Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 464  —  374. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn (sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030).


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir sem varða samkomulag Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlegt markmið um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030.
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.
     3.      Hluta ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 frá 11. desember 2018 um stjórnun orkusambandsins og aðgerða í loftslagsmálum, um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 663/2009 og (EB) nr. 715/2009, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB, 98/70/EB, 2009/31/EB, 2009/73/EB, 2010/31/ ESB, 2012/27/ESB og 2013/30/ESB, tilskipunum ráðsins 2009/119/EB og (ESB) 2015/652 og um niðurfellingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.
     4.      Hluta ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB.
     5.      Hluta ákvæða framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014 frá 30. júní 2014 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 frá 25. október 2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn og fella inn í samninginn þær gerðir sem tilgreindar eru í tillögugreininni.
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi til innleiðingar á umræddum gerðum var ákvörðun nr. 269/2019 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, kemur fram að á tímabilinu frá árinu 1994 til ársloka 2016 tók Ísland upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Um samstarf Íslands og Evrópusambandsins (ESB) á sviði loftslagsmála.
    Kýótó-bókunin frá árinu 1997 er undirsamningur rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (hér eftir nefndur loftslagssamningur SÞ) sem kveður á um skuldbindingar þróaðra ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Síðara skuldbindingatímabil bókunarinnar nær yfir árin 2013–2020. Á sínum tíma var það mat samninganefndar Íslands í loftslagsmálum að hagsmunum Íslands væri best borgið með því að vera í samfloti með 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) í sameiginlegu markmiði á síðara tímabili Kýótó-bókunarinnar, um 20% minnkun losunar til ársins 2020 miðað við árið 1990. Náðist um það samningur milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kýótó- bókunarinnar við loftslagssamning SÞ sem undirritaður var hinn 1. apríl 2015. Ísland fullgilti samninginn í ágúst 2015 og er 6. október 2015 skráður viðtökudagur fullgildingarskjala Íslands hjá vörsluaðila. Samningurinn öðlaðist gildi hinn 27. nóvember 2018.
    Samningurinn við ESB var m.a. gerður þar sem annað fyrirkomulag hefði kallað á tvíþættar skuldbindingar af Íslands hálfu, þ.e. annars vegar gagnvart loftslagssamningi SÞ og hins vegar samkvæmt EES-samningnum vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (EU Emission Trading Scheme, ETS). Með þessu fyrirkomulagi þurfti ekki að semja um sérlausnir fyrir Ísland vegna losunar frá stóriðju á vettvangi Kýótó-bókunarinnar en sú losun fellur undir sameiginlega viðskiptakerfið (ETS) en ekki undir losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
    Þegar farið var að huga að innleiðingu Parísarsamningsins árið 2015 komst samninganefnd í loftslagsmálum að þeirri niðurstöðu að rökrétt væri að Ísland mundi halda áfram að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja til að forðast misræmi í bókhaldi og markmiðum samkvæmt EES-reglum annars vegar og alþjóðasamningum hins vegar. Noregur komst einnig að sömu niðurstöðu.
    Rökin fyrir því að gengið er til samninga við Evrópusambandið um sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum eru að Ísland búi við skýrar og sambærilegar reglur hvað losun gróðurhúsalofttegunda varðar og önnur ríki sem aðild eiga að viðskiptakerfinu með losunarheimildir (ETS). Þannig þurfi t.d. ekki að semja um sérlausnir fyrir stóriðju á Íslandi þar sem hefur verið mest aukning í losun og mest óvissa um þróun losunar í framtíðinni. Með þessu er sú losun á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja og Evrópuríkjanna í heild undir hatti viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS) en ekki á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Án samflots með Evrópuríkjum þyrfti Ísland að leggja fram nýtt sjálfstætt markmið á vettvangi Parísarsamningsins sem næði til losunar í heild, þ.m.t. stóriðju.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 eru aðilar ásáttir um að stefna að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030 miðað við árið 1990 og ná því markmiði með sameiginlegri framkvæmd. Sú framkvæmd felst í því að 30 ríki, 28 aðildarríki ESB og EFTA-ríkin Ísland og Noregur, skuldbinda sig sem heild gagnvart alþjóðasamfélaginu um að ná 40% samdrætti í losun til ársins 2030 miðað við árið 1990 en kröfur á einstök ríki munu fara eftir innri reglum. Með þessari tilhögun taka Ísland og Noregur sjálfviljug upp tilteknar innri reglur ESB varðandi loftslagsmál sem falla utan efnislegs gildissviðs EES-samningsins en leggja ekki fram sjálfstætt tölulegt markmið um samdrátt í landslosun innan Parísarsamningsins.
    Samkvæmt Parísarsamningnum eiga öll ríki að senda inn svokallað landsákvörðuð markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings SÞ. Í innsendu markmiði Íslands frá 30. júní 2015 var greint frá áformum um að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ESB-ríkjum um samdrátt um 40% til ársins 2030 miðað við árið 1990, með þeim fyrirvara að samkomulag næðist. Að öðrum kosti mundi Ísland þurfa að senda inn sjálfstætt markmið varðandi skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030 sem taka þarf til allrar losunar, þ.m.t. stóriðju.

