastigið og snemmtækan stuðning.     
     8.      Íslenska sem annað mál: Endurskoðun greinasviðs íslensku sem annars tungumáls í aðalnámskrá grunnskóla lauk árið 2021. Um var að ræða umfangsmiklar breytingar sem meðal annars byggja á tungumálaramma Evrópuráðsins og nýjum köflum um menningarfærni, móttöku nýrra nemenda og fjöltyngi. Breytingarnar verða innleiddar í samvinnu við Menntamálastofnun, m.a. með útgáfu stuðningsefnis í námsgreinum, fræðsluvef um kennslu íslensku sem annars máls, útgáfu námsefnis í íslensku sem öðru tungumáli, fræðslufundum og starfsþróunartilboðum.
     9.      Starfshópur vann drög að heildarstefnumörkun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem kom út árið 2020.
     10.      Samtökin Móðurmál unnu samræmdan leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi sem kom út árið 2020. Leiðarvísirinn kom út á þremur tungumálum. Hann inniheldur ráð, leiðbeiningar og gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra, aðstandendur, kennara og annað fagfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem og frístundaleiðbeinendur. Leiðarvísirinn byggist á lögum, stefnum og rannsóknum, en einnig reynslu og hugmyndum frá fagfólki og á vettvangi og alþjóðlegum viðmiðum.
     11.      Menntamálastofnun hefur gefið út stöðumat fyrir erlenda nemendur. Stöðumatið er þýðing á sænsku matsfyrirkomulagi sem leggur mat á fyrri hæfni og þekkingu fjöltyngdra nemenda. Stöðumatið fer fram á fyrstu þremur mánuðum nemenda á Íslandi og er lagt fyrir á því tungumáli sem nemandinn er sterkastur í. Niðurstöður auðvelda kennurum að gera einstaklingsáætlanir. Stöðumat er tilbúið til innleiðingar fyrir grunn- og framhaldsskóla en er í vinnslu fyrir leikskóla og námsgreinahluta grunnskóla.
     12.      Snemmbær stuðningur: Verkefninu Mál og læsi í Fellahverfi í samstarfi leikskólanna Holts og Aspar, Fellaskóla og frístundaheimilisins Vinafells er ætlað að auka hæfni leik- og grunnskólanemenda í íslensku með áherslu á snemmbæran stuðning. Ábyrgðaraðilar standa fyrir starfsþróunarnámskeiðum fyrir kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt, sem byggja á niðurstöðum og reynslu af verkefninu.
     13.      Aukin þjónusta við nemendur með annað móðurmál í framhaldsskólum. Framlög til framhaldsskóla vegna þjónustu við nemendur með annað móðurmál og kennslu í íslensku sem öðru máli voru hækkuð um 40 m.kr. Fjárveiting vegna þessa nemur nú árlega 60 m.kr.
     14.      Árangur og áhugahvöt – kveikjum neistann. Stuðningur við tilraunaverkefni og rannsókn um breytta forgangsröðun í áherslum grunnskóla. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Þá er einnig lögð áhersla á að bæta stöðu drengja. Verkefnið er unnið á vettvangi í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum en að því koma Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og NTNU háskólinn í Noregi.
     15.      Mennta- og menningarmálaráðherra (nú mennta- og barnamálaráðherra) skipaði kennararáð í júní 2020 skv. 7. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Hlutverk kennararáðs er m.a. að veita ráðherra ráðgjöf og leiðbeiningar um þróun hæfniramma með því að gera tillögu um innihald og endurskoðun reglugerðar um hæfniramma fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda. Mennta- og barnamálaráðuneyti birtir reglugerð um hæfniramma fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Samráði um inntak hennar lauk sumarið 2022.
     16.      Starfsþróunarnámskeið fyrir kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Námskeið á vegum Menntafléttunnar hófust fyrri hluta árs 2021. Fjölbreytt námskeið eru í boði fyrir kennara, starfsfólk og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum, listaskólum og frístundastarfi. Námskeiðin eru gjaldfrjáls og einnig haldin í fjarnámi og henta því þátttakendum um allt land. Menntafléttan er samstarfsverkefni sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands leiðir í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands. Á námskeiðunum er byggt á niðurstöðum rannsókna um stöðu nemenda í íslensku menntakerfi. Þau byggjast á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem starfsþróun er samofin daglegu starfi og þátttakendur læra markvisst hver af öðrum. Námskeiðin eru sett þannig upp að þau sé hægt að sækja og sinna með fullri vinnu. Menntafléttan er fjármögnuð af mennta- og barnamálaráðuneyti.
     17.      Í ágúst 2019 var undirrituð samstarfsyfirlýsing um rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda sem stýrt er af Snorrastofu í Reykholti. Úthlutað var í fyrsta sinn á árinu 2020 til þverfaglegra rannsókna á sviði fornleifafræði, bókmenntafræði, textafræði og sagnfræði.
     18.      Kennsla á íslensku á háskólastigi. Því var beint til allra skóla á háskólastigi að setja sér og framfylgja málstefnu og tryggja eftirfylgni með henni hvarvetna í skólastarfinu. Ítrekuð var sú meginregla að íslenska sé kennslumál í öllu grunnnámi á háskólastigi og aðeins eigi að kenna á öðrum tungumálum í undantekningartilfellum. Hvatt var til notkunar íslensku á öllum fræðasviðum, að kennarar temdu sér að nota íslensk hugtök og fagorð við kennslu og kynntu sér þau íðorðasöfn sem til eru og ná yfir þeirra sérgrein. Tekin var staðan á fjölda námskeiða sem kennd eru á öðru tungumáli en íslensku og skýringa leitað á hvers vegna það er gert.
     19.      Námsefnisútgáfa: Verkþættir aðgerðar til eflingar útgáfu náms- og kennslugagna voru skilgreindir í vinnu við mótun menntastefnu til ársins 2030. Markmið þeirra er að auka gæði, fjölbreytni og aðgengi að náms- og kennslugögnum fyrir nemendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem og innan framhaldsfræðslu með áherslu á stafræn námsgögn á íslensku, táknmáli og efni fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Sjá nánari upplýsingar í aðgerðaáætlun menntastefnu.
     20.      Námsefni í íslensku fyrir 5–7 ára börn sem hafa annað móðurmál. Verkefnið Icelandic Online fyrir börn er gagnvirkt 60 klst. námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Efnið nýtist einnig sem ítarefni við móðurmálsnám. Námskeiðið tekur mið af aðalnámskrám leik- og grunnskóla, og nýtir sér vefnámskeiðaumhverfi Icelandic Online, sem hentar bæði tölvum og snjalltækjum.
     21.      Stuðningur við tilraunaverkefni í útgáfu rafrænna námsgagna fyrir iðn- og verknám. Fjórar vefbækur voru gefnar út í tengslum við verkefnið og hafa þær verið kenndar í framhaldsskólum. Endurgjöf nemenda og kennara er nýtt til að bæta bæði innihald, umgjörð og efnistök. Ráðgert er að niðurstöður verkefnisins verði nýttar í frekari stefnumótun.
     22.      Dreifing á höfundaréttindavörðu íslensku myndefni í gegnum efnisveitur, þ.e. kvikmyndum og þáttum til kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Menntamálastofnun fékk 15 m.kr. til þróunar og hönnunar á vefkerfi til að miðla íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum til skóla.
     23.      Hæfnimiðað íslenskunám fyrir útlendinga. Markmið aðgerðar er að gera þrepaskiptar hæfnilýsingar fyrir kunnáttu útlendinga í íslensku, á grundvelli evrópska tungumálarammans.
