Ferill 187. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1853  —  187. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Grindavíkurbæ, Isavia ohf., Reykjanesbæ, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem vinni tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Lagt er til að hópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra sem kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
    Umsagnir um málið voru allar jákvæðar en þar er m.a. bent á sérstöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem m.a. mjög stór hluti starfar í tengslum við ferðaþjónustuna auk þess sem hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hærra á Suðurnesjum en á öðrum svæðum. Þá hefur íbúafjölguninni fylgt tilheyrandi álag á félagslega innviði, ekki síst þá sem eru á forræði ríkisins, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla og vegakerfi. Í umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum kemur fram að í árslok 2018 hafi erlendum ríkisborgurum fjölgað um 3.780 frá árinu 2010, eða rétt um íbúafjölda Ísafjarðarbæjar. Í áætlunargerð ríkisins hafi ekki verið tekið tillit til íbúafjölgunar eða íbúasamsetningar. Sambandið bendir á að nauðsynlegt sé að skoða fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og mikilvægra verkefna á svæðinu þannig að íbúar Suðurnesja búi í það minnsta við sömu þjónustu og íbúar annarra landshluta. Sem dæmi er þess getið að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%. Auk þess hafi greining fyrirtækisins Aton sem framkvæmd var árið 2018 sýnt fram á skekkju í framlögum til svæðisins.
    Nefndin áréttar að staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum er um margt sérstök og miklar sveiflur hafa verið í atvinnulífi Suðurnesjamanna á undanförnum árum. Mikilvægt er að bregðast við þeim aðstæðum á grundvelli upplýsinga og með skilvirkum og skýrum hætti. Nefndin leggur því áherslu á að starfshópurinn fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum með tilliti til íbúafjölgunar og samsetningar íbúa og kanni samfélagsleg áhrif fólksfjölgunarinnar. Þá leggi hann mat á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri.
    Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum og staða hans hefur mikil áhrif á samfélögin. Það er því mikilvægt að breytingar, hvort sem eru aukin umsvif á undanförnum árum eða samdráttur sem nú stendur yfir, verði metnar með skipulögðum hætti. Nefndin leggur því áherslu á að starfshópurinn meti áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á Suðurnesjum. Leggur nefndin til breytingu á tillögugreininni til samræmis við framangreindar áherslur.
    Í tillögunni er lagt til að starfshópurinn skili skýrslu sinni fyrir 1. júní 2019. Nefndin leggur til að það tímamark verði 1. desember 2019 til að tryggt verði að nægur tími gefist í vinnuna en áréttar mikilvægi þess að henni verði hraðað eins og unnt er.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við tillögugrein.
     a.      Í stað 2. og 3. málsl. komi: Meðal þess sem hópurinn skal leggja til grundvallar aðgerðaáætluninni er mat á:
              a.      samfélagslegum áhrifum fólksfjölgunar á svæðinu,
              b.      samsetningu íbúa og mismunandi þörfum þeirra með tilliti til stöðu, aldurs, móðurmáls o.fl.,
              c.      hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun byggðamála og fólksfjölgun,
              d.      áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á svæðinu.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðist svo:
                      Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember 2019. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins. 

    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta skv. heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 14. júní 2019.

Ari Trausti Guðmundsson,
1. varaform.
Helga Vala Helgadóttir,
frsm.
Bergþór Ólason.
Hanna Katrín Friðriksson. Karl Gauti Hjaltason. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.