Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 367  —  324. mál.




Skýrsla


forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis 2018 auk yfirlits um framkvæmd ályktana frá árunum 2015–2017.



    Skýrsla þessi er lögð fram í samræmi við fyrirmæli 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Markmið hennar er að veita Alþingi yfirsýn yfir eftirfylgni framkvæmdarvaldsins með ályktunum þingsins. Til umfjöllunar er framkvæmd þeirra ályktana Alþingis frá árinu 2018 sem kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar og meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra á því ári. Þá er hér einnig að finna yfirlit um sömu atriði þrjú ár aftur í tímann, þ.e. frá árunum 2015–2017. Undanskilin eru þau málefni þar sem lög kveða á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga um þingsköp Alþingis.
    Umræddar þingsályktanir á árunum 2015–2018 voru samtals 136, þar af 44 vegna staðfestinga ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ályktanir eru reglubundinn þáttur í þinglegri meðferð EES-mála og fela í sér afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sem kallar á lagabreytingar á Íslandi. Þær hafa því nokkra sérstöðu miðað við aðrar ályktanir. Þá vísuðu þingnefndir níu málum til ríkisstjórnarinnar. Í skýrslu þessari er þannig fjallað um samtals 145 þingmál, sem sum varða fleiri en eitt ráðuneyti. Samantekið er staða þeirra svo sem hér segir:

Ár Staða ályktana/málefna* – eftir ráðuneytum
2018 Lokið: 22 (þar af 11 v. staðfestingar) – FOR 1, FRN/FJR 1, FJR 4, MRN 3, UTN 13
Hafið: 12 – FOR 1, FOR/DMR 1, FOR/ANR/MRN 1, ANR/MRN 1, ANR 1, DMR 1, FJR 3, SRN 1, UAR 2
Ekki hafið: 3 – FOR 1, MRN 1, UTN 1
Samtals: 37
2017 Lokið: 15 (þar af 8 v. staðfestingar) – FOR 1, FRN 1, FJR 2, SRN 1, UTN 10
Hafið: 7 – FOR 1, DMR 1, FRN 1, HRN 3, MRN/UAR 1
Samtals: 22
2016 Lokið: 39 (þar af 12 v. staðfestingar) – ANR 3, DMR/MRN 1, DMR 2, FRN 1, FJR 2, HRN 3, MRN 2, SRN 2, UAR 2, UTN 21
Hafið: 18 – FOR 3, FOR/MRN 1, ANR/FJR/HRN/MRN/UAR/UTN 1, DMR 1, FRN 1, FJR 1, HRN 1, MRN 1, SRN 1, UAR 2, UTN 5
Ekki hafið: 2 – FJR/HRN 1, SRN 1
Samtals: 59
2015 Lokið: 25 (þar af 13 v. staðfestingar) – FOR 1, ANR 2, FJR 1, HRN 1, SRN 1, UAR 3, UTN 16
Hafið: 2 – FOR 1, UTN 1
Samtals: 27
*Varði mál fleiri en eitt ráðuneyti er staða þess miðuð við svör viðkomandi ráðuneyta sameiginlega.

    Forsætisráðuneytið aflaði upplýsinga um framangreind efni frá viðkomandi ráðuneytum í október 2019 og svör þeirra fara hér á eftir.

Yfirlit um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2018.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 16/148 um samræmingu verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta, 26. apríl 2018 – þskj. 865.
Framkvæmd hafin.
    Loftlagsstefna Stjórnarráðsins var gefin út í apríl 2019. Í stefnunni er gert ráð fyrir að ráðuneyti Stjórnarráðs Íslands dragi úr losun sinni á koltvísýringi ( CO2) samtals um 40%, m.a. vegna flugferða erlendis og innanlands, með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag. Til að ná þessu markmiði er í stefnunni m.a. gert ráð fyrir átaki í fjárfestingu á árunum 2019–2020 í fjarfundabúnaði og þjálfun starfsmanna í notkun hans. Þá er gert ráð fyrir að verklag verði þróað á árunum 2019–2022 þar sem ráðuneytin setji sér m.a. markmið um aukið hlutfall fjarfunda. Hefur þannig verið unnið að þeim verkefnum sem framangreind ályktun Alþingis fjallar um á grundvelli loftslagsstefnunnar.
    Góðum fjarfundabúnaði hefur þegar verið komið upp í ráðuneytum samkvæmt þörfum hvers ráðuneytis og starfsmenn ráðuneyta og margra stofnana hafa aðgang að hefðbundnum fjarfundabúnaði í vinnutölvum fyrir einfaldari og fámennari fjarfundi.
    Samræmt verklag um fjarfundi liggur einnig fyrir og er ráðgert að loftslagsfulltrúar hvers ráðuneytis tryggi innleiðingu og í framhaldinu tryggi hvert ráðuneyti að undirstofnanir taki upp sama verklag.
    Einfaldar leiðbeiningar um hvernig eigi að undirbúa fjarfundi og tryggja góða framkvæmd þeirra liggja jafnframt fyrir og byggja að miklu leyti á vinnu samgöngustofu Svíþjóðar og svokölluðu REMM-verkefni ( Resfria Mo.ten i Myndigheter eða e. Virtual Meetings in Public Agencies). Á grundvelli verkefnisins hefur einnig verið unnið að því að setja fram leiðbeiningar um hvaða aðferðir séu best til þess fallnar að tryggja innleiðingu hins samræmda verklags um fjarfundi og eiga loftslagsfulltrúar ráðuneyta ásamt verkefnastjóra loftslagsstefnu Stjórnarráðsins að tryggja stuðning og fræðslu við innleiðingu.
    Ráðgert er að ráðuneyti setji sér markmið um aukið hlutfall fjarfunda á næsta ári auk þess sem verklag um ferðaáætlanir, val á þeim og samstarf verður yfirfarið. Fjarfundir eiga hvorki né geta komið í stað allra hefðbundinna funda en í mörgum tilfellum fela þeir í sér hentugan valkost sem að auki býður upp á nýjungar í samvinnu umfram takmarkanir hefðbundinna funda.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga, 30. apríl 2018 – þskj. 900 (sameiginleg með dómsmálaráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis skilaði af sér frumvarpi til nýrra laga um ærumeiðingar. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í október 2019 (þskj. 312, 278. mál). Frumvarpið var áður lagt fram til kynningar á 149. löggjafarþingi.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun), 30. maí 2018 – þskj. 1106.
Framkvæmd ekki hafin.
    Eftir að þingsályktunartillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar var forsætisráðherra falið að tryggja að úttekt á kostum og göllum skilyrðislausrar grunnframfærslu yrði meðal verkefna framtíðarnefndar. Viðfangsefnið hefur ekki fengið efnislega umfjöllun hjá nefndinni en gert er ráð fyrir að nefndin taki málið fyrir árið 2020.

Þingsályktun 32/148 um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins, 18. júlí 2018 – þskj. 1364 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti).
Framkvæmd vegna hluta forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis hafin.
    Forsætisráðherra fékk þann hluta ályktunarinnar sem varðar Barnamenningarsjóð Íslands til meðferðar í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra.
    Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
    Fyrsta árið uppfyllti sjóðurinn hlutverk sitt með úthlutun til 36 verkefna, að heildarupphæð 97,5 millj. kr. Fimm manna valnefnd fjallaði um umsóknirnar, sem voru 108 talsins. Sótt var um ríflega fjórfalda þá upphæð sem til úthlutunar var. Tilkynnt var um úthlutunina við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu á degi barnsins, 26. maí 2019. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra héldu ávörp við það tilefni.
    Frekari umfjöllun um sjóðinn, verklagsreglur hans og aðgerðaáætlun í menningu barna og ungmenna er að finna á heimasíðu Rannís ásamt upplýsingum um þau verkefni sem hlutu stuðning í þessari fyrstu úthlutun:
https://www.rannis.is/sjodir/menning-listir/barnamenningarsjodur/.

Framkvæmd vegna hluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hafin.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með þann hluta framkvæmdar þessarar þingsályktunar er varðar smíði nýs hafrannsóknaskips. Starfandi er sérstök nefnd, smíðanefnd, sem hefur umsjón með smíði skipsins, útboði og samningsgerð, og eftirlit með smíðinni og smíðakostnaði, en áætlað er að nýtt skip verði afhent um mitt ár 2022.

Þingsályktun 1/149 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 5. desember 2018 – þskj. 607.
Framkvæmd lokið.
    Með ályktuninni lýsti Alþingi, með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, yfir stuðningi við fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er fól í sér að í stað velferðarráðuneytis kæmi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti. Ákvörðun um framangreint var tekin með útgáfu forsetaúrskurðar nr. 118/2018, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, sbr. einnig forsetaúrskurði nr. 119/2018 og 120/2018, og tóku breytingarnar gildi 1. janúar 2019.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 19/148 um aðgengi að stafrænum smiðjum, 6. júní 2018 – þskj. 1116 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Í gangi er sameiginleg vinna innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis um hvernig rekstrargrundvöllur stafrænna smiðja verði best tryggður. Fyrir liggja drög að stöðuskýrslu um samvinnu ráðuneytanna um tillögur að framkvæmd þingsályktunartillögu um aðgengi að stafrænum smiðjum.
    Stafrænar smiðjur veita aðgang að stafrænni framleiðslutækni sem gerir notendum kleift að þróa áþreifanlegar lausnir með því að fylgja hugmynd eftir til afurðar. Starfsemi stafrænna smiðja er í samræmi við áherslur stjórnvalda um aukna samvinnu milli skóla og atvinnulífs og stuðning við frumkvöðlamennsku og skapandi starfsemi um land allt. Þá er sérstaklega getið um starfsemi stafrænna smiðja í Nýsköpunarstefnu sem lögð var fram í október 2019.
    Ráðuneytunum var falið að vinna áætlun að uppbyggingu og reksturs stafrænna smiðja sem verði opnar grunnskóla- og framhaldsskólanemum og almenningi. Lagt er til að tengja þessa frumvinnu við aðra opinbera stefnumótun og áherslur um stafrænar smiðjur í fjárlögum 2020 hjá báðum ráðuneytum.

Þingsályktun 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 11. júní 2018 – þskj. 1244.
Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktuninni koma fram áhersluatriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku. Landsnet er bundið af þeim áhersluatriðum við gerð kerfisáætlunar sinnar um uppbyggingu flutningskerfisins og hefur efni þingsályktunarinnar komið fram í síðustu kerfisáætlunum Landsnets, í samræmi við ákvæði raforkulaga og þingsályktunarinnar. Jafnframt er í þingsályktuninni kveðið á um sjálfstæða greiningarvinnu á möguleikum jarðstrengja í flutningskerfinu og liggur nú fyrir skýrsla óháðs aðila þess efnis.

Þingsályktun 32/148 um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins, 18. júlí 2018 – þskj. 1364 (sameiginleg með forsætisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti).
Framkvæmd vegna hluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið forsætisráðuneytis á bls. 3.

DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga, 30. apríl 2018 – þskj. 900 (sameiginleg með forsætisráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið forsætisráðuneytis á bls. 2.

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 28/148 um skattleysi uppbóta á lífeyri, 12. júní 2018 – þskj. 1268 (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti).
Framkvæmd lokið.
    Með ályktun Alþingis um skattleysi uppbóta á lífeyri, nr. 28/148, var fjármála- og efnahagsráðherra falið að leggja fram lagafrumvarp, eigi síðar en 1. nóvember 2018, sem leysti uppbætur á lífeyri undan skattskyldu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Samkvæmt ályktuninni átti skattfrelsið einnig að gilda um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt sömu lögum. Við gerð frumvarpsins skyldi m.a. haft samráð við félags- og jafnréttismálaráðherra með það að markmiði að tryggja að uppbót á lífeyri teljist ekki til skattskyldra tekna og skerði þar með ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.
    Hinn 7. desember 2018 samþykkti Alþingi lög nr. 133/2018 um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu). Þar sem bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð teljast ekki til tekna í skilningi III. kafla laga um almannatryggingar var ekki þörf á því að kveða sérstaklega á um að undanþága frá skattskyldu framangreindra uppbóta á lífeyri skyldi ekki skerða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 3/148 um gerð stofnefnahagsreikninga fyrir ríkissjóð í heild og einstaka ríkisaðila í A-hluta, 8. mars 2018 – þskj. 476.
Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin lýsir meginaðferðum við innleiðingu breyttra reikningsskila samkvæmt lögum um opinber fjármál, með áherslu á stofnefnahagsreikning. Í efnahagsreikninginn eru teknir inn nýir flokkar eigna og skuldbindinga í áföngum á þremur árum. Framgangi verkefnisins hefur verið lýst í ríkisreikningum 2017 og 2018. Með næsta ríkisreikningi verður innleiðingu nýrra reikningsskila samkvæmt þingsályktuninni lokið.

Þingsályktun 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 22. mars 2018 – þskj. 625.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 4. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem kveður á um að ríkisstjórn skuli, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggi fram sem tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er. Fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp byggja í meginatriðum á þingsályktuninni.
    Í fjárlögum og þingsályktun um fjármálaáætlun er að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Þingsályktun 11/148 um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, 25. apríl 2018 – þskj. 853.
Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktunartillögunni var fjármála- og efnahagsráðherra falið að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra.
    Lagt var til að ráðherra skipaði starfshóp til þess að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Tillagan var áður flutt á 147. löggjafarþingi (17. mál).
    Í vinnslu hafa verið greiningar á verklagi og ferlum og framkvæmd opinberra verkefna og þar verið m.a. horft til skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins „Lykiltölur úr skilamötum FSR 1998–2016“. Helstu niðurstöður þar sýna að hlutfallslegt frávik samanlagðs raunkostnaðar og kostnaðaráætlana án viðbótarverka í öllum verkefnum á verðlagi í desember 2018 er 1,8%. Sé horft til stærðar verkefna og frávik skoðuð er vegið meðalfrávik raunkostnaðar og áætlana fyrir öll verkefnin 4,5%. Yfir tímabilið 1998–2016 eru 56 verkefni eða 40% innan áætlunar og 83 eða 60% yfir áætlun. Nánar greint þá er 61 verkefni 5% eða meira yfir áætlun, 43 verkefni eru 5% eða meira undir áætlun og 35 verkefni eru þar á milli.
    Unnin var samantekt af Háskólanum í Reykjavík um stöðu sambærilegra verkefna erlendis. Leitað verður umsagnar félaga og stofnana ríkisins sem fara með framkvæmdir, svo sem Framkvæmdasýslu ríkisins, Landsvirkjunar, NLSH, Landsnets, Ríkiseigna o.fl. til að fá frekari tillögur að verklagi. Áfram verður unnið að því að útfæra nánari stefnumörkun á þessu sviði með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.
    Eins og fram kemur í þingmálaskrá 150. löggjafarþings 2019–2020 er einnig stefnt að því að leggja fram nýja heildarlöggjöf um skipan opinberra framkvæmda og fasteignaumsýslu ríkisins. Frumvarpið mun hafa að geyma ákvæði um hagkvæmnismat, áhættugreiningu og gæðatryggingu auk ákvæða um um fjárfestingaráætlun og breytta skipan stofnana.

Þingsályktun 17/148 um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar, 8. maí 2018 – þskj. 951.
Framkvæmd lokið.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði starfshóp sérfræðinga til að meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við aðrar vísitölur en vísitölu neysluverðs þann 18. október 2018. Í honum áttu sæti fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands. Skýrsla starfshópsins var birt á vef Alþingis 11. mars 2019.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (húsnæðisliður vísitölu neysluverðs), 8. júní 2018 – þskj. 1205.
Framkvæmd lokið.
    Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda) voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is í júlí 2019 (mál nr. 178/2019). Frumvarpið er á þingmálaskrá og er gert ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir því í byrjun nóvember 2019.