     24.      Rafrænt hæfnimiðað stöðumat í íslensku sem öðru máli út frá evrópska tungumálarammanum. Stöðumatinu er ætlað að auka aðgengi að og einfalda ferli við mat á íslenskukunnáttu innflytjenda þannig að þeir eigi auðveldara með að nýta þekkingu sína og hæfni. Stöðumatið mun nýtast m.a. fyrir tilvonandi kennara sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, sbr. kröfu um hæfni í íslensku hjá kennurum og í umsóknum um ríkisborgararétt. Samhliða verði þróað rafrænt stuðningsefni til að efla grunnhæfni í íslensku sem öðru máli, sérstaklega tengt neðri þrepum evrópska tungumálarammans sem standi öllum til boða á netinu. Verkefnið tilheyrir nú þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.
     25.      Unnið er að endurskoðun á úthlutunarreglum fjármuna til íslenskukennslu útlendinga og mat á þörf fyrir aukið fjármagn fer fram í samhengi við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010.
     26.      Íslenskukennsla erlendis: Íslenskukennsla í erlendum háskólum. Styðja sérstaklega við kennslu í íslensku og íslenskum fræðum við erlenda háskóla í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar, t.d. Kaupmannahafnarháskóla og Manitobaháskóla í Kanada, þar sem ríkt hefur óvissa um kennarastöður til framtíðar.
Menning.
     27.      Fjölmiðlun og innlend dagskrárgerð: Í 9. gr. laga nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru var mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) veitt heimild til að veita sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Fyrirkomulag sérstaks rekstrarstuðnings var útfært nánar í reglugerð nr. 670/2020 en samkvæmt henni tók mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) ákvörðun um úthlutun til 23 aðila árið 2020. Fyrir liggur frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Frumvarpinu er ætlað að framlengja núgildandi styrkjakerfi með því markmiði að styðja við og efla ritstjórnir á einkareknum frétta- og dagskrármiðlum sem gefa út fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita þeim rekstrarstuðning vegna hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.
     28.      Bókmenning: Lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku tóku gildi 1. janúar 2019. Með lögunum er bókaútgefendum veittur tímabundinn stuðningur í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. Úttekt á lögunum stendur yfir. Sjóður fyrir barna- og ungmennabækur var settur á laggirnar og var fyrst úthlutað úr honum 2019.
     29.      Hækkun greiðslna fyrir afnot af bókasöfnum. Sjóður sem úthlutar greiðslum til höfunda og rétthafa efnis sem lánað er út á bókasöfnum var hækkaður umtalsvert árið 2020. Þá var úthlutunarreglum sjóðsins einnig breytt í þá veru að nú fá höfundar hljóðbóka sem lánaðar eru í gegnum Hljóðbókasafn Íslands einnig greitt úr sjóðnum.
     30.      Höfundar í heimsókn. Stuðningur við samstarfsverkefni um heimsóknir rithöfunda í framhaldsskóla.
     31.      Bókasöfn: Bókasafnaráð vann úthlutunarreglur fyrir Bókasafnasjóð og var fyrsta úthlutun úr sjóðnum í janúar 2022. Sjóðurinn styrkir skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja önnur verkefni til að efla faglegt samstarf bókasafna, m.a. alþjóðleg samstarfsverkefni.
     32.      Hvatning til listsköpunar á íslensku. Lög um sviðslistir nr. 165/2019 tóku gildi 1. júlí 2020. Markmið þeirra er að efla sviðslistir á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni sviðslista og búa þeim hagstæð skilyrði. Unnið er að tónlistarstefnu og mótun heildstæðra laga um málefni tónlistar, á grundvelli skýrslu starfshóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði haustið 2020. Mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) skipaði starfshóp haustið 2020 með það að markmiði að gera myndlistarstefnu til næstu tíu ára. Starfshópnum var gert að greina núverandi stjórnskipulag og stuðningskerfi myndlistar, stöðu hennar og umhverfi. Stefnt er að kynningu á myndlistarstefnu á haustdögum 2022 og framkvæmd aðgerða í kjölfarið.
     33.      Textun og talsetning á efni fyrir börn og ungmenni. Fyrirhuguð er innleiðing á tilskipun ESB/2018/1808 með breytingu á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 en með innleiðingu tilskipunarinnar eru lagðar auknar kröfur á fjölmiðlaveitur að tryggja réttindi sjón- og heyrnarskertra m.a. með því að gera þjónustu sína stöðugt og stigvaxandi aðgengilegri sjón- og heyrnarskertum.
Tækniþróun, aðgengi og nýsköpun.
     34.      Máltækni – stafræn framtíð tungunnar : Árið 2018 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneyti (nú menningar- og viðskiptaráðuneyti) og sjálfseignarstofnunin Almannarómur samning um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar. Gerður var samningsviðauki þar sem kveðið var á um tilhögun á greiðslum úr ríkissjóði vegna framvindu grunnsamnings og framkvæmd þeirra verkefna sem tilgreind voru í máltækniáætlun. Almannarómur samdi við hóp rannsakenda með sérþekkingu á sviði málvísinda og máltækni (SÍM – Samstarf um íslenska máltækni) til að annast framkvæmd verkefnanna. Allur hugbúnaður sem var þróaður innan kjarna- og innviðaverkefna máltækniáætlunarinnar voru gefin út með Apache 2.0 leyfi eða sambærilegu eða rýmra leyfi. Hugbúnaðurinn er opinn, ókeypis og aðgengilegur öllum á vef Almannaróms. Unnið er að árangursmati verkefnisins sem formlega lauk 1. október 2022.
     35.      Orðasöfn og orðanefndir: Unnið er að útfærslu á opnu aðgengi almennings að upplýsingaveitum um íslenskt mál, svo sem orðabókum, orðasöfnum og málfarssöfnum.
     36.      Stuðningur við störf orðanefnda: Hlutverk Málræktarsjóðs er m.a. að styrkja starf orðanefnda sem vinna að þýðingum á tæknimáli eða sérhæfðu máli í þágu íslensks íðorðasafns. Kannað var hvort tilefni væri til breytinga á sjóðnum eða hækkunar. Lögð verður áhersla á að kynna málræktarsjóð samhliða íslenskri málstefnu án fjárstuðnings við sjóðinn.
Stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf.
     37.      Viðmið um málnotkun: Í samstarfi við íslenska málnefnd er lögð áhersla á að samfélagið í heild noti íslensku fyrst og fremst. Íslenskur texti og íslensk heiti standi þannig fremst í útgefnu efni á undan þýðingum yfir á önnur mál. Í kjölfar viðauka Íslenskrar málnefndar við málstefnu verði stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að kynna sér innihald hennar og marka sér málstefnu.
     38.      Málstefna um íslenskt táknmál: Árið 2020 var skipaður verkefnishópur sem fékk það hlutverk að gera tillögu að málstefnu um íslenskt táknmál. Ráðgert er að leggja stefnuna fram í formi þingsályktunartillögu á vorþingi. Stefnt er að því að málstefna um íslenskt táknmál verði leiðarljós við mótun málhegðunar, málviðhorfa og málstýringar í samfélaginu en ekki síður við myndun málstefna í formi skjala fyrir stjórnvöld, sveitarfélög og skólastofnanir sem lýsa yfir áformum þeirra í tengslum við íslenskt táknmál.
     39.      Íslensk málstefna: Íslensk málnefnd hefur unnið viðauka við heildarstefnu um íslenska málstefnu. Unnið verður að framkvæmd og innleiðingu stefnunnar og hún lögð fram sem þingsályktun.