4. Tildrög þess að þátttaka Íslands og Noregs í sameiginlegum efndum með ESB er felld undir EES-samninginn.
    EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði er snúa að umhverfismálum og vernd umhverfisins. Í 1. gr. samningsins kemur fram að auk þess sem samstarfið taki til fjórfrelsisins og samkeppnismála skuli komið á nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismálamenntunar og félagsmála. Í samningnum kemur síðan fram að umhverfismál eru talin ýmist geta varðað fjórfrelsið eða samvinnu utan marka þess. Ákvæði um umhverfismál er þannig að finna í bæði V. hluta samningsins (altæk ákvæði sem varða fjórfrelsið) og VI. hluta (samvinna utan marka fjórfrelsisins).
    Það getur verið matsatriði hvort einstakar ESB-gerðir á sviði umhverfismála falli undir EES-samninginn eða ekki. Gerðir sem varða viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir (ETS) hafa verið teknar upp í EES-samninginn og taka EFTA-ríkin innan EES fullan þátt í ETS-kerfinu. Hins vegar hafa aðrar ESB-gerðir vegna skuldbindinga í loftslagsmálum almennt verið taldar falla utan efnislegs gildissviðs EES-samningsins og hafa þar af leiðandi ekki verið teknar upp í hann. Hefur þetta einkum verið vegna andstöðu EFTA-ríkjanna innan EES en afstaða ESB hefur verið að gerðirnar falli innan efnislegs gildissviðs EES-samningsins. Samþykki allra samningaaðila, þ.e. bæði EFTA- og ESB-stoðarinnar, þarf fyrir upptöku nýrrar ESB-löggjafar í EES-samninginn, sbr. nánar 102. gr. EES-samningsins.
    Í samningaviðræðum Íslands og Noregs við framkvæmdastjórn ESB, sem hófust á árinu 2018, um mögulega sameiginlega þátttöku í loftslagsmarkmiðum ESB á grundvelli Parísarsamningsins, var upphafleg afstaða EFTA-ríkjanna tveggja, Íslands og Noregs, sú að sameiginleg þátttaka ætti að byggja á sama grunni og þátttaka Íslands í loftslagsmarkmiðum ESB á grundvelli Kýótó-bókunarinnar, þ.e. að gerður yrði sérstakur þjóðréttarsamningur utan EES-samningsins. Slík niðurstaða hefði falið í sér að gerðir tengdar ETS-kerfi ESB hefðu áfram fallið undir gildissvið EES-samningsins en aðrar ESB-gerðir sem tengjast skuldbindingum Parísarsamningsins utan hans.
    Af hálfu framkvæmdastjórnar ESB kom fram að ef Ísland og Noregur vildu taka þátt í sameiginlegu losunarmarkmiði samkvæmt Parísarsamningnum þyrftu ríkin að undirgangast sambærilegar skuldbindingar og aðildarríki ESB hvað varðar eftirfylgni. Þannig yrðu ákvæði þeirra ESB-gerða sem ætlað væri að fylgja eftir markmiðum Parísarsamningsins að gilda að fullu gagnvart Íslandi og Noregi. Eftirlits- og dómsvald sem stofnanir ESB hefðu gagnvart aðildarríkjum ESB vegna slíkra ESB-gerða yrðu jafnframt að endurspeglast gagnvart Íslandi og Noregi í gegnum tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Með öðrum orðum taldi ESB óhjákvæmilegt að loftslagsgerðirnar yrðu teknar upp í EES-samninginn og að eftirlits- og dómsvald Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins ættu einnig við gagnvart ríkjunum tveimur, Íslandi og Noregi.
    Af Íslands og Noregs hálfu var fallist á þessar kröfur ESB, að því tilskildu að gerðirnar yrðu felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn (þ.e. um samvinnu utan marka fjórþætta frelsisins) í stað XX. viðauka samningsins (Umhverfismál). Meginmunurinn á þessum tveimur leiðum felst í því að með því að gerðirnar séu felldar inn í bókun 31 verða Ísland og Noregur ekki talin hafa fallist á að efni gerðanna falli innan efnislegs gildissviðs EES-samningsins og þar með er ekki útvíkkuð túlkun á gildissviði samningsins frá því sem nú er. Með því að fella gerðirnar í bókun 31 má líta á upptöku þeirra í EES-samninginn sem þátt í samstarfsverkefni sem Ísland og Noregur gætu ákveðið að halda ekki áfram með eftir árið 2030, ef þau kysu svo.
    Í framkvæmd breytir þó ekki miklu hvor leiðin er farin, með því að fella gerðirnar inn í bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) eða taka þær upp í XX. viðauka (Umhverfismál). Valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins gagnvart Íslandi og Noregi eru sambærilegar í báðum tilvikum. Munurinn á þessum leiðum er að til þess að valdheimildir ESA og EFTA-dómstólsins eigi við í tilviki bókunar 31 þarf að tiltaka það í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem gerðin er felld inn í EES-samninginn, sbr. nánar 3. mgr. 79. gr. EES-samningsins.
    Niðurstaðan varð sú í samningaviðræðum Íslands, Noregs og Evrópusambandsins að fella gerðirnar inn í bókun 31 við EES-samninginn sem fjallar um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins þar sem afstaða Íslands og Noregs er að gerðirnar sem hér um ræðir falli ekki undir efnislegt gildissvið EES-samningsins.