Þingsályktun 23/148 um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023, 8. júní 2018 – þskj. 1176.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem kveður á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 byggist í meginatriðum á þeirri fjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Í fjárlögum og þingsályktun um fjármálaáætlun er að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Þingsályktun 25/148 um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, 11. júní 2018 – þskj. 1243.
Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktuninni var fjármála- og efnahagsráðherra falið að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta sem vinna hjá hinu opinbera. Einnig var honum falið að ráðast í greiningu á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til að draga fram kynbundinn launamun.
    Eftir samþykkt þingsályktunartillögunnar hefur kjaramálaráð, sem er formlegur samráðsvettvangur ríkis, sveitarfélaga og Reykjarvíkurborgar, samþykkt sameiginlega kjarastefnu. Markmið kjarastefnunnar er m.a. að tryggja jafnræði í launasetningu opinberra starfsmanna, líkt og þingsályktunin kveður á um, og einnig að auka gagnsæi um laun og önnur kjör. Framangreint er ávarpað í kjaraviðræðum opinberra aðila. Í kjarastefnunni kemur einnig fram að opinberir vinnuveitendur vinni saman að bættri launatölfræði og samræmdri nýtingu upplýsinga um laun og launaþróun.
    Greiningarvinnan sem mælt er fyrir um er sú sama og fram fer í starfshópi sem var settur á laggirnar í samræmi við samkomulag, undirritað 19. september 2016, um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum vinnuveitenda ríkis, sveitarfélaga og Reykjarvíkurborgar; ásamt þremur fulltrúum bandalaga opinberra starfsmanna. Markmið vinnunnar er að meta og jafna launamun milli hins opinbera og almenna markaðarins. Greiningarvinnan er nauðsynleg til að komast að hlutlægri niðurstöðu í þeim efnum en hún nýtist einnig til leggja mat á launadreifingu og launamun hinna ýmsu starfsstétta hjá hinu opinbera.

Þingsályktun 28/148 um skattleysi uppbóta á lífeyri, 12. júní 2018 – þskj. 1268 (sameiginleg með félagsmálaráðuneyti).
Framkvæmd lokið.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktun undir lið félagsmálaráðuneytis á bls. 5.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið heilbrigðisráðuneytis (þá velferðarráðuneytis) á umræddu tímabili.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 4/148 um útgáfu vestnorrænnar söngbókar, 8. mars 2018 – þskj. 477.
Framkvæmd ekki hafin.
    Þingsályktunin byggir á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2017 og er samhljóða henni. Í gildi er samningur frá 1. nóvember 2017 um menningarsamstarf milli Færeyja, Grænlands og Íslands. Með samningnum, sem er ótímabundinn, er fylgiskjal þar sem fjallað er um þau verkefni sem löndin ætla að vinna að næstu fjögur árin (2019–2022).
    Á yfirstandandi tímabili verður unnið að verkefnum á sviði kvikmyndagerðar, verkefnum til að efla frjáls félagasamtök á sviði lista, menningar og íþrótta, þróun tölvuleikja og verkefnum tengdum vestnorrænum tungumálum og menningu og tengslum þeirra við önnur tungumál og menningu. Við ákvörðun flestra þessara verkefna voru hafðar til hliðsjónar ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar hafa verið á síðastliðnum árum. Til samningsins veita löndin þrjú hvert um sig 200 þús. dönskum krónum árlega.
    Ekki er unnt að taka upp ný verkefni nema að viðbótarfé fáist. Þegar kemur að því að gera nýtt fylgiskjal með samningnum fyrir árin 2023–2026 verður mögulegt að horfa til þessa verkefnis.

Þingsályktun 12/148 um úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla, 25. apríl 2018 – þskj. 854.
Framkvæmd lokið.
    Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að reka ,,efterskole“ að danskri fyrirmynd og þetta skólaform er nánast óþekkt. Ekki eru áform uppi um að kanna möguleikann á að setja upp vestnorrænan ,,efterskole“.
    Á hinn bóginn má nefna að fjórar menntastofnanir ungmenna, þ.e. Gribskov-íþróttahúsið í Danmörku, GUX Sisimiut á Grænlandi, Miðnám á Kambsdali í Færeyjum og Verzlunarskóli Íslands hafa sameinast um tilraunaverkefni þar sem framhaldsskóli er stofnaður með þátttöku sjö nemenda frá hverju landi. Nemendur stunda nám við allar fjórar menntastofnanirnar. Fyrst í Danmörku, síðan í Færeyjum og á Íslandi og loks á Grænlandi. Námsleiðir og kennsla fylgja dönsku námskránni og stúdentsprófið verður svipað og í dönskum framhaldsskóla.

Þingsályktun 13/148 um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum, 25. apríl 2018 – þskj. 855.
Framkvæmd lokið.
    Nú þegar eru góð tækifæri til norræns samstarfs stofnana um sjávarútvegstengda menntun á háskólastigi. Nefna má samninginn milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðgang að framhaldsmenntun, NORDPLUS-áætlunina, Reykjavíkuryfirlýsingu og samvinnu um gagnkvæma viðurkenningu á prófum.
    Miðað við sjálfræði háskólanna í tengslum við stefnumótun og ákvarðanir um námsbrautir og rekstur er vafamál hvort stjórnvöld ættu að hefja verkefni af þessu tagi. Svipuð rök eiga við um samvinnu á framhaldsskólastigi þar sem vísað er til norræna samkomulagsins um menntun ungmenna.

Þingsályktun 19/148 um aðgengi að stafrænum smiðjum, 6. júní 2018 – þskj. 1116 (sameiginleg með atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 4.

Þingsályktun 20/148 um gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls, 6. júní 2018 – þskj. 1117.
Framkvæmd lokið.
    Starfshópur var skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra 10. september 2018 og falið það verkefni að gera tillögur til ráðherra á grundvelli þingsályktunarinnar um kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls sem verði aðgengileg til lestrar á nettengdum búnaði. Starfhópurinn skilaði skýrslu með niðurstöðum og tillögum í nóvember 2018.

Þingsályktun 32/148 um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins, 18. júlí 2018 – þskj. 1364 (sameiginleg með forsætisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið forsætisráðuneytis á bls. 3.

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 24/148 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, 11. júní 2018 – þskj. 1242.
Framkvæmd hafin.
    Framkvæmd byggðaáætlunar hefur farið vel af stað og eru flestar aðgerðir komnar í framkvæmd. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun leggja skýrslu fyrir Alþingi í nóvember 2019 um framkvæmd byggðaáætlunar þar sem m.a. koma fram upplýsingar um stöðu hverrar aðgerðar, sem alls eru 54. Þá er að finna upplýsingar um stöðuna á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 15/148 um rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi, 25. apríl 2018 – þskj. 857.
Framkvæmd hafin.
    Ísland hefur ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að efna til rannsókna á örplasti í lífverum sjávar innan Vestnorræna ráðsins enda er unnið að mörgum verkefnum um sömu málefni innan Norrænu ráðherranefndarinnar sem öll löndin eiga aðild að. Í norrænu samstarfi er mikil áhersla lögð á að nýta fjármagn og mannauð sem best og því mikilvægt að forðast að unnið sé að sams konar eða sambærilegum verkefnum á tveimur eða fleiri stöðum.
    Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 og í Norðurskautsráðinu 2019–2021. Í tengslum við formennsku í þessum stofnunum leggur Ísland sérstaka áherslu á málefni hafsins og þar á meðal leiðir til þess að draga úr áhrifum plastmengunar í umhverfi sjávar, sérstaklega á norðurslóðum.
    Eitt af stærstu formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, NordMar Plastic ( nordmarplastic.com/about/), hófst í febrúar 2019 og er ætlað að samræma aðferðir á sviði rannsókna á plastmengun í hafi og milli landa. Margar stofnanir, bæði innlendar og erlendar, taka þátt í starfinu.
    Ný norræn samstarfsáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum gekk í gildi 1. janúar 2019. Áætlunin er stefnumótandi fyrir starf Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu sex ára og samþykkt af umhverfis- og loftslagsráðherrum Norðurlanda, Álands, Færeyja og Grænlands. Í áætluninni er m.a. lögð áhersla á að styrkja aðgerðir vegna mengunar hafsins, sérstaklega plasts og örplasts.
    Á vettvangi Norðurskautsráðsins er hafið einnig í brennidepli. Norðurskautsráðið mun undir forystu Íslands m.a. vinna að svæðisbundinni aðgerðaáætlun sem ætlað er að draga úr úrgangi í hafi, þar á meðal plasti og örplasti. Efnt verður til alþjóðlegrar vísindaráðstefnu í Reykjavík dagana 21.–23. apríl 2020 um mengun hafsins og sjónum sérstaklega beint að plasti og örplasti. Markmið ráðstefnunnar er að kynna og ræða niðurstöður vísindarannsókna sem geta nýst stjórnvöldum við stefnumótun og ákvarðanatöku, sjá nánar á eftirfarandi vefslóð: www.arcticplastics2020.is/index.php/en/.
    Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum skráð kerfisbundið magn sjáanlegs plasts sem kemur í veiðarfæri í leiðöngrum stofnunarinnar. Auk þess hefur stofnunin skráð það plast sem er sjáanlegt í magasýnum við rannsóknir á fæðu fiska í vor- og haustralli. Magasýni eru greind í allmörgum tegundum, m.a. þorski, ýsu, ufsa, síld og makríl. Niðurstöðurnar hafa m.a. verið notaðar í samnorrænt verkefni, FISHPLAST, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Þingsályktun 27/148 um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029, 11. júní 2018 – þskj. 1245.
Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029 var samþykkt á Alþingi þann 11. júní 2018 og var það gert á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016. Þar ályktaði Alþingi að á árunum 2018–2029 yrði unnið að uppbyggingu innviða í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í áætluninni.
    Í henni er kveðið á um fjölda aðgerða á sviði stefnumótunar um verndun, fræðslu og innviðauppbyggingu á þeim stöðum sem búa við álag af völdum aukinnar ferðamennsku. Stefnumótandi landsáætlun felur í sér markmið og aðgerðir um:
     a.      stýringu og sjálfbæra þróun,
     b.      vernd náttúru og menningarsögulegra minja,
     c.      öryggismál,
     d.      skipulag og hönnun, og
     e.      ferðamannaleiðir.
    Hvað varðar tímaramma þá skiptast aðgerðir áætlunarinnar í tvo flokka: sífelluverkefni og verkefni með tiltekinni afurð sem innleiða á á tímabilinu 2018–2020. Fyrir liggja ítarleg drög að innleiðingaráætlun 2018–2020 sem unnið er eftir.
    Vorið 2018 var skipaður samstarfshópur um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum og vinnur hópurinn m.a. að þeim aðgerðum í stefnumarkandi landsáætlun sem lúta að hönnun staða og innviða, efnisvali, árangursríkum og samræmdum merkingum, og fræðslu til framkvæmdaraðila. Vinna hópsins er vel á veg komin. Verkefni í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni tengist vinnu hópsins með beinum hætti. Skipa á tvo sambærilega hópa til viðbótar á árinu og lúta þeir annars vegar að ferðamannaleiðum og hins vegar að öryggismálum. Unnið er að aðgerðum er varða vernd náttúru og menningarsögulegra minja innan ráðuneytisins og í samráði við önnur ráðuneyti og aðila eins og við á.
    Í samræmi við 4. gr. laga nr. 20/2016 hefur einnig verið unnið að þriggja ára verkefnaáætlun. Hún á að rúmast innan ramma tólf ára landsáætlunar og útfæra nánar framkvæmd og ábyrgð á verkefnum, sem og að forgangsraða þeim. Snúa verkefnin einkum að undirbúningi, framkvæmd og viðhaldi innviða á stöðum sem búa við mikið álag af völdum aukinnar ferðamennsku. Slík áætlun hefur komið út tvívegis, í mars 2018 og mars 2019, og er nú unnið að þriðju útgáfu hennar.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 5/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 595.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 12. apríl 2018 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2018.

Þingsályktun 6/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 596.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 12. apríl 2018 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2019.

Þingsályktun 7/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2017 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 597.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 12. apríl 2018 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2018.

Þingsályktun 8/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 598.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 12. apríl 2018 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Liechtenstein um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 9/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. mars 2018 – þskj. 599.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 12. apríl 2018 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2018.

Þingsályktun 21/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 7. júní 2018 – þskj. 1143.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 20. júlí 2018 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 22/148 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (almenna persónuverndarreglugerðin), 7. júní 2018 – þskj. 1144.
Framkvæmd lokið.
    Ísland staðfesti ákvörðun á fundi sameiginlegu nefndarinnar 6. júlí 2018. Ákvörðunin gekk í gildi 20. júlí 2018.

Þingsályktun 2/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta), XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 691.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 25. apríl 2019 en samkvæmt gildistökuákvæði ákvörðunarinnar mun hún ekki taka gildi fyrr en sama dag og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019.

Þingsályktun 3/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 692.
Framkvæmd ekki hafin.
    Stefnt er að tilkynningu um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 1. nóvember 2019.

Þingsályktun 4/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 693.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 25. apríl 2019 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 5/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 694.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 25. apríl 2019 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2019.

Þingsályktun 6/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn, 12. desember 2018 – þskj. 695.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 25. apríl 2019 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 7/149 um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, 13. desember 2018 – þskj. 730.
Framkvæmd lokið.
    Samkomulagið, sem er ótímabundið, var staðfest af forseta Íslands 20. desember 2019.

Þingsályktun 8/149 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018, 13. desember 2018 – þskj. 731.
Framkvæmd lokið.
    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, hefur runnið sitt skeið.

Yfirlit um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2017.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 3/146 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 22. mars 2017 – þskj. 431.
Framkvæmd lokið.
    Hinn 24. janúar 2017 lagði forsætisráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands í samræmi við 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem leitað var eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Fólu þær breytingar í sér að í stað innanríkisráðuneytis kæmi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og ráðuneytum yrði þar með fjölgað úr átta í níu. Var tillagan samþykkt með framangreindri ályktun Alþingis. Í kjölfarið voru gefnir út þrír nýir forsetaúrskurðir, forsetaúrskurður nr. 14/2017 um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, forsetaúrskurður nr. 15/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og forsetaúrskurður nr. 16/2017 um skiptingu starfa ráðherra. Úrskurðirnir voru birtir í A-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017 og tóku gildi 1. maí það ár.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 18/146 um aðgerðaáætlun um orkuskipti, 31. maí 2017 – þskj. 1002.
Framkvæmd hafin.
    Samkvæmt þingsályktuninni er ráðherra sem fer með málefni er varða orkumál falið að vinna að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðaáætlun um orkuskipti hefur verið ýtt úr vör þar sem fram koma mælanleg markmið um orkuskipti, áhersla á hagræna hvata, uppbyggingu innviða, orkusparnað, samstarf og rannsóknir, þróun og nýsköpun.
    Unnið er að ýmsum verkefnum í samræmi við aðgerðaáætlun sem fylgdi þingsályktuninni.

DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningarréttur erlendra ríkisborgara), 29. maí 2017 – þskj. 941.
Framkvæmd hafin.
    Í október 2018 skipaði forseti Alþingis starfshóp um endurskoðun kosningalaga. Vinnur starfshópurinn að því að gera ein heildarlög fyrir allar almannakosningar. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki verkefni sínu 1. desember 2019. Hefur því ekki verið hafist handa við sérstaka skoðun á þeim tillögum til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna sem fram koma í nefndarálitinu.

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 15/146 um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar, 31. maí 2017 – þskj. 999.
Framkvæmd lokið.
    Hinn 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2017–2018. Áætlunin gilti þar til ný reglubundin áætlun, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, tæki gildi en þó ekki lengur en til 1. júní 2018. Í framkvæmdaáætluninni voru tilgreind 17 verkefni í fimm flokkum, sem eru gagnreyndar aðferðir, bætt verklag, barnaverndarlöggjöf, rannsóknir og fóstur. Af 17 verkefnum í framkvæmdaáætluninni er undirbúningur og vinnsla hafin í 11 aðgerðum. Unnið er að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í barnavernd fyrir árin 2018–2022 og er gert ráð fyrir að þau verkefni sem ekki var lokið í fyrri framkvæmdaáætlun haldi áfram í þeirri nýju.

