Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1612  —  4. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Bláskógabyggð, meiri hluta fjárlaga­nefndar Alþingis, Landspítala, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landspítala og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið felur í sér að stofnaður verði byggingarsjóður Landspítala í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem starfræktur verði í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítala. Lagt er til að tekjustofn sjóðsins verði tekjur af auðlegðarskatti auk þess sem sjóðnum verði heimilt að taka við frjálsum framlögum. Jafn­framt njóti sjóðurinn vaxtatekna og hafi heimildir til lántöku ef útgjöld reynast tímabundið hærri en innheimta markaðra tekna. Í greinargerð kemur fram að vísbendingar séu um að auðlegð hinna efnuðustu í íslensku samfélagi fari vaxandi og að frumvarpið sé lagt fram með tilliti til þeirra kringumstæðna.
    Ljóst er að bygging nýs Landspítala er nú þegar hafin en framkvæmdir hafa þó tafist um­talsvert miðað við það sem lagt var upp með. Umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að bygging Landspítala tefjist ekki frekar þar sem spítalinn anni vart hlutverki sínu og að þar með lengist biðlistar. Þá benda umsagnaraðilar á nauðsyn þess að tryggja fjármögnun slíkrar byggingar þó þeir taki ekki endilega afstöðu til þess hvernig það verði gert.
    Ekki náðist samstaða í nefndinni um þá útfærslu á byggingarsjóði Landspítala og fjár­mögnun hans sem lagt er upp með í frumvarpinu. Engu að síður er einhugur í nefndinni um að leggja áherslu á að haldið verði áfram byggingu Landspítala og henni lokið sem fyrst. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún vinni að frekari úrbótum á húsakosti Landspít­ala bæði með því að ljúka byggingu nýs spítala sem og með úrbótum á núverandi húsakosti sem unnt er að nýta áfram.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar­innar.
    Ásmundur Friðriksson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 31. ágúst 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Elsa Lára Arnardóttir. Geir Jón Þórisson.
Páll Valur Björnsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steingrímur J. Sigfússon.