5. Samráð.
5.1. Samráð við þingnefndir Alþingis.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að taka upp eða fella inn í EES-samninginn en munu ekki taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar.
    Drög að samkomulagi milli Íslands, Noregs og ESB um sameiginlega framkvæmd 30 ríkja á markmiðum Parísarsamningsins til ársins 2030 voru kynnt fyrir þingnefndum Alþingis á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar og umhverfis- og samgöngunefndar þann 30. nóvember 2018.
    Þá voru þær gerðir sem kalla á lagabreytingar sendar utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi utanríkismálanefndar, dags. 15. maí 2019, sbr. nánar fylgiskjal VII, kemur fram að gerðirnar hafi fengið efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd og taki utanríkismálanefnd undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fylgdi með bréfinu. Við meðferð málsins mættu fulltrúar utanríkisráðuneytis og auðlinda- og umhverfisráðuneytis á fundi þingnefnda, kynntu gerðirnar og svöruðu spurningum.

5.2. Samráð við hagsmunaaðila.
    Í september 2018 kynntu stjórnvöld aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Í kafla um markmið er fjallað um að Ísland hafi lýst yfir því markmiði innan ramma Parísarsamningsins að vera með í sameiginlegu markmiði 30 Evrópuríkja, þ.e. Noregs og 28 aðildarríkja Evrópusambandsins, um að ná 40% minnkun losunar til 2030 miðað við árið 1990.
    Aðgerðaáætlunin var sett í samráð í samráðsgátt stjórnvalda frá 10. september til 15. nóvember 2018. Alls bárust 40 umsagnir. Í þeim er ekki að finna athugasemdir við þær fyrirætlanir stjórnvalda að vinna sameiginlega að loftslagsmarkmiðum með Evrópusambandinu og Noregi. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir að sú ákvörðun stjórnvalda að vinna sameiginlega með Evrópusambandinu að loftslagsmarkmiðum á síðara tímabili Kýótó-bókunarinnar hafi reynst farsæl og tryggt að þau fyrirtæki sem falli undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og fyrirtæki annars staðar í álfunni.
    Aðgerðaáætlunin og samkomulag við Evrópusambandið og Noreg var einnig kynnt fyrir loftslagsráði en þar eiga sæti fulltrúar m.a. frá Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, háskólasamfélaginu, náttúruverndarsamtökum og Neytendasamtökunum.
    Greint var frá því í frétt umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hinn 30. nóvember 2018 að drög að samkomulagi Íslands og Noregs við ESB í loftslagsmálum lægju fyrir og hver væru helstu atriði samkomulagsins. Þá birti umhverfis- og auðlindaráðuneytið frétt hinn 13. desember 2018 um fund umhverfis- og auðlindaráðherra með umhverfisráðherra Noregs og framkvæmdastjóra loftslagsmála í framkvæmdastjórn ESB þar sem skýrt var frá efni væntanlegs samkomulags og greint frá ferlinu við rýni samkomulagsins fram að fyrirhugaðri samþykkt.