Þingsályktun 38/149 um samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

7. júní 2019 – þskj. 1762 á 149. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Þingsályktunin byggist á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2018 um stofnun formlegs vettvangs um framtíð vestnorrænu tungumálanna sem hefði það hlutverk að semja skýrslu með yfirliti um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja ásamt yfirliti um þann máltæknibúnað (hugbúnað og gagnasöfn) sem til er fyrir hvert málanna og leggja fram tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni. Formlegur vinnuhópur/samstarfsvettvangur hefur ekki verið stofnaður en ráðuneyti menningar- og viðskipta á Íslandi og Utanríkis- og menntamálaráðið í Færeyjum hafa þó verið bæði í formlegum og óformlegum samskiptum um máltækni. Samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneyti ber sjálfseignarstofnunin Almannarómur ábyrgð á verkefni og framkvæmd máltækniáætlunar fyrir íslensku. Almannarómi ber m.a. að fylgjast með tækifærum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í máltækni og kanna hvort íslenska geti verið með í slíkum verkefnum. Almannarómi hefur verið gerð grein fyrir því að mikill áhugi er á samstarfi landanna um þróun máltækni fyrir viðkomandi tungumál. Að auki ber deild erlendra tungumála Vigdísar Finnbogadóttur ábyrgð á samstarfsverkefnum er varða vestnorrænu tungumálin.