Þingsályktun 16/146 um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, 31. maí 2017 – þskj. 1000.
Framkvæmd hafin.
    Hinn 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismála-ráðherra um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. Framkvæmdaáætlunin tók við af fyrri þingsályktun sem unnið var eftir árin 2012–2017. Í áætluninni eru tilgreind 39 verkefni á sjö málasviðum sem lúta að aðgengi, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstæðu lífi og þróun þjónustu. Meginmarkmið framkvæmdaáætlunarinnar eru að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Þannig megi stuðla að því að fatlað fólk, börn jafnt sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi og njóti mannréttinda til jafns við aðra.
    Starfshópur sem skipaður var af félags- og jafnréttismálaráðherra hefur það hlutverk að styðja við eftirfylgni og framkvæmd stefnunnar. Starfshópnum er einnig gert að skila árlega greinargerð til ráðherra um stöðu og framgang verkefna.
    Á þessu ári hefur áfram verið unnið að því að framfylgja aðgerðum í áætluninni. Nokkrum aðgerðum er lokið en þær lúta fyrst og fremst að aðgengismálum, heilsueflingu, fræðslumálum og sjálfstæðu lífi. Má þar nefna fræðslu fyrir lögreglu, ákæruvald og dómskerfi við rannsókn og meðferð ofbeldisbrota, gerð sérstaks fræðsluefnis fyrir heilbrigðisstarfsfólk um nálgun í þjónustu við fatlað fólks o.s.frv. Nú þegar tímabil áætlunarinnar er hálfnað er um helmingur þeirra 39 aðgerða sem settar eru fram í áætluninni komnar til framkvæmda eða eru í undirbúningi, með aðkomu fjölmargra aðila. Þá eru í undirbúningi nokkur verkefni, utan þeirra sem skýrt er kveðið á um í áætlun, sem styðja við markmið áætlunarinnar og stefnunnar í heild en árlega er ákveðnu fjármagni af áætluninni veitt til slíkra verkefna.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 23/146 um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022, 1. júní 2017 – þskj. 1063.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveður á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 byggist í meginatriðum á þeirri fjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Í fjárlögum og þingsályktun um fjármálaáætlun er að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Þingsályktun 4/146 um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022, 6. apríl 2017 – þskj. 594.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 4. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveður á um að ríkisstjórn skuli, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggi fram sem tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er. Fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp byggja í meginatriðum á þingsályktuninni.
    Í fjárlögum og þingsályktun um fjármálaáætlun er að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 19/146 um gerð heilbrigðisáætlunar, 31. maí 2017 – þskj. 1003.
Framkvæmd hafin.
    Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi 3. júní 2019. Heilbrigðisráðherra hefur lagt framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára fyrir Alþingi og eftir henni verður unnið. Heilbrigðisstefnan hefur verið kynnt í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, í samræmi við heilbrigðisstefnu til 2030, verður lagt fram á Alþingi í nóvember 2019.

Þingsályktun 20/146 um heildstæða stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun, 31. maí 2017 – þskj. 1004.
Framkvæmd hafin.
    Nú þegar heilbrigðisstefna til ársins 2030 hefur verið samþykkt á Alþingi verður horft til einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar, eins og málefna einstaklinga með heilabilun.
    Heilbrigðisráðherra fékk Jón Snædal öldrunarlækni til að skrifa drög að stefnu um þjónustu við einstaklinga með heilabilun og skilaði hann ráðherra þeim drögum í júní síðastliðinn. Drögin fóru þá í samráðsgátt stjórnvalda fram til ágústloka og bárust 13 athugasemdir sem nú er unnið úr. Áætluð lok þeirrar vinnu eru í október 2019.

Þingsályktun 17/146 um lyfjastefnu til ársins 2022, 31. maí 2017 – þskj. 1001.
Framkvæmd hafin.
    Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á 150. löggjafarþingi er frumvarpi til lyfjalaga. Með nýjum lyfjalögum eru m.a. innleidd þau meginmarkmið sem fram koma í lyfjastefnu um að tryggja aukið aðgengi að lyfjum, tryggja gæði, virkni og öryggi lyfja og skynsamlega og hagkvæma notkun þeirra. Nokkrir aðrir þættir lyfjastefnu eru þegar komnir á framkvæmdastig, svo sem úrræði sem dregið geta úr mis- og ofnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn, bætt rafræn umsýsla lyfja o.fl.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 22/146 um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, 31. maí 2017 – þskj. 1006 (sameiginleg með umhverfis- og auðlindaráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti hafa tilnefnt fulltrúa til að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Ekki er ljóst hvenær tillögur munu liggja fyrir um með hvaða hætti best er að vinna að verkefninu.

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

Þingsályktun 21/146 um jafnræði í skráningu foreldratengsla, 31. maí 2017 – þskj. 1005.
Framkvæmd lokið.
    Þjóðskrá Íslands hefur lokið við að skrá vensl í þjóðskrá en nú er gengið frá venslaskráningu samstundis í þjóðskrá. Venslaskráning er 99% en 1% barna eru börn sem ekki er hægt að vensla, t.d. vegna þess að gögn vantar, foreldri er ekki á skrá eða ekki vitað hver er. Hægt er að nálgast upplýsingar um vensl á „mínum síðum“ á Ísland.is auk ýmissa annarra upplýsinga. Upplýsingum um vensl er hins vegar ekki miðlað enn sem komið er þar sem lagaheimild skortir. Gert er ráð fyrir að á grundvelli nýrra laga um skráningu einstaklinga, en frumvarp þess efnis er í vinnslu, verði settar sérstakar reglur um miðlun upplýsinga úr venslaskrá og forsjárskrá.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 22/146 um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, 31. maí 2017 – þskj. 1006 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið mennta- og menningarmálaráðuneytis á bls. 17.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 7/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 16. maí 2017 – þskj. 800.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 13/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 854.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2017.

Þingsályktun 10/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 851.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2017.

Þingsályktun 11/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 852.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2017.

Þingsályktun 12/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 853.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2017.

Þingsályktun 8/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 849.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2017.

Þingsályktun 9/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 850.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. maí 2017 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Liechtenstein um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 6/146 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn, 22. maí 2017 – þskj. 665.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 28. apríl 2017 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2017.

Þingsályktun 5/146 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu, 6. apríl 2017 – þskj. 595.
Framkvæmd lokið.
    Fríverslunarsamningurinn milli Íslands, Noregs og Georgíu tók gildi 1. september 2017 og milli Sviss, Liechtenstein og Georgíu 1. maí 2018.

Þingsályktun 2/148 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2017, 30. desember 2017 – þskj. 147.
Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem einungis var til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 26. júlí 2017.

Yfirlit um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2016.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 26/145 um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, 13. apríl 2016 – þskj. 1166.
Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu var samþykkt á Alþingi 13. apríl 2016, en hún byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.
    Lög nr. 98, um þjóðaröryggisráð, voru samþykkt á Alþingi 1. september 2016. Hefur ráðið komið saman átta sinnum. Lögbundin verkefni ráðsins eru eftirfarandi:
          hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis,
          vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál,
          meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum,
          fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi,
          stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti,
          beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál, eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál,
          upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar,
          gera tillögur að breytingum á þjóðaröryggisstefnunni telji ráðið ástæðu til þess,
          upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar,
          funda reglulega og funda sérstaklega ef þeir atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi.

Þingsályktun 52/145 um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, 2. júní 2016 – þskj. 1500.
Framkvæmd hafin.
    Gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, sbr. þingsályktun nr. 52/145, verður unnin með og samhliða langtímaáætlanagerð á grundvelli laga um opinber fjármál, sbr. nánar svar forsætisráðherra við fyrirspurn um málið á 146. löggjafarþingi, þingskjal 306 89. mál. Unnið er að gerð langtímaáætlunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þingsályktun 56/145 um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, 7. september 2016 – þskj. 1640.
Framkvæmd hafin.
    Skýrsla félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála ásamt greinargerð um framkvæmd áætlunar í jafnréttismálum var lögð fyrir jafnréttisþing, sbr. lög nr. 10/2008, sem haldið var 7.–8. mars 2018. Í skýrslu ráðherra var gerð grein fyrir stöðu verkefna í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum fyrir tímabilið. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og voru þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að koma í framkvæmd á gildistíma hennar. Áhersla var lögð á að öll ráðuneyti hafi hlutverki að gegna við framkvæmd áætlunarinnar og er fyrirkomulaginu ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti.
    Með nýrri framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2020–2023 sem forsætisráðherra, sem fer nú með jafnréttismál, mælti fyrir á Alþingi á 149. löggjafarþingi 2018–2019 fylgdi þskj. 787 – 254. mál um framfylgd aðgerða úr fyrri framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2016–2019.
    Á jafnréttisþingi sem haldið verður þann 20. febrúar 2020 verður í skýrslu ráðherra gerð grein fyrir stöðunni miðað við árslok 2019 en sú skýrsla mun fjalla um tímabilið 2018–2019.