6. Skuldbindingar Íslands innan ramma Parísarsamningsins og sameiginlegrar framkvæmdar hans með Noregi og ESB og aðildarríkjum þess.
6.1. Almennt.
    Parísarsamningurinn markar tímamót í loftslagsmálum. Ríki heims náðu samkomulagi um ákvæði hans í desember 2015 og innan við ári síðar öðlaðist samningurinn gildi á heimsvísu. Ísland fullgilti samninginn í september 2016 (858. mál á 145. löggjafarþingi 2015-2016) og var meðal 55 fyrstu ríkjanna sem það gerðu en það var ein forsenda þess að samningurinn gæti öðlast gildi. Í Parísarsamningnum er í fyrsta sinn að finna ákvæði um aðgerðir allra ríkja heims til að draga úr losun og þar er loks komin hnattræn sátt sem auðveldar ríkjum að einblína á aðgerðir í stað þess að deila um skiptingu byrða varðandi losun og fjármögnun aðgerða. Nú hafa 195 ríki undirritað Parísarsamninginn (af 197 aðildarríkjum loftslagssamnings SÞ) og 187 ríki staðfest eða fullgilt hann (miðað við 1. nóvember 2019).
    Samkvæmt samningnum eiga öll ríki að senda inn svokölluð landsákvörðuð framlög, þ.e. töluleg markmið um losun sem þau hyggjast standa við. Í tilviki þróaðra ríkja eiga markmiðin að vera „skilyrðislaus losunarskerðingarmarkmið“ sem taka til alls hagkerfisins. Ríkjum er þó heimilt samkvæmt samningnum að senda inn sameiginlegt markmið um minnkun losunar en þá geta viðkomandi ríki komið sér saman um innri reglur og markmið hvers og eins.

6.2. Samningaviðræður við Evrópusambandið.
    Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa tilkynnt til skrifstofu loftslagssamnings SÞ sameiginlegt markmið varðandi skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum um minnkun losunar um 40% til ársins 2030 miðað við árið 1990.
    Ísland og Noregur hófu formlegar viðræður við Evrópusambandið um sameiginlega framkvæmd skuldbindinga innan ramma Parísarsamningsins í loftslagsmálum í júní 2018. Haldnir voru þrír formlegir fundir í Brussel auk þess sem umhverfisráðherrar Íslands og Noregs og Miguel Arias Cañete, framkvæmdastjóri loftslagsmála í framkvæmdastjórn ESB, funduðu í tengslum við árlegan loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í Póllandi í desember 2018 þar sem gengið var frá óformlegri pólitískri yfirlýsingu um málið. Jafnframt voru haldnir fjölmargir símafundir.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið, auk samninganefndar í loftslagsmálum, telja samflot með ESB og Noregi besta kostinn fyrir Ísland þannig að tilkynnt markmið Íslands innan Parísarsamningsins teljist vera metnaðarfullt, sanngjarnt og samanburðarhæft á alþjóðlegum vettvangi.
    Forsendur íslenskra stjórnvalda fyrir því að farið var í viðræður við Evrópusambandið og Noreg voru þær að Ísland mundi búa við skýrar reglur og sambærilegar við önnur Evrópuríki hvað losun gróðurhúsalofttegunda varðar. Þannig þurfti t.d. ekki að semja um sérlausnir fyrir stóriðju á Íslandi þar sem hefur verið mest aukning í losun og mest óvissa um þróun losunar í framtíðinni. Sú losun er með þessu á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja og Evrópuríkjanna í heild, en ekki á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Ef ekki væri vilji til að vera í samfloti þyrfti Ísland að leggja fram nýtt sjálfstætt markmið á vettvangi Parísarsamningsins sem næði til losunar í heild, þ.m.t. stóriðju.
    Aðilar eru ásáttir um að stefna að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030 miðað við árið 1990 og ná því markmiði með sameiginlegri framkvæmd sem felst í því að 30 ríki skuldbinda sig sem heild gagnvart alþjóðasamfélaginu um að ná 40% samdrætti í losun til ársins 2030 miðað við árið 1990 en kröfur á einstök ríki fari eftir innri reglum. Með þessari tilhögun taka Ísland og Noregur sjálfviljug upp tilteknar innri reglur ESB varðandi loftslagsmál og falla utan EES-samningsins en ekki leggja fram sjálfstætt tölulegt markmið um samdrátt í landslosun innan Parísarsamningsins.
    Viðleitni ESB við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan ramma Parísarsamningsins eftir 2020 byggir að mestu á fjórum gerðum: 1) um viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) sem nær yfir losun m.a. frá kolaorkuverum, stóriðju og flugi, 2) um losun utan ETS (Effort Sharing) sem nær til losunar m.a. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði, úrgangi og minni iðnaði, 3) um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt ( LULUCF) sem nær yfir losun og kolefnisbindingu vegna landnotkunar og skógræktar 4) um bókhald og skýrslugjöf (Governance of the Energy Union and Climate Action). Ísland er nú þegar þátttakandi í viðskiptakerfinu – sem nær einkum til stóriðju og flugstarfsemi hér á landi – en þarf að taka upp hinar gerðirnar þrjár ef farið er í samflot með ESB. Einnig liggur fyrir að breytingar verða gerðar á reglugerð um viðskiptakerfið (ETS) fyrir nýtt tímabil (2021–2030), sem þarf að innleiða.
    Af hálfu framkvæmdastjórnar ESB kom fram að sömu leikreglur ættu að gilda fyrir öll ríkin innan hins sameiginlega markmiðs hinna 30 ríkja. Þannig verði ákvæði þeirra ESB-gerða sem gefnar hafa verið út til að fylgja eftir markmiðum Parísarsamningsins að gilda að fullu gagnvart Íslandi og Noregi. Þá verði það eftirlits- og dómsvald sem stofnanir ESB hafa gagnvart aðildarríkjum sambandsins vegna slíkra ESB-gerða að endurspeglast gagnvart Íslandi og Noregi í gegnum tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Samkomulag náðist um að viðbótargerðirnar yrðu felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn sem fjallar um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins. Er þetta gert með þessum hætti þar sem sameiginlegur skilningur er á því að gerðirnar falli utan gildissviðs hins fjórþætta frelsis samkvæmt EES-samningnum og teknar upp á þeim forsendum. Samt sem áður er gert ráð fyrir aðkomu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins við framfylgd regluverksins sem er í fullu samræmi við tveggja stoða kerfið. Að mati Íslands og Noregs er mikilvægt að halda til haga því grundvallarsjónarmiði að ekki sé lagaleg skylda til að taka nýju loftslagsgerðirnar inn. Þetta fyrirkomulag um sameiginlega framkvæmd yrði í gildi á tímabilinu 2021–2030 en að því loknu gætu Ísland og Noregur skoðað málið að nýju.