Mennta- og barnamálaráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

3. apríl 2019 – þskj. 1301 á 149. lögþ. (sameiginlegt með dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktunartillögunni var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til þess að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Tillögurnar voru settar fram í sjö köflum og 49 liðum og innihalda aðgerðir þess til að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir. Í þingsályktunartillögunni var lagt til að ríkisstjórnin ynni slíka aðgerðaáætlun í málefnum barna.
    Velferðarnefnd tók undir þau sjónarmið sem fram komu í þingsályktunartillögunni en taldi rétt að efni hennar yrði nýtt við vinnu ríkisstjórnarinnar við að bregðast við athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Undirstrikaði nefndin í því sambandi almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar, nr. 5/2003, um að unnin skyldi aðgerðaáætlun í málefnum barna. Nefndin taldi nauðsynlegt að ríkisstjórnin ynni þá aðgerðaáætlun svo tryggja mætti þverfaglegt samráð allra ráðuneyta og lagði til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Komið er til móts við þessa tillögu með nýrri þingsályktun um Barnvænt Ísland sem er fjallað um hér að ofan þar sem kveðið er á um heildstæða stefnumótun í þágu barna. Einnig í farsældarlögum nr. 86/2021.

Þingsályktun 39/149 um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022.

12. júní 2019 – þskj. 1795.

Framkvæmd hafin.
    Alþingi samþykkti 12. júní 2019 tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára, en félags- og barnamálaráðherra (nú mennta- og barnamálaráðherra) mælti fyrir tillögunni. Áætluninni er ætlað að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Félagsmálaráðuneytið (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga munu vinna samkvæmt áætluninni með það meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.
    Alþingi ályktaði að unnið verði samkvæmt samþykktri framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019–2022 þar sem lögð verði áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun og stuðlað verði að snemmtækri íhlutun og samfellu í þjónustu.
    Við gerð áætlunarinnar var byggt á nýju verklagi með virku og víðtæku samráði við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Framkvæmdaáætlunin byggist á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum.
    Félagsmálaráðuneytið (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) hafði heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum en Barnaverndarstofa og sveitarfélög bera ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum. Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer mennta- og barnamálaráðuneyti nú með heildarumsjón áætlunarinnar. Allar aðgerðir voru kostnaðarmetnar. Lagt verður mat á aðgerðir í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar. Framkvæmdaáætlunin tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Lögð er áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna. Framkvæmdaáætlunin tekur einnig mið af þeirri þróun sem orðið hefur í þjónustu við börn og í meðferðarúrræðum barnaverndar.

Þingsályktun 37/149 um vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga.

7. júní 2019 – þskj. 1761 á 149. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Þingsályktunin byggist á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2018 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum, en tillaga til þingsályktunar var lögð fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Samkvæmt þingsályktuninni ályktaði Alþingi að skora á ríkisstjórnina að efla samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði íþrótta barna og unglinga. Alþingi beindi þeim tilmælum því til ríkisstjórnarinnar að kanna til hlítar hvernig styrkja mætti samstarf landanna á þessum vettvangi til hagsbóta fyrir æsku Vestur-Norðurlanda og stuðla að því að treysta samstarf landanna til framtíðar.
    Samstarf á sviði íþrótta á milli Íslands, Færeyja og Grænlands er þegar mjög mikið. Fjöldi íþróttafólks fer á milli landanna sem leikmenn og þjálfarar á milli félagsliða. Íþróttasambönd Færeyja og Grænlands eru með umfangsmikla starfsemi innan alþjóðlega kerfisins og tilheyra dönsku Ólympíunefndinni. Þess má geta að eini fjárhagslegi stuðningurinn vegna vestnorræns samstarfs á sviði íþrótta kom frá norrænu ráðherranefndinni og var það framlag skorið niður fyrir allmörgum árum síðan. Það sem hefur hindrað að þessi þingsályktun komi til framkvæmda er skortur á fjármagn sem mætti nýta til ferðastyrkja til íþróttafélaga eða sem hvata að annarri samvinnu. Þörfin fyrir meira samstarf enn nú er virðist ekki vera til staðar hjá þessum íþróttahreyfingum. Nefna má að mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) studdi fjárhagslega starfsemi hérlendra samtaka svo sem Hróksins og Kalak sem stóðu fyrir verkefnum fyrir grænlensk börn á sviði skákar og sundkennslu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 43/149 um skilgreiningu auðlinda.

20. júní 2019 – þskj. 1938 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með ályktuninni var umhverfis- og auðlindaráðherra (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra) falið að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Ráðuneytið hefur hafið vinnu við skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins til að auka skilning á eðli og umfangi þeirra.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 26/149 um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.