Þingsályktun 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, 13. október 2016 – þskj. 1828 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun þessi var samþykkt í tilefni þess að árið 2018 væri öld liðin frá því er íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918. Ályktunin felur í sér að ráðast skuli í eftirfarandi verkefni í tilefni af fullveldisafmælinu. Ábyrgð á verkefnum skiptist milli Alþingis og ráðuneyta Stjórnarráðsins. Framkvæmd ályktunarinnar er að mestu leyti lokið, en staðan, samkvæmt upplýsingum frá ábyrgðaraðilum, á framkvæmd verkefna hennar er sem hér segir:
     a.      Kjósa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktunina, nefndin ráði framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum og eins og fjárveitingar leyfa og starfi árin 2017 og 2018. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                 Sjö manna undirbúningsnefnd var kjörin af Alþingi 22. desember 2016 og hóf störf í janúar 2017. Eftir síðustu Alþingiskosningar fjölgaði fulltrúum í nefndinni um tvo þar sem í þingsályktun er kveðið á um að í nefndinni skuli sitja fulltrúar allra þingflokka. Sæti í nefndinni áttu þá níu einstaklingar. Ráðinn var framkvæmdastjóri vegna undirbúnings og framkvæmdar hátíðarhaldanna sem hóf störf 1. júní 2017.
                 Afmælisnefnd hélt úti vefsíðunni www.fullveldi1918.is þar sem finna má heildardagskrá afmælisársins. Strax í upphafi tók afmælisnefnd þá ákvörðun að leita til stofnana, félagasamtaka og landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins. Lögð var áhersla á vönduð og fjölbreytt verkefni sem hafa skírskotun til tilefnisins hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Hvatt var til verkefna sem fela í sér nýsköpun, samstarf og þátttöku almennings auk þess sem lögð var áhersla á að ná til barna og ungs fólks. Viðbrögð voru góð og barst afmælisnefnd fjöldi tillagna. Valdar voru um 100 tillögur sem styrktar voru og prýða dagskrána sem hófst 1. janúar 2018 og stóð út allt árið. Auk þess var fjöldi þátttökuviðburða á dagskrá afmælisársins. Viðburðirnir fóru fram um land allt, afar fjölbreyttir og tengjast flestum sviðum samfélagsins. Með þessari aðferð tókst að virkja mikinn fjölda fólks til beinnar þátttöku og um leið varð til fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá sem almenningur í landinu hefur notið. Þátttaka ýmissa stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja í atvinnulífinu var forsenda þess að markmið afmælisnefndar næðist um að við fögnuðum öll saman 100 ára fullveldi Íslands.
                 Á vefsíðu afmælisnefndarinnar, sem nú hefur lokið stöfum, er margvíslegur fróðleikur og fréttir frá afmælisárinu. Afmælisnefndin hélt jafnframt úti Facebook-síðunni Fullveldi Íslands þar sem viðburðir á dagskrá afmælisársins voru kynntir. Þessi vettvangur var einnig notaður til að kynna samstarfsverkefni, til dæmis Vísindavefinn sem svaraði einni spurningu á viku um hvaðeina sem tengist árinu 1918.
     b.      Halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018 en þann dag fyrir einni öld var samningum um fullveldi Íslands lokið. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                 Vorið 2017 var skipaður vinnuhópur innan skrifstofu Alþingis sem hafði á hendi undirbúning að Þingvallafundinum og jafnframt samráð við þá aðila utan þings sem kæmu að undirbúningnum. Í júlí 2017 óskaði skrifstofan eftir samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins um framkvæmdir við smíði þingpalls fyrir hátíðarþingfundinn, þ.e. frumathugun á verkinu, áætlunargerð og eftirlit. Um svipað leyti var síðan leitað eftir því við Ríkisútvarpið að það myndi sýna beint frá þingfundinum. Auk þess var leitað til annarra aðila um samstarf; lögreglu, þjóðgarðsins á Þingvöllum og Vegagerðarinnar.
                 Þegar undirbúningur hátíðarfundarins hófst var ljóst að veigamesti framkvæmda- og kostnaðarþátturinn yrði pallur fyrir þingmenn og gesti þingsins. Þegar hátíðarþingfundir voru haldnir árið 1994 og 2000 á Þingvöllum voru byggðir timburpallar. Eftir nokkra umfjöllun um þingpalla var ákveðið að leigja svokallaða sviðspalla, en það var talinn einfaldari og umhverfisvænni kostur. Aldrei var reiknað með fjölmenni á Þingvöllum miðvikudaginn 18. júlí, líkt og verið hafði á þjóðhátíðum á Þingvöllum áður. Allir væru þó velkomnir til Þingvalla til að fylgjast með hátíðarþingfundinum en ákveðið var að leggja meira í sjónvarpsútsendingu frá þingfundinum en á fyrri hátíðarfundum. Fáir gestir komu á fundinn en sjónvarpsáhorf reyndist mikið.
                 Eftir frumathugun og gerð fyrstu áætlana um uppsetningu þingpalla birti Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsingu í Fréttablaðinu um miðjan mars 2018 þar sem óskað var eftir tilboðum í leigu og uppsetningu sviðspalla. Frestur var gefinn til 6. apríl til að skila inn tilboðum. Aðeins tvö verðtilboð bárust.
                 Við könnun á innsendum verðtilboðum komu í ljós nokkrir ágallar á lægra tilboðinu og var þeim aðila gefinn frestur af Framkvæmdasýslu ríkisins til að bæta úr ella yrði verkkaupa (Alþingi) ráðlagt að hafna því. Við þeim óskum var ekki orðið og tilboðinu því hafnað. Eftir það lá ljóst fyrir að gengið yrði til samstarfs við Exton ehf. um leigu og uppsetningu pallanna.
                 Snemma í undirbúningnum hófust umræður um nauðsynlegan tæknibúnað (hljóð, lýsingu, rafmagn o.s.frv.) og kröfur til hans. Að mörgu var að hyggja, hljóð þurfti að berast nokkra leið frá þingpallinum, lýsing að henta beinni sjónvarpsútsendingu sem mikill metnaður var lagður í og þá þurfti að leiða rafmagn að þingstaðnum. Eftir afgreiðslu tilboða í uppsetningu þingpallanna var kallað eftir verðtilboðum í stærstan þátt tæknimálanna frá þeim fyrirtækjum sem upphaflega höfðu lagt inn verðtilboð í pallana. Unninn var samanburður milli þessara tilboða og var niðurstaðan sú að taka tilboði frá Exton ehf. í tæknimálin í heild sinni (hljóð- og ljósabúnað ásamt burðarkerfi og upphengibúnaði auk vinnu tæknimanna við uppsetningu búnaðarins og stýringu hans).
                 Hátíðarfundur Alþingis var haldinn að Lögbergi á Þingvöllum miðvikudaginn 18. júlí 2018, en hinn 18. júlí 1918 var samningum um fullveldi Íslands lokið með undirritun sambandslaganna sem tóku gildi 1. desember sama ár.
                 Á dagskrá þingfundarins á Þingvöllum var eitt mál, þ.e. tillaga formanna stjórnmálaflokkanna um verkefni í þágu barna og ungmenna og um rannsóknir er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins og nýtt hafrannsóknaskip. Tillagan var afgreidd á fundinum með umræðu og atkvæðagreiðslu.
                 Eftir hátíðarþingfundinn var boðið til móttöku í nýrri móttökumiðstöð á Hakinu.
                 Þingvellir eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og helgur staður fyrir þjóðina. Áhersla var því lögð á að reyna að mæta öllum kröfum um að vernda sem mest svæðið þar sem þingpallurinn var settur upp. Þegar pallar og allur búnaður hafði verið fjarlægður að kvöldi fundardags 18. júlí 2018 var ekki hægt að sjá að þar hefði verið fundur fyrr um daginn.
     c.      Fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi; jafnframt efni ríkisstjórnin af því tilefni til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit. (Ábyrgðaraðili: Forsætisráðuneytið.)
                 Fullveldishátíð 1. desember, í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, var undirbúin og skipulögð af forsætisráðuneytinu og var Kolbrún Halldórsdóttir, verkefnisstjóri. Dagskrá hátíðarhaldanna byggðist á list- og menningartengdum viðburðum sem voru í boði í helstu menningarstofnunum þjóðarinnar auk þess sem boðið var til veislu víða um landið.
                 Í upphafi undirbúnings var ákveðið að beina sjónum til framtíðar og leita til ungs fólks um hugmyndir að viðburðum dagsins. Það er því sýn þeirra til næstu 100 ára sem var leiðarstef dagskrárinnar. Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar var meginviðfangsefni þeirra listamanna, hönnuða, fræðimanna og vísindamanna sem lögðu hátíðinni til fjölbreytilegt efni og uppákomur. Í Reykjavík buðu helstu menningarstofnanir þjóðarinnar upp á list- og menningartengda viðburði auk þess sem viðburðir voru í boði í öllum landshlutum. Um var að ræða sýningar, samræður, spuna, söng og sögur af öllu tagi, sögur sem ungt fólk tók þátt í að velja, semja og útsetja. Horft var fram á veginn, til næstu 100 ára, með sögu síðustu aldar í farteskinu.
                 Hátíðin var sett við Stjórnarráðshúsið þar sem mannlíf og samfélag voru í brennidepli en líka náttúra og umhverfi. Sjónum var beint að íslenskri tungu en einnig varpað ljósi á þær breytingar sem eru að verða á samsetningu þjóðarinnar, sem er af fjölbreyttum uppruna, á margbreytilegum aldri, með ólíka getu, af öllum kynjum og talar 100 tungumál. Lögð var áhersla á að gera dagskráratriðin aðgengileg fyrir alla gegnum útvarp, sjónvarp og streymi á vef. Í lok dags var flutt hátíðardagskrá í Eldborg, Hörpu, í beinni sjónvarpsútsendingu RÚV.
                 Í aprílbyrjun 2018 auglýstu Ríkiskaup eftir tillögum í samkeppni annars vegar um hönnun og útlit 1200 fermetra viðbyggingar við gamla Stjórnarráðshúsið og hins vegar um skipulag Stjórnarráðsreits, sem afmarkast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.
                 30 tillögur bárust í samkeppninni vegna viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið og átta tillögur vegna skipulags Stjórnarráðsreits. Sérstök dómnefnd var skipuð, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands til að meta tillögur og voru verðlaun veitt fyrir bestu tillögurnar að mati dómnefndar í Safnahúsinu við Hverfisgötu 3. desember 2018. Um leið var opnuð sýning á öllum tillögum sem bárust í samkeppnirnar og var sýningin opin almenningi til 31. desember 2018. Fyrstu verðlaun í samkeppninni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið hlutu Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason hjá KURTOGPÍ og Garðar Snæbjörnsson, Jóhanna Høeg Sigurðardóttir og Ólafur Baldvin Jónsson. Fyrstu verðlaun í samkeppninni um skipulag Stjórnarráðsreits hlutu T.ark Arkitektar og SP(R)INT Studio (Karl Kvaran arkitekt (FAÍ) og skipulagsfræðingur, Ivon Stefán Cilia, arkitekt, FAÍ, Sahar Ghaderi, arkitekt Ph.D og Sara Mortazavi, arkitekt).
     d.      Fela undirbúningsnefnd að:
                  1.      Láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                      Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi var falið að vinna að ritun bókar um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd. Ber bókin heitið Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918.
                      Þá ritstýrði Guðmundur Jónsson greinasafni um inntak fullveldisréttar, sem inniheldur 10 fræðigreinar um það efni og ber heitið Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018. Sögufélag annaðist umsýslu og útgáfu bókanna samkvæmt samningi þar um og í samræmi við greinargerð með ályktuninni. Útgáfudagur var 8. nóvember 2018.
                  2.      Stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                      Sýningin Lífsblómið – Fullveldi Íslands í 100 ár var opnuð í Listasafni Íslands 17. júlí 2018. Sýningin var unnin í samstarfi við Árnastofnun, Þjóðskjalasafn Íslands og Listasafn Íslands . Lífsblómið fjallaði um fullveldi Íslands, forsendur þess og meginþætti í sjálfstæðisbaráttu og sjálfsmynd Íslendinga frá árinu 1918 og til dagsins í dag. Á sýningunni voru sýnd í fyrsta skipti á Íslandi tvö af helstu miðaldahandritum Íslendinga, sem fengin voru að láni frá Danmörku, Reykjabók Njálu og Ormsbók Snorra-Eddu. Auk þess voru á sýningunni handrit úr safnaeign Árnastofnunar og skjöl frá Þjóðskjalasafni Íslands svo sem manntalið frá 1703 sem er líklega elsta manntal í heimi, sem enn er varðveitt, þar sem getið er allra þegna heillar þjóðar með nafni, aldri og stöðu. Myndlistin ljær umræðunni um ýmis átakamál á fullveldistímanum rödd og ýmsar sögulegar heimildir veita okkur aðgang að hugsun og lífi þeirra sem horfin eru á braut. Sýningin stóð til 16. desember 2018.
                  3.      Stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                      Ný heildarútgáfa af Íslendingasögunum kom út 17. júní 2018 samkvæmt samningi við Sögu forlag ehf. Textar sagna og þátta hafa verið endurskoðaðir með hliðsjón af rannsóknum undanfarinna áratuga og mikil vinna var lögð í skýringar á tæplega 600 vísum sem fylgja sögum og þáttum. Þá fylgir útgáfunni margvíslegt skýringarefni og formálar sem ætlað er að greiða götu lesenda um þessa heillandi sagnaveröld. Bækurnar prýða myndverk eftir dönsku listakonuna Karin Birgitte Lund.
                      Ritstjórar eru Aðalsteinn Eyþórsson, Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Umsjón með útgáfunni hafði Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.
                  4.      Hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. (Ábyrgðaraðili: Alþingi.)
                      Undirbúningsnefnd átti í samstarfi við fjölmarga aðila í því skyni að hvetja skóla til að beina sjónum að tímamótunum og á vefsíðunni www.fullveldi1918.is er að finna fjölbreytilegt fræðsluefni sem m.a. má nota til kennslu á öllum skólastigum. Þar er að finna flokk sem heitir „Hvað viltu vita um 1918?“. Undirflokkar eru nú fjórir: 1. Stuttmyndin „Fullveldi Íslands 1918–2018“. Í myndinni er farið í stuttu máli yfir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga með áherslu á þann mikilvæga áfanga sem náðist þegar Ísland varð fullvalda árið 1918. Myndin er aðgengileg á þremur tungumálum; íslensku, dönsku og ensku. 2. „Fullveldisöldin“, tíu örþættir sem framleiddir eru af Saga film með stuðningi afmælisnefndar og fjalla um líf fullvalda þjóðar. 3. Námsefni fyrir börn og ungt fólk. 4. Fræðsluefni og greinar.
                      Undir flokknum „Námsefni fyrir börn og ungt fólk“ getur að líta námsefni fyrir grunnskóla, sem samið var af Helga Grímssyni, sem og kennsluleiðbeiningar. Þar er einnig að finna verkefnahugmyndir sem tengjast daglegu lífi fólks 1918. Vísindavefurinn var í samstarfi við afmælisnefnd. Á vefsíðu afmælisnefndar og Vísindavefsins er að finna fjölmörg svör um hvaðeina sem tengist 1918, efni sem hægt er að nýta bæði í kennslu og við verkefnavinnu. „Menning, tunga, tímagöng“ er 360° sýndarveruleikasýning sem hugsuð var sem ítarefni við kennslu í íslensku og samfélagsfræði og lífsleikni á miðstigi og efsta stigi grunnskóla og geta skólar fengið aðgengi að sýningunni á rafrænan hátt. Þessi upptalning er ekki tæmandi og er einungis hluti af því fræðsluefni sem finna má á síðunni ætlað börnum og ungu fólki.
                      Flokkurinn „Fræðsluefni og greinar“ geymir efni sem gagnast m.a. fyrir framhaldsskóla og háskóla sem og þá sem hafa áhuga á að kynna sér efni tengt fullveldinu. Í þessum flokki má m.a. finna upptökur af ráðstefnum og málþingum sem haldin voru í tilefni fullveldisafmælisins, lista yfir greinar og bækur sem tengjast fullveldinu, tengil á nýjan vef sem Hagstofan opnaði í tilefni fullveldisafmælisins um Sögulega tölfræði, Vísindavefinn o.fl. sem tengist fullveldisafmælinu.
     e.      Fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns. (Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.)
                 Í fjármálaáætlun 2019–2023 (bls. 284) segir um safnamál: „Til að uppfylla meginmarkmið málefnasviðsins eru þrjú markmið skilgreind sérstaklega fyrir málaflokkinn. Þau lúta öll að þeim vilja stjórnvalda að styrkja starfsemi höfuðsafnanna þriggja. Unnið verður sérstaklega að málefnum Náttúruminjasafns Íslands á tímabilinu, m.a. með uppsetningu sýningar í Perlunni og undirbúningi að framtíðaruppbyggingu safnsins.“
                 Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 er gerð grein fyrir aðgerð (bls. 319) með eftirfarandi hætti: „Styrkja starfsemi höfuðsafna. Uppbygging Náttúruminjasafns Íslands til framtíðar m.a. undirbúin.“ Þá kemur einnig fram að fjárveiting til safnsins verði aukin um 15 m.kr. árið 2019 (bls. 320).
                 Fjárveitingar til Náttúruminjasafns Íslands árið 2017 voru samkvæmt áætluðum ríkisreikningi 45,1 m.kr., en eru 71,8 m.kr. samkvæmt fjárlögum ársins 2018. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 eru lagt til að framlag til safnsins verði 89,7 m.kr., og er áætlað að framlagið verði 103 m.kr. árið 2020, og 106 m.kr. árið 2021. Í fjármálaáætlun 2019–2023 er gert ráð fyrir að útgjaldarammi til málefnasviðs 18 hækki um innan við 1% að raungildi frá 2021 til 2022, og standi síðan nánast í stað milli 2022 og 2023. Þess má vænta að framlög til Náttúruminjasafns Íslands á þessum tíma breytist í samræmi við útgjaldaramma málefnasviðsins.
                 Í kjölfar opnunar sýningar Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni 1. desember 2018 verður lögð áhersla á að undirbúa uppbyggingu safnsins til framtíðar með gerð stefnu sem byggist á þarfagreiningu um starfsemi, þörfum fyrir sýningar- og þjónusturými af öllu tagi, hlutverki safnsins gagnvart öðrum söfnum í landinu á sviði náttúruminja, miðlunarhlutverki gagnvart almenningi o.s.frv. og loks uppbyggingar- og rekstrarkostnaði safnsins til framtíðar. Er stefnt að því að þessi vinna, sem þegar er hafin, verði leidd til lykta árið 2019, þannig að hægt verði að leggja mótaðar tillögur um uppbyggingu safnsins miðað við hlutverk þess að lögum og ætlaðar þarfir fyrir ráðherra fyrir árslok.
     f.      Fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni. (Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.)
                 Samið hefur verið við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku, að undangengnu útboði. Miðstöðin hefur yfirumsjón með framkvæmd og samhæfingu máltækniverkefnisins, samkvæmt verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018–2022, sem stýrihópur um máltækni fyrir íslensku lagði fram á síðasta ári og er nú fullfjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Meðal verkefna miðstöðvar máltækniáætlunar sem Almannarómur mun byggja upp verður að forgangsraða og skipuleggja innviði verkefnisins. Jafnframt mun miðstöðin annast val á framkvæmdaraðilum og sjá um samningsgerð fyrir einstaka verkliði. Einnig mun miðstöðin kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtæki og stofnanir, koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni. Öllum verkefnum, þ.m.t. hugbúnaði og gögnum, skal skilað vel skjöluðum í miðlæga varðveislustöð fyrir íslenska máltækni, þar sem þau verði aðgengileg til frambúðar án endurgjalds. Almannarómur samdi við hópinn Samstarf um íslenska máltækni (SÍM) um framkvæmd áætlunarinnar fyrsta árið og voru samningar undirritaðir 4. september 2019. Vinna við þróun svokallaðra kjarnaverkefna eða smíði innviða fyrir máltækni, hófst 1. október sl. Samkvæmt viðauka við grunnsamning ráðuneytisins og Almannaróms sem gerður var á sama tíma, fær SÍM greiddar 383 milljónir króna fyrir þessi verkefni á fyrsta ári og voru 60% af þeirri upphæð greiddar út við undirritun samnings.
                 Áætlaður kostnaður við rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar er 40 milljónir kr. á ári og er samningstíminn fimm ár. Kostnaður ríkisins við máltækniáætlunina til ársins 2022 er áætlaður 2,2 milljarðar.
                 Haustið 2016 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra stýrihóp til að hafa umsjón með kortlagningu á tækni fyrir máltækni, stefnumörkun og vali á tæknilegri útfærslu fyrir íslensku. Nefndinni var einnig falið að gera stöðumat á íslenskum gagnasöfnum og nákvæma fjárhags- og verkáætlun fyrir fimm ára máltækniáætlun. Stýrihópur um íslenska máltækni skilaði til ráðherra í júní 2017 skýrslunni Máltækni fyrir íslensku 2018–2022 auk skýrslu starfshóps um stöðu og framtíð menntunar á sviði máltækni og minnisblaði um brýn máltækniverkefni.
                 Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
                 Verkáætlun: Í skýrslunni er lögð áhersla á þrjá meginþætti til að tryggja að íslenska verði valkostur í tækniheiminum; uppbyggingu innviða, nýsköpun í máltækni og samstarf og klasamyndun. Lagt er til að sjálfseignarstofnunin Almannarómur verði miðstöð fyrir áætlunina. Aðalmarkmið miðstöðvarinnar er að sjá til þess að verkefni áætlunarinnar verði í höndum sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja sem verði fengin til þess að útfæra þau, sjá um samhæfingu milli verkefna og tengsl við atvinnulífið og tryggja góð samskipti aðila verkefnisins við atvinnulífið og við erlend fyrirtæki og stofnanir þannig að þeir innviðir og tækni sem þróuð eru í verkefninu komist í notkun.
                 Menntun: Lagt er til að þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík haldi áfram og verði endurskipulagt og eflt með þátttöku fleiri deilda innan skólanna en verið hefur. Tekið verði inn í námið á hverju ári. Sú áætlun hefur gengið eftir.
                 Kostnaður: Áætlaður heildarkostnaður áætlunarinnar árin 2018–2022 er 2.338 millj. kr. Af því er gert ráð fyrir að framlag nýsköpunarfyrirtækja verði 500 millj. kr. en ríkissjóður verði að leggja til 1.838 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður og kostnaður við menntun á sviði máltækni og CLARIN-samstarfið verði 75 millj. kr. á ári.
     g.      Fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar. (Ábyrgðaraðili: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.)
                 Unnið var að endurskoðun stefnumörkunar fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum árið 2018. Umsagnarfresti lauk 1. nóvember að undangenginni kynningu og var hún staðfest fyrir 1. desember. Endurskoðaða stefnumörkun má finna á eftirfarandi vefslóð:
                  www.thingvellir.is/media/1754/a1072-023-u02-stefnumorkun-vefur.pdf.
                 Ný og stærri gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum á Hakinu var tekin í notkun í júlí 2018. Í gestastofunni er glæsileg sýning sem dregur fram sögu, menningu og náttúru Þingvalla.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 22/145 um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál, 16. mars 2016 – þskj. 1030.
Framkvæmd lokið.
    Veruleg samskipti og samstarf eru við Grænland og Færeyjar á sviði sjávarútvegsmála, m.a. funda sjávarútvegsráðherrar landanna árlega. Ekki hefur annað komið fram en að allar þjóðirnar vilji auka og efla þetta samstarf í framtíðinni.