6.3. Hlutur Íslands í sameiginlegu markmiði.
    Upplýsingar um tölulegar skuldbindingar ESB-ríkja hafa legið fyrir um nokkurt skeið en útreikningar á sanngjörnum markmiðum Íslands og Noregs fóru fram samhliða viðræðum við ESB. Samkvæmt útreikningum á sanngjörnum hlut Íslands innan sameiginlegs markmiðs 30 Evrópuríkja (Íslands, Noregs og 28 aðildarríkja ESB) fær Ísland kröfu um 29% samdrátt í losun til ársins 2030 miðað við árið 2005 varðandi losun utan viðskiptakerfis ESB (ETS). Einnig fær Ísland heimild til að færa heimildir úr ETS-kerfinu, sem nemur um 4% losunar, og vegna skógræktar og landnotkunar, sem nemur um 0,5% losunar.
    Stefnt er að meiri samdrætti í losun í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar en sem þessu nemur, eða um 40%. Kröfur á Ísland samkvæmt Parísarsamningnum og í sameiginlegri framkvæmd með öðrum Evrópuríkjum aftra Íslandi ekki frá því að setja sér metnaðarfyllra markmið heima fyrir. Slíkt eykur líkurnar á því að Ísland þurfi ekki að kaupa heimildir af öðrum ríkjum en einnig er líklegt að kröfur á ríki um samdrátt í losun verði hertar á komandi árum.

7. Gerðir sem felldar eru í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 frá 25. október 2019 eru fimm gerðir felldar inn í EES-samninginn. Verður hér á eftir gerð nánari grein fyrir efni hverrar gerðar um sig.

7.1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB (Land Use, Land Use Change and Forestry, LULUCF).
    Reglugerðin er hluti af orku- og loftslagspakka ESB til ársins 2030. Reglugerðin kveður á um skyldur aðildarríkja varðandi landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt sem eiga að tryggja að skuldbindingum Evrópusambandsins verði náð hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030. Samkvæmt gerðinni þarf að tryggja að aðgerðir á nytjalandi (svo sem skógrækt, landgræðsla og framræsla og endurheimt votlendis) stuðli að minnkaðri losun og aukinni kolefnisbindingu en ekki aukinni losun. Reglugerðin kveður einnig á um bókhaldsreglur um losun og bindingu vegna LULUCF og reglur varðandi mat á því hvort aðildarríki uppfylli skyldur sínar samkvæmt reglugerðinni.
    Ísland þarf sérstaka aðlögun vegna þess hve skógar eru lengi að vaxa á Íslandi. Gerðin gerir ráð fyrir 20–30 ára vaxtartímabili en Ísland fær aðlögun um að reiknað verði með 50 ára vaxtartímabili, í samræmi við þau viðmið sem Ísland hefur fengið samþykkt innan loftslagssamnings SÞ.
    Reglugerðin er tilkomin í kjölfar Parísarsamningsins og er hluti af því regluverki sem innleiðir skuldbindingar Evrópusambandsins samkvæmt samningnum.

