Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Nr. 38/150.

Þingskjal 1659  —  634. mál.


Þingsályktun

um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.


    Alþingi ályktar að eftirfarandi siðferðileg gildi skuli höfð að leiðarljósi við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að sátt ríki um samræmda og gagnsæja forgangsröðun:
     1.      Mannhelgi.
     2.      Þörf og samstaða.
     3.      Hagkvæmni og skilvirkni.

1. Mannhelgi.
    Mannhelgi verði höfð að leiðarljósi sem grundvallargildi við forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

2. Þörf og samstaða.
    Almenn sátt ríki um að þeir sem eru í brýnustu þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma skuli ganga fyrir. Þá verði mikilvægt að gæta að rétti þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, af hvaða ástæðu sem er, og geta því ekki sjálfir leitað réttar síns eða varið hann.
    Við mat á þörf skuli horft til þarfa notandans en einnig til þarfa samfélagsins í heild, þ.m.t. heilsueflingar og aukins aðgengis að upplýsingum og öðru sem styður fólk til að huga betur að heilsunni. Þar af leiðandi verði jafnframt lögð áhersla á heilsulæsi og forvarnir.
    Samstaða ríki um heilbrigðisþjónustu fyrir alla, fjármagnaða úr sameiginlegum sjóðum, sem þjóni öllum borgurum samfélagsins.

3. Hagkvæmni og skilvirkni.
    Heilbrigðisþjónusta verði markviss, árangursrík og eins hagkvæm og nokkur kostur er.

4. Siðferðileg gildi í framkvæmd.
    Mannhelgi verði grundvallargildi sem gangi framar öðrum gildum, þá komi þörf og samstaða og loks hagkvæmni og skilvirkni.
    Gildin skuli höfð að leiðarljósi á öllum stigum í heilbrigðiskerfinu og verði þannig leiðarvísir við ákvarðanatöku stjórnvalda, stjórnenda í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólks í daglegri umönnun sjúklinga.
    Þessi siðferðilegu gildi útiloki að önnur gildi verði notuð við forgangsröðun eða skipi þeim skör lægra.
    Í ljósi mannhelgi fái allir þá þjónustu sem búast má við að verði þeim að gagni. Mat á heildarþörfum sjúklings og gagnsemi hugsanlegrar meðferðar liggi ávallt til grundvallar við ákvarðanir, óháð aldri, efnahag, þjóðfélagsstöðu eða notagildi fyrir samfélagið. Þá megi tilviljunin ein ekki ráða forgangsröðun ef framboð á þjónustu er takmarkað.
    Ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu skuli teknar með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Þær ákvarðanir mótist af virðingu við mannhelgi notenda.
    Eftirspurn ein og sér skuli almennt ekki stýra forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu heldur mat á raunverulegri þörf sem metin er eftir alvarleika og umfangi hvers vanda. Slíkt mat fari fram á grundvelli virðingar fyrir mannhelgi og sérstaklega verði hugað að réttindum einstaklinga í viðkvæmri stöðu.

5. Hugsað til framtíðar.
    Til að tryggja að siðferðileg gildi sem hér er kveðið á um liggi til grundvallar við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu og að sátt ríki um samræmda og gagnsæja forgangsröðun skuli tryggt að:
     1.      heilbrigðisstofnanir sjái til þess að heilbrigðisstarfsmenn fái fræðslu og tíma til að tileinka sér siðferðileg gildi,
     2.      skipulögð umræða eigi sér stað í öllum heilbrigðisstofnunum landsins um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu,
     3.      hver heilbrigðisstofnun setji á fót umræðuvettvang í þeim tilgangi að útfæra frekar siðferðileg gildi við forgangsröðun í stofnuninni,
     4.      stjórnvöld taki mið af gildunum við áætlanagerð og stefnumótun,
     5.      ráðherra skipi starfshóp sem undirbúi stofnun þverfaglegrar og ráðgefandi siðanefndar um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu,
     6.      hugað verði sérstaklega að fræðslu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu í öllum greinum heilbrigðisvísinda.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2020.