Þingsályktun 24/145 um stefnu um nýfjárfestingar, 16. maí 2016 – þskj. 1032.
Framkvæmd lokið.
    Í ályktuninni kemur fram að efla skuli nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestinga. Í því skyni verði lögð áhersla á nýfjárfestingarverkefni:
     1.      sem byggjast á styrkleikum Íslands og sérstöðu,
     2.      sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi,
     3.      sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar,
     4.      sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið, m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015,
     5.      sem skapa innlendan virðisauka og hafa margföldunaráhrif, t.d. með samstarfi við starfandi íslensk fyrirtæki og með fjárfestingum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,
     6.      sem skila sem mestum virðisauka og innleiða nýja þekkingu.
    Íslandsstofa fer með markaðs- og kynningarstarf á Íslandi sem fjárfestingarkosti þegar kemur að nýfjárfestingum og hefur stofunni verið falið að vinna í samræmi við þær áherslur sem koma fram í þingsályktuninni. Þingsályktunin er því komin til framkvæmda.

Þingsályktun 38/145 um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 2. júní 2016 – þskj. 1459.
Framkvæmd lokið.
    Framkvæmd hefur verið í samræmi við þingsályktun að teknu tilliti til aukningar í aflamarki.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd vegna hluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hafin.
    Veruleg samskipti og samstarf hafa verið og eru við Grænland á sviði sjávarútvegsmála þar sem þessi mál hafa verið rædd.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er í samstarfi við Grænland um málefni ferðaþjónustu, m.a. á vettvangi Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA) og undir merkjum vestnorræna ferðamálasamstarfsins NATA.
    Íslensk fyrirtæki hafa mörg hver komið að vatnsaflsverkefnum á Grænlandi, m.a. með ráðgjöf. Í undirbúningi er að kanna, m.a. hjá Orkustofnun, hvernig unnt er að efla samstarf og ráðgjöf á sviði slíkra verkefna.
    Til skoðunar er samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu. Að svo stöddu liggja ekki fyrir drög að slíku samkomulagi.

Framkvæmd vegna hluta fjármála- og efnahagsráðuneytis ekki hafin.
    Með þingsályktuninni lýsti Alþingi stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefði á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og fól ríkisstjórninni að leita leiða til að efla tengsl og samvinnu við Grænland með áherslu á m.a. vinnu við gerð samkomulags sem tryggði fullt tollfrelsi varðandi sölu varnings og þjónustu og jafnhliða yrði unnið að því að ryðja öðrum hindrunum úr vegi greiðra viðskipta og þátttöku í atvinnulífi. Málið hefur ekki verið tekið til sérstakrar skoðunar.

Framkvæmd vegna hluta heilbrigðisráðuneytis (þá velferðarráðuneytis) hafin.
    Samstarf Íslands og Grænlands á sviði heilbrigðisþjónustu á sér langa sögu, einkum þannig að Grænlendingar hafa sótt þjónustu til Íslands. Þetta á við um nýbura jafnt sem fullorðna, veika sem slasaða. Einnig hafa Grænlendingar sótt valaðgerðir til Íslands, svo sem mjaðmaskipti og augnaðgerðir.
    Árið 1997 var þetta samstarf formgert með samningi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á Íslandi, embættis landlæknis, Landspítala, þáverandi Sjúkrahúss Reykjavíkur og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, mótaðilinn var heilbrigðisráðuneyti Grænlands.
    Samningur milli heilbrigðisráðherra Grænlands og Íslands um aukið samstarf var undirritaður í júní 2010 og náði þá einnig yfir samstarf við mönnun heilbrigðisstétta, menntun og viðhaldsmenntun, rannsóknir o.fl. Nýr samstarfssamningur milli Íslands og Grænlands var undirritaður árið 2018. Gildir hann frá 1. september 2018 og leysir af hólmi eldri samninginn frá árinu 2010.
    Þetta samstarf efldist enn þegar heilbrigðisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu samstarfssamning í júní 2014, sem m.a. kveður á um árlega fundi ráðherranna. Síðasti fundurinn var haldinn í Færeyjum 12.–13. mars 2019 þar sem farið var yfir það sem efst var á döfinni í heilbrigðismálum í löndunum Einnig má geta þess að til að efla tengslin enn frekar var komið á Norrænum ráðuneytisstjórafundi og var fyrsti fundur haldinn vorið 2018 í Stokkhólmi. Þessir fundir komust á í tengslum við tillögur Bo Könsberg, fyrrverandi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar.
    Sumarið 2017 undirrituðu Landspítali og Sjúkrahús Ingiríðar drottningar samstarfs-samning sem gerir ráð fyrir enn frekari eflingu samskipta starfsfólks og samstarfi í þjónustu við sjúklinga.
    Telja verður að undanfarinn áratug hafi samstarf og samvinna á sviði heilbrigðisþjónustu aukist verulega milli Íslands og Grænlands.

Framkvæmd vegna hluta mennta- og menningarmálaráðuneytis lokið.
    Samningur milli Færeyja, Grænlands og Íslands um samstarf á sviði menningar var undirritaður af menningarmálaráðherrum landanna 1. nóvember 2017. Samningurinn er ótímabundinn en með uppsagnarákvæði. Í fylgiriti er yfirlit yfir fjögur verkefni sem unnin verða á árunum 2018–2021. Unnið er að framkvæmd samningsins í löndunum þremur.
    Ný lög um Grænlandssjóð hafa tekið gildi, nr. 108/2016. Skipuð hefur verið stjórn samkvæmt ákvæðum 2. gr. og hófust úthlutanir í byrjun árs 2019.
    Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis sóttu fund þar sem kynnt voru ný lög um Grænlandssjóð og núverandi samstarf Íslands og Grænlands á sviði mennta- og menningarmála. Bent var á að gagnkvæmar viðurkenningar á námi milli Norðurlandanna rúmuðu bæði Ísland og Grænland.

Framkvæmd vegna hluta umhverfis- og auðlindaráðuneytis ekki hafin.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ekki tekið upp tvíhliða samstarf við grænlenskar stofnanir, en vinnur með fulltrúum Grænlands, m.a. á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurskautsráðsins. Ráðuneytið hefur almennt ekki tekið mikinn þátt í tvíhliða samstarfi ríkja þar sem töluvert er umleikis í fjölþjóðlegu samstarfi á vettvangi alþjóðastofnana og alþjóðasamninga, sem er krefjandi verkefni fyrir litla stjórnsýslu.

Framkvæmd vegna hluta utanríkisráðuneytis hafin.
    Að störfum er vinnuhópur um samstarf Íslands og Grænlands í flugmálum. Hópnum er ætlað að kortleggja möguleika á auknu samstarfi á sviði flugmála, m.a. með það að markmiði að auka ferðamannastraum og viðskipti á milli landanna tveggja. Hópurinn hefur unnið drög að skýrslu þar sem tillögur að leiðum að auknu samstarfi hafa verið lagðar fram. Hópurinn er skipaður fulltrúum utanríkis- og samgönguráðuneyta beggja landa sem og fulltrúa Isavia og Mittarfeqarfiit. Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra átti óformlegan fund með grænlenskum starfsbróður sínum í febrúar 2018 þar sem fram kom að skýrslan væri til skoðunar í grænlenska stjórnkerfinu.
    Utanríkisráðuneytið styður eftir sem áður starf Vestnorræna ráðsins, m.a. með því að stuðla að pólitísku samráði og sækja fundi ráðsins eins og unnt er. Utanríkisráðherrafundur Vestnorræna ráðsins fór fram 22. 23. október sl. Samkomulag landanna frá ágúst 2017 hefur á hinn bóginn ekki komið til framkvæmda, en athugasemdir bárust frá dönskum stjórnvöldum vegna tiltekins orðalags í því. Íslensk stjórnvöld hafa litið svo á að hér sé um innra málefni Danmerkur, Færeyja og Grænlands að ræða og hafa komið þeirri afstöðu á framfæri.

DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

Nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar, 23. febrúar 2016, um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna) – þskj. 885 á 145. löggjafarþingi.
Framkvæmd hafin.
    Samkvæmt umræddu nefndaráliti var frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum vísað til ríkisstjórnarinnar. Refsiréttarnefnd hefur til skoðunar hvort sú samfélagsþjónusta sem verið hefur á verksviði Fangelsismálastofnunar verði ákveðin með því að dómstólar dæmi viðkomandi til samfélagsþjónustu.

Þingsályktun 18/145 um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, 15. mars 2016 – þskj. 1015 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti).
Framkvæmd lokið.
    Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Hinn 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skyldi helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um að skipuleggja daginn. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um réttindi sem öll börn eiga að njóta, án mismununar. Til þess að réttindin nýtist öllum börnum er mjög mikilvægt að þau þekki réttindi sín og samfélagið allt þekki í hverju þau felast og hvaða skyldur sáttmálinn leggur á samfélagið. Þannig eiga lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar að tryggja mannrétt-indi barna og endurspegla barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Í fyrsta sinn sem Dagur mannréttinda barna var haldinn, árið 2016, var áhersla lögð á kynningu í skólum landsins. Barnaheill opnuðu þá nýja vefsíðu, www.barnaheill.is/dagurmannrettindabarna, með fræðsluefni um mannréttindi barna fyrir þrjú skólastig; leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Öllum skólum landsins var sent kynningarbréf þar sem þeir voru hvattir til að halda upp á daginn og nýta sér efnið á vefsíðunni. Samtökin stóðu jafnframt fyrir gerð fjögurra myndbanda sem send voru skólunum til sýninga.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið sömdu einnig við Barnaheill um að sjá um fræðslu í tengslum við daginn árin 2017 og 2018 og gert er ráð fyrir að ráðuneytin muni semja við samtökin og eftir atvikum fleiri aðila til þess að halda upp á daginn á næstu árum, í samráði við ráðuneytin og í ljósi þess fjármagns sem er til ráðstöfunar.

Þingsályktun 57/145 um endurskoðun laga um lögheimili, 7. september 2016 – þskj. 1641.
Framkvæmd lokið.
    Hinn 26. júní 2017 var skipuð þriggja manna nefnd til að endurskoða lög um lögheimili, m.a. í samræmi við þingsályktun 57/145. Vinnu nefndarinnar lauk í desember 2017. Frumvarp til nýrra laga um lögheimili og aðsetur var samþykkt á 148. löggjafarþingi 11. júní 2018. Ný lög tóku gildi 1. janúar 2018.

Þingsályktun 67/145 um framkvæmd fýsileikakönnunar á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna, 13. október 2016 – þskj. 1825.
Framkvæmd lokið.
    Dómsmálaráðuneytið í samráði við velferðarráðuneytið tók málið til skoðunar í samræmi við þingsályktun nr. 67/145 og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar varðandi stofnun sérstaks embættis umboðsmanns flóttamanna. Ráðuneytið hefur endurnýjað samning milli Rauða krossins á Íslandi og Útlendingastofnunar um að annast talsmannaþjónustu við umsækjendurna auk ákveðinnar félagslegrar þjónustu. Það var gert í kjölfar útboðs á þjónustunni. Hlutverk talsmanns er að leiðbeina skjólstæðingi varðandi meðferð máls fyrir stjórnvöldum, veita virka aðstoð sem fyrst og fremst tekur mið af hagsmunum og réttarstöðu skjólstæðingsins og veita hlutlausar og óhlutdrægar upplýsingar ásamt annarri einstaklingsmiðaðri þjónustu.
    Lögð er áhersla á að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd sé aðgengileg og flækjustigi haldið í lágmarki fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut. Þá hefur nefnd um samræmda móttöku flóttafólks einnig unnið að kortlagningu á þeirri þjónustu sem flóttafólk hefur fengið í kjölfar þess að hafa sótt um alþjóðlega vernd og gerð tillagna að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk.

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 63/145 um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019, 20. september 2016 – þskj. 1692.
Framkvæmd hafin.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var samþykkt í september 2016. Áætlunin er byggð á fimm stoðum: samfélaginu, fjölskyldunni, menntun, vinnumarkaði og flóttafólki. Þar eru 30 samþykktar aðgerðir sem stuðla allar að því að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Aðgerðirnar hafa verið á ábyrgð þriggja ráðuneyta: velferðarráðuneytisins (nú félagsmálaráðuneytis), innanríkisráðuneytisins (nú dómsmálaráðuneytis eða samgönguráðuneytis) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Nú þegar tímabili áætlunarinnar er að ljúka eru 27 af 30 aðgerðum sem settar eru fram í áætluninni ýmist í undirbúningsferli, vinnslu eða þeim lokið. Þrjár aðgerðir hafa enn ekki komið til framkvæmdar á tímabilinu. Hafin er vinna við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar fyrir árin 2020–2024.

Nefndarálit velferðarnefndar, 12. október 2016, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum (bifreiðastyrkir) – þskj. 1813.
Framkvæmd lokið.
    Í áliti velferðarnefndar, dags. 12. október 2016, er fjallað um frumvarp til laga þar sem lagt var til að styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða skyldi veita óháð því hver annaðist að jafnaði aksturinn, enda væri bifreiðin nýtt til aksturs með bótaþega. Þá var í frumvarpinu lagt til að óheimilt yrði að binda styrkveitingar því skilyrði að bótaþegi hefði sjálfur ökuréttindi eða einhver annar á heimili hans.
    Velferðarnefnd áréttar í áliti sínu að reglur um styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða til hreyfihamlaðra einstaklinga séu settar með reglugerð nr. 170/2009 og því sé unnt að tryggja að þau réttindi sem kveðið er á um í frumvarpinu nái fram að ganga með breytingu á reglugerðinni. Lagði nefndin því til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að reglum yrði breytt í samræmi við efni frumvarpsins og þau skilyrði sem ráðuneytið teldi nauðsynleg samkvæmt framangreindu.
    Með reglugerð nr. 967/2016 voru gerðar breytingar á reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Með reglugerðinni var slakað á því skilyrði fyrir veitingu uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa að hinn hreyfihamlaði hefði sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Var þannig komið til móts við álit velferðarnefndar Alþingis.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd vegna hluta fjármála- og efnahagsráðuneytis ekki hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 28–30.

Þingsályktun 54/145 um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021, 18. ágúst 2016 – þskj. 1557.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveða á um að ríkisstjórn skuli, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggi fram sem tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er. Þingsályktunin var lögð fram á Alþingi 29. apríl 2016 og samþykkt 18. ágúst sama ár. Þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021, sem lögð var fram samhliða fjármálastefnunni og var samþykkt 18. ágúst 2016, og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, sem lagt var fram 6. desember 2016 og varð að lögum 22. desember sama ár, byggjast í meginatriðum á þingsályktuninni um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021.
    Segja má að í fjárlögum fyrir árið 2017 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021, 18. ágúst 2016 – þskj. 1558.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveður á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Þingsályktunin var lögð fram á Alþingi 29. apríl 2016 og samþykkt 18. ágúst sama ár og nær yfir tímabilið 2017–2021 og var í samræmi við þingsályktun 54/145 um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, sem lagt var fram 6. desember 2016 og varð að lögum 22. desember sama ár, byggist í meginatriðum á þeirri fjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Segja má að í fjárlögum fyrir árið 2017 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Nefndarálit velferðarnefndar, 31. ágúst 2016, um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala – þskj. 1612 á 145. löggjafarþingi (sameiginlegt með heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd ekki hafin.
    Samkvæmt nefndaráliti velferðarnefndar frá 31. ágúst 2016 felur frumvarpið í sér að stofnaður verði byggingarsjóður Landspítala í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem starfræktur verði í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítala. Í frumvarpinu er lagt til að tekjustofn sjóðsins verði tekjur af auðlegðarskatti auk þess sem sjóðnum verði heimilt að taka við frjálsum framlögum. Ekki náðist samstaða í nefndinni um þá útfærslu á byggingarsjóði Landspítala og fjármögnun hans sem lagt er upp með í frumvarpinu. Engu að síður var einhugur í nefndinni um að leggja áherslu á að haldið yrði áfram byggingu Landspítala og henni lokið sem fyrst. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún vinni að frekari úrbótum á húsakosti Landspítala, bæði með því að ljúka byggingu nýs spítala sem og með úrbótum á núverandi húsakosti sem unnt er að nýta áfram.
    Velferðarnefnd lagði til á fundi sínum 31. ágúst 2016 að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Með vísan til þingsályktunar nr. 45/143 um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala er gert ráð fyrir tugmilljarða hækkun framlags á málefnasviði 23, sjúkrahúsþjónustu, í fjármálaáætlun 2020–2024 til að byggja nýjan meðferðarkjarna og rannsóknarhús á lóð Landspítala. Í fjárlagafrumvarpi 2020 er gert ráð fyrir 8.507 m.kr. fjárframlagi sem ætlað er til byggingaframkvæmda.
    Hafinn er undirbúningur að því að meta þörf Landspítala fyrir núverandi byggingar á Hringbrautarlóðinni, hvaða byggingar verða áfram í notkun og með hvaða hætti. Jafnframt er hafinn undirbúningur að því að gera áætlun um flutning starfsemi úr öðrum byggingum á Hringbrautarlóð.

Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, 12. október 2016, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum – þskj. 1812 á 145. löggjafarþingi.
Framkvæmd hafin.
    Með frumvarpinu var lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra yrði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig var lagt til að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fengju endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016. Markmið frumvarpsins voru að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum sjálfboðaliðastarf og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mál svipaðs efnis voru lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi (487. og 411. mál).
    Efnahags- og viðskiptanefnd lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem fjármála- og efnahagsráðherra hafði skipað stýrihóp sem vinna skyldi að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Lagði nefndin jafnframt til að tillögurnar yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum ásamt öðrum atriðum sem verið hefðu til umræðu hjá nefndinni, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna. Stýrihópurinn er ekki lengur að störfum þó hann hafi ekki verið formlega lagður niður, en ekki náðist að ljúka öllum þeim verkefnum sem hann fékk í hendur og hefur verið unnið að málinu í öðrum farvegi. Má þar nefna að hluti af verkefnum hópsins leiddi m.a. af sér breytingu á VSK-lögunum og enn er verið að skoða ákveðna þætti sem stýrihópnum var falið, m.a. byggingarstarfsemina og almenna virkni VSK-kerfisins. Loks má nefna að nú er verið að skoða með heildstæðum hætti skattaumhverfi þriðja geirans, m.a. íþróttastarfsemina ásamt öðrum þáttum hjá starfshópi um þriðja geirann sem skipaður var af ráðherra. Stefnt sé á að í framhaldinu muni ráðuneytið taka þær tillögur til skoðunar og eftir atvikum leggja til breytingar ef svo ber undir.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 27/145 um skrá um sykursýki og skimun fyrir sykursýki, 28. apríl 2016 – þskj. 1203.
Framkvæmd lokið.
    Hinn 28. apríl 2016 ályktaði Alþingi að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem fengi það verkefni að móta viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki. Hópurinn skyldi sérstaklega meta þörfina á skipulagðri skráningu sykursýki á Íslandi og reglulegri skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum. Við matið skyldi miðað við að heilsugæslan veitti ráðgjöf samhliða skimuninni og fylgdi henni eftir þegar við ætti. Heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn 26. október 2016. Starfshópurinn skilaði skýrslu til heilbrigðisráðherra í apríl 2018 sem lögð var fyrir Alþingi á 149. löggjafarþingi.

Þingsályktun 28/145 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 29. apríl 2016 – þskj. 1217.
Framkvæmd hafin.
    Megináherslur geðheilbrigðisáætlunar snúa að geðrækt og forvörnum, samþættri þjónustu í nærumhverfi og því að minnka fordóma gagnvart fólki sem glímir við geðraskanir. Vel gengur að fylgja áætluninni eftir. Fjölgun þverfaglegra geðheilsuteyma er í samræmi við áætlun og fjármögnun fyrir slíkum teymum í öllum heilbrigðisumdæmum var tryggð í upphafi árs 2019. Nú eru starfandi eða eru að hefja störf slík teymi í öllum heilbrigðisumdæmum. Til þess að stuðla að því að þjónusta og þróun teymanna verði sambærileg á landsvísu hélt heilbrigðisráðuneytið vinnustofu í maí fyrir fagfólk geðheilsuteymanna ásamt fólki með eigin reynslu af geðröskunum. Samstarfssamningur á milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Reykjavíkurborgar vegna geðheilsuteymanna tveggja í Reykjavík var undirritaður í október 2019 og markar það ákveðin tímamót í geðheilbrigðismálum. Sálfræðiþjónusta hefur verið efld innan heilsugæslu um land allt og hefur þessum áfanga nú þegar verið náð. Skólaheilsugæsla á landsvísu skimar markvisst fyrir heilsu og líðan barna. Áætlað er að hefja sérstaka skimun fyrir kvíða, depurð og áhrifum áfalla meðal barna í 9. bekk á landinu öllu árið 2020. Verkefnastjóri var ráðinn til þess að fylgja eftir aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Starfshópur um geðrækt í leik-, grunn- og framhaldsskólum hefur lokið mikilvægri greiningarvinnu á landsvísu og mun kynna tillögur sínar fyrir heilbrigðisráðherra í lok október 2019. Starfshópur hefur skilað viðmiðum um hvernig unnt sé að fjalla um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum án þess að ýta undir fordóma. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið falið að leiða innleiðingu Fjölskyldubrúarinnar og fræðslu um geðheilsu í heilsugæsluþjónustu á landsvísu. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, sem staðsett er hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, nýtist vel til þess að samhæfa þjónustu um land allt og stuðla að framförum í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Starfshópur um minnkun fordóma gagnvart geðheilbrigðisvanda meðal almennings, í heilbrigðis- og félagsþjónustu mun ljúka störfum fyrir lok árs. Verið er að finna leiðir til að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Öðrum verkefnum er lokið eða á mismunandi vinnslustigum.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og utanríkisráðuneyti).
Framkvæmd vegna hluta heilbrigðisráðuneytis (þá velferðarráðuneytis) hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 28–29.

Þingsályktun 43/145 um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga, 2. júní 2016 – þskj. 1484.
Framkvæmd lokið.
    Í desember 2016 skipaði heilbrigðisráðherra undirbúningshóp vegna sólarhringsmeðferðar í öndunarvél á heimili sjúklinga. Hópnum var falið að móta tillögur um skipulag heimaþjónustu við þá einstaklinga sem þingsályktunin náði til, hvernig best væri að tryggja möguleika þeirra til hvíldarinnlagna, fjalla um samskiptatæki og þjálfun í notkun þeirra og hvernig best mætti tryggja með samstarfssamningum eða öðrum hætti hnökralausa aðkomu allra þeirra sem koma að þjónustu við sjúklinga sem þurfa víðtæka öndunaraðstoð. Hópnum var falið að leita úrræða til að bæta aðbúnað og tryggja fullnægjandi aðstoð við daglegt líf þess fólks sem þarf víðtæka öndunaraðstoð og skyldi tillögunum fylgja kostnaðarmat og tímasett aðgerðaáætlun. Hópurinn skilaði skýrslu til heilbrigðisráðherra í júní 2017 með niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta fyrir þá einstaklinga sem þurfa og velja langtímanotkun öndunarvélar á heimili sínu. Þegar hópurinn tók til starfa hafði heilbrigðisráðherra gert ráðstafanir til að tryggja möguleika til hvíldarinnlagnar á einu hjúkrunarheimili. Frá því í október 2017 hefur þessum einstaklingum staðið til boða dvöl í hjúkrunarrými bæði til langdvalar og til hvíldarinnlagna á viðkomandi hjúkrunarheimili. Unnið er áfram að öðrum aðgerðatillögum hópsins með þeim þjónustuveitendum og stofnunum sem aðgerðirnar ná til.

Nefndarálit velferðarnefndar, 31. ágúst 2016, um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala – þskj. 1612 á 145. löggjafarþingi (sameiginlegt með fjármála- og efnahagsráðuneyti).
Framkvæmd ekki hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um nefndarálitið undir lið fjármála- og efnahagsráðuneytis á bls. 33.

Þingsályktun 58/145, 8. september 2016, um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana – þskj. 1642.
Framkvæmd lokið.
    Með reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, nr. 1239/2018, var reglum um greiðsluþátttöku í tæknifrjóvgunarmeðferðum breytt, m.a. til samræmis við þingsályktunina. Í reglugerðinni er kveðið á um að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferðar og er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir. Enn fremur hafa Sjúkratryggingar Íslands skoðað möguleika á samningsgerð við aðila sem hafa kunnáttu og aðstæður til að veita tæknifrjóvgunarmeðferðir hér á landi.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 18/145 um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, 15. mars 2016 – þskj. 1015 (sameiginleg með dómsmálaráðuneyti (þá innanríkisráðuneyti)).
Framkvæmd lokið.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið dómsmálaráðuneytis á bls. 30.

Þingsályktun 41/145 um lýðháskóla, 2. júní 2016 – þskj. 1482.
Framkvæmd lokið.
    Lög um lýðskóla, nr. 65/2019, voru sett 25. júní 2019. Markmið laganna er að stuðla að starfrækslu lýðskóla á Íslandi. Með lýðskólum er átt við skóla sem hafa það að markmiði að veita almenna menntun og uppfræðslu í samræmi við ákvæði laganna og undirbúa nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Lögin gilda um lýðskóla sem hafa hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar samkvæmt lögunum.
    Nú þegar eru starfandi tveir lýðskólar, LungA á Seyðisfirði og Lýðskólinn á Flateyri. Á árinu 2019 voru veittar 30 millj. kr. til hvors skólans um sig og var sett ákvæði í styrktarbréf að framlagið miðaði við að skólarnir séu með að lágmarki 15 nemendur á hvorri önn. Gert er ráð fyrir fjárveitingu til lýðskóla á fjárlögum 2020.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd vegna hluta mennta- og menningarmálaráðuneytis lokið.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 28–30.

Þingsályktun 44/145 um eflingu náms í mjólkurfræði, 2. júní 2016 – þskj. 1485.
Framkvæmd lokið.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur leitað leiða til þess að ná markmiðum þingsályktunarinnar um eflingu náms í mjólkurfræði. Áfram er miðað við að íslenskir mjólkurfræðinemar stundi nám sitt í Kold College í Danmörku. Skoðaður hefur verið sérstakur fjárstuðningur vegna námsins en huga þarf að jafnræði gagnvart öðrum fámennum iðngreinum. Ekki hefur verið farin sú leið að leita samninga við erlend ríki hvað varðar mjólkurfræðina enda er námsleiðin opin íslenskum ríkisborgurum hafi þeir tilskilinn undirbúning og fari í heildstætt nám í mjólkurfræði. Nemendur í mjólkurfræði hafa aðgang að LÍN eins og aðrir nemendur sem stunda nám í erlendum skólum.

Þingsályktun 47/145 um Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ, 2. júní 2016 – þskj. 1488.
Framkvæmd hafin.
    Hinn 22. desember 2016 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra vinnuhóp sem hafði það verkefni að fara yfir fyrirliggjandi gögn um hugmyndir um byggingu Laxnessseturs við Gljúfrastein, endurmeta þau með vísan til þingsályktunarinnar og jafnframt gera tillögur um næstu skref í málinu. Vinnuhópurinn hefur lokið störfum og skilaði skýrslu sinni til ráðuneytisins í október 2017.
    Ríkisstjórn samþykkti á ríkisstjórnarfundi 10. ágúst 2018 sameiginlega tillögu forsætis-, fjármála- og efnahags- og mennta- og menningarmálaráðherra um næstu skref í að hrinda málinu í framkvæmd. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er verið að skipa starfshóp vegna Laxnessseturs sem hefja mun störf á næstunni.

Þingsályktun 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, 13. október 2016 – þskj. 1828 (sameiginleg með forsætisráðuneyti).
Framkvæmd hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið forsætisráðuneytis, sjá liði e og f, bls. 25–27.

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

Þingsályktun 21/145 um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum, 16. mars 2016 – þskj. 1029.
Framkvæmd ekki hafin.
    Samgöngur eru grunnstoð í vestnorrænu samstarfi. Þær gera löndin búsetuhæf og eru forsenda samkeppnishæfni landanna þriggja. Ekki er neitt formlegt samstarf um stefnu í uppbyggingu innviða eða samgöngum milli landanna. Engu að síður er vaxandi samstarf og gerðir hafa verið samningar um sameiginlega hagsmuni í flugi, flugumsjón og flugleiðsögu sem og vísir að auknu samstarfi um siglingar og vöruflutninga. Ljóst er að samstarf landanna á þessu sviði mun aukast með vaxandi flutningum, og með opnun nýrra siglingaleiða um norðurslóðir sem og aukins pólflugs mun samþætting í stefnu og samstarf verða sífellt mikilvægara.
    Stigið hefur verið mikilvægt skref með því að Eimskip og Royal Arctic Line hófu í vor samstarf um flutninga milli Íslands, Grænlands og Færeyja, undir hatti VSA (Vessel Sharing Agreement). Félögin munu í sameiningu standa fyrir byggingu á þremur 2150 gámaeininga skipum sem áætlað er að komi í rekstur í árslok. Nýju skipin, sem verða stærstu gámaskip sem Eimskip hefur haft í sinni þjónustu, eru sérstaklega hönnuð fyrir aðstæður í Norður-Atlantshafi og uppfylla skilyrði um siglingar á Polar code-svæðum. Með samstarfinu og stærri skipum næst fram stærðarhagkvæmni í rekstri ásamt því að nýju skipin verða umhverfisvænni og hagkvæmari. Tvö af skipunum verða í eigu Eimskips og en það þriðja í eigu Royal Arctic Line. Með samstarfinu tengist Grænland við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskip og vikulegar siglingar opna mörg tækifæri fyrir grænlenskar vörur á alþjóðlegan markað.

Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar, 2. júní 2016, um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi – þskj. 1474 á 145. löggjafarþingi.
Framkvæmd lokið.
    Vegagerðin hefur farið yfir málið, m.a. með aðstoð verkfræðistofu. Fram kom að úrbætur væru kostnaðarsamar en mismunandi eftir því hve mikið yrði lagt í hvern áningarstað. Síðan bætist við rekstrarkostnaður. Ekki eru fjárveitingar þessu tengdar á fjárlögum til Vegagerðarinnar eða til að standa straum af uppbyggingu og rekstri áfangastaða.

Þingsályktun 49/145 um áhættumat vegna ferðamennsku, 2. júní 2016 – þskj. 1497.
Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var innanríkisráðherra falið að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri gerði áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því yrði kannað og metið hvort ástæða þætti til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn. Innanríkisráðuneytið óskaði eftir við ríkislögreglustjóra að umrætt áhættumat yrði gert. Ríkislögreglustjóri hefur þegar hafið frumgreiningu vegna slíks mats. Ítarlegt áhættumat getur hins vegar tekið tvö til fjögur ár. Mikilvægt er að það sé gert í samvinnu við almannavarnanefndir og mun ríkislögreglustjóri beina því til almannavarnanefnda að gera slíkt mat. Þá er mikilvægt að áfram verði gerðar úttektir á ferðamannastöðum á vegum Stjórnstöðvar ferðamála.