7.2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 (Effort Sharing Regulation, ESR; sameiginleg ábyrgð).
    Reglugerðin er hluti af orku- og loftslagspakka ESB til ársins 2030. Reglugerðin kveður á um skyldubundið lágmarksframlag aðildarríkja svo ná megi markmiði Evrópusambandsins í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir tímabilið 2021–2030. Einnig eru í reglugerðinni settar fram reglur um úthlutun og uppgjör losunarheimilda til aðildaríkjanna, ásamt reglum um eftirfylgni og afleiðingar þess að aðildarríki uppfylli ekki skuldbindingar sínar. Í reglugerðinni er skuldbindingartímabilinu skipt í tvö uppgjörstímabil, það er 2021–2025 og 2026–2030. Að loknu hvoru uppgjörstímabili (2027 og 2032) skulu aðildaríkin gera upp losun sína í samræmi við losunarbókhald sitt.
    Reglugerðin tekur til losunar frá orku (þ.m.t. í samgöngum og sjávarútvegi), iðnaðarferlum og efna-/vörunotkun, landbúnaði og úrgangi en ekki til losunar sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) eða til losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt.
    Í I. viðauka reglugerðarinnar er tilgreint hversu mörg prósent hvert aðildarríki skuli að lágmarki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir gildissvið hennar á tímabilinu 2021–2030, miðað við losun árið 2005. Hvað Ísland varðar yrði sú tala 29%.
    Aðildarríki skulu tryggja að árleg losun gróðurhúsalofttegunda á árunum 2021–2029 fari ekki yfir skilgreind mörk sem eru línuleg frá 2020, byggð á meðaltalslosun á árunum 2016–2018, og lýkur árið 2030 á markmiði hvers aðildarríkis. Losunarheimildir verða reiknaðar út fyrir tímabilið og munu byggja á ítarlegri úttekt á losunarbókhaldi ríkja.
    Kveðið er á um ýmsa möguleika til sveigjanleika í viðleitni ríkja til að standast skuldbindingar sínar. Ríki geta fengið lánað allt að 10% af úthlutuðum losunarheimildum komandi árs á tímabilinu 2021–2025 og allt að 5% á árunum 2026–2029. Í þeim tilvikum sem losun ríkis fyrir tiltekið ár er minni en sem nemur úthlutuðum losunarheimildum er því heimilt að nýta umframheimildirnar til að standast skuldbindingar sínar síðar, fram til ársins 2030.
    Þá mega ríki millifæra allt að 5% af árlegum úthlutuðum losunarheimildum sínum á árunum 2021–2025 til annarra aðildarríkja sem geta nýtt heimildirnar og allt að 10% fyrir árin 2026–2030. Ríki sem ekki eru á réttri leið miðað við skuldbindingar geta nýtt þessa heimild til að semja um að fá millifært frá ríkjum sem standa betur en skuldbindingar þeirra krefjast.
    Ríki fá heimild til að færa losunarheimildir úr ETS-kerfinu til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglugerðinni og einnig að nýta heimildir vegna skógræktar og landnotkunar. Misjafnt er hversu há sú heimild er fyrir einstök ríki. Hvað Ísland varðar nemur fyrrnefnda heimildin 4% losunar innan gildissviðs reglugerðarinnar en varðandi skógrækt og landnotkun um 0,5% losunar.
    Komi í ljós í kjölfar árlegs mats á framvindu ríkis varðandi losun að hún sé ófullnægjandi skal ríkið skila aðgerðaáætlun innan þriggja mánaða. Í slíkri áætlun skal gerð grein fyrir aðgerðum sem ríkið ætlar að framkvæma til að uppfylla skuldbindingar sínar.
    Árin 2027 og 2032 mun verða metið hvort ríki hafi staðist skuldbindingar sínar hvað varðar árlega losun innan hvers fimm ára tímabils. Komi í ljós að svo sé ekki gildir eftirfarandi: Umfram losun viðkomandi árs í CO2-ígildum verður margfölduð með stuðlinum 1,08 og bætist við losun næsta árs og ríkinu verður óheimilt að millifæra árlegar úthlutaðar losunarheimildir til annarra ríkja þar til það uppfyllir skuldbindingar sínar.
    Nauðsynlegt er að taka reglugerðina upp í EES-samninginn með aðlögun í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Um er að ræða aðlögun um hvaða kröfur verða gerðar til Íslands og Noregs varðandi samdrátt í losun til 2030 og hve mikinn sveigjanleika ríkin hafa til þess að færa heimildir á milli kerfa.
    Reglugerðin er tilkomin í kjölfar Parísarsamningsins og er hluti af því regluverki sem innleiðir skuldbindingar Evrópusambandsins samkvæmt samningnum.