2. maí 2019 – þskj. 1424 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktuninni er sett fram stefna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu til ársins 2023. Utanríkisráðuneytið hefur starfað á grundvelli stefnunnar við framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands. Stefnan byggist á tíu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og starfar Ísland með fjölþjóðastofnunum, tvíhliða samstarfsríkjum, frjálsum félagasamtökum og aðilum atvinnulífsins að framkvæmd í málaflokknum. Aðgerðaáætlun var uppfærð fyrir árin 2021–2022. Í haust hefst undirbúningur að þingsályktun fyrir nýja stefnu í þróunarsamvinnu sem lögð verður fyrir Alþingi 2023. Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru sértæk og þverlæg áhersluatriði sem höfð eru að leiðarljósi í öllu starfi. Með alþjóðlegri þróunarsamvinnu leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum í baráttunni gegn sárri fátækt og hungri og er hún mikilvægur þáttur í að Ísland uppfylli pólitískar, lagalegar og siðferðilegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna.

Þingsályktun 13/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

11. desember 2019 – þskj. 690 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Stefnt er að tilkynningu um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 1. desember 2022.

Þingsályktun 15/150 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020.

11. desember 2019 – þskj. 692 á 150. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Samningnum var beitt til bráðabirgða frá 3. júní 2019 og kvað á um heimildir til veiða árin 2019 og 2020.

Þingsályktanir frá 2019 þar sem framkvæmd telst lokið og umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.

Forsætisráðuneyti.
     Þingsályktun 19/149 um breytingu á þingsályktun 13/144 um Jafnréttissjóð Íslands, 2. apríl 2019 – þskj. 1286.
     Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar, 8. apríl 2019 – þskj. 1311.
     Þingsályktun 16/150 um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023, 16. desember 2019 – þskj. 762.
Dómsmálaráðuneyti
     Þingsályktun 20/150 um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu, 17. desember 2019 – þskj. 822.
Félagsmálaráðuneyti.
     Þingsályktun 44/149 um úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu, 20. júní 2019 – þskj. 1945.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Þingsályktun 46/149 um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 20. júní 2019 – þskj. 1981.
     Þingsályktun 47/149 um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, 20. júní 2019 – þskj. 1982.
Heilbrigðisráðuneyti.
     Þingsályktun 29/149 um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, 3. júní 2019 – þskj. 1684.
     Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum (neyslurými), 4. júní 2019 – þskj. 1723 á 149. lögþ.
     Þingsályktun 27/149 um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala, 7. maí 2019 – þskj. 1479.
     Þingsályktun 17/150 um rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara, 16. desember 2019 – þskj. 765.
     Þingsályktun 18/150 um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu, 16. desember 2019 – þskj. 766.
Innviðaráðuneyti
     Þingsályktun 10/149 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023, 7. febrúar 2019 – þskj. 927.
     Þingsályktun 11/149 um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033, 7. febrúar 2019 – þskj. 928.
     Þingsályktun 42/149 um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, 19. júní 2019 – þskj. 1926 (sameiginleg með forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti).
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. (frá ARN)
     Þingsályktun 50/149 um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 2. september 2019 – þskj. 2067.
Utanríkisráðuneyti.
     Þingsályktun 12/149 um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, 20. febrúar 2019 – þskj. 961.
     Þingsályktun 13/149 um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvadors, 20. febrúar 2019 – þskj. 962.
     Þingsályktun 14/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 6. mars 2019 – þskj. 1075.
     Þingsályktun 15/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 6. mars 2019 – þskj. 1076.
     Þingsályktun 16/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1283.
     Þingsályktun 17/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1284.
     Þingsályktun 18/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1285.
     Þingsályktun 20/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1418.
     Þingsályktun 21/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1419.
     Þingsályktun 22/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1420.
     Þingsályktun 23/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1421.
     Þingsályktun 24/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1422.
     Þingsályktun 25/149 um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1423.
     Þingsályktun 28/149 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja, 13. maí 2019 – þskj. 1508.
     Þingsályktun 39/149 um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins, 3. júní 2019 – þskj. 1685.
     Þingsályktun 49/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 2. september 2019 – þskj. 2065.
     Þingsályktun 1/150 um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu, 24. október 2019 – þskj. 332.
     Þingsályktun 3/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 511.
     Þingsályktun 4/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 512.
     Þingsályktun 5/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 513.
     Þingsályktun 6/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 514.
     Þingsályktun 7/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 515.
     Þingsályktun 8/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 516.
     Þingsályktun 9/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 517.
     Þingsályktun 10/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2019 um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) og II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2019 – þskj. 518.
     Þingsályktun 11/150 um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu, 18. nóvember 2019 – þskj. 519.
     Þingsályktun 14/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 11. desember 2019 – þskj. 691.

Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2018.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 16/148 um samræmingu verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

26. apríl 2018 – þskj. 865 á 148. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktuninni fól Alþingi forsætisráðherra að móta stefnu og innleiða verklagsreglur fyrir ráðuneyti Stjórnarráðsins um fjarfundi í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneytin.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á árinu 2020 hefur þróunin í þessa átt orðið talsvert hraðari en hún hefði ella orðið og haft þau áhrif að ráðuneyti Stjórnarráðsins og undirstofnanir reiða sig nú að miklu leyti á fjarfundi í stað hefðbundins fundahalds líkt og áður var.
    Áður en heimsfaraldurinn hófst hafði verið unnið að þeim verkefnum sem framangreind þingsályktun fjallar um, til að mynda á grundvelli loftslagsstefnu Stjórnarráðsins frá apríl 2019. Í henni var gert ráð fyrir að ráðuneyti Stjórnarráðs Íslands dragi úr losun sinni á koltvísýringi samtals um 40%, m.a. með áherslu á fjarfundi. Þá hafði góðum fjarfundabúnaði verið komið upp í ráðuneytum samkvæmt þörfum hvers ráðuneytis, auk þess sem starfsmenn ráðuneyta og margra stofnana hafa aðgang að hefðbundnum fjarfundabúnaði í vinnutölvum. Þá lá fyrir samræmt verklag um fjarfundi sem loftslagsfulltrúar hvers ráðuneytis skyldu tryggja að yrði innleitt, og hvert ráðuneyti tryggja að undirstofnanir tækju upp sama verklag. Ekki síst vegna framangreindrar vinnu gátu þau umskipti sem urðu á fundahaldi í Stjórnarráðinu þegar heimsfaraldurinn hófst gengið hnökralaust fyrir sig.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

30. apríl 2018 – þskj. 900 á 148. lögþ. (sameiginleg með dómsmálaráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Nefnd forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis skilaði frumvarpi til nýrra laga um ærumeiðingar sem var unnið frekar í dómsmálaráðuneytinu. Dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi á 149. lögþ. í apríl 2019 (þskj. 1361, 860. mál) en málið varð ekki útrætt. Frumvarpið var aftur lagt fram á Alþingi á 150. lögþ. í október 2019 (þskj. 312, 278. mál) en málið varð ekki heldur útrætt. Málið hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu á grundvelli þeirra athugasemda sem fram komu við frumvarpið við meðferð þess á Alþingi en ljóst er að það þarfnast frekari vinnu.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun).

30. maí 2018 – þskj. 1106 á 148. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Eftir að þingsályktunartillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar var forsætisráðherra falið að tryggja að úttekt á kostum og göllum skilyrðislausrar grunnframfærslu yrði meðal verkefna framtíðarnefndar. Viðfangsefnið fékk ekki efnislega umfjöllun hjá þeirri nefnd sem starfaði á grundvelli tillögunnar en sú nefnd er ekki lengur starfandi. Hins vegar starfar nú framtíðarnefnd á vegum Alþingis, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1951. Samkvæmt fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði skal nefndin m.a. fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.

Þingsályktun 32/148 um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

18. júlí 2018 – þskj. 1364 á 148. lögþ. (sameiginleg með mennta- og barnamálaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti).

Framkvæmd vegna hluta forsætisráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis hafin.
    Forsætisráðherra fékk þann hluta ályktunarinnar sem varðar Barnamenningarsjóð Íslands til meðferðar í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) en sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum árin 2019–2023.
    Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
    Fyrsta árið uppfyllti sjóðurinn hlutverk sitt með úthlutun til 36 verkefna, að heildarupphæð 97,5 millj. kr. Fimm manna valnefnd fjallaði um umsóknirnar, sem voru 108 talsins. Sótt var um ríflega fjórfalda þá upphæð sem til úthlutunar var. Tilkynnt var um úthlutunina á degi barnsins 26. maí 2019.
    Hinn 1. apríl 2020 var auglýst eftir umsóknum öðru sinni. Þá bárust 112 umsóknir og var sótt um tæplega fimmfalda þá upphæð sem til skipta var. Þriggja manna valnefnd fjallaði um umsóknirnar og var samþykkt að veita 42 styrki að heildarupphæð 92 millj. kr. Önnur úthlutun úr sjóðnum fór fram á degi barnsins 24. maí 2020 við hátíðlega athöfn í Hörpu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra héldu ávörp við það tilefni.
    Úthlutað var úr sjóðnum í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Hörpu 28. maí 2021 þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra héldu ávörp við það tilefni. Þriggja manna fagráð fjallaði um þær 113 umsóknir sem bárust í sjóðinn á árinu og gerði tillögur um úthlutun. Alls hlutu 37 verkefni styrk að þessu sinni og nam heildarfjárhæð styrkjanna um 90 millj. kr.
    Hinn 29. maí 2022, á degi barnsins, var úthlutað úr sjóðnum í fjórða sinn við athöfn í Skála Alþingis. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra fluttu ávörp og úthlutað var styrkjum til 34 verkefna að heildarfjárhæð 92 millj. kr.
Framkvæmd vegna hluta matvælaráðuneytis hafin.
    Matvælaráðuneytið fer með þann hluta framkvæmdar þessarar þingsályktunar er varðar smíði nýs hafrannsóknaskips. Sett var á fót smíðanefnd til að hafa umsjón með undirbúningi verkefnisins. Eftir útboð var sú nefnd aflögð og skipuð verkefnastjórn um framkvæmd verkefnisins, samningagerð og eftirlit á smíðatíma. Áætlað er að smíði á nýju skipi hefjist á síðari hluta ársins 2022. Í kjölfar útboðs var samið við lægstbjóðanda, skipasmíðastöðina Armon í Vigo á Spáni. Samkvæmt samningi er smíðatími um 2 ár og er ráðgert að skipið verði afhent haustið 2024.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Þingsályktun 3/148 um gerð stofnefnahagsreikninga fyrir ríkissjóð í heild og einstaka ríkisaðila í A-hluta.