Þingsályktun 65/145 um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, 12. október 2016 – þskj. 1801.
Framkvæmd hafin.
    Ný tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og verkefnaáætlun hennar 2019–2023 var afgreidd frá Alþingi 7. febrúar á þessu ári. Unnið er að framkvæmd hennar.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 19/145 um landsskipulagsstefnu 2015–2026, 16. mars 2016 – þskj. 1027.
Framkvæmd hafin.
    Landsskipulagsstefna 2015–2026 var samþykkt á Alþingi 16. mars 2016. Með lands-skipulagsstefnu er sett fram heildstæð stefna á landsvísu um skipulagsmál. Í landsskipulags-stefnu er mörkuð stefna um skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags. Lands-skipulagsstefna hefur einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun. Að auki felur landsskipulagsstefna í sér sérstök fram-fylgdarverkefni til að hrinda tilteknum markmiðum stefnunnar í framkvæmd. Í landsskipulagsstefnu 2015–2026 eru tilgreind ýmis verkefni til að stuðla að framfylgd stefnunnar og styðja skipulagsgerð sveitarfélaga. Af þeim verkefnum sem tilgreind eru í landsskipulagsstefnu hefur umhverfis- og auðlindaráðherra sérstaklega beint því til Skipulagsstofnunar, í samvinnu við aðrar stofnanir og sveitarfélög, að hefja vinnu við kortlagningu víðerna og kortlagningu mannvirkja og þjónustu og mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á miðhálendinu. Einnig eru verkefni um fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar. Auk þess mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinna að leiðbeiningum um flokkun landbúnaðarlands fyrir skipulagsgerð. Haustið 2016 gaf Skipulagsstofnun út Landsskipulagsstefnu 2015–2026, ásamt greinargerð. Í útgáfunni er efni þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026 sett fram ásamt þeim skýringum við stefnuna sem er að finna í athugasemdum með þingsályktunartillögunni sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fyrir Alþingi árið 2015. Stofnunin hefur einnig látið gera stutta kynningarmynd um landsskipulagsstefnu þar sem lýst er viðfangsefnum og áherslum stefnunnar í máli og myndum.
    Vinna að framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu kallar á náið og gott samráð og samstarf ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og eftir atvikum annarra aðila. Í því skyni hefur Skipulagsstofnun stofnað samráðsvettvang sem er ætlað að stuðla að góðri upplýsingamiðlun og samráði við framfylgd stefnunnar. Eitt af framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu 2015–2026 var verkefni um skráningu mannvirkja og þjónustu á hálendinu, sem unnið var af Skipulagsstofnun í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög á hálendinu. Verkefninu lauk með útgáfu skýrslu í ágúst 2018 um mannvirki á miðhálendinu þar sem dregin var upp mynd af núverandi stöðu fyrir hálendið í heild og einstök sveitarfélög.
    Skipulagsstofnun hefur auk þess hafið undirbúning að kortlagningu víðerna á hálendinu. Í tengslum við það verkefni var skýrsla gefin út á árinu 2017 um rannsókn á víðernum á miðhálendinu sem hefur að geyma tillögur að nýrri aðferðafræði. Skýrslan var unnin af Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði að beiðni Skipulagsstofnunar og verkefnis-stjórnar rammaáætlunar. Stofnunin vinnur einnig að gerð leiðbeininga um skipulagsmál vindorkunýtingar og liggur nú þegar fyrir á vef stofnunarinnar samantekt um upplýsingar er varða skipulagsmál vindorkunýtingar.
    Í júlí 2018 óskaði umhverfis- og auðlindaráðherra eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin vinni tillögur að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem sett verði fram nánari stefna um þrjú viðfangsefni, loftslagsmál, landslag og lýðheilsu, í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Ráðherra setti fram tilteknar áherslur sem Skipulagsstofnun ber að fjalla um í tengslum við framangreind viðfangsefni. Í tengslum við landslagsáherslu nýs viðauka óskaði ráðherra t.d. eftir því að sett yrðu fram viðmið fyrir greiningu á óbyggðum víðernum, sem fylgi eftir aðgerð í gildandi landsskipulagsstefnu. Einnig var óskað eftir því að fjallað yrði um skipulag vindorkunýtingar með tilliti til landslags og sett viðmið fyrir ákvarðanir um slíka nýtingu.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd vegna hluta umhverfis- og auðlindaráðuneytis ekki hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 28–30.

Þingsályktun 46/145 um stofnun loftslagsráðs, 2. júní 2016 – þskj. 1487.
Framkvæmd lokið.
    Loftslagsráð hefur verið stofnað og kom saman í fyrsta sinn í júní 2018. Því er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Þar á meðal eru aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim. Loftslagsráð skal m.a. gera tillögur til umhverfis- og auðlindaráðherra um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála á Íslandi. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að allar helstu áætlanir stjórnvalda eigi að rýna með tilliti til loftslagsmála. Ráðið skal gera tillögu til ráðherra fyrir lok árs 2018 um hver skuli hafa það hlutverk með höndum og hvernig það sé best gert. Loftslagsráði hefur jafnframt verið falið að vinna greinargerð um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 og hvernig unnt sé að ná því. Greinargerðinni skal skilað fyrir 1. mars 2019. Ráðið skal hafa samstarf við nýstofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Lögð er áhersla á að ráðið vinni með stjórnvöldum og stofnunum sem sinna loftslagsmálum til að forðast tvíverknað, byggja brýr milli stjórnvalda og annarra og tryggja að vinna ráðsins nýtist sem best.

Þingsályktun 48/145 um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum, 2. júní 2016 – þskj. 1496.
Framkvæmd hafin.
    Ekki hefur verið skipaður sérstakur starfshópur til að gera skýrslu um efldar hafrannsóknir með tilliti til súrnunar hafsins, eins og þingsályktunin kveður á um. Hins vegar hefur vöktun og rannsóknir á súrnun hafsins verið efld í samræmi við ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar hefur líka verið stuðst við efni og anda þingsályktunarinnar.
    Þriðja vísindaskýrsla á vegum íslenskra stjórnvalda um væntanleg áhrif loftslagsbreytinga á Ísland kom út í maí 2018. Að beiðni ráðuneytisins fjallaði nefndin sérstaklega um súrnun hafsins í skýrslunni. Í október undirrituðu ráðherra og forstjóri Hafrannsóknastofnunar samning sem felur í sér að efla vöktun á súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríki og vistkerfi í hafinu umhverfis Íslands. Hafrannsóknastofnun fær 35 milljónir króna á árinu 2019 og 30 milljónir króna árlega á árunum 2020–2023, eða samtals 155 milljónir króna, til þessa viðfangsefnis. Framlögum verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. Niðurstöðunum verður m.a. skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í, auk þess sem þær verða nýttar í reglulegar vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi.

Þingsályktun 50/145 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum, 2. júní 2016 – þskj. 1498.
Framkvæmd lokið.
    Samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum var umhverfis- og auðlindaráðherra falið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun sem miðaði að því að kurluðu dekkjagúmmíi yrði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það væri að finna. Vinnuhópur sem skipaður var í kjölfarið skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að áætlun í desember 2016.
    Útgefin áætlun er í samræmi við tillögur skipaðs vinnuhóps og gerir ráð fyrir því að fyrir árslok 2019 verði búið að skipta kurluðu dekkjagúmmíi út fyrir hættuminni efni á 60% allra leik- og íþróttavalla þar sem laust kurl kemst í beina snertingu við iðkendur, 80% leik- og íþróttavalla fyrir árslok 2022 og að verkinu verði lokið að fullu fyrir árslok 2026. Til að fylgjast með framvindu mála mun Umhverfisstofnun meta innleiðingu og árangur áætlunarinnar í lok hvers tímabils og upplýsa umhverfis- og auðlindaráðuneytið um stöðu mála.
    Fram kom í almennum tilmælum sem Umhverfisstofnun setti fram árið 2016, um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum, að kurl sem unnið væri úr hjólbörðum innihéldi hættuleg efni í litlu magni. Stofnunin benti á að ætíð væri æskilegt að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þá upplýsti stofnunin að rannsóknir hefðu ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls ylli heilsufarslegum skaða, en beindi því þó til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum að við endurnýjun vallanna eða við lagningu nýrra valla yrði notast við aðrar lausnir.
    Efnastofnun Evrópu (ECHA) hefur komist að sömu niðurstöðu og mælir ekki gegn notkun íþróttavalla með dekkjakurli á forsendum núverandi þekkingar. Ekki eru til reglur eða viðmið sem segja til um hvenær endurnýja eigi velli með gúmmíkurli. Aftur á móti hefur verið áætlað að eðlilegt sé að endurnýja kurl á völlum á um tíu ára fresti, en það fer einnig eftir ásigkomulagi vallanna.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 10/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 876.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 11/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 877.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2016.

Þingsályktun 12/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 878.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 13/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 879.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 14/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 23. febrúar – þskj. 880.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Liechtenstein um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 15/145 um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu, 23. febrúar – þskj. 881.
Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 4. mars 2016.

Þingsályktun 16/145 um fríverslunarsamning við Japan, 1. mars 2016 – þskj. 924.
Framkvæmd hafin.
    EFTA-ríkin reyndu á fyrri hluta síðasta áratugar að fá Japana til að hefja fríverslunarviðræður, en Japanar höfðu ekki áhuga á slíkum viðræðum við EFTA-ríkin í heild, m.a. vegna þess að þeir vildu ekki opna markað sinn fyrir íslenskum og norskum sjávarafurðum. Á endanum fór svo að Sviss gerði eitt og sér fríverslunarsamning við Japan á árinu 2009.
    Íslensk stjórnvöld hafa í kjölfarið ítrekað farið þess á leit við japönsk stjórnvöld að hefja fríverslunarviðræður. Sérstakt átak hefur verið gert síðustu tvö ár í þessa veru, m.a. með fundum ráðherra og embættismanna ríkjanna. Japanar hafa hins vegar hingað til ekki verið tilbúnir að fara út í slíkar viðræður. Japan hefur þó ekki útilokað að gera það seinna og verður átakinu því haldið áfram.

Þingsályktun 20/145 um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, 16. mars 2016 – þskj. 1028.
Framkvæmd lokið.
    Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu 22. ágúst 2016 þar sem ákveðið var að setja á stofn vinnuhóp embættismanna til að vinna að tillögum um samstarfssamning milli landanna þriggja og kanna möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að ráðherrarnir væru að framfylgja ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2015 þar sem hvatt var til þess að ríkisstjórnir landanna þriggja kæmu á fót vinnuhópi sem í ættu sæti viðkomandi sérfræðingar og hefði það verkefni að kortleggja sameiginlegan ávinning af því að gera sameiginlegan fríverslunarsamning milli landanna þriggja.
    Vinnuhópurinn, sem skipaður var embættismönnum utanríkisráðuneyta vestnorrænu landanna þriggja, skoðaði möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna í samræmi við fyrrgreinda ályktun Vestnorræna ráðsins, með því að Grænland gengi inn í Hoyvíkursamninginn eða með sérstökum samningi. Í þessu sambandi upplýstu fulltrúar Grænlands hins vegar að frekari skoðun og samráð væri nauðsynlegt á Grænlandi áður en hægt væri að taka ákvörðun um hugsanlegan fríverslunarsamning við Ísland og/eða Færeyjar. Í samræmi við það kom fram í niðurstöðum vinnuhópsins að þörf væri á frekari skoðun á Grænlandi á möguleikum á gerð fríverslunarsamnings milli vestnorrænu landanna áður en hægt yrði að hefja viðræður um slíkan samning.
    Fyrrgreindur vinnuhópur ræddi jafnframt um mögulegan ávinning af stofnun vestnorræns viðskiptaráðs. Í því sambandi varð niðurstaða vinnuhópsins sú að stofnun og rekstur slíkra viðskiptaráða um viðskipti milli tiltekinna landa, þ.m.t. vestnorræns viðskiptaráðs, væru almennt í höndum fulltrúa atvinnulífsins og einkaaðila fremur en stjórnvalda viðkomandi landa. Af þeim sökum taldi vinnuhópurinn að eðlilegra væri að fulltrúar þeirra aðila fremur en fulltrúar stjórnvalda landanna mundu meta mögulegan ávinning af stofnun vestnorræns viðskiptaráðs. Fulltrúar vinnuhópsins samþykktu jafnframt að upplýsa núverandi fulltrúa þeirra viðskiptaráða sem eru starfandi milli landanna (Færeysk-íslenska viðskiptaráðið og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið) um þessa niðurstöðu.

Þingsályktun 25/145 um fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna, 17. mars 2016 – þskj. 1044.
Framkvæmd lokið.
    Fullgildingarskjöl Íslands voru afhent 9. júní 2016. Samningurinn hefur þó ekki enn öðlast gildi, þar sem Gvatemala hefur ekki fullgilt hann.

Þingsályktun 29/145 um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, 3. maí 2016 – þskj. 1231.
Framkvæmd lokið.
    Umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu var samþykkt á ráðherrafundi Norðurskautsríkja í Fairbanks í Alaska í maí 2017.

Þingsályktun 30/145 um fullgildingu breytinga á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði, 17. maí 2016 – þskj. 1292.
Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 17. júní 2017.

Þingsályktun 31/145 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016, 17. maí 2016 – þskj. 1293.
Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem var einungis til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 31. desember 2015.

Þingsályktun 32/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1351.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 33/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 252/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1352.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 34/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1353.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 35/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1354.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 36/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2015 um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1355.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 39/145 um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró), 2. júní 2016 – þskj. 1462.
Framkvæmd lokið.
    Viðbótarsamningurinn öðlaðist gildi 5. júní 2017.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti (þá velferðarráðuneyti)).
Framkvæmd vegna hluta utanríkisráðuneytis hafin.
    Vísað er til umfjöllunar um þingsályktunina undir lið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á bls. 28–30.

Þingsályktun 45/145 um stuðning Íslands við að koma á alþjóðlegu banni við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla, 2. júní 2016 – þskj. 1486.
Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðuneytið fylgist með þessum málaflokki og hefur tekið málið upp á norrænum samráðsfundum. Í norræna varnarmálasamstarfinu NORDEFCO vinnur nú starfshópur um sjálfvirk farartæki, sem hefur m.a. það markmið að kortleggja notkun, þróun og löggjöf um slík farartæki í öryggis- og varnarmálastofnunum Norðurlandanna. Ísland tekur þátt í starfshópnum á borgaralegum forsendum með tilliti til þingsályktunar 45/145. Áhersla hópsins er fyrst og fremst á sjálfvirk farartæki sem notuð eru til eftirlits, en einnig fer fram siðferðisleg umræða um framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla. Fyrir utan þennan starfshóp eru þessi mál ekki mikið til umræðu á alþjóðavettvangi að svo stöddu.

Þingsályktun 59/145 um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, 13. september 2016 – þskj. 1664.
Framkvæmd lokið.
    Staðfestingarskjöl Íslands voru afhent 28. september 2017 en samningurinn hefur ekki enn öðlast gildi.

Þingsályktun 60/145 um fullgildingu Parísarsamningsins, 19. september 2016 – þskj. 1682.
Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 4. nóvember 2016.

Þingsályktun 61/145 um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 20. september 2016 – þskj. 1693.
Framkvæmd hafin.
    Samningurinn öðlaðist gildi 23. október 2016. Vinnuhópur sem lýtur forystu velferðarráðuneytisins hefur unnið að gerð fyrstu reglubundnu skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins og er stefnt að því að skila henni á næstum misserum. Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi hefur einnig haft til skoðunar fullgildingu valkvæðs viðauka samningsins, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir.

Þingsályktun 62/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn, 20. september 2016 – þskj. 1690.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 6. október 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2017.

Þingsályktun 64/145 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (evrópskar reglur um fjármálaeftirlit), 23. september 2016 – þskj. 1699.
Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktun þessari var ríkisstjórninni heimilað fyrir fram að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn um að fella inn í samninginn gerðir um evrópskar reglur um fjármálaeftirlit og breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar tóku gildi í september 2016.
Þingsályktun 68/145 um stuðning við alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum, 13. október 2016 – þskj. 1826.
Framkvæmd hafin.
    Utanríkisþjónustan hefur beitt sér um árabil á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum líkt og þingsályktun 68/145 kveður á um, m.a. á vettvangi öryggisráðsins, þ.m.t. í meðflutningi á ályktunum, sbr. ályktun öryggisráðsins nr. 2286 (2016) frá maí 2016, stuðningi við ályktanir og ræður í öryggisráðinu, allsherjarþinginu og í nefndum SÞ.
    Frá samþykkt ályktunarinnar hefur m.a. verið haldin norræn ræða fyrir Íslands hönd um Sýrland þar sem þess var krafist að árásum á heilbrigðisstofnanir og -starfsfólk yrði hætt tafarlaust. Þá var af hálfu Íslands tekið undir norræna ræðu í öryggisráðinu 25. maí 2017 um öryggi almennra borgara á átakasvæðum, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólks, og var Ísland meðflytjandi að árlegri ályktun allsherjarþingsins um öryggi mannúðarstarfsfólks líkt og undanfarin ár.
    Ísland var aðili að norrænni ræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hinn 22. maí 2018 sem fjallaði um efni ályktunarinnar og ályktanir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í málefnum Jemen og Sýrlands, sem Ísland greiddi atkvæði með sem aðili að mannréttindaráðinu hinn 28. september 2018, og m.a. um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum.
    Ísland var á tímabilinu meðflytjandi um stöðu viðauka við Genfarsamningana 1949 í laganefnd SÞ (6. nefnd) sem var samþykkt af allsherjarþinginu í desember 2018 og átti hlut að norrænni ræðu um sama efni í laganefndinni í október 2018. Ísland var enn fremur meðflytjandi að ályktun um öryggi mannúðarstarfsfólks og vernd starfsfólks SÞ sem samþykkt var í allsherjarþinginu 14. desember 2018.
    Í öryggisráðinu var Ísland aðili að norrænni ræðu um vernd borgara í átökum sem var flutt 23. maí 2019. Ísland tók jafnframt undir ákall um að efla virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og mannúðaraðstoð á ráðherrafundi sem haldinn var að frumkvæði Frakklands og Þýsklands í tengslum við allsherjarþing SÞ 26. september 2019.
    Þá má nefna að í ráðherrayfirlýsingu á leiðtogafundi um sjúkratryggingar sem haldinn var í tengslum við allsherjarþing SÞ 23. september var vísað í vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum og aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn þeim.
    Í mannréttindaráði SÞ í Genf, þar sem Ísland hefur setið frá 13. júlí 2018, hafa einnig verið samþykktar ályktanir nokkrum sinnum um bæði Jemen og Sýrland, þar sem vikið er að mikilvægi þess að borin sé virðing fyrir mannúðarlögum á átakasvæðum, þ.m.t. með tilliti til verndar heilbrigðisstarfsfólks. Ísland hefur í öllum tilfellum greitt atkvæði með samþykkt umræddra ályktana og raunar skráð sig sem meðflutningsaðili að þeim.
    Loks sótti utanríkisráðherra sérstaka framlagaráðstefnu um ástandið í Jemen og hörmungar óbreyttra borgara þar sem haldin var á vegum SÞ í Genf í febrúar 2019. Hafði ráðherra þá nýverið tilkynnt um fjárframlög til Barnahjálpar SÞ (UNICEF) og Matvælastofnunar SÞ (WFP) sem og Mannfjöldastofnunar SÞ (UNFPA). Rauði kross Íslands og Barnaheill-Save the children hafa einnig fengið fjárframlög vegna verkefna í Jemen á undanförnu ári.