7.3. Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 frá 11. desember 2018 um stjórnun orkusambandsins og aðgerða í loftslagsmálum, um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 663/2009 og (EB) nr. 715/2009, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB, 98/70/EB, 2009/31/EB, 2009/73/EB, 2010/31/ESB, 2012/27/ESB og 2013/30/ESB, tilskipunum ráðsins 2009/119/EB og (ESB) 2015/652 og um niðurfellingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 (Governance of the Energy Union and Climate Action).
    Reglugerðin fellur formlega undir verksvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en sá hluti reglugerðarinnar sem varðar loftslagsmál heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
    Reglugerðin er hluti af orku- og loftslagspakka ESB til ársins 2030. Reglugerðin kveður á um skuldbindingar varðandi samræmda upplýsingagjöf á sviði orku- og loftslagsmála, þ.m.t. reglur varðandi losunarbókhald og skýrsluskil. Með samningi Íslands og ESB um sameiginlegar efndir á seinna tímabili Kýótó-bókunarinnar 2012–2020 innleiddi Ísland reglugerð (ESB) nr. 525/2013 með reglugerð nr. 520/2017 um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda.
    Með útgáfu reglugerðar (ESB) 2018/1999 um stjórnun orkusambands og loftslagsaðgerðir var reglugerð (ESB) nr. 525/2013 felld úr gildi en efni hennar er tekið upp í reglugerð (ESB) 2018/1999 um stjórnun orkusambands og loftslagsaðgerðir. Það er því mikilvægt að sá hluti reglugerðar um stjórnun orkusambands og loftslagsaðgerðir sem fjallar um bókhald og skýrsluskil um losun gróðurhúsalofttegunda verði tekinn upp í EES-samninginn.
    Nauðsynlegt er að taka gerðina upp með aðlögun vegna þess að annars vegar er þörf á að undanskilja öll ákvæði er varða orkumál og hins vegar varðandi fyrirkomulag á skýrslugjöf þar sem gert er ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi stórt hlutverk varðandi eftirfylgni á markmiðum Íslands og Noregs varðandi framfylgd, í stað stofnana ESB, í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Hvað varðar reglugerð um bókhald og skýrslugjöf þá nær hún frá 2021 til markmiða í orkumálum auk loftslagsmála. Samkvæmt fyrirliggjandi samkomulagi munu Ísland og Noregur aðeins innleiða þá þætti gerðarinnar sem sameiginleg framkvæmd Parísarsamningsins krefst en samkomulagið nær ekki til orkuþáttarins.

7.4. Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB.
    Ísland gerði samkomulag við Evrópusambandið á seinna skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar. Í samkomulaginu fólst að hluti reglugerðar (ESB) nr. 525/2013 yrði innleiddur í íslensk lög. Reglugerðin var innleidd með reglugerð nr. 520/2017 um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
    Lagastoð reglugerðarinnar er að finna í 3. mgr. 6. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012.
    Áform um samkomulag við Evrópusambandið á seinna tímabili Kýótó-bókunarinnar var á sínum tíma kynnt fyrir utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

7.5. Hluti ákvæða framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014 frá 30. júní 2014 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.
    Reglugerðin kveður á um skuldbindingar um skýrslugjöf ríkja vegna losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 525/2013. Reglugerðin kveður á um skilafresti, sniðmát, skipulag, yfirferð, aðferðafræði og skýrslugjöf um losunarbókhald, áætlaða losun og bindingu, upplýsingar um stefnur og aðgerðir ásamt spá um losun og bindingu.

8. Aðlögun í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Gerðirnar kveða á um eftirlit og framfylgd af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómstóls Evrópusambandsins. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er kveðið á um aðlögun gerðanna að tveggja stoða kerfi EES-samningsins með þeim hætti að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn sinni þeim hlutverkum gagnvart Íslandi og Noregi, í stað stofnana ESB, varðandi þátttöku EFTA-ríkjanna, sjá nánar b-lið 1. gr. í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