8. mars 2018 – þskj. 476 á 148. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin lýsir meginaðferðum við innleiðingu breyttra reikningsskila samkvæmt lögum um opinber fjármál, með áherslu á stofnefnahagsreikning. Í efnahagsreikninginn eru teknir inn nýir flokkar eigna og skuldbindinga í áföngum á þremur árum hvers árs.
    Innleiðingu er lokið og reikningsskil fyrir árið 2021 eru gerð á grundvelli IPSAS-staðlanna með þeim frávikum að reikningsskilaráð hefur heimilað frestun á innleiðingu nokkurra staðla. Reikningsskilaráð A-hluta ríkisins hefur heimildir til frestunar á innleiðingu staðla eins og kemur fram í 52. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Þingsályktun 11/148 um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

25. apríl 2018 – þskj. 853 á 148. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktunartillögunni var fjármála- og efnahagsráðherra falið að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra.
    Lagt var til að ráðherra skipaði starfshóp til þess að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Tillagan, sem lögð var fram af hópi þingmanna, var áður flutt á 147. löggjafarþingi (17. mál).
    Í vinnslu hafa verið greiningar á verklagi og ferlum og framkvæmd opinberra verkefna og þar verið m.a. horft til skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins „Lykiltölur úr skilamötum FSR 1998–2016“. Helstu niðurstöður þar sýna að hlutfallslegt frávik samanlagðs raunkostnaðar og kostnaðaráætlana án viðbótarverka í öllum verkefnum á verðlagi í desember 2018 er 1,8%. Sé horft til stærðar verkefna og frávik skoðuð er vegið meðalfrávik raunkostnaðar og áætlana fyrir öll verkefnin 4,5%. Yfir tímabilið 1998–2016 eru 56 verkefni eða 40% innan áætlunar og 83 eða 60% yfir áætlun. Nánar greint þá er 61 verkefni 5% eða meira yfir áætlun, 43 verkefni eru 5% eða meira undir áætlun og 35 verkefni eru þar á milli.
    Unnin var samantekt af Háskólanum í Reykjavík um stöðu sambærilegra verkefna erlendis. Leitað verður umsagnar félaga og stofnana ríkisins sem fara með framkvæmdir, svo sem Framkvæmdasýslu ríkisins, Landsvirkjunar, NLSH, Landsnets, Ríkiseigna o.fl. til að fá frekari tillögur að verklagi. Áfram verður unnið að því að útfæra nánari stefnumörkun á þessu sviði með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.
    Þá er jafnframt unnið að því að leggja fram frumvarp að nýrri heildarlöggjöf um opinberar fjárfestingar og fasteignaumsýslu ríkisins sem mun fela í sér endurskoðun á gildandi lagaramma um skipan opinberra framkvæmda. Frumvarpið mun hafa að geyma ákvæði um hagkvæmnismat, áhættugreiningu og gæðatryggingu auk ákvæða um framkvæmda- og fjárfestingaáætlun og breytta skipan stofnana.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 24/148 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.

11. júní 2018 – þskj. 1242 á 148. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Unnið var samkvæmt byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 fram á sumarið 2022, þegar Alþingi samþykkti nýja áætlun. Framkvæmd byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024 gekk vel og komust allar aðgerðir til framkvæmdar. Mörgum aðgerðum var lokið og nokkrar halda áfram í nýrri áætlun. Í janúar 2022 lagði innviðaráðherra skýrslu fyrir Alþingi um framkvæmd byggðaáætlunar þar sem m.a. komu fram upplýsingar um stöðu hverrar aðgerðar, sem alls eru 54. Þá er að finna upplýsingar um stöðuna á vef innviðaráðuneytisins. Lögum samkvæmt skal ráðherra leggja fram á að minnsta kosti þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar lauk vorið 2022 og var þingsályktunartillaga um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022–2026 lögð fram á Alþingi í apríl 2022.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti.


Þingsályktun 4/148 um útgáfu vestnorrænnar söngbókar.

8. mars 2018 – þskj. 477 á 148. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin byggist á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2017 og er samhljóða henni. Í gildi er samningur frá 1. nóvember 2017 um menningarsamstarf milli Færeyja, Grænlands og Íslands. Með samningnum, sem er ótímabundinn, er fylgiskjal þar sem fjallað er um þau verkefni sem löndin áætluðu að vinna að á árunum 2019–2022.
    Á yfirstandandi tímabili var unnið að verkefnum á sviði kvikmyndagerðar, verkefnum til að efla frjáls félagasamtök á sviði lista, menningar og íþrótta, þróun tölvuleikja og verkefnum tengdum vestnorrænum tungumálum og menningu og tengslum þeirra við önnur tungumál og menningu. Við ákvörðun flestra þessara verkefna voru hafðar til hliðsjónar ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar hafa verið á síðastliðnum árum. Til samningsins veittu löndin þrjú hvert um sig 200 þús. dönskum kr. árlega.
    Í umfjöllun menningar- og viðskiptaráðuneytis um ályktunina hefur verið bent á að ekki væri hægt að hefja ný menningarverkefni án aukafjárveitinga. Komi til undirbúnings nýrra áherslusviða í tengslum við menningarsamning vestnorrænu landanna frá 1. nóvember 2017 og við gerð nýs fylgiskjals með samningnum væri mögulegt að skoða ályktun Vestnorræna ráðsins á sviði menningarmála nánar. Þó ber að nefna að menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur ekki fjárframlög til útgáfu bóka umfram það fé sem veitt er í bókmenntasjóð sem starfar skv. bókmenntalögum nr. 91/2007 og til stuðnings við útgáfu bóka á íslensku, sbr. lög nr. 130/2018. Bókmenntasjóður er í umsýslu Miðstöðvar íslenskra bókmennta og endurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku í umsjón Rannís.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 27/148 um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029.