Þingsályktun 69/145 um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu, 13. október 2016 – þskj. 1827.
Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðuneytið hefur verið í sambandi við Geimvísindastofnun Evrópu og átt fundi með starfsmönnum hennar, m.a. framkvæmdastjóra, í því augnamiði að safna upplýsingum um starfsemina, kostnað og þjóðréttarlegar skuldbindingar í samræmi við þingsályktunina.
    Utanríkisráðuneytið hefur enn fremur sett á laggirnar starfshóp ráðuneyta, stofnana, fyrirtækja og háskólasamfélagsins til að vinna að framgangi ályktunarinnar. Þessir aðilar vinna nú að greiningu á ávinningi sem fylgt gæti hugsanlegri aðild. Viðræður við stofnunina fóru fram í febrúar 2019 og lagt hefur verið til að hefja samningaviðræður við stofnunina um gerð samstarfssamnings, sem er fyrsta skref í hugsanlegu aðildarferli.

Yfirlit um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2015.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 13/144 um Jafnréttissjóð Íslands, 19. júní 2015 – þskj. 1456, og þingsályktun 17/145 um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, 1. mars 2016 – þskj. 926.
Framkvæmd hafin.
    Forseti Íslands staðfesti 7. desember 2018, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, forsetaúrskurð nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Samkvæmt úrskurðinum fer forsætisráðuneytið með málefni Jafnréttissjóðs Íslands.
    Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður 19. júní 2015 með samþykki þingsályktunar nr. 13/144 í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Alþingi samþykkti í apríl 2019 þingsályktun 19/149 um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 millj. kr. á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Úthlutað er úr sjóðnum 19. júní ár hvert. Ráðherra skipar sjóðnum sjóðsstjórn, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Stjórnsýsla sjóðsins, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, er hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands.
    Í samræmi við ályktanir Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, styðja þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð. Jafnframt leggur sjóðurinn áherslu á að styrkja verkefni sem vinna gegn kynbundnu ofbeldi, stuðla að fræðslu og forvarnarstarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni og einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt, stuðla að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis sem og verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum
    Árið 2016 bárust sjóðnum 114 umsóknir og hlutu 42 umsækjendur styrki til verkefna og rannsókna.
    Árið 2017 bárust sjóðnum 85 umsóknir og hlutu 26 verkefni og rannsóknir styrki en tæplega 100 millj. kr. voru til úthlutunar.
    Árið 2018 bárust 85 umsóknir og hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna úr sjóðnum.
    Árið 2019 bárust sjóðnum 76 umsóknir og úthlutað var tæplega 91 millj. kr. í styrki til 17 verkefna og rannsókna.

Þingsályktun 21/144 um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra, 2. júlí 2015 – þskj. 1608.
Framkvæmd lokið.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leyti að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra eins og nánar er mælt fyrir um í ályktuninni.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 28. maí 2015 – þskj. 1355.
Framkvæmd lokið.
    Framkvæmd þingsályktunarinnar (stefnunnar) er hafin og verður hún viðvarandi verkefni við mótun uppbyggingar flutningskerfis raforku. Í kerfisáætlun Landsnets, um uppbyggingu flutningskerfis raforku, er m.a. vísað til þeirra meginreglna og viðmiða sem fram koma í þingsályktuninni. Þingsályktunin er því komin til framkvæmda. Á haustþingi 2017 stóð til að leggja fram nýja þingsályktunartillögu sama efnis, í samræmi við ákvæði raforkulaga.

Þingsályktun 15/144 um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 1. júlí 2015 – þskj. 1574.
Framkvæmd lokið.
    Sjá útfærslu í reglugerð nr. 630/2016 um veiðar í atvinnuskyni. Reglugerðin er m.a. prentuð í árlegu riti útgefnu af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu: Stjórn fiskveiða 2016/2017. Lög og reglugerðir.

DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið dómsmálaráðuneytis (þá innanríkisráðuneytis) á umræddu tímabili.

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið félagsmálaráðuneytis (þá velferðarráðuneytis) á umræddu tímabili.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 14/144 um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019, 30. júní 2015 – þskj. 1552.
Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 6. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kveður á um að fjármála- og efnahagsráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma), svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir.
    Þingsályktunin var samþykkt á Alþingi 30. júní 2015 og nær yfir tímabilið 2016–2019. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 sem lagt var fram 8. september 2015 og varð að lögum 19. desember sama ár byggist í meginatriðum á þeirri ríkisfjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Í þessu samhengi er rétt að geta þess að lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, voru samþykkt á Alþingi 28. desember 2015 og tóku gildi 1. janúar 2016. Svo sem þar er gert ráð fyrir leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta, fyrst 2016 og síðan árlega. Í samræmi við það var þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 samþykkt á Alþingi 18. ágúst 2016, sjá þingskjal 1558, 740. mál, 145. lögþ. Segja má því að í fjárlögum fyrir árið 2016 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit um meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTI (VELFERÐARRÁÐUNEYTI TIL 1. JANÚAR 2019)

Þingsályktun 17/144 um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu, 1. júlí 2015 – þskj. 1577.
Framkvæmd lokið.
    Haustið 2015 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem var falið að móta stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2016 þar sem fram koma tillögur að stefnu í fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi og aðgerðaáætlun til næstu ára. Velferðarráðuneytið vann út frá tillögum nefndarinnar og hugmyndum og reynslu heilbrigðisstofnana til að ákvarða sérstök verkefni með það að markmiði að nýta vel sérþekkingu heilbrigðisstarfsmanna, forgangsraða verkefnum og bæta aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri heilbrigðisþjónustu og auka öryggi þeirra. Þá hefur sjónum einnig verið beint að því hvernig nýta megi fjarheilbrigðisþjónustu til að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu og undirbúin voru tvö tilraunaverkefni bæði á sviði forvarna og meðferðar við geðvanda. Annað þeirra verkefna er enn í gangi og gengur vel. Til að styðja við forvinnu að innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu voru settir ákveðnir fjármunir til embættis landlæknis í lok árs 2016.
    Í framhaldinu var annar starfshópur með fulltrúum stærstu heilbrigðisstofnananna skipaður í nóvember 2017 til að móta tillögur að áframhaldandi uppbyggingu og framþróun á skipulagi og innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu um land allt. Starfshópurinn skilaði skýrslu, Fjarheilbrigðisþjónusta – Í takt við nýja tíma, til ráðherra í september 2018, með tillögum til aðgerða þar sem tilgreind eru verkefni sem hópurinn telur mikilvæg að hefjist fljótlega. Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt framsettar tillögur starfshópsins og falið ráðuneytinu að koma tillögunum til framkvæmda. Sú vinna er hafin.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI

    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytisins á umræddu tímabili.

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI (INNANRÍKISRÁÐUNEYTI TIL 1. MAÍ 2017)

Þingsályktun 19/144 um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna, 1. júlí 2015 – þskj. 1581.
Framkvæmd lokið.
    Málið hefur verið skoðað og rætt við innlendar ráðgjafarstofur. Það kostar verulega fjármuni að vinna þá vinnu sem óskað er eftir í þingsályktuninni og ljóst að erlendir aðilar þurfa að koma að þeirri vinnu, sbr. greinargerð þingsályktunartillögunnar. Fjármunir fylgdu ekki en engu að síður taka stjórnvöld þátt í vinnu á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að skoða mögulegt fyrirkomulag og hagkvæmni við slíkar samgöngur.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúar SSH skrifuðu undir viljayfirlýsingu um viðræður um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við framlagningu samgönguáætlunar. Viðræðurnar ná m.a. til hágæða almenningssamgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að niðurstöðum samtalsins verði komið á framfæri við Alþingi við umfjöllun um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Tengt þessu var skrifað var undir samkomulag um samgönguframkvæmdir á Höfuðborgarsvæðinu m.a. vegna Borgarlínu sem er niðurstaða sveitarfélaga um framtíðaruppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI

Þingsályktun 16/144 um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141, 1. júlí 2015 – þskj. 1575.
Framkvæmd lokið.
    Verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Í áætluninni eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk, allt eftir því hvort þar er að finna virkjunarkosti sem nýta má til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þá eða kanna frekar. Í þessari þingsályktun var einn virkjunarkostur, þ.e. Hvammsvirkjun í Þjórsá, færður úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk, en í orkunýtingarflokk falla þeir virkjunarkostir sem er áætlað að ráðast megi í.

Þingsályktun 18/144 um að draga úr plastpokanotkun, 1. júlí 2015 – þskj. 1580.
Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var umhverfis- og auðlindaráðherra falið að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi og birta aðgerðaáætlun. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í byrjun árs 2016 til að móta tillögur að aðgerðum um hvernig draga mætti úr notkun plastpoka með árangursríkum hætti og setti starfshópurinn saman tillögu að aðgerðaáætlun. Haustið 2016 var gefin út aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem inniheldur fjórtán skilgreind verkefni og gildir fyrir árin 2016–2018. Hún hefur það að markmiði að draga úr plastpokanotkun á Íslandi. Í framhaldi af setningu aðgerðaáætlunarinnar undirrituðu umhverfis- og auðlindaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hinn 9. september 2016 samning sem hefur það að markmiði að draga úr notkun léttra burðarplastpoka. Samningurinn felur í sér að samtökin munu hafa forgöngu um að verslanir dragi markvisst úr notkun léttra burðarplastpoka. Markmiðið er að fyrir árslok 2019 verði notkunin hér á landi ekki meiri en 90 plastpokar á einstakling á ári og að sú tala verði komin niður í 40 árið 2025. Samtök verslunar og þjónustu munu stuðla að því að umtalsverðum hluta tekna af sölu burðarplastpoka verði varið í kynningu til að draga úr notkun þeirra. Þá verður stofnaður sérstakur framkvæmdahópur verslunarinnar og Umhverfisstofnunar til að vinna að kynningu og fræðslu fyrir almenning og verða lífbrjótanlegir innkaupapokar kynntir sérstaklega.

Þingsályktun 20/144 um samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum, 2. júlí 2015 – þskj. 1607.
Framkvæmd lokið.
    Vestnorræna ráðið ályktaði um sama efni í ályktun nr. 2/2014 þar sem skorað er á stjórnvöld Íslands, Færeyja og Grænlands að eiga samstarf um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunina má rekja til notkunar svartolíu. Í ályktuninni er því beint til landanna að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun með því að krefjast þess að notað sé eldsneyti sem mengar minna og tækjabúnaður sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa.
    Ráðuneytið hefur hvorki sérstaklega brugðist við ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2014 né þingsályktun 20/144 þó að unnið hafi verið markvisst að þessum málum í ráðuneytinu.
    Hvað varðar notkun á eldsneyti sem mengar minna þá er Ísland aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur á grundvelli hans tekið upp löggjöf ESB á þessu sviði. Með reglugerðum um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti voru tilskipanir ESB þar að lútandi og um að draga úr magni brennisteins í tilteknu fljótandi eldsneyti innleiddar hér á landi. Reglugerð gildir um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, skipadísilolíu, skipagasolíu, svartolíu og gasolíu hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands. Þannig gilda tilskipanir Evrópusambandsins um leyfilegt innihald brennisteins í skipaeldsneyti á Íslandi sem og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í reglugerð nr. 46/2016 um breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti er kveðið á um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum, sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands skuli vera að hámarki 3,5% (m/m), að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi. Í reglugerð nr. 124/2015 kemur fram að reglur um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti munu breytast og verða strangari frá og með 1. janúar 2020 og má þá leyfilegur brennisteinn í skipaeldsneyti ekki vera meiri en 0,5% (m/m) að hámarki innan mengunarlögsögu Íslands. Jafnframt mega farþegaskip í áætlunarferðum til og frá höfn á Evrópska efnahagssvæðinu ekki nota eldsneyti með brennisteinsinnihaldi sem er meira en 1,5% frá sama tíma. Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að grænlensk og færeysk stjórnvöld setji sambærilegar reglur um takmörkun brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti.
    Hvað varðar tækjabúnað sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa þá er ráðuneytinu kunnugt um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi haft forgöngu um ýmis verkefni á því sviði. Eitt af verkefnum norræna lífhagkerfisins, sem var formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014, er Marina-verkefnið sem snýst um minni útblástur, orkuskipti á sjó og hvernig hægt sé að gera vistvænt eldsneyti að fýsilegum kosti. Í verkefninu eru allir sem koma að vistvænu eldsneyti tengdir saman á einn eða annan hátt, hvort sem það eru skipasmíðastöðvar, flutningafyrirtæki, opinberir aðilar eða aðrir. Ráðuneytið telur að farvegur til að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun skipa sé m.a. í gegnum norræn verkefni á sviði mengunarvarna og markviss þátttaka í vinnuhópum Norrænu ráðherranefndarinnar á umhverfissviðinu, svo sem vinnuhópum um málefni hafsins (HAV), loftslagsmál (KOL) og umhverfis- og efnahagsmál (MEG).
    Ráðuneytið er tilbúið að upplýsa Færeyjar og Grænland um aðgerðir hér á landi til að draga úr brennisteinsútblæstri og vinna að auknu samstarfi um þessi mál á norrænum vettvangi sé þess óskað og hefur komið þessum upplýsingum til samstarfsráðherra.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þingsályktun 3/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 27. febrúar 2015 – þskj. 1006.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. mars 2015 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 4/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 27. febrúar 2015 – þskj. 1007.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. mars 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2015.

Þingsályktun 5/144 um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, 27. maí 2015 – þskj. 1343.
Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 16. júní 2015.

Þingsályktun 6/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1344.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 7/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1345.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 8/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1346.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 9/144 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2015, 27. maí 2015 – þskj. 1347.
Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem var einungis til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 20. janúar 2015.

Þingsályktun 10/144 um staðfestingu samnings milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka, 27. maí 2015 – þskj. 1348.
Framkvæmd hafin.
    Ekki hefur enn borist opinber tilkynning frá grænlenskum stjórnvöldum um móttöku nótu Íslands vegna fullgildingar.

Þingsályktun 12/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 28. maí 2015 – þskj. 1357.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. ágúst 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. október 2015.

Þingsályktun 1/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 458.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 2/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 459.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 3/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 460.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 7. desember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. febrúar 2016.

Þingsályktun 4/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 461.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 5/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 462.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 6/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 463.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 7/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 464.
Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 8/145 um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT), 19. desember 2015 – þskj. 677.
Framkvæmd lokið.
    Nauðsynlegar lagabreytingar fóru fram á 149. löggjafarþingi og var bókunin fullgilt af hálfu Íslands í framhaldi. Fullgildingarskjöl voru afhent vörsluaðila þann 20. febrúar 2019 og bókunin tók gildi 22. mars 2019.