9. Tímabilið sem um ræðir og gildistaka ákvörðunar.
    Samkomulag Íslands við Noreg og Evrópusambandið um sameiginlegt losunarmarkmið til ársins 2030 felur í sér að Ísland og Noregur munu hvort um sig uppfylla markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir tímabilið frá 1. janúar 2021–31. desember 2030 í samræmi við gerðirnar sem taldar voru upp í 7. kafla hér að framan.
    Samkvæmt samkomulaginu skulu Ísland og Noregur, í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins, leggja landsbundnar áætlanir um bókhald fyrir skógrækt, þ.m.t. viðmiðunargildi fyrir skóga, fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, eigi síðar en níu mánuðum eftir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 tekur gildi. ESA skal leggja mat á landsbundnu áætlanirnar, þ.m.t. hvort tillögð viðmiðunargildi fyrir skóga hafi verið ákvörðuð í samræmi við viðmiðanir og kröfur sem settar eru fram í reglugerð (ESB) 2018/841. Matið skal byggt á sérfræðiendurskoðun og tæknimati nefndar um skógrækt sem skal skipuð sérfræðingum frá Íslandi, Noregi og aðildaríkjum ESB, ásamt samráði við hagsmunaaðila og almenning.
    Viðmiðunargildin fyrir skóga er grunnur að útreikningum varðandi losun og bindingu vegna skógræktar gagnvart loftslagsskuldbindingum og þarf að liggja fyrir áður en skuldbindingatímabilið hefst 1. janúar 2021. Samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/841 skal framkvæmdastjórn ESB setja reglugerð með viðmiðunargildum fyrir aðildaríki ESB fyrir tímabilið 2021–2025 eigi síðar en 31. október 2020. Í kjölfarið mun ESA setja viðmiðunargildi fyrir Ísland og Noreg. Þeirri vinnu þarf að vera lokið áður en skuldbindingatímabil samkvæmt Parísarsamningnum hefst 1. janúar 2021.
    Ísland tók umrædda ákvörðun með stjórnskipulegum fyrirvara og því mun ákvörðunin ekki öðlast gildi fyrr en Ísland hefur aflétt hinum stjórnskipulega fyrirvara.
    Vegna þess sem fram kemur að framan varðandi undirbúning þykir brýnt að ákvörðunin geti öðlast gildi sem fyrst svo nauðsynlegur undirbúningur geti átt sér stað áður en til framkvæmdarinnar kemur.

10. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Nauðsynlegt er að breyta lögum svo hægt verði að innleiða reglugerð (ESB) 2018/841 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030, og reglugerð (ESB) 2018/842 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum (sameiginlega ábyrgð).
    Áætlað er að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um loftslagsmál á Alþingi í desember 2019. Í frumvarpinu verða sett ákvæði þar sem kveðið verður á um skuldbindingar til ársins 2030 og sett reglugerðarheimild fyrir innleiðingu gerðanna.
    Ljóst er að byggja þarf betur upp loftslagsbókhald Íslands til að mæta kröfum í gerðunum. Þar mun mæða mest á stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Umhverfisstofnun, Landgræðslu ríkisins og Skógræktinni, en fjölmargar stofnanir og aðrir aðilar þurfa að leggja til upplýsingar í bókhaldið. Sérstaklega þarf að bæta bókhald hvað varðar losun og kolefnisbindingu vegna landnýtingar. Bókhald þar verður mun umfangsmeira en áður og tekur yfir mestalla losun og kolefnisbindingu á landi en ekki fyrst og fremst ávinning af aðgerðum í skógrækt og landgræðslu sem lögð var áhersla á á gildistíma Kýótó-bókunarinnar. Með umbótum verður bókhaldið trúverðugra en áður og betur samanburðarhæft við önnur ríki. Ísland hefur lengi lagt áherslu á aðgerðir á sviði landnýtingar og því munu umbætur í loftslagsbókhaldinu þar hjálpa stjórnvöldum við stefnumótun og forgangsröðun aðgerða.
    Aukin krafa er um skýrslugerð og losunarspár sem felur í sér aukna vinnu fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og stofnanir þess. Bættar spár munu hjálpa stjórnvöldum við endurskoðun á aðgerðaáætlun og forgangsröðun aðgerða. Gert hefur verið ráð fyrir útgjöldum í fjármálaáætlun vegna aukinnar ábyrgðar og verkefna Umhverfisstofnunar, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 frá 25. október 2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn, um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.



Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 frá 11. desember 2018 um stjórnun orkusambandsins og aðgerða í loftslagsmálum, um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 663/2009 og (EB) nr. 715/2009, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB, 98/70/EB, 2009/31/EB, 2009/73/EB, 2010/31/ESB, 2012/27/ESB og 2013/30/ESB, tilskipunum ráðsins 2009/119/EB og (ESB) 2015/652 og um niðurfellingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.



Hluti ákvæða framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014 frá 30. júní 2014 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_VI.pdf



Fylgiskjal VII.


Bréf utanríkismálanefndar Alþingis til utanríkisráðherra, dags. 15. maí 2019, um lok umfjöllunar samkvæmt 5. gr. reglna Alþings um þinglega meðferð EES-mála, og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 29. apríl 2019.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0464-f_VII.pdf