11. júní 2018 – þskj. 1245 á 148. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029 var samþykkt á Alþingi 11. júní 2018 á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016. Þar ályktaði Alþingi að á árunum 2018–2029 yrði unnið að uppbyggingu innviða í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í áætluninni.
    Í henni er kveðið á um fjölda aðgerða (45) á sviði stefnumótunar um verndun, fræðslu og innviðauppbyggingu á þeim stöðum sem búa við álag af völdum aukinnar ferðamennsku. Stefnumótandi landsáætlun felur í sér markmið og aðgerðir um:
     a.      stýringu og sjálfbæra þróun,
     b.      vernd náttúru og menningarsögulegra minja,
     c.      öryggismál,
     d.      skipulag og hönnun,
     e.      ferðamannaleiðir.
    Hvað varðar tímaramma þá var við upphaf innleiðingar gengið út frá eftirfarandi meginflokkum: sífelluverkefni og verkefni með tiltekinni afurð.
    Vorið 2018 var skipaður til þriggja ára samstarfshópur um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum og vann hópurinn m.a. að þeim aðgerðum í stefnumarkandi landsáætlun sem lúta að hönnun staða og innviða, efnisvali, árangursríkum og samræmdum merkingum, og fræðslu til framkvæmdaraðila. Hópurinn skilaði af sér skilamati árið 2021. Unnið er að aðgerðum er varða vernd náttúru og menningarsögulegra minja, stýringu og sjálfbæra þróun og öryggismál innan ráðuneytisins og í samráði við önnur ráðuneyti og aðila eins og við á.
    Sumarið 2020 var settur á fót samstarfshópur um ferðamannaleiðir og vinnur hópurinn að þeim þremur aðgerðum í stefnumarkandi landsáætlun sem snúa að ferðamannaleiðum. Vinna hópsins er langt komin. Stöðumat stefnumarkandi landsáætlunar hefur eining verið framkvæmt en þar var staða aðgerða metin. Fyrir liggja drög að stöðumatsskýrslu.
    Í samræmi við 4. gr. laga nr. 20/2016 hefur einnig verið unnið að þriggja ára verkefnaáætlun. Hún á að rúmast innan ramma tólf ára landsáætlunar og útfæra nánar framkvæmd og ábyrgð á verkefnum, sem og að forgangsraða þeim. Snúa verkefnin einkum að undirbúningi, framkvæmd og viðhaldi innviða á stöðum sem búa við mikið álag af völdum aukinnar ferðamennsku. Slík áætlun hefur komið út fimm sinnum, í mars 2018, og er nú vinna að hefjast við endurskoðun eldri áætlunar og þar með gerð sjöttu útgáfu verkefnaáætlunar.

Þingsályktanir frá 2018 þar sem framkvæmd telst lokið og umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.


Forsætisráðuneyti.
     Þingsályktun 1/149 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 5. desember 2018 – þskj. 607.
Félags-og vinnumarkaðsráðuneyti (velferðarráðuneyti til 1. maí 2017).
     Þingsályktun 28/148 um skattleysi uppbóta á lífeyri, 12. júní 2018 – þskj. 1268 (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti).
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Þingsályktun 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 22. mars 2018 – þskj. 625.
     Þingsályktun 17/148 um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar, 8. maí 2018 – þskj. 951.
     Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (húsnæðisliður vísitölu neysluverðs), 8. júní 2018 – þskj. 1205.
     Þingsályktun 23/148 um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023, 8. júní 2018 – þskj. 1176.
     Þingsályktun 25/148 um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, 11. júní 2018 – þskj. 1243.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti
     Þingsályktun 19/148 um aðgengi að stafrænum smiðjum, 6. júní 2018 – þskj. 1116.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti
     Þingsályktun 20/148 um gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls, 6. júní 2018 – þskj. 1117.
Mennta- og barnamálaráðuneyti.
     Þingsályktun 12/148 um úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla, 25. apríl 2018 – þskj. 854.
     Þingsályktun 13/148 um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum, 25. apríl 2018 – þskj. 855.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
     Þingsályktun 15/148 um rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi, 25. apríl 2018 – þskj. 857.
     Þingsályktun 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 11. júní 2018 – þskj. 1244.
Utanríkisráðuneyti.
     Þingsályktun 5/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 595.
     Þingsályktun 6/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 596.
     Þingsályktun 7/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2017 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 597.
     Þingsályktun 8/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 598.
     Þingsályktun 9/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 599.
     Þingsályktun 21/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 7. júní 2018 – þskj. 1143.
     Þingsályktun 22/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (almenna persónuverndarreglugerðin), 7. júní 2018 – þskj. 1144.
     Þingsályktun 2/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta), XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 691.
     Þingsályktun 3/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 692.
     Þingsályktun 4/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 693.
     Þingsályktun 5/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 694.
     Þingsályktun 6/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 695.
     Þingsályktun 7/149 um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, 13. desember 2018 – þskj. 730.
     Þingsályktun 8/149 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018, 13. desember 2018 – þskj. 731.